Ábyrgð nafnleysingjanna

Reiður tölvunotandiÞað hafa verið lífleg viðbrögð við skrifum Jónínu Benediktsdóttur um spjallvefi á vef hennar. Hún hefur ákveðnar skoðanir á spjallvefunum og tjáir þær óhikað. Það er gleðiefni. Sjálfur hef ég notað spjallvefi aðeins, var reyndar mun virkari í þeim bransa hér í denn en lít þar regulega og set stundum smáskrif þar inn. Ég er þó einn þeirra sem skrifa þar undir nafni, fyrst undir kenninafni mínu í áraraðir, stebbifr, og síðar undir fullu nafni. Það hefur verið gaman að fylgjast með skrifunum, en skrifin þar eru eins ólík og fólkið er margt sem skrifar.

Stór hluti blómalegrar risu Netsins í hversdagssamfélaginu er fjöldi bloggsíðna. Sumir skrifa á spjallvefunum; þeir hafa orðið stór þáttur netsamskipta um helstu hitamál samtímans. Með þeim hefur oft skapast málefnaleg og góð umræða, t.d. um pólitík. Enginn vafi er á því að spjallvefir eru almennt skemmtilegt og nokkuð áhugavert tjáningarform þar sem gefinn er kostur á að tjá skoðanir og jafnframt ræða þær við annað fólk sem hefur ekki síður eitthvað til málanna að leggja. Síðustu tvö til þrjú árin hafa spjallvefirnir þó fengið á sig sífellt neikvæðari merkingu.

Margir á þessum vefum skrifa undir nafnleynd og gefa ekki upp hverjir standa að baki. Það getur verið skiljanlegt ef fólk vill ekki þekkjast einhverra hluta vegna en jafnframt tjáð skoðanir sínar á málefnalegan hátt. Oft vill þó nafnleyndin snúast upp í að fólk noti hana til að vega að nafngreindu fólki með skítkasti og ómerkilegheitum og skrifa á ómálefnalegan hátt. Slíkur verknaður er eitthvað sem á ekki að þekkjast á opinberum vettvangi; alveg sama hvort fólk skrifar undir nafnleynd eða kemur hreint fram undir eigin nafni skal standa vörð um málefnaleika.

Leitt er frá því að segja að svo er það ekki alltaf, mýmörg dæmi eru fyrir því að fólk noti nafnleyndina til að vega úr launsátri að fólki og snúa umræðunni upp í hreina þvælu. Sjálfur hef ég haft gaman af að tjá mig á spjallvefum og ekki verið feiminn við að leggja nafn mitt við mínar skoðanir, enda þykir mér eðlilegt að ræða við annað fólk og koma með mitt sjónarhorn á helstu hitamál samtímans. Hef ég fylgst með spjallvefum í sjö til átta ár; sem lesandi og notandi. Þar hef ég kynnst fólki sem bæði vill tjá sig málefnalega undir nafnleynd og þeim sem misnota hana gróflega.

Hef ég verið málefnalegur og reynt eftir fremsta megni að sýna öllum sem þarna skrifa þá lágmarksvirðingu sem ég krefst að aðrir sýni mér. Eitt er að vera ósammála um málin en annað er að geta rætt málin með virðingu fyrir hvor öðrum og á málefnalegum forsendum. Því miður vill oft nokkuð mikið skorta á málefnalegar forsendur þessara spjallvefa og skítkast milli fólks vill oft ganga ansi langt. Þarf ég vart að benda daglegum áhorfendum þessara vefa á slíkt, enda hafa þeir sem eitthvað hafa fylgst með séð mörg dæmi að gengið sé of langt í skítkasti undir nafnleynd.

Ég tel að alltof lengi hafi vafi leikið á því hver taki ábyrgð á skrifum nafnleysingja. Það sjá allir að sumt nafnlaust fólk sem birtir skoðanir á vefunum gerir það til að þekkjast ekki og notar það tækifæri til að vega að öðru fólki á ómerkilegan hátt. Það þarf að komast á hreint endanlega hver ber hina endanlegu ábyrgð á skrifum þeirra sem þannig haga sér. Jafn nauðsynleg og beinskeytt þjóðmálaumræða er á Netinu, er sorglegt að sjá suma notendur þessara vefa sem ráða ekki við ábyrgðina sem fylgir tjáningarforminu.

Annað er að tjá sig undir nafni og taka fulla ábyrgð á skoðunum sínum og hinsvegar það að beina spjótum í allar áttir með níðskrif um annað fólk undir nafnleynd. Það á að vera sjálfsögð krafa að fólk með skoðanir tjái þær undir nafni eða leggi á þær áherslu með þeim hætti. Nafnleyndin vill oft verða skref til að vega að öðrum og sumir ganga of langt.

Það er einfaldlega hámark aumingjaskaparins að níða skóinn af samborgurum sínum með ómálefnalegum hætti undir nafnleynd á þessum vefum og þarf að komast á hreint hvar ábyrgð á slíku liggur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Stebbi.

Þarna er ég þér eitt hundrað prósent sammála.

kv.

gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 6.2.2007 kl. 01:50

2 identicon

Góður.

kv.

Cactus

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 09:18

3 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Dæma sóðaskrif sig ekki sjálf? Verðum við ekki að trúa því að fólk sé fært um að meta sjálft það sem það les og heyrir? Það er, að minnsta kosti, í anda þess sem ég aðhyllist. Að einstaklingnum eigi að vera treystandi.

Ég held að flestir taki því með fyrirvara sem er skrifað undir nafnleynd. Slík skrif missa ákveðna vikt. Á  móti fær höfundur það frelsi að geta tjáð sig óheft - þá er ég ekki að meina með dónaskap og dylgjum - og jafnvel um mál sem hann gæti annars lítið sem ekkert rætt.

Annars lít ég á nafnlaus dónaskrif eins og veggjakrot. Það þarf einhver að hreinsa þetta upp. Þegar stjórnendur vefja, eins og Málefnanna, verða meðvitaðir um innlegg sem innihalda einhvern sora á þeim bæði að vera ljúft og skylt að hreinsa, eða gera athugasemd við skrifin. Aðrir notendur geta einnig gert athugasemdir við skrifin. En það vill gjarnan fara svo að þeir sem verða oft uppvísir af gjálfri, dylgjum og kjánaskap eru dæmdir marklausir af öðrum sem sækja viðkomandi vef.

Annars hef ég reynt að skrifa inná www.malefnin.com en gafst eiginlega upp. Ástæðan er sú að ég hef fengið nóg af því að menn líta á flokkslínur eins og víglínur í heimstyrjöldinni. Allt sem "MINN FLOKKUR" gerir er frábært en allt sem "ÞINN FLOKKUR" gerir er ömurlegt. Eins og að flokksskýrteinið sé yfirlýsing um ævilanga hollustu og hvergi megi kvika frá því sem flokkurinn segir eða gerir (og þá er sama um hvaða flokk er rætt). Fólk virðist illa mega skipta um skoðun - hvað þá flokk. Þetta er svartur blettur á lýðræðinu því þetta kemur í veg fyrir málefnalegar umræður.

Og þetta er líka undirrót flestra skrifa sem innihalda dylgjur, sora, leiðindi, bull, þvaður og vitleysu. Þetta þekkir þú á eigin skinni Stebbi. Nógu oft hefur þú verið dæmdur marklaus af því að þú ert "sjálfstæðismaður" o.s.frv. o.s.frv.

Niðurstaðan mín hér (rosalega er þetta langt og farið í allt aðra átt en ég ætlaðist til) er að ef til vill þyrfti að taka upp kennslu í rökfræði og ræðumennsku í grunnskólum. Það yrði sennilega til þess að lyfta umræðunni almennt á hærra plan. Hvort sem hún fer fram nafnlaust á netinu eða á kaffistofunni.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 6.2.2007 kl. 11:21

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Guðrún María: Gott að við erum sammála um þetta.

Jónas Björgvin: Gott innlegg og athyglisverðar pælingar.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.2.2007 kl. 18:37

5 identicon

Við erum ánægðir að allir séu sammála um mál þessi. 

Cactus biður að heilsa.

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband