D með 45,5% fylgi - VG stærri en Samfylkingin

AlþingiMiklar sviptingar eru á fylgi flokkanna í nýrri skoðanakönnun Blaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 45,5% fylgi og VG er orðin stærri en Samfylkingin. Frjálslyndi flokkurinn mælist heillum horfinn miðað við síðustu kannanir og Framsóknarflokkurinn er enn að mælast með innan við 10% atkvæða. Könnunin sýnir allt annað landslag en könnun Gallups fyrir tæpri viku, en hún er hinsvegar tekin á einum degi.

Af 750 þátttakendum svöruðu 88,8%, en af þeim voru 39% óákveðin. Könnunin er gerð með sama hætti og kannanir Fréttablaðsins, aðferðin er sú sama og hún sýnir stöðuna á einum tímapunkti í stað þess að kannanir Gallups sýni stöðuna á mánaðarlöngu tímabili. Það eru mörg stór tíðindi þarna. Vitanlega stendur þar hæst mikið fylgi Sjálfstæðisflokksins og það að Samfylkingin minnki enn. VG var með sterka stöðu í könnun Gallups og var að ná sterkri stöðu á höfuðborgarsvæðinu. Fylgishækkun VG er staðfest þarna með afgerandi hætti.

Þarna toppar VG hvorki meira né minna Samfylkinguna um tæp fjögur prósentustig og mælist næststærstur flokka. Staða Samfylkingarinnar getur vart annað en talist slæm, en varla hefur birst góð könnun fyrir flokkinn svo mánuðum skiptir. Það hlýtur að fara um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og samstarfsfólk hennar og flokksfélaga hennar í Samfylkingunni við að sjá þessar tölur. Verði staða flokksins á þessu róli eftir kosningar er vandséð hvernig að hún geti leitt flokkinn áfram. Fari staðan svona eins og Gallup og Blaðið sýnir hefur enda Samfylkingin misst yfirburðastöðu sína á vinstrivængnum til vinstri grænna.

Frjálslyndi flokkurinn tekur mikla dýfu og mælist aðeins með 3,1%. Þessi staða vekur mikla athygli, enda stutt síðan að flokkurinn klofnaði eftir átakaþing flokksins þegar að Margrét Sverrisdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri flokksins, gekk úr honum með stuðningsfólki sínu. Staða Framsóknarflokksins batnar lítið og það sama gildir um Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna að flokkarnir eru í frjálsu falli frá kosningunum 2003.

Þetta er merkileg staða og vafalaust verður mikið talað um þessa skoðanakönnun í dag og næstu daga - ekki vantar allavega tíðindin.


Tölur í könnuninni
Sjálfstæðisflokkurinn - 45,5%
VG - 22,9%
Samfylkingin - 19,1%
Framsóknarflokkurinn 9,4%
Frjálslyndi flokkurinn 3,1%



mbl.is Samfylkingin með minna fylgi en VG og ríkisstjórnin heldur velli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sjálfstæðisflokkurinn fær alltaf meira í skoðanakönnunum heldur en í kosningum. 39% svara ekki enda er margt í gerjun í pólitíkinni og fólk er farið að bíða eftir því hvort fram komi miðju/hægri grænn jafnaðarmannaflokkur sem við erum sumir að reyna að koma á sameiginlegan kopp. Ef það hefst er kominn a.m.k. 25% flokkur með breiða skírskotun til allra helstu málefna: Málefna aldraðra, öryrkja, umhverfis, jöfnuðar, hófsemi og almennrar skynsemi. 

Til þess að það geti gerst þurfa stuðningsmenn ofangreindra mála, sem ekki finna sig annarsstaðar, að koma sér saman um að ÖLL þessi mál séu jafn mikilvæg. Einnig að það sé rangt að ætla að stofna flokka um eitthvert eitt mál sem séu æðri en öll hin. Nú er lag að breyta til... með rauverulegum samvinnuvilja vel meinandi fólks.

Haukur Nikulásson, 6.2.2007 kl. 07:44

2 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Þetta er áhyggjuefni. Hins vegar er könnun sem þessi ekki mjög marktæk, aðeins rúmlega 400 manns sem taka afstöðu.

Eggert Hjelm Herbertsson, 6.2.2007 kl. 09:05

3 identicon

Cactus saknar framboðs frjálshyggjufélagsins í þessari könnun.

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 09:19

4 identicon

Sæll minn kæri.  Er ekki kenning þín með Árna Johnsen að hrynja.  

Átti ekki D ið að hrynja í kjölfar þess að sunnlendingar völdu Árna sem sinn mann.  Viltu útskýra fyrir mér norðlendingnum hvernig á þessu stendur.   

Valbjörn (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 12:04

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Haukur: Þetta er mæling á einum tímapunkti. Fyrst og fremst sýnir þetta okkur að væringar til vinstri eru að veikja stjórnarandstöðuna. Það er mikil vandræðaástand þar. VG virðist vera að fiska en Samfylkingin ekki. Þetta er merkileg staða. Ef þetta færi svona væri VG og D með tæp 70% atkvæða. Mikil tíðindi.

Eggert: Þetta er vond staða fyrir Samfylkinguna. Það sem þessi könnun segir umfram allt er það að VG er að fiska en Samfylkingin ekki. Staðan er mjög einföld þó vissulega sé ljóst að margir eru að hugsa sig um. Það er öllum ljóst sem sjá "trendið" í könnunum síðustu vikurnar að formanninum er að fatast flugið og hún hefur ekki þann samhljóm sem stuðningsmenn hennar töluðu um að hún myndi redda. Það eru 96 dagar til kosninga og seint sagt að staðan fyrir hana sé vænleg. Það er allavega enginn vafi á að Samfylkingin er í kreppu. Það er ekki bara að sjást þarna. Það hefur varla birst virkilega góð könnun fyrir Samfylkinguna í langan tíma.

Valbjörn: Ég stend við hvert einasta orð sem ég sagði um Árna Johnsen. Það er flokknum til skammar að hafa þann mann í framboði. Það er algjörlega einfalt mál. Þetta er tifandi tímasprengja að hafa þennan mann í framboði. Ég vonast ekki eftir fylgistapi, ef svo væri myndi ég ekki vera í flokknum. Ég hef unnið fyrir flokkinn í 15 ár og læt ekki þetta mál gera það að verkum að ég hætti þar, en þetta er afleitt mál og ég get ekki stutt pólitíska endurkomu hans. Mér fannst ummæli mín um Árna í viðtalinu á Stöð 2 væg, miðað við margt sem ég hef skrifað hér um málið. En allt sem ég sagði stendur.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.2.2007 kl. 18:33

6 identicon

Samkvæmt þessari skoðanakönnun er Sjálfstæðisflokkurinn með 45 % fylgi, er nokkuð annað hægt en vera bara glaður :)
Framsóknarflokkurinn á eftir að bæta við sig þannig að möguleikinn að ríkisstjórnin haldi velli eru að mínu mati bara nokkuð góðar og yrðu það góð tíðindi fyrir fólkið í landinu.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband