Uppgjör fortíðarinnar

Skref fyrir skref er þjóðkirkjan loksins að viðurkenna alvarleg mistök í máli Ólafs Skúlasonar árið 1996. Þetta gerist þó alltof seint og er auðvitað máttlaust fyrir vikið, því langt er um liðið og mistökin hafa hlaðast upp. En betra er að viðurkenna mistök og gera hið rétta, en neita að horfast í augu við hið ranga.

Að því leyti er þjóðkirkjan loksins að bæta fyrir alvarleg mistök. En það verður aldrei bætt fyrir þau að fullu. Uppgjörið við fortíðina verður aldrei fullkomið - réttlætinu verður aldrei fullnægt í máli Ólafs Skúlasonar. Mér finnst samt mikilvægt að virða það að rannsóknarnefnd var sett á fót og hreinsað til.

Þeirri döpru staðreynd að barnaníðingur var biskup hér á Íslandi verður ekki neitað úr þessu. Það var þjóðkirkjunni til vansa hversu lengi þöggun var viðhöfð - en leynd hefur verið aflétt og rannsóknarskýrslan er yfirlýsing um réttlæti og viðurkenningu á því sem aflaga fór.

Verst af öllu þykir mér, og eflaust fleirum, að hafa trúað Ólafi Skúlasyni þegar hann varðist ásökunum í upphafi. Það er vond tilfinning og margir sem trúðu frekar orðum trúarleiðtogans en kvenna úti í bæ, eins og þær voru oft nefndar.

Fyrst og fremst finnst mér Guðrún Ebba Ólafsdóttir, dóttir biskupsins, eiga sérstakt hrós skilið fyrir að fara alla leið og ljóstra upp um sannleikann, hversu þungbær og ömurlegur sem hann annars var. Uppgjör hennar er hið mikilvægasta í ferlinu.

Verst af öllu er sú ömurlega staðreynd að þessi maður hafi orðið trúarleiðtogi íslensku þjóðarinnar og getað setið jafn lengi á þessum mikla valdastól og getað afneitað sannleikanum alveg blákalt. Meistarataktar hans í að afbaka sannleikann villtu mörgum sýn.

Alveg ótrúlegt er að þessi mál hafi ekki komist í hámæli þegar hann sóttist eftir biskupsembættinu bæði 1981, þegar hann tapaði fyrir Pétri Sigurgeirssyni, og 1989 þegar hann hlaut kjör til embættisins. Í raun er það afleitt að málið færi ekki í hámæli þegar það gat breytt gangi sögunnar.

Þetta er ljótur blettur á sögu þjóðkirkjunnar, því verður ekki neitað. Mér finnst samt ekki rétt að Karl Sigurbjörnsson segi af sér. Hann hefur viðurkennt mistök og tekið á sig rangar ákvarðanir. Rannsóknarskýrslan hreinsar málið út að mestu, þó aldrei verði algjörlega tekið á þessu máli.

Langt er um liðið og uppgjör fortíðarinnar verður aldrei algjört. Mér finnst ekki rétt að hengja Karl biskup fyrir verk Ólafs Skúlasonar. Látnum manni verður ekki refsað, þó hann beri sökina. Í því felst ekki réttlæti. En afbrot hans hafa verið staðfest og allir vita sannleikann.

Það er eina uppgjörið sem getur farið fram úr þessu, þó flestir vilji ganga lengra. En lengra verður ekki komist.

mbl.is Biður Guðrúnu Ebbu afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Kannski hefði verið hægt að skrifa konunni bréf sem ekki var ástæða til að skammast sín fyrir í ofanálag. Ætli höfundar bréfsins séu margir eða .........?

Árni Gunnarsson, 15.6.2011 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband