Anna Nicole Smith látin - litríkri ævi lýkur

Anna Nicole SmithLitríkri ævi bandarísku leikkonunnar og fyrirsætunnar Önnu Nicole Smith lauk mjög snögglega í hótelherbergi í Flórída síðdegis í dag. Reynt var árangurslaust að blása lífi í hana en án árangurs. Hún var formlega úrskurðuð látin á sjúkrahúsi í Hollywood í Flórída. Hún var aðeins 39 ára gömul.

Anna Nicole Smith hefur verið áberandi á blöðum slúðurtímarita og í sjónvarpi með einum eða öðrum hætti í einn og hálfan áratug. Anna, sem var skírð Vicki Lynn Hogan, varð fyrst fræg sem fyrirsæta í Playboy og nektardansmær. Frægar nektarmyndir af henni í Playboy mörkuðu frægð hennar og það er óhætt að fullyrða að aldrei hafi rólegheit og lognmolla einkennt líf hennar.

Hún komst endanlega í frægðarbækurnar og varð heimsfræg er hún giftist olíuauðjöfrinum, J. Howard Marshall, fyrir þrettán árum, árið 1994. Hjónabandið varð fjölmiðlamatur um allan heim, enda var Marshall þá orðin 89 ára en Smith var aðeins 26 ára gömul. Hjónabandið varð skammlíft, enda lést Marshall árið 1995. Allt frá dauða hans til snögglegs dauða Önnu Nicole sjálfrar, nú tólf árum síðar, voru erfðamálin óleyst og hörð átök á milli ekkjunnar og barna olíuauðjöfursins.

Málarekstur milli barna J. Howard Marshall og Önnu Nicole Smith telst hiklaust eitt mest áberandi mála í bandarísku slúðurumræðu fræga fólksins. Anna Nicole gaf ekki eftir og flest stefndi í að hún hefði fullnaðarsigur. Sonur Marshalls lést nýlega og hún vann þýðingarmikinn sigur í hæstarétti Bandaríkjanna fyrir tæpu ári. Dauði Önnu Nicole Smith markar án nokkurs vafa enda þessa litríka máls sem hefur verið fréttamatur vestan hafs í þessi tólf ár á milli dauða Marshalls og Önnu Nicole.

Anna Nicole Smith varð fyrir þungu persónulegu áfalli undir lok síðasta árs er elsta barn hennar, Daniel, lést á Bahamaeyjum, þar sem hann var kominn til að hitta móður sína, en hún eignaðist stúlku þar. Margar litríkar sögur hafa borist síðustu vikur um faðerni stelpunnar og var fyrirsjáanleg deila um það hver ætti stelpuna. Ofan á dauða sonarins hefur því ekki verið nein sæla yfir Önnu Nicole.

Dauði þessarar litríku konu sem setti svip á bandarískt samfélag markar nokkuð sorgleg lok á sviptingasamri ævi. Það er greinilegt á bandarískum slúðurvefsíðum og fréttavefum að dauði hennar kemur mjög að óvörum. Þetta er táknrænn endir á ævi konu sem lifði á forsíðum fjölmiðla og dauði hennar verður áberandi á síðum blaða og sem fyrsta frétt á fréttastöðvunum.

Ævi og örlög Önnu Nicole Smith er að segja má áberandi táknmynd þess að frægðin getur verið bitur og harkalega nístandi. Það er ekki tekið út með sældinni að lifa sínu lífi í skugga slúðurblaða og sviðsljóss fjölmiðla.


mbl.is Anna Nicole Smith látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Atli Fannar Bjarkason

Hollywood, Florida? ... hvað segir Arnold við því?

Atli Fannar Bjarkason, 8.2.2007 kl. 23:10

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Jamm nákvæmlega hehe, fannst þetta mest fyndið við þessa sorglegu frétt að til væri bær með nafninu Hollywood í Flórída. Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.2.2007 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband