Leiksnillingur kveður

Ian Richardson Breski leikarinn Ian Richardson varð bráðkvaddur í morgun, 72 ára að aldri. Richardson var stórkostlegur leikari, mjög öflugur dramatískur leikari með víða og næma túlkun. Hann er og verður eflaust þekktastur fyrir túlkun sína í breskum eðalstykkjum í sjónvarpi, sérstaklega fyrir leik í Shakespeare-verkum, en hann var skemmtilega alvarlegur og allt að því nöturlega kaldhæðinn í túlkun sinni og gat túlkað breitt svið karaktera með flókinn bakgrunn.

Eftirminnilegasta hlutverk hans er án nokkurs vafa karakter hins slóttuga og vægðarlausa Francis Urquhart sem fetaði pólitískan valdastiga í breskum stjórnmálum með köldum huga ljónsins og varð forsætisráðherra Bretlands með klækjabrögðum og vílaði ekki fyrir sér að drepa jafnvel þá sem mest stóðu í vegi framavona hans. Í þessu hlutverki naut sín allra best allir styrkleikar Richardsons sem leikara og hlutverkið er eitt hið eftirminnilegasta í breskri sjónvarpssögu.

Urquhart í túlkun Richardsons gleymist engum sem sáu allar þrjár sjónvarpsþáttaraðirnar um hann; House of Cards, To Play a King og The Final Cut, sem gerðar voru á níunda og tíunda áratugnum. Endalok persónunnar voru kaldhæðnust af öllu sem gerðist og víst er að þeir sem muna svip klækjarefsins á lokastund síðustu þáttaraðarinnar muna vel að eflaust hafi hann þá hugsað hver hafi er á hólminn kom verið snjallari. Á ég allar þessar sjónvarpsmyndir og hef notið þeirra mjög í áranna rás. Fyrst tók ég þær upp á spólum en keypti þær í gegnum amazon.com fyrir nokkrum árum. Skyldueign fyrir alla sanna stjórnmálaáhugamenn.

Eftirminnilegasta kvikmyndahlutverk Ian Richardson er án nokkurs vafa hlutverk Hr. Warrenn í Brazil, hinni stórfenglegu kvikmynd Terry Gilliam, sem gerð var árið 1985. Mynd sem ég mæli hiklaust með við alla sanna kvikmyndaunnendur. Richardson var alveg yndislega svipmikill í þeirri mynd. Einnig mætti nefna Cry Freedom, Mistral´s Daughter, Much Ado About Nothing, A Midsummer Night's Dream og The Hound of the Baskervilles svo að mjög fátt sé nefnt. Þeir sem vilja þó sjá snilli hans í hnotskurn ráðlegg ég öllum að sjá myndirnar um Francis Urquhart, en sjálfur sagði hann að karakterinn hefði hann mótað með Ríkharð III í huga. Þeir eiga svo sannarlega margt sameiginlegt.

En blessuð sé minning meistara Richardson. Nú er svo sannarlega komið gott tilefni til að rifja upp House of Cards, To Play a King og The Final Cut á næstu dögum.

mbl.is Ian Richardson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Tek undir þetta með þér. Sannarlega eftirminnilegur og STERKUR leikari. Missir af honum.

Haukur Nikulásson, 10.2.2007 kl. 00:46

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentið. Já, þetta var svo sannarlega litríkur og fjölhæfur leikari. Sjónarsviptir af honum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.2.2007 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband