Obama í forsetaframboð - spenna hjá demókrötum

Barack Obama Öldungadeildarþingmaðurinn Barack Obama leiftraði af krafti á blaðamannafundi í Springfield fyrir stundu þar sem að hann lýsti formlega yfir framboði sínu til embættis forseta Bandaríkjanna. Obama yrði fyrsti þeldökki forseti Bandaríkjanna næði hann útnefningu flokksins og kjöri í Hvíta húsið í kosningunum 4. nóvember á næsta ári. Obama flutti frábæra ræðu, sem ég horfði á með áhuga á Sky, fyrir utan ríkisþinghúsið í Illinois, þar sem Abraham Lincoln flutti leiftrandi ræður forðum. Þar talaði leiðtogi með mjög skýr markmið.

Aðalkeppinautur hans um útnefningu Demókrataflokksins verður Hillary Rodham Clinton, starfsfélagi hans í öldungadeildinni og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna. Eitt eiga þau sameiginlegt. Bæði eiga þau rætur í Illinois og koma þaðan - þar hófst pólitík þeirra. Þau eru bæði úr ríkinu sem fóstraði Abe Lincoln fyrstu skrefin í áttina að sögulegum pólitískum ferli. Ef marka má stöðuna nú er öruggt að annað þeirra nær útnefningunni. Baráttan verður hiklaust mjög hörð og lífleg átök marka baráttuna. Enn er langt í forkosningar, ellefu mánuðir, svo að búast má við að þau verði að hafa sig öll við til að halda lífi og fjöri í baráttunni.

Framboð þeirra beggja er sögulegt og það mun komast í sögubækurnar nái annað þeirra útnefningunni. Obama er fyrsti blökkumaðurinn með raunhæfa möguleika á útnefningu demókrata og Hillary fyrsta konan. Það yrði svo enn sögulegra muni annað þeirra standa á svölum þinghússins í Washington þann 20. janúar 2009 og sverja embættiseiðinn andspænis John Roberts, forseta Hæstaréttar. Enn er talað um að Al Gore gæti bæst í hópinn, þó hann hafi sjálfur neitað því og margir telji að hann ætti erfiðan slagur við þessi tvö. Það er þó óvarlegt að útiloka Gore og enn er unnið bakvið tjöldin að framboði hans. Færi hann fram yrði það stjörnum prýddur slagur, enda teljast þessi þrjú öll til stjarna innan flokksins.

Barack Obama virðist hafa allt sem þarf. Innkoma hans í þennan útnefningaslag er söguleg. Hann er án vafa fyrsti blökkumaðurinn sem á raunhæfan möguleika á að ná völdum í Bandaríkjunum. Hann er leiftrandi sameinuð útgáfa John F. Kennedy og Martin Luther King að mínu mati. Það leikur enginn vafi á að hann er skærasta stjarna blökkumanna síðan að séra King var og hét. Allt frá sviplegum dauða Kings fyrir fjórum áratugum hefur blökkumönnum í Bandaríkjunum vantað alvöru leiðtoga, sannkallað sameiningartákn. Það virðist að koma til sögunnar með þessum þingmanni frá Illinois sem hefur á örfáum árum tekist að verða pólitísk stjarna, leiftrandi leiðtogaefni og umfram allt von blökkumanna á forsetaefni.

Obama kom, sá og sigraði á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí 2004 með glæsilegri ræðu. Nokkrum mánuðum síðar var hann kjörinn í öldungadeildina. Nú er stefnan sett á æðstu metorð. Fyrir jól fór Obama til New Hampshire, þar sem fyrstu forkosningar vegna forsetakosninganna 2008 fara fram í janúar 2008, og fékk svo gríðarlega sterkar viðtökur að sagt er að farið hafi um Clinton-hjónin. Segja má að hann hafi fengið þar mestu viðbrögð sem nokkur mögulegur forsetaframbjóðandi hafi fengið í New Hampshire á þeim tímapunkti fyrir forsetakjör síðan að John F. Kennedy fór af stað með framboð sitt fyrir um hálfri öld.

Síðustu árin hefur Hillary verið afgerandi líklegust meðal demókrata til að verða forsetaefni á næsta ári, í kosningunum þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sú staða er að breytast og horft er sífellt meir í áttina til Obama. Mörgum demókrötum finnst hann ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði þáttaskil í bandarískum stjórnmálum.

Ólíkt er vissulega með Obama og Kennedy að sá síðarnefndi hafði að baki setu í bæði öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 13 ár er hann varð forseti en Obama á aðeins að baki tveggja ára setu í öldungadeildinni. Hann er því talinn reynsluminni og það er einmitt það sem margir nefna sem helstu veikleika hans. Margir segja það ekki skipta máli, hann hafi ferskleikann sem flokkinn vanti og hafi vantað frá gullaldardögum Bill Clinton er honum tókst að komast í Hvíta húsið á stjörnuljóma, snúnum frösum og gullnum spinntöktum.

Það má efast verulega um að Clinton-hjónin deili þeim skoðunum, enda gæti svo farið að Obama myndi stela frá henni pólitísku tækifæri ferils hennar; aðgöngumiða flokksins að Hvíta húsinu. Fyrir nokkrum misserum hefði fáum órað fyrir að Hillary fengi alvöru samkeppni um útnefningu Demókrataflokksins um forsetaembættið, en menn eru farnir að horfa meira til þess að alvöruhasar verði og þá á milli þeirra tveggja.

Ákvörðun Barack Obama og leiftrandi ræða hans á nöprum vetrardegi í Springfield kveikir líf og funa í forsetaslag demókrata. Framundan er spennandi slagur milli fyrsta blökkumannsins og fyrstu konunnar sem raunhæfa möguleika hafa á að ná Hvíta húsinu. Það stefnir í söguleg átök - hvernig sem fer.

mbl.is Obama lýsir formlega yfir framboði sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög góð grein hjá þer S.F.S eg hefi mikin áhuga á þessum málum eg held að samt að Frú Clinton vinni eða reynsla hennar,en Obama verði varafosrsetaefni hennar  ,en þetta er kanski bara óskhyggja min /Halli Gamli

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 18:39

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér fyrir kommentið og góð orð um greinina. Þetta verða svo sannarlega mjög spennandi kosningar. Þetta verða líflegustu forsetakosningar mjög lengi, enda hvorki sitjandi forseti né varaforseti í kjöri, sem er fyrsta skiptið frá kosningunum 1952 sem það gerist. Verður áhugavert.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.2.2007 kl. 18:46

3 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Það er ekkert að því að vera hægri maður Ninni. Reyndar tel ég bæði Demókrata og Repúblikana enn lengra til hægri en það sem við köllum hægri hér. Held samt að Republikanar séu bara komnir alltof alltof langt til hægri

Guðmundur H. Bragason, 11.2.2007 kl. 00:31

4 Smámynd: Hákon Unnar Seljan Jóhannsson

Það er vonandi að maður fari að sjá eitthvað góðmannlegt í Hvíta húsinu. Ég held að það væri best að fá Al Gore þangað held að Bandaríkin hefðu gott af því að fá smá fræðslu um hvað þeir eru að gera jörðinni okkar með því að neita öllu um Global warming. Annars lýst mér vel á Hillary og Obama held að Obama sé með einhver örugg atkvæði hjá mönnum sem hafa fengið nóg af kynþáttamismunun og fordómum.

Hákon Unnar Seljan Jóhannsson, 11.2.2007 kl. 02:25

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Árni: Með brotthvarfi Bush breytast áherslur. Það er nær öruggt að nýr forseti verður ekki nýr Bush, eða það er mitt mat. Eins og staðan er núna spái ég Hillary hnossinu meðal demókrata en hún er engan veginn örugg með þetta hinsvegar og Obama kemur inn á mikilli siglingu. Nái hann meira flugi en orðið er verður þetta erfiðara fyrir Hillary en menn töldu áður og þá gæti jafnvel Gore komið og flogið milli keppinautanna. Hann bíður greinilega á hliðarlínunni.

Guðmundur: Algjörlega sammála þér, bæði repúblikanar og demókratar eru til hægri við okkur sjálfstæðismenn, það fann ég vel þegar að ég fór út til Washington í aðdraganda kosninganna 2004 og ræddi við ungliða beggja flokkanna og þefaði stemmninguna. Vissi reyndar fyrir það að þeir væru meira til hægri en það var mun meira en mér eiginlega óraði fyrir. Pólitíski skalinn þar er allt annar en hér, hiklaust.

Hákon: Gaman að heyra í þér frændi. Já, það má svo sannarlega búast við breytingum í bandarískri pólitík hvernig sem fer. Verði Giuliani eða McCain frambjóðendur repúblikana stefnir þar í nýja tíma, enda eru þeir báðir úr annarri átt innan flokksins og Bush forseti. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist með Gore. Þó hann hafi lokað á framboð er unnið að því bakvið tjöldin. Hann ætlar sér að bíða og sjá til eitthvað, enda hefur hann farið í framboð og þarf skemmri tíma en hinir. Verði aðstæður réttar fyrir mun hann bætast við að mínu mati.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.2.2007 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband