Að loknum landsfundi Sjálfstæðisflokksins

Að loknum 40. landsfundi Sjálfstæðisflokksins er stóra niðurstaðan að Sjálfstæðisflokkurinn hefur endurheimt frumkvæðið í íslenskri stjórnmálabaráttu; grasrót flokksins var mjög virk á fundinum, ánægja og kraftur einkenndi fundinn að öllu leyti, tekist var á í bróðerni um menn og málefni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur að sönnu endurheimt stöðu sína sem stærsti og öflugasti flokkur landsins, eftir að hafa misst taktinn í kringum hrunið og þurft að endurbyggja sig að miklu leyti.

Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir tókust á um formennsku, af miklum sóma. Auðvitað var tekist á undir yfirborðinu, eins og ávallt er kosningar fóru fram. En átökin voru ekki mikil út fyrir það. Auðvitað voru menn að smala fyrir sína kandidata og farið í alvöru slag. En mér fannst það vera gert í bróðerni og heiðarlega. Niðurstaðan; sigur fyrir sitjandi formann einkennist að því að menn vildu ekki sparka í formann í hálfkláruðu verki og vildu gefa honum annan séns.

Ég tók þá afstöðu að styðja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Ég vildi breytingar, nýja ásýnd og aðra umgjörð. Mér fannst hún rétti valkosturinn fyrir flokkinn nú á þessum tímapunkti. Hún er auðvitað frábær stjórnmálamaður, hafði mikið fram að færa. Öflug og einbeitt, frábær ræðumaður og með þá leiðtogahæfileika sem ég vil sjá í forystu Sjálfstæðisflokksins og íslenskra stjórnmála. Hún hefur leitt borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins með sóma. Mér fannst hún vera kjörin til forystu.

Í því var ekki beint vantraust af minni hálfu á Bjarna Benediktsson. Hann tók við flokknum í rústum; hann var lemstraður, sár og sundraður eftir hrunið og langa valdasetu. Sjálfstæðisflokknum veitti ekki af fríi frá stjórn landsins. Flokkurinn varð að endurbyggja sig til næstu verkefna. Sú vinna hefur gengið sumpart vel. Í öðrum málum hefur forysta flokksins verið sjálfri sér verst og tekið rangar ákvarðanir. Icesave-málið er kjörið dæmi þess. Enn er forystan sár og mædd í umræðu um það.

Þegar á hólminn kom réð afstöðu minni að mér fannst Hanna Birna Kristjánsdóttir sá frambjóðandinn sem gæti betur fært flokkinn farsællega til nýrra verkefna, höfðað til fleiri óákveðinna kjósenda. Hún hafði marga góða kosti sem nýttust flokknum á þessum tímapunkti. En auðvitað var þessi kosning lúxusvandamál. Það er lúxus að geta kosið á milli manna. Flokksmenn höfðu valið og gátu markað framtíðina með atkvæði sínu á landsfundi.

Að lokum vann sú afstaða að vera íhaldssöm, treysta sitjandi formanni sem aldrei hefur verið forsætisráðherra og hefur leitt mjög vanþakklátt og erfitt verkefni. Í sjálfu sér er sú afstaða sumpart skiljanleg. Það er erfitt að sparka í leiðtoga sem hefur aðeins tekið á sig erfið verkefni og ekki fengið að leiða ríkisstjórn. Hann er því aðeins dæmdur af fylgi í stjórnarandstöðu, en ekki hinu megin við borðið í Stjórnarráðinu. Eðlilegt að sumir vilji að hann fái að njóta þess að prófa það hlutskipti.

Að mínu mati var á þessum landsfundi kosið um næsta forsætisráðherra. Metnaður okkar sjálfstæðismanna á að vera þannig að við leiðum íslensk stjórnmál, fáum forsæti í ríkisstjórn, stærsta þingflokkinn þegar þessi lélega og mædda ríkisstjórn sem öll loforð hefur svikið hrökklast frá, og 1. þingmaður hvers kjördæmis er sjálfstæðismaður. Annað er ekki í spilunum. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að sá leiðtogi sem við kusum nú sigli fleyinu í höfn og tryggi þessi markmið.

Það hefur pirrað mig mjög mikið og ég veit að sama gildir um fjölmarga sjálfstæðismenn að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki hafa meira fylgi en raun ber vitni í könnunum. Vissulega er 35-37% fylgi mjög mikið miðað við kosningarnar 2009 þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í rúst en það er harla lítið nú síðla árs 2011 þegar við höfum ónýta ríkisstjórn sem hefur brugðist fólkinu í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn á með réttu að vera 40-45% flokkur núna.

Þessi staða styrkti mig í þeirri skoðun að það þyrfti nýjan formann. Hanna Birna er af því kalíber að mér fannst að hún ætti að fá tækifærið. Meirihlutinn var ekki þess sinnis. Bjarni og Ólöf fengu endurnýjað umboð. Þeim óska ég til hamingju. Þau eru bæði glæsilegir stjórnmálamenn og hafa stuðning fjölmargra. Nú verða þau að vinna einbeitt að því að tryggja öflugt fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn verði í fararbroddi í stjórnmálum eftir næstu kosningar.

Það er stóra markmiðið. Við sem styðjum Sjálfstæðisflokkinn, bæði sem mættum á landsfundinn og hinir sem voru heima og horfðu á fundinn í gegnum netið, auk þess fjölmargir kjósendur sem hafa misst von á þeim sem þeir greiddu atkvæði árið 2009 ætlast til þess að forysta Sjálfstæðisflokksins sé öflug og leiði flokkinn til valda. Nú þarf forystan að tryggja að flokkurinn fái meiri stuðning og höfði betur til þeirra sem vita ekki hverjum skal treysta.

Ég vona að forystan kjörin á þessum landsfundi takist það verkefni. 

mbl.is Óánægður með niðurstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög sammála þér Stefán. Ég er mjög sáttur að Bjarni var endurkjörinn og leyfa honum að sanna sig sem forsætisráðherra. Hefði reyndar ekkert grátið yfir sigri Hönnu Birnu. Það sem hefur háð Bjarna er þessi slæma afstaða hans og annara þingmanna í Icesave málinu og helst hefði ég viljað fá afsökunarorð frá honum en að reyna að verja sig, en það er auðvitað mannlegt. Einnig þetta með fylgið sem hann og margir fleiri hafa verið að gorta sig af, er bara ekki raunhæft. Þetta er einfaldlega það fylgi sem flokkurinn hafði og það að vera kominn aftur á þann stað er fyrst og frems ömurlegustu stjórn allra tíma að þakka. Ég vil fullyrða að ef sá yfirburðastjórnmálamaður sem Davíð var, eða einhver á hans kaliberi hefði verið eða væri við stjórnvölinn, værum við í a.m.k 50-60% fylgi. En ég óska Bjarna og forystunni alls velfarnaðar og vonandi ná þau að auka fylgið enn betur og leiða þessa þjóð til framfara og heilla.

Aðalbjörn Þ Kjartansson (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 00:09

2 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

ÞAð er nú svo að Sjálfstæðisflokkurinn klúðraði tækifærinu að fá nokkur auka atkvæði með því að kjósa sitjandi formann til áframhaldandi formensku.

Ef Hanna Birna hefði verið kjörin þá hefði ég og nokkrir fleirri verið á því að kjósa flokkinn.

Það er líka léleg afsökun að tala um hálfkláruð verk, ef ekki er séð fyrir endann á verkinu að loknu kjörtímabili þá er kominn tími á annann í brúnna. En það er allavgega mitt mat.

Svo get ég að vissu leiti tekið undir orð Aðalbjarnar Þ Kjartanssonar er hann tæpir á hvar flokkurinn væri staddur ef yfirburðastjórnmálamaður væri við stjórnvölinn. Ég er á því að Hanna Birna sé af þessu kalíberi og geti komið flokknum vel að hafa hana í formensku.

En landsþingið er búið og klúðrið er Bjarni áfram í formensku...

með kveðju

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 23.11.2011 kl. 17:54

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Hvaða rök færir þú fram Ólafur Björn um afrek Hönnu Birnu? hefur hún staðið sig eitthvað betur í klúðrum en Bjarni? Ég sé ekki snilldina í því að hafa dregið að hækka taxtann í OR. Ég sé ekki snilldina í að taka að sér samræðuistjórn með Gnarrinum og hrökklast svo frá því. Hver var hennar þáttur í svikunum sem birtust í skeytinu: " Til í allt án Villa" Ég vona að hún sé saklaus af því.

Aðalbjörn

Það er erfitt að keppa við Davíð fyrir hvern sem er. Það er fyrst hægt að dæma aðra eftir langa reynslu af þeim. Það kemur enginn og segir Hæ, ég er jafnoki Davíðs. Þú getur spurt eftir 10 ár í forystunni: Stóð ég mig illa?

Halldór Jónsson, 23.11.2011 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband