Gömul dagblöð öðlast nýtt líf á netinu

Sigrún Klara og Sigrún BjörkSigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, og Sigrún Klara Hannesdóttir, landsbókavörður, undirrituðu í morgun samstarfssamning sem felur í sér fulla stafræna endurgerð á prentuðu efni nokkurra dagblaða og færslu þess yfir á veraldarvefinn. Um er að ræða stafræna endurgerð Dags, Tímans, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins og birtingu þess á Netinu. Verður verkefnið allt unnið hér nyrðra.

Nú þegar hefur verið unnið að því að setja Morgunblaðið allt á stafrænt form og hægt er að lesa það með auðveldum hætti allt aftur til stofnárs, árið 1913. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu vegna þessa verkefnis er auk Morgunblaðsins búið að mynda Lögberg-Heimskringlu svo og öll íslensk tímarit og dagblöð sem eru eldri en frá árinu 1920 - mun síðufjöldi stafrænna gagna sem er nú að fullu aðgengilegur á netinu kominn nokkuð á aðra milljón.

Það er mikilvægt að standa vörð um gömul dagblöð, tímarit og rit sem hafa verið áberandi í samfélaginu. Sum þeirra eru ekki lengur gefin út og hafa því sagt sitt síðasta. Það er mikilvægt verkefni að gera þetta aðgengilegt með auðveldum hætti og að hægt sé að kynna sér gömul blöð á netinu og lesa gamlar fréttir og gömul viðtöl. Þetta er arfur sem færa þarf framtíðarkynslóðum og það verður aðeins gert með öflugu átaki til fullrar varðveislu þeirra.

Það er sérstakt gleðiefni að standa eigi vörð um öll blöð dagblaðsins Dags, sem gefinn var út hér á Akureyri í tæp áttatíu ár. Það blað skipar stóran sess í norðlenskri sögu. Að því blaði er að mínu mati mikil eftirsjá og mér hefur fundist sess þess ekki hafa verið fyllt hér, þó vissulega komi Vikudagur út og hafi gert í tæpan áratug. Það hvernig fór fyrir Degi var leiðindasaga, ég er einn þeirra sem enn sakna þess að lesa það að morgni. Veit ég að fleiri eru sama sinnis.

Nú hefur verið hafið sérstakt átak að standa vörð um þessi gömlu blöð og færa þau landsmönnum með auðveldum hætti. Undirritun þessa samnings er því sérstakt gleðiefni. Sérstaklega hljótum við hér fyrir norðan að gleðjast yfir því að öll eintök Dags verði sett á netið og sú merka saga sem það blað skipar í huga okkar hér verði aðgengileg með einföldum tölvusmelli.

Stefnt er að því að efnið verði allt aðgengilegt í gegnum slóðina tímarit.is.


mbl.is Dagur, Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn á netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán Friðrik

Sem starfsmaður ritstjórnar Dags síðustu 9 ár þess ágæta blaðs og annar ritstjóra þegar blaðið var illu heilli selt í hendur DV mönnum tek ég undir með þér að með þessu er mikill sögulegur gagnabrunnur gerður aðgengilegur almenningi. Tek sömuleiðis undir með þér að það skarð sem myndaðist með brotthvarfi Dags hefur aldrei verið fyllt hér norðan heiða. Hefði verið fróðlegt að sjá stöðu þess í dag ef blaðið hefði fengið að dafna og vaxa i þeim takti sem það var komið á undir lokin. Því það skrýtna við þetta mál er að þegar blaðið var loks komið í hagnaðarrekstur eftir áralanga baráttu þá hlupu meirihlutaeigendurnir undan merkjum.

Jóhann Ólafur Halldórsson

Jóhann Ólafur Halldórsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 15:11

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér fyrir innleggið Jóhann Ólafur. Já, það var mjög sorglegt hvernig fór fyrir Degi og ömurleg voru þessi endalok. Þetta blað hefði að mínu mati aðeins haldið áfram að vaxa og dafna, það hefði verið öflugur fjölmiðill norðlenskrar byggðar mun lengur en raun varð á hefðu eigendur þess ekki hlaupið undan merkjum. Þið bræður stóðuð ykkur vel með blaðið síðustu metrana og það var leiðinlegt að blaðið fékk ekki lengri tíma. Ég er þess fullviss að blaðið væri enn við lýði hefði þessi sala ekki átt sér stað, enda átti blaðið góðan lesendahóp sem mat mikils að fá fréttir úr heimabyggð, fjölmiðil sem sinnti sínu svæði vel.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.2.2007 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband