Óvinsældir ISG afhjúpa veikleika Samfylkingarinnar

ISG Stærsti vandi Samfylkingarinnar virðist afhjúpast með áberandi hætti í könnun Fréttablaðsins í dag á því hvaða stjórnmálamönnum þjóðin treystir best. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er þar sá stjórnmálamaður sem þjóðin treystir síst - hún ber þar höfuð og herðar yfir alla aðra. Óvinsældir hennar meðal þjóðarinnar eru þar mjög áberandi. Þetta verður enn meir afgerandi þegar að litið er á það að 28% segjast styðja flokkinn en aðeins 12% segjast treysta Ingibjörgu Sólrúnu til forystu.

Ingibjörg Sólrún sagði í frægri ræðu í Keflavík að vandi flokksins væri að þjóðin treysti ekki þingflokknum þeirra. Það er greinilegt á þessum tölum og þessari stöðu að þjóðin treystir ekki Ingibjörgu Sólrúnu. Það er allavega ljóst að formaður stjórnmálaflokks sem hefur lengi verið í stjórnarandstöðu og mælist ekki í uppsveiflu milli kosninga er að mistakast ætlunarverkið og mistakast að byggja sig upp sem trúverðugt leiðtogaefni til æðstu metorða; forystu í nafni þjóðarinnar. Hún hefur ekki þann meðbyr sem vænst var eftir. Þessi könnun og aðrar slíkar að undanförnu staðfesta það vel. ISG verður því að horfa í eigin barm en ekki þingflokksins síns.

Ingibjörg Sólrún varð formaður Samfylkingarinnar á fyrirheitum um að gera betur en Össur Skarphéðinsson, maðurinn sem byggði Samfylkinguna upp sem stjórnmálaflokk fyrstu skrefin eftir erfiðar samningaviðræður til vinstri. Hún náði þeim sess fyrst og fremst á fornri frægð sem borgarstjóri í Reykjavík sem leiddi sameinað félagshyggjuframboð til valda þrjár kosningar í röð. Henni virðist ekki vera að takast að vinna sama leikinn á flokksvelli á eigin verðleikum. Hún virðist ekki vera á sömu braut og forðum var. Enda má segja það með sanni að stjórnmálaferill hennar hafi verið ein sorgarsaga eftir að hún missti borgarstjórastólinn.

Það hefur gengið brösugt fyrir hana að standa við fyrirheit sín til flokksmanna um að efla stöðu Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún virðist enda mjög umdeild innan raða flokksins. Í prófkjöri flokksins í Reykjavík í nóvember hlaut hún fyrsta sætið með 70% kosningu. Sigurinn í sætinu var afgerandi en þó nokkuð beiskur fyrir hana. Vakti þetta sérstaka athygli auðvitað vegna þess að ekkert annað framboð var í fyrsta sætið. Um var að ræða beina og breiða braut fyrir formanninn. Þetta var því varla gleðiefni fyrir hana og sýndi vel stöðu mála bakvið tjöldin, enda fékk Össur fjölda atkvæða í fyrsta sætið.

Staða Ingibjargar Sólrúnar telst ekki góð fyrir stjórnmálaleiðtoga í stjórnarandstöðu - leiðtoga flokks sem aldrei hefur verið í ríkisstjórn. Þessi mæling boðar ekkert gott fyrir flokk eða formann. En þessi mæling greinir vandann sem Samfylkingin á við að etja. Það er enda erfitt að selja flokk í kosningum þegar að þjóðin treystir ekki þeim sem leiðir hann, jafnvel ekki einu sinni eigin flokksmenn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Geir H. Haarde lenti í öðru sæti yfir þá stjórnmálamenn sem þjóðin treystir síst.  Hvað segir það okkur?  Er Geir H. Haarde dragbítur á Sjálfstæðisflokknum?

Nei, það eins sem þetta segir okkur er að svör við þessari spurningu fer algjörlega eftir flokkslínum.  Fólk reynir þarna að koma höggi á pólitíska andstæðinga.  Sjallar nefna Ingibjörgu þar sem hún er mesta ógnin við flokkinn í dag.

Persónulega finnst mér Geir traustverðugur maður og skil ekkert í því af hverju þjóðin telur hann þann stjórnmálamann sem er annar ótraustasti stjórnmálamaðurinn á Íslandi í dag.  

Kanntu skýringu á þessari slæmu útreið Geirs Stefán? 

Sigfús Þ. Sigmundsson, 12.2.2007 kl. 18:46

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Geir er sá stjórnmálamaður sem landsmenn treysta best. Hann er mun vinsælli en Ingibjörg Sólrún. Yfir 30% segjast treysta honum best. Hann er með 11% stöðu í könnun yfir þá sem treysta honum síst. Í sömu könnun mælist ISG með vel yfir 25% er spurt er um hverjum landsmenn treysta síst og um 12% varðandi hverjum er treyst. Geir hefur verið ráðherra í áratug og leitt stjórnarflokk, sem hefur verið í ríkisstjórn í sextán ár. Í ljósi þess hlýtur staða hans að teljast góð. Að sama skapi hlýtur þetta að vera gríðarlegt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu sem hefur leitt stjórnarandstöðuflokk í tvö ár og aldrei verið í ríkisstjórn og orðið langt um liðið síðan að hún var borgarstjóri. Það verður allavega seint sagt að staða hennar sé góð.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.2.2007 kl. 20:36

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Finnst þér það til marks um sterka stöðu stjórnarandstöðuleiðtoga, Arndís, að viðkomandi mælist með þetta vonda mælingu um hvaða stjórnmálamanni er minnst treyst? ISG er langsíst treyst skv. þessari könnun. Það er orðið mjög langt allavega liðið síðan að stjórnarandstöðuleiðtogi hefur verið að mælast efst er spurt er um óvinsældir stjórnmálamanna eða hverjum er minnst treyst. Það er algilt að ráðherrar í eldlínu eða með erfiða málaflokka lendi á þessum stað, en síður með forystumenn stjórnarandstöðu og eða þá sem aldrei hafa verið ráðherrar.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.2.2007 kl. 20:42

4 identicon

Ég persónulega tek svona skoðanakannanir með fyrirvara, hversu áreiðanlegt þykir það að sami stjórnmálamaðurinn þykir mjög vinsæll og mjög óvinsæll í sömu könnun.

Hinn eini sanni mælikvarði á leiðtoga stjórnmálaflokkana er fylgi flokksmanna.  Þar hefur Geir Haarde ótvírætt traust sinna manna ólíkt Ingibjörgu.  Svo virðist vera að hin blóðugu formannsskipti Samfylkingarinnar muni draga dilk á eftir sér um ókomna framtíð, allavega á meðan Össur og Ingibjörg eru enn í forsvari flokksins. 

Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 21:56

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Fínar pælingar Svavar. Alveg sammála þeim. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.2.2007 kl. 23:20

6 Smámynd: Egill Rúnar Sigurðsson

Mig langar að benda þér á það Stefán, sem þú mannst eflaust að nær allan tímann sem Davíð var formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætiráðherra var hann lanóvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, þó að hann hafi einnig oftast verið sá vinsælasti líka.  Þetta heitir að vera umdeildur.

Egill Rúnar Sigurðsson, 13.2.2007 kl. 03:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband