Munu vinstri grænir halda uppsveiflunni til vors?

Steingrímur J. Sigfússon Þegar að innan við 90 dagar eru til alþingiskosninga birtast skoðanakannanir sem benda í ólíkar áttir. Mikil gerjun er í stjórnmálunum. Um eitt eru þær þó sammála; VG er að stórauka fylgi sitt og mælist með meira en helmingi stærri þingflokk en nú í öllum könnunum. Ein könnun mældi meira að segja VG með 15 þingsæti, en flokkurinn fékk fimm í síðustu þingkosningum, en þá missti flokkurinn eitt sæti frá kosningunum 1999. Þetta er merkileg staða. En það er von að spurt sé; mun VG halda uppsveiflunni til vors?

Það er enginn vafi á því í mínum huga að nái VG 13 þingsætum eða meiru er ríkisstjórnin sem nú situr við völd örugglega fallin. Mjög einfalt mál. Þá eru afgerandi líkur á að VG sé komið í oddastöðu í stjórnarmyndunarviðræðum. Hann gæti þá tekið sér þá stöðu á pólitíska litrófinu sem Framsóknarflokkurinn hefur haft í áratugi; að velja á milli samstarfsflokka og gera kröfur. Síðast gat Halldór Ásgrímsson gert kröfur um forsæti í ríkisstjórn Íslands út á tólf manna þingflokk. Hann og Framsókn voru í oddastöðu og réðu för enda þoldu Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki hvort annað.

VG er nú að mælast með svo til jafna stöðu til vinstri og Samfylkingin og birst hafa jafnvel kannanir sem sýna VG hafa forystu á vinstrivængnum. Það eru stórtíðindi. Samfylkingin gnæfði yfir VG í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum og hlaut mun stærri þingflokk þá; hlaut fimmtán þingsætum fleiri en VG. Allt frá stofnun hefur Samfylkingin litið á sig sem leiðandi flokk til vinstri. Það hlýtur að vera þeim áhyggjuefni að sjá vinstri græna sífellt naga á hæla sína. Þetta er merkileg staða. Þetta er altént ekki draumastaða þeirra sem studdu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til formennsku í Samfylkingunni gegn svila sínum með þeim orðum að hún væri leiðtogi sem gæti gert Samfylkinguna að mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn.

Í þingkosningunum 2003 hlaut VG tvo þingmenn á höfuðborgarsvæðinu; Ögmund Jónasson og Kolbrúnu Halldórsdóttur, eða einn í hvoru borgarkjördæmanna en mistókst naumlega að ná inn þingmanni í Suðvesturkjördæmi. Í nýjustu mánaðarkönnun Gallups mælist VG með átta þingmenn í þessum þrem kjördæmum höfuðborgarsvæðisins; sex í Reykjavík og tvo í Kraganum. Var VG stærri en Samfylkingin þar í báðum kjördæmum höfuðborgarinnar. Voru meira að segja Paul Nikolov og Auður Lilja Erlingsdóttir, formaður UVG, inni á þingi í þeirri könnun. Það yrðu stórpólitísk tíðindi, ein þau stærstu í vor, fengi VG stuðning af þessu tagi. Toppi VG Samfylkinguna í Reykjavík, þó ekki væri nema annað kjördæmið, yrði það metið sem stórtíðindi.

Nú liggja listar VG í þrem kjördæmum höfuðborgarsvæðisins fyrir. Það virðist vera öflugir listar og greinilegt að VG mun bæta mjög við sig á þessu. Athygli vekur að fólk eins og Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, Einar Laxness, sagnfræðingur, Kristín Halldórsdóttir, fyrrum þingmaður, Benedikt Davíðsson, fyrrum forseti ASÍ, og Hjörleifur Guttormsson, fyrrum ráðherra, eru í heiðurssætum. Ég hélt t.d. að Benedikt og Einar Már fylgdu Samfylkingunni að málum, alltaf sér maður eitthvað nýtt. Spurningin er hversu mikið VG bætir við sig þarna. Það mun hafa stór áhrif á stöðu vinstri grænna að vori.

Það er svo sannarlega útlit fyrir spennandi alþingiskosningar. Ein stærsta spurning kosningabaráttunnar verður hvort að VG muni halda uppsveiflunni til vors. Þeir eru að keyra mun sterkari til þessara kosninga en þeirra fyrir fjórum árum. Hvort þeim tekst að haldast á þessu fylgi er svo annað stöðumat sem fróðlegt verður að fá úr skorið er líður nær vorinu. Það verður athyglisvert að sjá næstu kannanir, t.d. næsta þjóðarpúls Gallups eftir hálfan mánuð.

mbl.is Framboðslistar VG á höfuðborgarsvæðinu samþykktir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Næsta ríkisstjórn:

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherra
Steingrímur J. Sigfússon utanríkisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir samgönguráðherra
Þuríður Backman landbúnaðarráðherra
Össur Skarphéðinsson sjávarútvegsráðherra
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra
Kristján L. Möller fjármálaráðherra
Ögmundur Jónasson menntamálaráðherra
Mörður Árnason iðnaðarráðherra
Atli Gíslason dómsmálaráðherra

Katrín Júlíusdóttir forseti Alþingis

Ágúst Ólafur Ágústsson formaður þingflokks Sf
Katrín Jakobsdóttir formaður þingflokks Vg

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 00:52

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Steingrímur J. mun að mínu mati gera kröfu um forsæti í stjórninni fái VG 13 þingsæti eða meira.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.2.2007 kl. 00:58

3 identicon

Já, Steingrímur ýjaði að því í Kryddsíldinni. En gaman væri að sjá hann sitja NATO-fundi. Sjáum hvað setur.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 01:05

4 Smámynd: Karl Gauti Hjaltason

Sæll Stefán.  Ég hef svona á tilfinningunni að þeir muni dala eitthvað, en með tilliti til hinnar miklu sveiflu sem er í grænt þá held ég það verði minni dýfa en margur ætlar.  Kannski 9-12 þingmenn.  Það er hins vegar miklu erfiðara að spá um hina flokkana.  Mun Samfylkingin t.d. rétta úr kútnum ?  Munu frjálslyndir hverfa eða springa út aftur, e.t.v. í 10% eins og útlit var fyrir hér fyrr í vetur ? Mun framsókn endurheimta sitt fylgi og hvaðan taka þeir það þá ?

Karl Gauti Hjaltason, 15.2.2007 kl. 01:16

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Jamm og Eirík Fjalar sem forseta Alþingis. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.2.2007 kl. 08:22

6 identicon

Góður.

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 08:35

7 identicon

Athyglisverðar pælingar hjá þér Stefán. Ég held aftur á móti að það sé vafasamt að bera saman það fylgi sem mælist með Vg núna við það fylgi sem mældist við þá um mitt síðasta kjörtímabil. Ástæðan er sú að þá mældust Vg mjög stór á meðan umræður um Kárahnjúka fóru sem hæst. Umhverfismálin voru svo hins vegar ekki eitt af stóru kosningamálunum fyrir síðustu kosningar. Núna aftur á móti tel ég nokkuð ljóst að umhverfismál verði eitt af stóru kosningamálunum. Þannig að ég reikna með að Vg haldi þetta út. Það verður samt athyglisvert hvað gerist í kjölfar kosninga í Hafnarfyrði í vor og einnig hvort fram komi hægri grænt framboð.

Jón Steinar Garðarsson Mýrdal (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 09:00

8 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Trúi því að  fylgið við hina sósíalisku vinstri grænu muni ganga mjög til baka
þegar nær  dregur kosningum.  Kjósendur eru nefnilega yfirleitt skynsamt
fólk  og hryllir við tilhugsuninni að sjá þessa upptalningu að ofan um skipan
nýrrar vinstri-stjórnar.  Við munum færast til baka um marga áratugi, og allt
sem heitir hagvöxtur, útrás og almenn velsæld mun nánast hverfa, ef
vinstra-afturhaldið nær völdum. - Samfylkingin á eftir að tapa töluverðu fylgi frá síðustu kosningum, Framsókn mun ná vopnum sínum á ný, og ríkisstjórnin mun halda velli.  - Meirihluti kjósenda mun enga óþarfa áhættu taka
og veita núverandi ríkisstjórn áfram brautargengi í vor.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 15.2.2007 kl. 10:03

9 Smámynd: halkatla

guðmundur jónas segir kjósendum hrylla við upptalningunni og að þeir séu skynsamir, hahahaha, þetta er náttúrulega mjög góður brandari. Kjósendur sem hugsa ekki og kjósa alltaf það sama vegna hlýðni eru náttúrulega ekki skynsamir - sem gerir þetta svo fyndið -  og það eina sem fólki hryllir virkilega við er mannvonskan í núrverandi stjórnarherrum sem minna á hið illa bandalag Saurons.... en það væri ljúft fyrir landið ef Steingrímur J verður næsti forsætisráðherra. Loksins, eftir alla illskuna, svikin og djöfulganginn þá yrði kannski hægt að bæta eitthvað.

halkatla, 15.2.2007 kl. 11:33

10 identicon

Ég vissi ekki að Eiríkur Fjalar og Marteinn Mosdal væru gengnir í Sjálfstæðisflokkinn en þeir myndu sóma sér vel við hliðina á Árna Johnsen sem dómsmálaráðherra.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 14:07

11 identicon

Þetta eru athyglisverðar umræður og tímabæt að virða fyrir sér ráðherralista hugsanlegrar sósíalistastjórnar. Einhverja hryllir væntanlega ekki við og kjósa þá til vinstri. Varðandi hlut umhverfismála fer mjög lítið fyrir umærðum um þau. Það sem VG boðar er andstaða við atvinnuvegi. Gömlu kommarnir eru á móti öllu sem ekki var stundað hér fyrir 100 árum, en hinir grænu virðast vera á móti öllum atvinnuvegum amk. ef þeir gefa eitthvað af sér. Þessi andstöðuáróður er undir formerkjum umhverfisverndar, en er iðulega andhverfa þess, Það eina sem við Íslendingar getumlagt af mörkum til umhverfismála heimsins er virkjun vistvænnar orku, en þar er andstaða VG mest. Varðandi skoðanakannanirnar þá er líklegt að afstaða hinnar talandi stéttar hafi meiri áhrif á skoðanakannanir en kosningar. Næsta víst er að Framsókn kemur betur út en horfir og VG ver, spurningin er hve mikið.

Skúli Víkingsson (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband