Ólafur Ragnar í Silfri Egils í dag

Ólafur Ragnar Grímsson Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, verður í Silfri Egils hjá Agli Helgasyni nú eftir hádegið. Það er ekki á hverjum degi sem þjóðhöfðingi Íslands venur komur sínar í dægurmálaspjallþætti. Það þótti sögulegt þegar að Ólafur Ragnar fór í Kastljós í aðdraganda forsetakosninganna 2004, en það var í fyrsta skipti í sex áratuga sögu forsetaembættisins sem forsetinn sat fyrir gagnrýnum svörum fjölmiðlamanna. Þá var Ólafur Ragnar í raun að svara fyrir sig í Heimastjórnarmálum.

Það er kannski ekki sögulegt að Ólafur Ragnar Grímsson birtist í hversdagslegum rifrildisþáttum við fjölmiðlamenn í ljósi þess að hann var leiðtogi stjórnmálaflokks í átta ár og fjármálaráðherra í hringiðu umdeildra ákvarðana í þrjú ár. Þegar litið er á það að sami maður er forseti Íslands fær það þó á sig sögulegan blæ. Annars er óvarlegt að líta á forsetann Ólaf Ragnar sem einstakt fyrirbæri ef marka má yfirlýsingar forsetaembættisins um að sá maður sem er í Þróunarráði Indlands sé ekki sami maður og er forseti Íslands. Spaugstofan gerði gott grín að þessum orðhengilshætti á Sóleyjargötunni í fyndinni kómík nýlega.

Eins og fyrr segir er Ólafur Ragnar gamall pólitískur bardagamaður og er vanur að lifa opinberu lífi - hann hefur verið í kastljósi fjölmiðla í fjóra áratugi. Hann hefur notað fjölmiðla óspart í gegnum tíðina. Flestir muna eftir frægri framboðskynningu hans til embættis forseta Íslands í mars 1996 í stofunni heima á Seltjarnarnesi þar sem hann stóð við hlið Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur í vandaðri fjölmiðlauppsetningu og ennfremur því er hann beitti 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins í beinni útsendingu fjölmiðla í júní 2004.

Það verður svo sannarlega athyglisvert að sjá um hvað Ólafur Ragnar og Egill Helgason ræða á eftir í Silfrinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Ja hvað finnst þér svo um boðskapinn? Hann er ósammála mjög traustverðugri konu sem er prófessor í stjórnskipunarrétti við HÍ. Hann er ósammála öllu sem ég hef lesið um þingræðið og ritaði þó lokaritgerð um það á lagaprófi. Hann boðar sínar kenningar í krafti þeirrar virðingar sem embættið nýtur. Hvert leiðir það og hvað vill hann.

Jón Sigurgeirsson , 20.2.2007 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband