Mun Jón Sigurðsson ná árangri með Framsókn?

Jón SigurðssonHálft ár er í dag liðið frá því að Jón Sigurðsson var kjörinn eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli Framsóknarflokksins. Þá var staða flokksins vond og hún er litlu skárri nú. Þegar að 80 dagar eru til alþingiskosninga velta margir fyrir sér stöðu Framsóknarflokksins. Þessi forni flokkur valda og áhrifa er í dimmum dal þessar vikurnar og stefnir í sögulegt afhroð. Það virðist að duga eða drepast fyrir Jón Sigurðsson í þeirri stöðu sem uppi er. Hann er ósýnilegur í mælingum á stjórnmálamönnum og mælist ekki inni í Reykjavík norður.

Mörgum fannst valið á Jóni sem formanni mjög djarft. Hann hafði við formannskjör sitt aðeins verið virkur þátttakandi í stjórnmálum í tvo mánuði og var utanþingsráðherra, einn fárra í íslenskri stjórnmálasögu. Það var vitað strax í fyrrasumar að erfitt verkefni væri framundan fyrir Jón. Hálfu ári síðar virkar það enn stærra en áður. Flokkurinn mælist í skelfilegri stöðu, hefur misst þingmenn skv. mælingum i flestum kjördæmum og mikið fylgistap blasir við. Framsóknarflokkurinn hefur í 90 ára sögu sinni aldrei staðið verr að vígi og fyrri krísur flokksins blikna í samanburði við það sem nú blasir við.

Það mætti kalla baráttu næstu vikna sannkallaðan lífróður. Það mun allt standa og falla fyrir Framsókn á því hvernig Jóni gengur. Hann sem leiðtogi í kosningabaráttu verður andlit flokksins. Það boðar vond tíðindi fyrir Framsóknarflokkinn að hvorki sé Jón vinsæll í hugum landsmanna né óvinsæll. Með öðrum orðum; hann mælist ekki og er ekki eftirminnilegur í hugum kjósenda. Af mörgum alvarlegum tíðindum fyrir Framsóknarflokkinn eru þetta þau alvarlegustu. Flokkar verða aldrei stórir eða valdamiklir njóti leiðtogi þeirra ekki stuðnings landsmanna eða trausts. Í þessum efnum virðist Jón eiga enn verulega langt í land.

Það er ljóst að Jón Sigurðsson hefur mjög takmarkaðan tíma úr þessu til að snúa vörn í sókn; fyrir bæði sig og Framsóknarflokkinn. Næstu 80 dagar munu ráða úrslitum fyrir flokk eða formann. Allar kannanir núna sýna eyðimerkurgöngu fyrir flokkinn. Hann fer ekki í ríkisstjórn með 10% fylgi eða þaðan af minna. Í raun er þetta mikil barátta sem blasir við og ljóst að Jón leikur lykilhlutverk í því hver mæling flokksins verður. Hann var álitinn bjargvættur Framsóknarflokksins til að taka við er Halldór hætti. Hann hlaut mikinn stuðning til verka er Halldór hætti og nýtur hans því miður ekki neitt út fyrir flokkinn.

Jón og SivÞað má spyrja sig að því hvort það hafi verið röng ákvörðun fyrir Framsóknarflokkinn að kjósa ekki Siv Friðleifsdóttur til formennsku fyrir hálfu ári. Ímynd flokksins hefði verið allt önnur með konu á fimmtugsaldri á formannsstóli og í ofanálag konu með langan pólitískan feril að baki. Hún hafði verið þingmaður í rúman áratug og ráðherra í fjölda ára. Hún hafði bakgrunn stjórnmálamannsins.

Jón fékk tækifærið. Nú ræðst fljótt hvernig fer fyrir honum og flokknum - hvort hann verði sá sterki leiðtogi sem honum var ætlað að vera. Landsmenn fella þann dóm yfir honum og flokknum þann 12. maí. Nú er komið að örlagastundu fyrir Jón - baráttan framundan verður örlagarík fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og ekki síður Jón sjálfan.

Það er enda vandséð að hann verði áfram formaður flokksins fái flokkurinn skell af þeim skala sem hann mælist með. Það er enda ólíklegt að hann treysti sér til að halda í eyðimerkurgönguna sem leiðtogi flokks í algjörri uppstokkun. Enda mun algjör innri uppstokkun blasa við flokknum fari kosningarnar illa.

Þetta verður lífróður fyrir gamalgróinn flokk og flokksformann með blæ nýliða í stjórnmálum - með þessum lífróðri fylgjast allir stjórnmálaáhugamenn.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"SÍS er dautt og sjálfur er ég hálf slappur."

Steini Briem (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 17:24

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Jón Sigurðsson er hinn besti maður,  með pólitísk viðhorf sem ættu að
höfða til uppruna hinnar þjóðlegu framsóknarstefnu. Spurning hvort tíminn
sé að renna út við að koma boðskapnum á framfæri svo eftir verði tekið.

Vonandi á Framsókn eftir að hressast,  þannig að hið farsæla ríkisstjórnarsamstarf geti haldið áfram að kosningum loknum.

Sundrungin til vinstri og afturhaldsviðhorfin þar hljóta að koma kjósendum
til að hugsa þegar nær dregur kosningum.  Meirihluti kjósenda mun ekki
taka neina áhættu þegar að kosningum kemur, og mun Framsókn án efa njóta góðs af því.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 19.2.2007 kl. 20:40

3 Smámynd: Karl Gauti Hjaltason

  Hitti bónda rétt fyrir formannskjörið, sem sagði að ef Jón yðri kosinn þá mættu þeir bara klára sögu flokksins og loka og læsa á eftir sér.  Ég varð hissa á þessum orðum bóndans því ég hélt að Jón væri svona "framsóknarlegur" formaður, en það er greinilegt að bændurnir vilja líka "Poppa" flokkinn svolítið upp.

Karl Gauti Hjaltason, 20.2.2007 kl. 01:06

4 identicon

Við skulum vona að Jón nái árangri með Framsókn. Framsóknarflokkurinn á talsvert fylgi inni svo ég vona að hann nái að rétta úr kútnum og nái sama fylgi og í síðustu kosningum.
Sá möguleiki að sf&vg nái hér meirihluta er einfaldlega hræðileg tilhugsun.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband