Notaleg leikhúsferð - farið að sjá Svartan kött

Svartur köttur Í kvöld fórum við út að borða og í leikhús. Yndislegur pakki. Farið var að sjá leikritið Svartur köttur eftir Martin McDonagh, loksins segi ég eiginlega, en ferð á verkið hefur staðið til nú í nokkrar vikur. Þetta var mögnuð kvöldstund svo sannarlega, það er alltaf gaman að fara í gamla góða leikhúsið hérna heima. Verkið er svo sannarlega svart eins og kötturinn sem er meginþemað frá upphafi til enda. Þetta er fyndið, djarft og blóðugt verk - allur skalinn eiginlega.

Leikritið fjallar um atburði sem gerast í kjölfar dauða svarta kattarins. Þrátt fyrir að verkið sé mjög skelfilegt og gengið sé nærri leikhúsgestinum er þetta gert með glæsibrag; ekki vantar drápin, byssuskotin, sundurskorna líkamsparta, blóðið og dökkan hryllinginn. Það er allavega enginn kærleikur og gleði á heimilinu sem er sjónarsvið áhorfandans frá upphafi til enda. Þar er grimmdin og mannvonskan ein ansi ráðandi.... bæði með gamansömum og nöturlegum hætti. Það er eitt það kostulegasta við verkið hvernig að húmor og ógeði er blandað saman í ramman kokteil.

Stjarna sýningarinnar er meistari Þráinn Karlsson. Það er að ég tel á engan hallað þegar að fullyrt er að Þráinn Karlsson sé ein mesta skrautfjöðurin í fjölskrúðugum leikhópi í sögu Leikfélags Akureyrar. Það er enda alveg ljóst að Þráinn er bæði einn eftirminnilegasti og besti leikarinn sem hefur verið á leiksviðinu í leikhúsinu okkar. Hann hefur verið lykilmaður hjá Leikfélaginu síðan að elstu menn muna og hefur verið virtur og dáður fyrir verk sín. Akureyringar eru orðnir vanir því að Þráinn sé í Leikhúsinu og hann hefur eignast sess í huga og hjarta menningarsinnaðra bæjarbúa. Þráinn er að mínu mati hjarta og sál Leikfélags Akureyrar.

Þráinn fer algjörlega á kostum í þessu leikriti. Þar leikur hann óheflaðan (svo vægt sé til orða tekið) mann, kominn af léttasta skeiði, sem annaðhvort virkar ráðalaus og utangátta eða er hreinlega í áfengismóki. Það eru fá lífsviðmið í hávegum höfð hjá honum. Þráinn er á nærklæðunum í verkinu allan tímann, er með tattú og krúnurakaður. Merkilegur karakter. Hann hefur á löngum leikferli túlkað allan skalann og sennilega er þetta óheflaðasta týpan sem Þráinn hefur túlkað á leiksviðinu í Samkomuhúsinu. Guðjón Davíð Karlsson og Ívar Örn Sverrisson eiga svo stjörnuleik þar sem túlkað er upp og niður karakterskalann.

Leikhópurinn stendur sig í heildina mjög vel - sennilega er þó svarti kötturinn eftirminnilegastur allra í sjálfu sér. Umgjörðin er öll hin besta; lýsingin er stórfín (eins og venjulega hjá LA), tæknibrellur virkilega flottar og vel gerðar og leikmyndin er mögnuð, þar er öllu vel komið fyrir og inni- og útiatriði fléttuð saman með vönduðum hætti í leikmyndinni. En þetta er semsagt sýning sem markast bæði af gleði og hryllingi - hárfín blanda. Hvet alla til að skella sér á sýninguna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband