VG og SF hnífjöfn - Framsókn réttir úr kútnum

AlþingiFylgi Samfylkingarinnar og VG mælist nærri hnífjafnt í nýjustu könnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna. Framsóknarflokkurinn réttir úr kútnum og Frjálslyndi flokkurinn mælist minnstur. Það er athyglisvert að sjá enn eina mælinguna sem staðfestir VG í mikilli sókn og að eflast til muna. Færu kosningar á þennan veg yrði VG sigurvegari kosninganna með tíu þingmenn fleiri en nú.

Samfylkingin minnkar aftur á milli kannana. Nú er hún aðeins sjónarmun stærri en VG. Í raun eru þó flokkarnir jafnir, enda er þetta ekki marktækur munur. Það staðfestist enn eina könnunina í röð að Samfylkingin hefur ekki lengur yfirburðastöðu á vinstrivængnum. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir flokk og formann, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Öllum er ljóst að staða Samfylkingarinnar er mun veikari í aðdraganda þessara kosninga en síðast. Flokkurinn hefur byrjað langt á undan öðrum auglýsingabaráttu sína og virðist ekki hagnast á henni skv. þessu mjög.

Sjálfstæðisflokkurinn er yfir kjörfylginu vorið 2003, en það munar mjög litlu þar á. Þetta er frekar lág mæling fyrir Sjálfstæðisflokkinn á þessum tímapunkti þykir mér, enda er þessi staða að sýna flokkinn í kjörfylginu 2003 eða rétt minni en það. Miðað við það að ný forysta er komin til leiks í Sjálfstæðisflokknum er þetta athyglisverð mæling. Það er alveg ljóst að nú reynir á Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í kosningabaráttunni. Þetta eru fyrstu kosningarnar hans sem flokksleiðtoga og hann verður andlit flokksins í baráttunni. Það verður sennilega mikið fylgst með frammistöðu hans og fylgismælingum Sjálfstæðisflokksins fram að landsfundi í apríl.

Framsóknarflokkurinn mælist nú aftur með það fylgi sem hann hafði áður en hann tók fylgisdýfuna miklu síðast. Í síðustu könnun Fréttablaðsins mældist Framsókn aðeins með tvo þingmenn og innan við 5% fylgi. Nú er hann kominn í tæp níu prósentustig en hefur þó aðeins fimm þingsæti núna. Könnunin hlýtur að vera súrsæt fyrir Jón Sigurðsson og Framsóknarflokkinn; gleði er vissulega þar yfir því að þeir stækki mjög milli kannana en þó hlýtur að vera sár tilfinning samhliða því að vera enn með helming þingflokksins úti. Það er alveg ljóst að 10% og minna verður sögulegur ósigur fyrir Framsóknarflokkinn í vor.

Frjálslyndi flokkurinn er greinilega mjög að missa fylgi. Hann mælist heillum horfinn og virðist vera að missa flugið nokkuð hratt. Merkilegt er að sjá þessa stöðu, en hún er vissulega skiljanleg í ljósi klofnings flokksins. Margrét Sverrisdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, hefur boðað nýtt þingframboð og stefnir í að það verði kynnt á næstu dögum. Fróðlegt verður að sjá mannskap og kraft þess framboðs, en fyrirsjáanlegt er að tilkoma þessa sjötta afls muni róta upp stöðunni í fylgismælingu. 

Næsta könnun Gallups birtist á fimmtudag. Athyglisverðast verður að sjá þar mælingu framsóknar, frjálslyndra og Samfylkingar er. Það er alveg ljóst að það mun verða þessum flokkum erfitt staðfestist þessi fylgismæling Fréttablaðsins eða sé mjög nærri henni. Auk þess verður fróðlegt að sjá stöðu VG, sem greinilega er að efla sig. Mörg spurningamerki eru í stöðunni og verður því áhugavert að sjá stöðuna sem Gallup hefur verið að mæla allan mánuðinn.


Niðurstöður könnunar Fréttablaðsins

D: 36,8% (hlyti 24 - hefur nú 23)
S: 24% (hlyti 15 - hefur nú 19)
V: 23,5% (hlyti 15 - hefur nú 5)
B: 8,8% (hlyti 5 - hefur nú 11)
F: 6,1% (hlyti 4 - hefur nú 5)


mbl.is Fylgi VG og Samfylkingar mælist álíka mikið í nýrri könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ef þetta færi nu svona,þá er Stjórnin  fallin"""og það væri ekki það vesta að minu mati!!!Framokn á að falla við getum semsagt myndað nyja Viðreisnarstjórn/og það er komin timi til að mer fynnst!!!!Ekki meira Framsóknaríhalt!!!!En þetta breitist ekki mikið við fáum aðeins mynna en Frjálslindir halfda synu en Samfylgingi bætir við sig að minu mati/Framsókn er allltaf að kaupa sig inn með gylliboðum en tekst það ekki nuna!!!!/Allt er samt betar en algjör vinstri stórn,nema sama stjórn sem er /alls ekki!!!!En skoðum málin betur/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 25.2.2007 kl. 10:25

2 identicon

Ég er nokkuð sáttur við þessa niðurstöðu hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarflokkurinn á eftir að koma til baka, hann gerir það alltaf og vonandi það sterkur að þessi ríkisstjórn geti setið áfram.
Það er alveg rétt hjá þér Stefán að sf hefur tapað yfirburðastöðu sinni á vinstri vængnum. 
Eins og staðan er nú mun vg verða sigurvegari stjórnarandstöðuflokkanna í vor.
Ég held við ættum að geyma vg og sf í stjórnarandstöðu a.m.k í 4.ár í viðbót.
Ég tjái mg ekki um FF enda er hann ekki orðanna virði, fyrirgefðu.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 10:44

3 identicon

Fallin með fjóra komma níu
í eitt skelfilega skiptið enn!
Fallin, útskúfuð ríkisstjórn,
er ég ekki eins og aðrir menn?!

 

Ég er að horfa út um gluggann minn
á alla þá sem fengu fimm.
Og ég veit og ég veit þeir gera gys að mér,
því ég er fallin í fimmta sinn!

 Dabbi bandsjóðandi vitlaus,
hann vill að ég verði númer eitt!
Mamma sagði það væri ekki að marka,
ég gæti hvort eð er ekki neitt!

Ég er að horfa út um gluggann minn
á alla þá sem fengu fimm.
 
Og ég les og ég les í sól og sumaryl,
því ég verð að ná í næsta sinn!

Steini Briem (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband