Alan Arkin hlýtur aukaleikaraóskarinn

Alan Arkin Bandaríski leikarinn Alan Arkin hlaut fyrir nokkrum mínútum óskarinn fyrir leik í aukahlutverki fyrir túlkun sína á afanum í Little Miss Sunshine. Arkin hefur tvisvar áður hlotið tilnefningu fyrir leik á sínum hálfrar aldar leikferli; árið 1967 fyrir The Russians Are Coming, The Russians Are Coming og árið 1969 fyrir The Heart is a Lonely Hunter.

Aukaleikaraflokkurinn var ansi jafn þetta árið. Margir höfðu spáð Eddie Murphy sigri fyrir túlkun sína á soul-söngvaranum í Dreamgirls og Jackie Earle Haley fyrir hlutverk Ronnies í Little Children. Í spá minni í kvöld taldi ég að Murphy myndi vinna vegna þess að straumar fyrri hátíða myndu færa honum sigur. Innst inni vildi ég að Arkin tæki þetta og svo fór að lokum. Mjög gott mál - Arkin á skilið óskarinn eftir sinn langa og góða feril.

Ég man fyrst eftir Arkin í Edward Scissorhands þar sem hann túlkaði Alan árið 1990. Frábær mynd. Síðar kynnti ég mér þær myndir sem hann var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir og spannaði helstu myndir hans lið fyrir lið. Túlkun hans á afanum í Little Miss Sunshine er án vafa toppurinn á hans ferli og því viðeigandi að hann fari með óskarinn fyrir túlkun sína í henni.

Það er spenna yfir óskarsverðlaunaafhendingunni. Nú eykst spennan sífellt og fleiri stórir flokkar eru framundan. Mesta spennan er þó yfir því hverjir fagna undir lok hátíðarinnar; hvaða kvikmynd verði verðlaunuð sem sú besta á árinu 2006. Það verður gaman að sjá hulunni svipt af því senn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband