Grænt óskarskvöld - Gore byggir upp ímyndina

Al Gore Það hefði fáum órað fyrir því þegar að Al Gore hvarf úr miðpunkti stjórnmálaumræðu fyrir sex árum eftir að hafa naumlega mistekist að verða forseti Bandaríkjanna í jöfnustu forsetakosningum í sögu landsins að hann yrði síðar meir ein af stjörnunum við afhendingu Óskarsverðlaunanna í Los Angeles. Gore hafði vissulega stuðning fræga fólksins og peningafólksins í borg englanna á sínum tíma og safnaði miklum fjárhæðum í kosningabaráttuna árið 2000 og vann Kaliforníu með nokkrum yfirburðum, en hann var þó aldrei með stjörnuljóma á við leikarana.

Það breyttist allt í nótt. Það var vissulega skondið að sjá Gore sem eina af stjörnunum á rauða dreglinum. Það leikur enginn vafi á því að Al Gore varð fyrir þungu áfalli í forsetakosningunum 2000. Hann vann.... en tapaði samt. Hann er enn að vinna við að byggja sig upp eftir þann þunga skell en virðist hafa tekist það. Hann er orðinn gúrú í umhverfismálum og hefur markað sér sess sem mikilvægur postuli í umræðunni um loftslagsmálin. Á sama tíma og sól Bush forseta hnígur hratt til viðar hefur Gore tekist að halda sviðsljósinu og ljómanum af fyrri frægð og áhrifum. Hann hefur byggt upp áhrif sín á öðrum vettvangi - vettvangi sem honum hefur tekist nokkurn veginn að gera að sínum.

Sigur heimildarmyndarinnar An Inconvenient Truth var ein af stóru tíðindum þessarar Óskarsverðlaunahátíðar. Myndin átti sigurinn skilið. Hún var að mínu mati mjög vönduð og fékk mig allavega til að hugsa um umhverfismál út frá nýjum forsendum. Öll eigum við og verðum að hugsa um umhverfismál. Þau eiga ekki að vera eignuð einhverjum flokki eða negld niður til hægri eða vinstri. Mér finnst það firra að halda að umhverfispólitík snúist um hvar við séum í flokki. Ég er þess fullviss að öll séum við unnendur náttúrunnar og viljum veg hennar sem mestan. Við eigum öll að berjast fyrir umhverfismálum og vera lifandi í þeirri baráttu.

Mér finnst það afskaplega hvimleitt þegar að reynt er að stimpla þessi mál flokkapólitík, enda tel ég okkur öll vera meira og minna sammála um þessi mál. Þetta er málaflokkur sem sameinar okkur öll. Í heildina er ég einstaklingur sem spái í umhverfismálum og vil vísa því pent á bug að við séum einhverjir óvildarmenn náttúrunnar sem styðjum stjórnarflokkana. Mér finnst sumir gefa það í skyn. Það finnst mér ómerkileg pólitík. Það er alveg ljóst að vakning verður að eiga sér stað í þessum málum, vakning hugans. Þetta þarf að ræða öfgalaust og af krafti. Sigur þessarar myndar er í mínum huga gleðiefni, enda vekur þetta athygli á þörfum málstað.

Al Gore náði aldrei að heilla mig í forsetakosningunum 2000. Mér fannst hann grobbinn og fjarlægur. Það er alveg ljóst að með þessari ímynd sem hann hefur nú hefði hann unnið forsetakosningarnar vestan hafs þá. Nú er reyndar talað um pólitíska endurkomu hans og hvort hann muni gefa kost á sér í forkosningum demókrata, sem hefjast eftir ár, við val á forsetaefni flokksins. Al Gore hlaut fleiri atkvæði í forsetakosningunum 2000 á landsvísu en George W. Bush en mistókst að sigra í fleiri fylkjum Bandaríkjanna og tapaði því í kjörmannasamkundunni. Það er ekki fjarlægur möguleiki. Persónulega myndi ég telja hann sterkasta valkost demókrata nú.

Ég tel að Gore sé lífsreyndari og sterkari nú en áður. Hann virðist hafa farið í algjöra endurnýjun, það er öllum mönnum hollt. Mér finnst Gore allavega sterkari karakter nú en fyrir átta árum. Richard M. Nixon og Al Gore eiga það sameiginlegt að hafa tapað naumlega forsetakosningum meðan að þeir gegndu embætti varaforseta. Báðir tóku þeir tapið gríðarlega nærri sér. Merkilega margt er líkt með sálrænu áfalli þeirra eftir tapið. Nixon tapaði fyrir John F. Kennedy með svo naumum hætti að lengi vel var óvíst um úrslitin. Deilt var um úrslitin í Illinois meðal annars. Ólíkt Gore véfengdi Nixon ekki stöðu mála þar og bakkaði frá stöðu mála.

Ósigur Gore var mun tæpari en Nixons fjörutíu árum áður. Það hefur margt verið rætt og ritað um tap Nixons. Hann var brennimerktur af því alla tíð. Gore gekk í gegnum svipaðan sálrænan öldudal. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og varð forseti átta árum eftir tapið sögufræga. Það verður seint sagt að Nixon og Gore eigi pólitískt margt sameiginlegt. Um margt voru þeir sem dagur og nótt. Bitur reynsla þeirra við tap í forsetakosningum er þó kaldhæðnislega lík þegar á er litið. Báðir mörkuðust þeir alla tíð af tapinu. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og eiga söguleg ár á forsetastóli, með mörgum afrekum á vettvangi utanríkismála, sem féllu öll í skugga Watergate.

Al Gore hefur endurnýjað sig. Mér finnst hann sterkari nú en fyrir átta árum. Hann hefur helgað sig málstað, málstað sem ég tel að sé þverpólitískur. Fyrir vikið er hann sterkari leiðtogaímynd. Margir telja hann eitt sterkasta forsetaefni flokksins þrátt fyrir mistækan stjórnmálaferil sem markast af góðum og slæmum dögum í stjórnmálum. Lykiltromp Gore er fyrst og fremst pólitísk reynsla. Hann var varaforseti Bandaríkjanna á tímum Clinton-stjórnarinnar 1993-2001 og hefur reynslu á vettvangi alþjóðastjórnmála og málum í Washington. Barátta hans í umhverfismálum hefur líka markað honum aðra tilveru sem gæti orðið honum drjúg er á hólminn kemur.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að hann snýr aftur á pólitíska sviðið í aðdraganda kosninganna þar sem eftirmaður keppinautar hans í sögulegustu forsetakosningum Bandaríkjanna frá upphafi verður valinn. Hann hefur neitað því æ ofan í æ en það hlýtur að kitla hann. Það er allavega ljóst að Gore hefur meiri stjörnuljóma. Maður sem hefur bakgrunn stjórnmálamannsins sem hefur risið upp úr erfiðum öldudal en hefur samt eftir það stjörnuljóma á kvikmyndahátíðum er fjarri því dauður úr öllum æðum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sögnin að óra fyrir tekur með sér þolfall og því ætti þetta að vera "Það hefði fáa órað fyrir því" hjá þér í fyrstu línu. Kveðja frá grunnskólakennara

Ingunn Vilhjálmsdóttir (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 11:52

2 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Óþægileg Staðreynd, er svo sannarlega fyrir Al Gore því myndin

herfur ekkert að gera með heimildir, myndin er skólabóka dæmi um rangfærslur og rangtúlkanir. Það nægir að benda á eitt atriði sem flestir hafa séð því það er notað til kynningar á myndini.Þar er sýndur skriðjökull sem er að kelfa í sjó fram og fjálgslega lýst að svona muni fara fyrir jöklum jarðar ef hlýnun verður.

Sannleikurinn er að þetta atriði sem sýnt er byggist á að jökullinn sem um ræðir sé stór og hafi þyngd til að ýta skriðjöklum sínumí sjó fram, eða að jörðin kólni og jöklar stækki.

Leifur Þorsteinsson, 26.2.2007 kl. 12:10

3 identicon

Já, Skriðjöklarnir eru bráðnaðir en Al Gore er hinn hressasti. Honum líður nokkuð vel. Stígvél!

Steini Briem (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 13:18

4 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Fáar eru þær ef einhverjar heimildamyndirnar sem eru rangfærslulausar. Al Gore er ekki vísindamaður, en honum er annt um umhverfið. Og umhverfismál eru eitthvað mikilvægasta pólitíska mál dagsins í dag, sem sést vel á því hversu sterkir "græningjar" eru víðsvegar um evrópu.

Mér fannst þessi mynd alls ekki mjög áhrifarík í því að kynna vel staðreyndir um gróðurhúsaáhrifin. Mér fannst hún hinsvegar góð í því að gera Al Gore mannlegan, og benda á að við getum byrjað í dag að taka ákvarðanir sem minnka mengun. Það gerði myndina skemmtilega fyrir mig, þrátt fyrir að hafa orðið fyrir vissum vonbrigðum.

Annars til að commentera aðeins á það sem þú segir Stefán, um að hann hafi nýtt tímann til að verða sérfræðingur í umhverfismállum, þá segist hann í myndinni alltaf hafa haft gríðarlega mikinn áhuga á þeim -- eða síðan hann var í háskóla (og það eru nú 30+ ár síðan það var). Hversu satt það er veit maður ekki... hann er jú stjórnmálamaður ;-)

Steinn E. Sigurðarson, 26.2.2007 kl. 13:44

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Steinn

Takk fyrir kommentið. Þessi mynd er ekki fullkomin, en hún fangar eiginlega móment. Þetta er mál sem þörf var á að fjalla um og hún hefur hitt samhljóm hjá fólki. Það er gott að mínu mati, enda þarf að ræða þessi mál. Gore hefur með þessu komið umræðu af stað. Tek undir það sem þú segir að engin heimildarmynd er algjörlega fullkomin. Menn taka efninu eins og þeir vilja. Sumir trúa, aðrir ekki. Enn aðrir horfa bara og pæla. Fjölbreytilegar hugleiðingar eflaust hjá þeim sem að horfa á.

Al Gore hefur alltaf verið frekar grænn pólitískus þannig séð. Hann hafði fyrir varaforsetaferilinn skrifað eitthvað um málaflokkinn og haft á því skoðanir. Hinsvegar finnst mér hafa skerpst á honum eftir að stjórnmálaferlinum lauk og hann hefur fundið sig svolítið að nýju. Þessi mynd markar honum nýjan grunn, hún hefur fært honum betri ímynd. Mér finnst allavega sá Al Gore sem talar fyrir þessari mynd t.d. ekki vera sú útgáfa af Al Gore sem keppti við Bush fyrir sjö árum. Hann hefur farið í gegnum vissa uppstokkun og er að marka sér aðeins öðruvísi grunn.

Mér fannst þessi mynd kannski ekki beint fullkomin. En hún fékk mig til að hugsa. Það er eflaust stóri sigur myndarinnar. Fólk fer að hugsa um þessi mál á öðrum forsendum og hugleiða málin betur eftir að fara á hana í bíó eða sjá hana síðar heima. Þetta er tilraun Gore til að hefja vakningu hugans og ég held að honum hafi fyrst og fremst tekist það. Það er mjög gott mál, enda má þetta ekki liggja í þagnargildi.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.2.2007 kl. 14:03

6 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Ég er sammála þér Stefán með hversu endurskapaður hann virðist. Kannski er það bara ímyndin sem þessi mynd hefur hjálpað til að breyta, en í kosningabaráttunni við Bush voru bandarískir fjölmiðlar (og þá auðvitað sérstaklega FOX) miskunnarlausir í mistúlkunum orða Gore, og finnst flestum vel gefnum bandaríkjamönnum (Repúblikanar meðtaldir) sem ég þekki það hafa verið mjög vel afgreitt "smear campaign".

Steinn E. Sigurðarson, 26.2.2007 kl. 16:50

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, tek undir það vissulega. Þetta var rosalega harkalegt árið 2000. Bush og hans menn eiginlega gengu frá McCain með svakalegri umfjöllun og Gore fékk ekki ósvipaða meðferð, þó geðslegri vissulega en McCain fékk. En svona er þetta bara. Bandarísk pólitík er leðjuslagur. Forsetaslagurinn 2004 var rosalega dirty og öllum brögðum beitt. Það sem meira er að þetta verður eins á næsta ári. Meira að segja eru Hillary og Obama komin á kaf í skítkast sín á milli. Verður gaman að fylgjast með leðjunni að ári. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.2.2007 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband