Eru frjálslyndir að missa dampinn?

Guðjón Arnar og Magnús ÞórSkv. nýjustu könnun Gallups eru frjálslyndir nú að missa dampinn og virðast ekki styrkjast á innkomu nýliða á borð við Jón Magnússon og Kristinn H. Gunnarsson. Flokkurinn dalar eftir nokkra uppsveiflu vegna innflytjendamálanna og mælist nú ekki með kjördæmakjörinn mann, en fær fjóra jöfnunarmenn og hefur misst þrjá núverandi þingmenn sína fyrir borð. Greinilegt er að klofningur flokksins skaðar hann líka.

Skv. könnuninni eru Guðjón Arnar Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson, Jón Magnússon og Kolbrún Stefánsdóttir nú að mælast inni á þingi fyrir flokkinn. Kristinn H. Gunnarsson, Sigurjón Þórðarson og Valdimar Leó Friðriksson eru allir utan þings á þessum tímapunkti. Frjálslyndir missa tvö þingsæti milli mánaðarlegra kannana Gallups, missir mann í Reykjavík norður (þar sem Magnús Þór Hafsteinsson mun leiða lista) og í Norðvesturkjördæmi (þar sem Kristinn H. er kominn inn sem annar maður á lista). 

Nú hefur verið ákveðið að Jón Magnússon, sem varð umdeildur í aðdraganda klofnings Frjálslynda flokksins, leiði lista í Reykjavík suður og hann er inni á þingi í þessari könnun, eins og fyrr er sagt. Jón leiddi lista fyrir Nýtt afl í Reykjavík suður í kosningunum 2003 og mun vera í fylkingabrjósti nú fyrir frjálslynda í sama kjördæmi. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áherslur flokkurinn leggur upp með verandi með Jón efstan á lista í Reykjavík, væntanlega í keppni við Margréti Sverrisdóttur í forystu hægri græns framboðs í sama kjördæmi. Það stefnir ansi margt í að þar eigi að keyra á innflytjendamálunum. Það eru þau mál sem Jón hefur helst fjallað um undanfarin ár.

Staða frjálslyndra er greinilega eitthvað að veikjast. Það er öllum ljóst að uppsveifluna snemma vetrar tók flokkurinn vegna innflytjendamálanna. Það verður fróðlegt að sjá hvernig flokkurinn talar um þau mál í kosningabaráttunni, verandi með bæði Magnús Þór og Jón efsta í Reykjavíkurkjördæmunum. Fyrir vestan ætla greinilega Kristinn H. og Guðjón Arnar að reyna að ná kjöri saman á þeim málum sem helst hafa einkennt þá. Hér í Norðaustri er svo Sigurjón kominn, greinilega með sjávarútvegsmál ofarlega á baugi. Svo segja fréttir að Grétar Mar leiði listann í Suðrinu. Þetta er allt samkvæmt bókinni.

Eina sem komið hefur virkilega á óvart er að Kolbrún Stefánsdóttir leiði lista í Suðvesturkjördæmi. Þar er greinilega hugsað um konurnar, enda hefði verið hálf undarlegt fyrir flokkinn að hafa aðeins karla efsta. Fróðlegt verður að sjá hvort Valdimar Leó taki annað sætið þar, en það hefur blasað við síðan í nóvember að hann færi þangað og margir töldu að hann myndi leiða listann þar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Kolbrún nái kjöri, en fari svo verður hún fyrsta konan sem nær kjöri á þing fyrir Frjálslynda flokkinn.

En það verður fróðlegt að sjá áherslur frjálslyndra og hversu mikill þungi verði í innflytjendamálunum í Reykjavík með þá tvo menn í fylkingabrjósti sem harðast gengu í innflytjendatalinu innan flokksins snemma vetrar. En frjálslyndir eru greinilega að byrja að dala, klofningur og fleiri þættir valda sígandi gengi.

Það verður því athyglisvert að sjá hvernig þessi flokkur keyrir stefnulega séð til kosninganna í baráttu við m.a. Margréti Sverrisdóttur, dóttur stofnanda Frjálslynda flokksins og framkvæmastjóra flokksins í áratug, sem nú er komin í sérframboð með hópi annars fólks úr ýmsum áttum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér þykir frekar ólíklegt að Frjálsblindir nái einhverjum inn á þing og þeir standa tæpar eftir því sem framboðum fjölgar. En ef einhverjir Frjálsblindir verða kosnir á þing munu Samfó og Vinstri grænir tala fyrst við þá ef þeir ná ekki meirihluta. Hins vegar er ólíklegt að mynduð verði stjórn með mjög tæpan þingmeirihluta, þannig að Hægri grænir myndu þá trúlega slást í hópinn. 

Steini Briem (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband