Karen Jónsdóttir fer úr Frjálslynda flokknum

Karen JónsdóttirKaren Jónsdóttir, eini bæjarfulltrúi Frjálslynda flokksins í meirihlutasamstarfi og formaður bæjarráðs á Akranesi, hefur nú sagt sig úr Frjálslynda flokknum. Varamaður Karenar er Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins og nýr leiðtogi flokksins í Reykjavík norður, en hann býr eins og kunnugt er á Akranesi, en hefur verið alþingismaður Suðurkjördæmis á þessu kjörtímabili. Karen mun verða óháður bæjarfulltrúi það sem eftir lifir kjörtimabils og munu þessar breytingar ekki hafa áhrif á meirihlutann á Akranesi, sem er meirihluti Karenar og fjögurra sjálfstæðismanna.

Mun Karen hafa verið mjög ósátt við ákvörðun forystu Frjálslynda flokksins að bjóða Kristni H. Gunnarsson, kjörnum þingmanni Framsóknarflokki í alþingiskosningunum 2003, annað sætið á lista Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar og mun það vera stærsta ástæða þess að hún fer úr flokknum. Karen var óháð á lista Frjálslyndra á Akranesi á síðasta ári og varaformaðurinn tók annað sætið. Staða hennar er því svipuð stöðu Ólafs F. Magnússonar sem var óháður borgarfulltrúi F-listans í Reykjavík lengi vel áður en hann gekk formlega í flokkinn árið 2005.

Karen fetar því í fótspor Steinunnar Kristínar Pétursdóttur á Akranesi, sem skipaði þriðja sæti á lista flokksins í kjördæminu í kosningunum 2003, og var því varaþingmaður Guðjóns Arnars Kristjánssonar og Sigurjóns Þórðarsonar. Hún sagði skilið við frjálslynda eftir sveitarstjórnarkosningarnar á síðasta ári vegna trúnaðarbrests við flokksforystuna. En frjálslyndir hafa semsagt misst eina bæjarfulltrúa sinn í meirihluta á landsvísu úr flokknum, bæjarfulltrúann í heimabæ Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, vegna ágreinings við uppröðun framboðslistans í Norðvestri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rannveig Þorvaldsdóttir

Jahérna hér! Þú segir aldeilis tíðindi. Ég finn enga frétt um þetta. Má spyrja hvernig þú veist þetta? Ef satt er þá hlýtur þetta að vera mikið áfall fyrir frjálslynda.

Rannveig Þorvaldsdóttir, 5.3.2007 kl. 20:35

2 identicon

Enn kvarnast úr flísinni.

Steini Briem (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 20:37

3 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Ég var búinn að heyra að þetta stæði til. Spurning hvaða áhrif þetta hefur á núverandi meirihluta Frjálslyndra og Sjálfsstæðismanna á Akranesi.

Eggert Hjelm Herbertsson, 5.3.2007 kl. 20:47

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Rannveig: Ég heyrði þetta síðdegis frá manni á Akranesi sem ég þekki. Þessi frétt hefur síðan birst nú á vef Ríkisútvarpsins. Þar er fjallað um þetta í þessari frétt.

Eggert: Já, það verður fróðlegt að sjá. Eftir því sem ég hef heyrt mun þetta ekki breyta meirihlutanum, en breytt staða Karenar gæti haft áhrif þar inn auðvitað með einum eða öðrum hætti.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.3.2007 kl. 21:33

5 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Það verður athyglivert að sjá hvort Frjálslyndi flokkurinn krefjist þess að hún segi af sér svo varamaður hennar geti tekið við. Verður kannski erfitt eftir að hafa tekið við Valdimari Leó og Kristni án málalenginga  hmmmmm

Guðmundur H. Bragason, 5.3.2007 kl. 22:53

6 identicon

Sæll Stefán

Þú ferð vægast sagt mjög frjálslega með staðreyndir í þessu máli. Boðið var fram á Akranesi undir listabókstafnum F í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þetta var listi Frjálslyndra og óháðra. Karen leiddi listann og var óháð, það er að hún var ekki skráður félagi í Frjálslynda flokknum. Ég var svo í öðru sæti. Góður árangur náðist og að kosningum loknum mynduðum við meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Karen gekk svo í Frjálslynda flokkinn í aðdraganda landsþingsins sem haldið var í lok janúar til að styðja mig í varaformannsslagnum enda hefur samstarf okkar Karenar verið mjög gott í bæjarmálunum á Akranesi og hvergi borið skugga á í okkar samskiptum. Hún kýs hins vegar að sitja áfram í bæjarstjórn Akraness sem óháð eftir landsþingið og gengur því aftur úr flokknum. Staðan er því óbreytt. Ég er áfram hennar varamaður í bæjarstjórn og listinn heldur öllum sínum nefndum.

Það er ekkert við því að segja þó Karen kjósi að vera óháð og í sjálfu sér engin dramatík fólgin í því nema fyrir fólk eins og þig sem er með hreinum ósannindum og blekkingum að reyna að spilla afar góðu og árangursríku meirihlutasamstarfi Frjálslyndra og óháðra og Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.

Ég er ekki viss um flokksfélagar þínir á Akranesi kunni þér sérstakar þakkir fyrir þessa undirróðurstarfsemi þína gegn meirihlutasamstarfinu á Skipaskaga.

Hvað varðar Steinunni Kristínu þá er best að segja söguna eins og hún er. Þar var enginn trúnaðarbrestur. Steinunn gerði kröfu um að fá sæti í nefndum á vegum bæjarins eftir sigurinn í sveitarstjórnarkosningunum í vor þó hún hefði hvergi komið nærri kosningabaráttunni þrátt fyrir beiðnir þar um. Þessari kröfu var ekki hægt að verða við því þá hefði orðið að taka nefndasæti frá því góða fólki sem stóð og vann að framboði Frjálslyndra og óháðra af mikilli elju og dugnaði sem endaði í góðum sigri og aðild að meirihlutasamstarfi. Steinunn kaus að taka þessu með þeim hætti að segja sig úr flokknum. Það var alfarið hennar val. Enginn kom illa fram við hana eða beitti hana órétti með neinum hætti.

Með kveðju,

Magnús Þór Hafsteinsson

Magnús Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 23:00

7 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Sínum augum lítur hver silfrið. Ég tel þetta vera tíðindi og vont fyrir Frjálslynda flokkinn. Ég hef það frá mönnum að þetta tengist KHG en sé ekki því tengt að hún vilji eingöngu verða óháð aftur.

Ragnar Bjarnason, 6.3.2007 kl. 15:38

8 identicon

Það sem vekur athygli mína er það að fólk skuli hafa gengið í Frjálslynda flokkinn í janúar, til að kjósa Magnús Þór í varaformannssætið, en gangi svo úr flokknum að því búnu.  Maður gæti þá spurt sig; "Í hverra umboði situr Magnús Þór Hafsteinsson?"

HE (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 15:54

9 Smámynd: Katrín

Æi miklar helgislepjur hafa talað hér.  Er þetta í fysta sinn sem menn heyra um að fólk gengur flokk til að styðja ákveðinn aðila á landsfundum og gengur síðan úr honum að því loknu? Þetta þekkist innan allara flokka!!!   Sagan er náttúrulega ekki krassandi eins og hún birtist í umbuðum sannleikans og þá er um að gera að búa til nýja.  Það mætti eins spyrja sig í umboði hverra situr t.d. formaður framsóknarflokksins eða formaður samfylkingarinnar??

Katrín, 6.3.2007 kl. 17:05

10 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Sammála þér Katrín, það hefur alltaf verið til staðar að fólk gangi í flokka stuttlega til að styðja einhvern. Magnús Þór staðfestir hins vegar í athugasemd á bloggi Margrétar Sv. að Karen hafi sagt sig úr flokknum vegna óánægju með að KHG fengi 2. sætið á framboðslistanum.

Ragnar Bjarnason, 8.3.2007 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband