Þriggja ára áætlun - viðtal við Sigrúnu Björk

Sigrún Björk JakobsdóttirSigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, var í viðtali í morgun á Rás 1, en Morgunvaktin var að þessu sinni send út frá Akureyri. Sigrún Björk hefur nú verið bæjarstjóri hér í tæpa tvo mánuði. Það er öllum ljóst að skipulagsmálin eru aðalmálin hér þessar vikurnar og litaði það spjallið eftir því. Nú síðdegis mun Sigrún Björk mæla fyrir þriggja ára áætlun Akureyrarbæjar við seinni umræðu í bæjarstjórn. Sú áætlun og skipulagsmálin var mest áberandi í spjallinu, sem var mjög fróðlegt.

Nú hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar endanlega tekið af skarið með það að Akureyrarvöllur verður ekki endurbyggður og þess í stað verður frjálsíþróttaaðstaðan reist upp á Þórssvæðinu við Hamar, sem verði til þar fyrir landsmót UMFÍ sem haldið verður hér sumarið 2009. Það er gleðileg ákvörðun, hin eina rétta að mínu mati. Nú taka svo við viðræður við íþróttafélög um hvar aðalleikvangur í knattspyrnu í bænum muni verða eftir þetta. Líklegt er að byggt verði upp hjá báðum félögum, en það mun ráðast.

Næstu verkefni bæjarins fyrir utan uppstokkun í íþróttamálum í kjölfar breyttrar notkunar á landssvæði Akureyrarvallar eru Naustaskóli og íþróttahús við Giljaskóla. Auk þessa rís nú menningarhús við Strandgötu. Stórt mál auk þessa er skipulagsmál í miðbænum í kjölfar verkefnisins Akureyri í öndvegi. Þar hafa verið lagðar fram metnaðarfullar tillögur. Enn er tekist á um hvort síki eigi að vera í miðbænum, en það myndi skipta miðbænum upp og skapa ný og athyglisverð tækifæri. Svo virðist vera sem að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar séu á móti þessari hugmynd og leggist gegn henni innan bæjarkerfisins. En í heildina eru þetta lifandi tillögur, sem þó eru skiptar skoðanir um.

Sigrún Björk hefur takmarkaðan tíma á bæjarstjórastóli. Hún verður bæjarstjóri út umsaminn tíma Sjálfstæðisflokksins við myndun meirihlutans í fyrrasumar, eða þangað til í júní 2009. Þá mun Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, verða bæjarstjóri og Sigrún Björk verður formaður bæjarráðs. Ljóst er að skipulagsmálin verða stóra mál bæjarstjóraferils Sigrúnar Bjarkar og það mál sem mest mun reyna á leiðtogahæfileika hennar. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig að haldið verður á þeim málum af leiðtogum meirihlutans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég varð Íslandsmeistari í 4x100 metra boðhlaupi á Akureyrarvelli. Á ekkert að halda í þessar heimssögulegu minjar?! Tsss...!

Steini Briem (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband