Verða Sigríður Anna og Hjálmar sendiherrar?

Sigríður Anna Þórðardóttir Mikið er talað um það þessa dagana hvort að Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrum umhverfisráðherra, og Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, verði sendiherrar í vor. Bæði gefa þau ekki kost á sér til endurkjörs og skipa heiðurssæti flokka sinna í kjördæmunum sem þau sitja nú fyrir á þingi nú. Á nokkrum bloggsíðum hefur verið spáð og spekúlerað í því hvort að þau fái þessa vegtyllu. Vitnað hefur verið í að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hafi ekki viljað skipa þau til starfans.

Það hefur oft verið svo að sendiherrastöður hafa verið endastaður fyrir marga stjórnmálamenn sem kveðja pólitíkina. Fulltrúar flestra flokka hafa endað með þessum hætti; nægir þar að nefna Svavar Gestsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Tómas Inga Olrich og Guðmund Árna Stefánsson á síðustu árum. Það er því ekki hægt að eyrnamerkja það einum flokki meira en annað að hafa átt fulltrúa sinn í sendiherrastöðu. Sigríður Anna var ráðherra í um tvö ár og hafði staðið sig mjög vel. Það var frekar leitt að hún gat ekki klárað sitt tímabil í umhverfisráðuneytinu, en eins og flestir missti hún ráðherrastólinn í kjölfar þess að Halldór Ásgrímsson hætti í stjórnmálum og hrókeringar urðu meðal stjórnarflokkanna.

Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða stjórnmálamenn (ef af verður) muni halda á vit utanríkisþjónustunnar þegar að kjörtímabilinu lýkur eftir tvo mánuði. Það verður mikil endurnýjun á Alþingi með þessum væntanlegu þingkosningum og við öllum blasir að einhverjir halda í verkefni í utanríkisþjónustunni ef sagan endurtekur sig. Það sem verður fróðlegast er að sjá hverjir hugsa gott til glóðarinnar með því að halda í ný verkefni. Greinilegt er að einhver þrýstingur er á að fólk fari til þessara verkefna í vor. Annars má reyndar segja að eftirlaunalögin tryggi að þeir sem hafi orðið ráðherrar og séu orðnir sextugir geti haft það rólegt.

En það eru ekki margir fyrrum ráðherrar að hætta í vor; held að það séu Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður Anna og Jón Kristjánsson allavega. Það verður fróðlegt að sjá hvað verður um þessa þingmenn sem hætta nú, en þeir eru óvenjulega margir vissulega.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Er Jón Baldvin ekki gott dæmi um af hverju uppgjafa stjórnmálamenn eru sendir í útlegð á vegum utanríkisþjónustunnar?

Tómt vesen og leiðindi eftir að hann kom heim. Ég er hissa á að ekki skuli vera búið að koma kalli í sendiráð aftur.

Júlíus Sigurþórsson, 6.3.2007 kl. 20:12

2 identicon

Er Jón Baldvin uppgjafa stjórnmálamaður? Wait and see. Honum finnst nú leiðinlegt til lengdar að láta krossfesta sig í Kvosinni. 

Steini Briem (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 21:11

3 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Þetta sendiherradæmi er orðið gjörsamlega úrelt......Það eitt að senda "aflagða" pólitíkusa í "áskrift" til útlanda er útí hött.

Þetta sannar bara hið fornkveðna, að uppgjafastjórnmálamenn tolla hvergi í vinnu á hinum almenna markaði, allaveganna man ég ekki eftir neinum sem hefur hætt eða verið látinn hætta, sem hefur plummað sig í atvinnulífinu.

Náttúrulega fyrir utan það að sendiherrar eru lítið sem ekkert að draga að landi, miðað við þau útgjöld sem við þurfum að reiða af hendi til að halda þessu liði uppi !

Uppsagnarbréf á alla línuna !

Ingólfur Þór Guðmundsson, 6.3.2007 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband