Táknræn samstaða tveggja flokka gegn ESB

falkinn1Mikla athygli hefur vakið að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin-grænt framboð hafa komið sér saman um bókun í Evrópunefnd þar sem tjáð er afgerandi andstaða við ESB-aðild. Skv. nýjustu skoðanakönnun Gallups eru þetta tveir stærstu flokkar landsins, allavega tveir mjög öflugir flokkar. Á meðan síga þeir flokkar sem helst hafa ljáð máls á ESB, Samfylking og Framsóknarflokkur, í skoðanakönnunum.

VGÞessi bókun er táknræn samstaða þessara tveggja flokka gegn aðild að Evrópusambandinu og skýrt merki um það að aðild er ekki á dagskrá hjá flokkunum og mun ekki verða á komandi árum. Þetta er vissulega mjög þýðingarverð bókun, enda sýnir hún mjög vel ennfremur að aðild verður varla á dagskrá eftir þingkosningarnar í vor, enda vandséð hvernig að starfhæf ríkisstjórn verði mynduð án beggja þessara flokka.

Það er því ljóst að Evrópumálin eru stopp og verða það á komandi árum. Þetta er því afgerandi og sterk bókun sem vekur athygli og hleypir eflaust einhverju lífi í kosningabaráttuna. Tal um mögulegt stjórnarsamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins að vori mun að minnsta kosti ekki minnka eða hverfa við þetta merkilega samkomulag milli aðila.

Að þessari bókun standa Björn Bjarnason, formaður Evrópunefndar og dóms- og kirkjumálaráðherra, Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Ragnar Arnalds, formaður Heimssýnar og fyrrum ráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG.

Merkileg bókun allavega. Enginn vafi á því. Og það er þungavigtarfólk sem stendur að henni. Bókunin segir eiginlega meira en mörg orð. Samfylkingin sér væntanlega sæng sína útbreidda með ESB núna, eða hvað? Hallast að því.

Lítill fugl hvíslaði reyndar því að mér að konurnar sem Samfylkingin sé að missa vilji ekki ESB-aðild í könnunum og því muni Samfylkingin ekki keyra á málinu til vors.


mbl.is VG og Sjálfstæðisflokkur gegn ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Mér finnst eðlilegt að tveir flokkar afturhalds sýni þá samstöðu í verki. Aðild Íslands að ESB er eitt helst hagsmunamál íslenskra neytenda.....sem verður að ræða og skoða af alvöru.

Eggert Hjelm Herbertsson, 7.3.2007 kl. 16:18

2 identicon

Í Sænautaseli bjuggu skötuhjúin herra Sjálfstæður og hans ektafrú til 12 ára, Framsóknarmaddaman, og sögðust hvergi fara úr kotinu meðan bæði libbðu. Þau væru sjálfstætt fólk í sjálfstæðu landi. Karl og kerling áttu tvær dætur en þær lentu í ástandinu á Kárahnjúkum og segir ekki meira af þeim, nema hvað þær búa núna í Kína. Ektaparið bjó með eina kú og 100 kindur með 19 milljarða styrk frá bróður Framsóknar. Þrenn hjú voru á bænum, Samfó hét eitt, Vinstri annað og Frjálslyndur það þriðja. Frjálslyndur var blindur og var því ekki mikið gagn af honum á búinu, enda drukknaði hann fljótlega í bæjarlæknum. Samfó var forkunnarfögur og feit, enda leit herra Sjálfstæður hana hýru auga. Framsókn varð þess vör og skipaði karli sínum að reka Samfó er vistinni, "því engin hornkerling vil ég vera á mínu eigin heimili". Nú nú, er þar komið sögunni að einungis eitt hjú var eftir í kotinu og getiði nú krakkar mínir hver það var. Jú rétt til getið, Vinstri var það heillin. Fer þá ekki herra Sjálfstæður að gera hosur sínar grænar fyrir Vinstri!

"Ja, nú þykir mér týra á skarinu og skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Er þá karlinn ekki sódómískur eftir allt saman!" tautar þá Framsókn si svona, heldur önug og snýr upp á sig. "Þetta er örugglega allt saman Evrópusambandinu að kenna og þessu bévítans reglugerðarfargani frá þeim þar í neðra! Megi hann Brussell aldrei þrífast! Ég veit varla hvernig ég á að mjólka kúna lengur!" Er þar skemmst frá að segja að frú Framsókn skilur þar við karl sinn og arkar til byggða en verður úti á leiðinni vegna langvinnra gróðurhúsaáhrifa á heiðinni. En í Sænautaseli búa nú saman herra Sjálfstæður og Vinstri með 50 milljarða styrk frá Evrópusambandinu. Barnlausir eru þeir náttúrlega en buru eiga þeir gríðarstóra og geyma í henni allir reglugerðirnar frá Evrópusambandinu. Lýkur þar með sögunni af Sænautaseli, krakkar mínir, og farið nú út að leika ykkur!

Steini Briem (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 16:34

3 identicon

Við aðildarsinnar látum þetta ekki buga okkur.

Róbert Trausti Árnason (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 17:17

4 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

skritinn þessi titringur hjá Samfó vegna þessarar undirskriftar. Er eitthvað sem kemur á óvart þarna? Nema þá ef vera kynni þær fullyrðingar Samfóaðila að mikil undiralda sé í D vegna aðildar að Evrópusambandinu og mjög stór hópur sé fylgjandi aðild. Er hópurinn bara ekki miklu minni en Samfó var að vona.

Guðmundur H. Bragason, 7.3.2007 kl. 17:44

5 Smámynd: Kristján Pétursson

Þeir flokkar sem eru lengst til hægri og vinstri geta smellpassað saman,þeir teigja sig  bara báðir inn á miðjuna.Sameiginleg andúð  flokkanna á ESB og NATO að hverfa, þetta passar ágætlega og íhaldið að verða algrænt.

Aumingja Framsókn,sem búnir eru að þjóna íhaldinu af einstakri alúð í 12 ár skuli verða að upplifa það , að VG  taki frá þeim fylgið  og  fari síðan  í eina sæng með íhaldinu. 

Kristján Pétursson, 7.3.2007 kl. 18:26

6 Smámynd: Guðfinnur Sveinsson

Stefán, það eru fáir sem að vilja stökkva inní ESB á næsta kjörtímabili þannig að þetta er ekki mikil stórfrétt. Ekki vil ég það þó ég sé í Samfylkingu. Hinsvegar er það langtímamarkmið okkar í Samfylkingu að ganga í ESB og þess vegna verðum við að skoða vel og kynna okkur málið því þeim ótal kostum sem fylgja aðild er ekki hægt að neita, þó að gallarnir séu að sjálfsögðu einhverjir.

Guðfinnur Sveinsson, 8.3.2007 kl. 01:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband