Titringur í Samfylkingunni vegna ESB-andstöðu

ESB Það er greinilegt að titringur er innan Samfylkingarinnar vegna samstöðu Sjálfstæðisflokks og VG í Evrópunefnd um andstöðu við ESB-aðild. Það má lesa í bloggskrifum Samfylkingarmanna og merkilegt er að lesa skrif á vef Samfylkingarinnar hér á Akureyri (sem er í meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn). Þar bloggar væntanlega Jón Ingi Cæsarsson, varabæjarfulltrúi og formaður Samfylkingarinnar í bænum.

Það er greinilegt að kergja er á milli Samfylkingarinnar og VG í Evrópumálunum og heilt yfir reyndar. Það er svona að verða settleg ólga milli flokkanna. Samfylkingarfólki svíður væntanlega að sjá lágt fylgi mánuð eftir mánuð og meira að segja VG orðið stærra í nýjustu könnun Gallups, í fyrsta skipti í heil fimm ár. Það voru merkileg tíðindi. Kuldinn milli VG og Samfylkingarinnar hefur verið eitt verst geymda leyndarmálið undanfarna mánuði og virðist vera að magnast. Eitraðar pillur ganga á milli og hafa gert síðustu mánuði og þessi samstaða VG með Sjálfstæðisflokknum er því ansi athyglisverð.

Það var reynt að telja fólki trú um það framan af vetri að kaffibandalagið væri trúverðugur valkostur. Þeir eru orðnir fáir sem veðja peningunum sínum á að það samstarf haldi saman í gegnum kosningabaráttuna og það virðist lítið rósahjal á milli flokkanna. Hvöss skerpa frjálslyndra í innflytjendamálum gerði þá holdsveika í hugum flestra, stjórnarandstaðan hefur hikstað á bandalagi við þá síðan og hörð skot á milli VG og Samfylkingarinnar dyljast engum. Flestum er í fersku minni að Steingrímur J. Sigfússon hryggbraut Ingibjörgu Sólrúnu í Kryddsíld í beinni útsendingu og vildi ekkert við það kannast að hún væri forsætisráðherraefni stjórnarandstöðunnar.

Á fundi sem ég var á um daginn með þverpólitíska málfundarhópnum Pollinum hér á Akureyri um daginn nefndi Steingrímur J. forsætisráðuneytið fyrst sem áhugavert ráðuneyti fyrir flokkinn að loknum kosningum í vor, en vildi ekkert gera síðar með það er ég spurði hann um hvort að VG myndi gera kröfu um forsætið í vor. Sú hógværð var ekki sannfærandi. VG veit í hvaða stöðu það er og mun ekki beygja sig mjög djúpt fyrir Samfylkingunni í vor. Enda hafa margir talað um að stjórnarmyndunarviðræður muni snúast um það hver muni fyrstur leita á náðir Geirs Hilmars Haarde.

Það stefnir í spennandi kosningar. Það verður gaman að sjá hversu heitt kaffið verður í kaffibandalaginu er til kjördags kemur og stjórnarmyndunarviðræðna falli sitjandi ríkisstjórn. Þessi samstaða VG og Sjálfstæðisflokks í Evrópunefnd er vissulega táknræn og eykur vangaveltur um það hvort að sú samstaða nái yfir fleiri málaflokka og verði að stjórnarsamstarfi með vorinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég á erfitt með að sjá VG mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hefði ímyndað mér að Samfylkingin væri nær. En nú er VG svo deperate að ég held þeir slípi sig nær miðju í einum hvelli. Sé varla fyrir mér hvernig sú ríkisstjórn myndi eiga að lifa. Það er ekki bara Steingrímur J. heldur allir hinir VG menn og konur sem semja þarf við. Þetta er sitthvor póllinn.

Kolbrún Baldursdóttir, 7.3.2007 kl. 19:40

2 identicon

Það hefur ekkert nýtt gerst í þessu máli, Stebbi minn. Flokkarnir eru á sömu eða mjög svipaðri skoðun og í upphafi kjörtímabilsins. Það hefur ekki verið og er ekki meirihluti á þingi fyrir Evrópusambandsaðild og sá meirihluti verður ekki heldur fyrir hendi eftir kosningarnar. Það var jafn ljóst þegar nefndin hans Bíbí var sett á laggirnar til að eyða peningum þjóðarinnar í vitleysu a la Sjallar, enda þótt þeir tali fjálglega gegn slíkum hlutum. Norðmenn munu fyrr eða síðar ganga í Evrópusambandið og að sjálfsögðu munum við fylgja þeim þegar þar að kemur. Það þarf ekki að skrifa um það fokdýrar skýrslur í lange baner fyrir peningana okkar.

Og það er jafn heiðskírt að stjórnin er fallin, Samfó, Vinstri grænir og Frjálsblindir munu tala fyrst saman, ef Frjálsblindir ná mönnum inn á þing á annað borð. Aðalatriðið er ekki hvort Steini eða Imba leiðir nýju stjórnina en hverjum þykir sinn fugl fagur. Það væri nú annað hvort en að sjálfsögðu finnst mörgum tími til kominn að kona verði hér forsætisráðherra, enda ætla 55% kvenna að kjósa vinstri flokkana.

Steini Briem (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband