Stjórnarflokkar funda - enn engin niðurstaða

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde Enn hefur engin niðurstaða náðst milli stjórnarflokkanna í auðlindamálinu, þó fundir hafi verið í þingflokkum nú síðdegis. Pressa er á niðurstöðu mála, enda kemur þing saman á morgun til funda og hefst þá síðasta fundalota kjörtímabilsins á Alþingi. Eigi að ná samkomulagi er því tíminn í raun að renna út. Í kvöldfréttum var rætt við formenn stjórnarflokkanna, sem þó vildu skiljanlega lítið segja enda ekkert samkomulag enn komið til sögunnar.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig fara muni að lokum, enda flestum ljóst að brátt verður að vera ljóst hvort samstaða sé um að auðlindaákvæðið verði sett í stjórnarskrá. Stjórnarandstaðan hefur ljáð máls á að styðja slíkt og því ljóst að aðeins er einhver andstaða við málið innan Sjálfstæðisflokksins. Stjórnarandstaðan sá sér auðvitað leik á borði eftir harkaleg og hvöss ummæli bæði þingmanna og ráðherra Framsóknarflokksins og lofaði stuðningi við málið gerðu þeir alvöru úr tali sínu. Reyndar hefur varla heyrst í Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, eftir sín hörðu orð á föstudaginn.

Það bendir ansi margt til þess að flokkarnir nái samkomulagi í þessum efnum. Ef marka má ummæli Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, mun það gerast og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur talað með þeim hætti líka. Þó er ljóst greinilega ennfremur að hvorugur flokkurinn vill gefa of mikið eftir og þess vegna liggur auðvitað ekkert samkomulag enn fyrir í sjálfu sér. Það verður enda horft í þá átt hvor flokkurinn verði að gefa meira eftir, eða hvort flokkarnir muni mætast verði á miðri leið í þessum efnum. Oft var tekist á um mál innan stjórnarinnar forðum daga en alltaf náðu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson samkomulagi sem full samstaða var almennt um.

Nú eru stjórnarherrarnir nýjir og vissulega nokkuð breyttir tímar. Það er enda vissulega tímanna tákn að báðir þeir stjórnarherrar sem stýrðu gerð stjórnarsáttmálans fyrir fjórum árum eru farnir úr stjórnmálum og til annarra verka á misfjarlægum slóðum. Þetta er fyrsta alvöru krísa stjórnarsamstarfsins með nýju flokksformennina við stjórnvölinn. Það verður fróðlegt að sjá lyktir málsins, sem væntanlega ræðst með morgni.

Það yrðu vissulega mikil tíðindi yrði ekki komið samkomulag um auðlindamálið milli stjórnarflokkanna fyrir upphaf þingfunda, upphaf lokafundahrinu kjörtímabilsins á löggjafarþinginu.

mbl.is Geir segir enga niðurstöðu komna í auðlindamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það væri vel hægt að rjúfa þingið nokkrum dögum seinna í þessum mánuði, því nógur er tíminn til kosninga. Stjórnarandstöðuflokkarnir samþykkja að sjálfsögðu ekki hvaða orðalag sem er hvað varðar nýtt ákvæði um auðlindir í stjórnarskránni. Og ef þeir samþykkja það ekki nú, samþykkir þingið það ekki á næsta kjörtímabili, því stjórnin fellur í kosningunum í vor. Meirihluti þeirra sem þá verða kosnir á þing þarf að samþykkja sjórnarskrárbreytingarnar óbreyttar til að þær öðlist gildi, þannig að það þýðir lítið fyrir Framsókn að fá unglingaveikina núna á gamals aldri, nema öll stjórnarandstaðan samþykki þessar breytingar. Stjórnarflokkarnir ættu því að berja saman þessar breytingar á stjórnarskránni í samvinnu við stjórnarandstöðuna, í staðinn fyrir að hunsa hana í þessu máli.

Steini Briem (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband