Leonardo DiCaprio kominn til landsins

Leonardo DiCaprip Jæja, þá er leikarinn Leonardo DiCaprio kominn til landsins. Hann er þá eflaust um leið orðinn Íslandsvinur. Það er oftast nær talað um stjörnurnar sem Íslandsvini þegar að þær koma hingað til lands, í lengri eða skemmri tíma. Alveg sama þó að þær séu hundfúlar yfir vistinni hérna. Öll munum við eftir því þegar að Jerry Seinfeld og Robbie Williams komu hingað hundfúlir og lak af þeim fýlan við allt og alla hér. Samt voru þeir kallaðir sérstakir Íslandsvinir. Þetta er svona ekta stjörnudýrkun - sem er kannski bara allt í lagi.

Fetar Leonardo í fótspor James Bond, í túlkun Roger Moore í A View To a Kill árið 1985 og Pierce Brosnan í Die Another Day árið 2002, í því að fara á Jökulsárlón. Ekki þó til að leika í kvikmynd, heldur í myndatöku fyrir glansritið Vanity Fair. Búast má við að hann verði farinn fyrir helgarlok aftur til Bandaríkjanna. Eflaust mun myndatakan eitthvað auglýsa upp landið, enda blaðið víðlesið, og vonandi mun leikarinn njóta landsins og sjá hversu fallegt er á Jökulsárlóni. Það er enda yndislegur staður. DiCaprio er auðvitað mjög þekktur leikari. Hann hefur þó ungur sé verið tilnefndur þrisvar til óskarsverðlauna fyrir leik, síðast fyrir Blood Diamond á óskarsverðlaunahátíðinni fyrir tæpum tveim vikum. Hann var áður tilnefndur fyrir The Aviator og What´s Eating Gilbert Grape?

Þekktasta mynd DiCaprio er þó án nokkurs vafa Titanic, mynd um ástir og örlög á skipinu sögufræga sem sökk til botns fyrir tæpri öld. Mikil og stór mynd um sögu skipsins sem átti ekki að geta sokkið en sökk þó í jómfrúrferðinni sinni. Sú mynd sló í gegn á sínum tíma og er ein vinsælasta kvikmynd sögunnar. Hún verður tíu ára á þessu ári. Hún hlaut 14 óskarsverðaunatilnefningar og 11 verðlaun, sem er hið mesta í sögu verðlaunanna, jafnmikið og Ben-Hur hlaut áður, árið 1959, og The Lord of the Rings: The Return of the King, hlaut síðar, árið 2003. DiCaprio hlaut ekki einu sinni leiktilnefningu fyrir túlkun sína á Jack Dawson í myndinni, sem olli áralangri fýlu hans við akademíuna.

Vinsælasta mynd DiCaprio í seinni tíð hlýtur að teljast The Departed, kvikmynd leikstjórans Martin Scorsese, sem færði leikstjóranum langþráðan leikstjóraóskar og hlaut ennfremur óskarinn sem besta kvikmynd ársins 2006. DiCaprio sýndi góða takta en hlaut þó frekar leiktilnefningu fyrir Blood Diamond en hana, þó ég geti reyndar fullyrt að Blood Diamond sé úrvalsmynd. Flestir töldu að DiCaprio fengi leikaraóskarinn fyrir tveim árum fyrir túlkun sína á auðjöfrinum Howard Hughes í The Aviator en þá tapaði hann fyrir Jamie Foxx sem túlkaði Ray Charles með bravúr. Enn á hann því eftir að vinna þessi eftirsóttu verðlaun. Hann hefur nú gert þrjár myndir með Scorsese.

Hvort að hann þurfi að bíða jafnlengi eftir verðlaununum og uppáhaldsleikstjórinn hans, sem hefur gefið honum bestu leiktækifærin undanfarin ár, skal ósagt látið. En nú er hann á Íslandi - kynnist landi og þjóð. Einhver mun eflaust spyrja hann hinnar sígildu og margtuggnu spurningar um hvernig honum líki við landið. Hvert sem svarið verður munu margir kalla hann Íslandsvin. Annað væri eflaust talið sem stílbrot á stjörnuhefðinni.

mbl.is Leonardo DiCaprio myndaður á Jökulsárlóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Saga af Ljónharði fengsæla:

Kappinn milli lappa lá,
lán og happafengur.
Setti tappa sponsið á,
snótin hrappadrengur!

Copyright 2007, Eiríkur Kjögx

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 15:59

2 identicon

Saga af öðrum kappa sem einnig hefur heiðrað oss með nærveru sinni en hvílir nú lúin bein á milli alþjóðlegra verkefna: 

Brundinn spara Bondinn má
en þó bara skamma stund.
Svo mun fara að serða gná,
svannaskara gefa brund.

Copyright 2007, Eiríkur Kjögx

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 16:35

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir lífleg og góð komment Steini. Gaman að lesa. Góð ljóð eiga alltaf vel við á góðum og líflegum heimasíðum. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.3.2007 kl. 17:52

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sjúkkitt erann kominn?  Mér léttir stórlega.  híhí

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.3.2007 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband