Jacques Chirac kveður frönsk stjórnmál

Jacques ChiracJacques Chirac, forseti Frakklands, mun ávarpa frönsku þjóðina frá Elysée-höll eftir tæpar fimm klukkustundir. Hann mun þá tilkynna um þá ákvörðun sína að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fer fram eftir sex vikur, sunnudaginn 22. apríl og seinni umferðin fer fram tveim vikum síðar, sunnudaginn 6. maí, á milli þeirra tveggja er mest fylgi hljóta í fyrri umferðinni. Nýr forseti Frakklands mun sverja embættiseið fimmtudaginn 17. maí, nákvæmlega tólf árum eftir að Chirac sór embættiseið fyrst.

Augu allra stjórnmálaáhugamanna í Frakklandi sem og um alla heim munu verða á því hvort að Chirac forseti muni lýsa í kveðjuávarpinu yfir opinberum stuðningi við Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra, sem er opinbert forsetaefni hægriblokkarinnar. Hvorki Chirac né Dominique de Villepin, forsætisráðherra, hafa lýst yfir stuðningi við Sarkozy. UMP var byggð upp sem pólitískur heimavöllur Jacques Chirac. Á nokkrum árum hefur Sarkozy tekist að gera hana að sinni með einkar athyglisverðum hætti og eiginlega má segja að völdin hafi hægt og hljótt fetað frá forsetanum og til innanríkisráðherrans klóka.

Það bauð sig enginn fram gegn Sarkozy innan flokksins sem forsetaefni hans er framboðsfrestur rann út um jólin. Sarkozy var svo staðfestur sem forsetaefni hægriblokkarinnar í janúar. Hann hlaut þó aðeins 70% atkvæða gildra flokksmanna í netkosningunni sem fram fór. Það þótti mikið áfall, enda sagði það með afgerandi hætti að hann væri ekki óumdeildur frambjóðandi hægriblokkarinnar og armur forsetans horfði þögull á útnefningarferlið sem byggði upp Sarkozy sem leiðtoga hægriblokkarinnar. Allt fram til þessarar stundar hafa lykilmenn forsetans ekki útilokað að hann færi fram sem óháður, en hann bakkar nú út. Hann verður 75 ára í nóvember.

Fjarvera Chiracs forseta á baráttufundi UMP-hægriblokkarinnar í janúar er Sarkozy var útnefndur sem forsetaefni var svo sannarlega hrópandi áberandi að öllu leyti. Villepin forsætisráðherra hefur ekkert sagt heldur sem flokkast sem stuðningsyfirlýsing við Sarkozy og hefur sagst bíða ákvörðunar forsetans og t.d. ekki útilokað framboð sjálfur, þó hann sé reyndar með óvinsælli forsætisráðherrum í sögu Frakklands og verið mjög illa liðinn allt frá því að hann tók við embætti eftir að Chirac fórnaði Jean-Pierre Raffarin eftir að ESB-stjórnarskránni var hafnað í maí 2005, sem var eitt mesta pólitíska áfall forsetans. Villepin mætti t.d. á fundinn í janúar en kaus ekki.

Það hefur verið greinilegt kalt stríð milli aðila og farið eiginlega sífellt versnandi eftir því sem styttist í örlagastund og lok kjörtímabils forsetans. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í júní 2005 er hann sparkaði Raffarin og skyldi velja Villepin.

En nú er Chirac að kveðja. 45 ára litríkum stjórnmálaferli er að ljúka. Það verður fróðlegt að sjá hvernig pólitíski klækjarefurinn í Elysée-höll kveður. Verður það með mildum eða kuldalegum nótum - mun hann viðurkenna yfirburðarstöðu Sarkozy á hægrivængnum. Það er alveg ljóst að stjórnmálaáhugamenn um allan heim munu horfa með áhuga á kveðjustund forsetans í kvöld.


mbl.is Búist er við því að Chirac muni ekki sækjast eftir endurkjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Farvel Frans! Monsieur Chirac er reffilegur náungi og kann að halda á hníf og gaffli. En franska yfirstéttin er nú ekki yfir sig hrifin af einhverjum galgopa af ungverskum uppruna, sem skammast sín auðvitað fyrir það. Frakkland er að sjálfsögðu ennþá heimsveldi og svo miðstýrt frá París að mállýskur fyrirfinnast þar varla á milli héraða. Forsetinn er kóngur í sínu ríki og hefur um sig hirð að kónga hætti. Undirritaður hefur oft verið í Frakklandi og á þar marga vini. Fór með einum þeirra til afa hans í frönsku akademíunni, heimsfrægs listmálara, sem bjó í miðri París, og þaðan fórum við á opnun málverkasýningar rétt hjá. Stéttaskiptingin er gríðarleg í þessu landi og snobbið hjá hástéttinni eftir því, sama hversu oft aðallinn er hálshöggvinn.


Ég og vinurinn fórum upp á Klakann með fullar ferðatöskur af foie gras, andalifrarkæfu, sem við fengum hjá frænda vinarins niðri við landamærin að Spáni. Frændinn gaf mér extra mikið af kæfunni þegar hann frétti að bandaríski herinn væri með herstöð á Klakanum. Kanar eru það versta sem til er í heiminum í augum Frakka, því þeirra heimsveldi er ennþá stærra en Frans. Björk Guðmunds kom til að hjálpa okkur að torga kæfunni en það tók samt margar vikur að koma henni fyrir kattarnef. En ekkert er betra en lautartúrar við franska kastala, bagettur, franskir ostar, rauðvín og franskar meyjar, froskur í tjörn sem bíður spenntur eftir að fá franskan koss.


En franskri alþýðu er illa við lögregluna og það var sussað á mig þegar ég veifaði henni í norðlensku sakleysi mínu. Frakkarnir á landsbyggðinni taka tvo klukkutíma í hádegismat og éta svo allt kveldið. Ég fór einu sinni í partí með þeim í kastala úti í sveit og allir fóru þeir akandi þangað. Snætt var, dansað og drukkið allt kveldið en um miðnættið fóru allir heim, akandi. "Eh, er það ráðlegt?" spurði ég eins og fávís Skagfirðingur. "Við gerum þetta alltaf svona og það er ekkert mál, ef ekkert kemur fyrir." Þetta sögðu Frakkarnir líka fyrir Síðari heimsstyrjöldina. Þeir eru ennþá heimsveldi og Maginot-línan er traust. 

Steini Briem (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband