Jacques Chirac gefur ekki kost á sér

Jacques ChiracJacques Chirac, forseti Frakklands, lýsti því yfir í ávarpi til frönsku þjóðarinnar frá Elysée-höll í kvöld að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri. Chirac hefur verið einn af mest áberandi stjórnmálamönnum Frakklands í áratugi og á að baki litríkan stjórnmálaferil. Hann hefur alla tíð verið umdeildur stjórnmálamaður og verið áberandi í sínum verkum og telst einn af lykilmönnum franskra stjórnmála síðan á valdadögum Charles De Gaulle. Kynslóðaskipti verða í forystusveit með brotthvarfi hans.

Jacques Chirac fæddist 29. nóvember 1932. Stjórnmál hafa verið samofin lífi hans í um hálfa öld. Hann var alinn upp pólitískt af forsetunum Charles De Gaulle og Georges Pompidou, mun frekar þeim síðarnefnda. Hann varð fyrst virkur fyrir alvöru í forystusveit þegar að hann varð starfsmannastjóri Pompidou í franska forsætisráðuneytinu árið 1962. Pompidou leit á Chirac sem lærling sinn í stjórnmálum og nefndi hann skriðdrekann sinn vegna hæfileika hans í pólitísku starfi, bæði við að koma hlutum í framkvæmd og vinna grunnvinnuna í kosningabaráttum, en Chirac hefur alla tíð verið rómaður fyrir að vera inspíreruð kosningamaskína og sannur leiðtogi sem kann að leiða baráttuna.

Chirac varð á þessum árum þungavigtarmaður bakvið tjöldin fyrir bæði Pompidou og De Gaulle. Í bók um hann sem ég á er enda lýst hvernig hann vinnur undir álagi og í alvöru kosningaslag. Hann sé maður sem keyrir maskínu áfram vafningalaust og kemur beint að efninu. Sagt hefur reyndar verið um hann af lykilstuðningsmönnum að menn sem leiði baráttu með honum þurfi að hafa járnvilja og sætta sig við allt sem geti gerst. Menn hafa þurft að vera vel spenntir niður fyrir átök með honum. Slíkur hafi krafturinn og viljinn verið til verka. Það eru því mörg sterk lýsingarorð sem lýsa þessum litríka stjórnmálamanni og er kraftur sennilega eitt þeirra helstu.

Chirac fór fyrst í framboð árið 1967 að áeggjan Pompidou og náði kjöri fyrir heimahérað sitt í Correze. Stúdentaóeirðirnar voru miklar árið 1968 og bylgja gegn ráðandi öflum varð áberandi í frönsku samfélagi. Lék Chirac mikilvægan þátt í því að ná sáttum milli aðila í átökunum. Pólitískur ferill De Gaulle fór af sporinu og hann varð óvinsæll sem fulltrúi kerfisins. Árið 1969 beið hann mikinn persónulegan og pólitískan ósigur er tillögur hans um breytingar á stjórnarskránni voru felldar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Brást þessi aldna kempa sem leitt hafði Frakkland í gegnum stríðið og verið öflugasti stjórnmálamaður landsins á 20. öld, við með því að boða afsögn sína af forsetastóli.

Pólitískir andstæðingar hans stóðu eftir orðlausir. Öllum að óvörum sté þessi aldni forystumaður af stól sínum og fór. Á hádegi daginn eftir tapið hafði svo afsögn hans tekið gildi og hann hafði yfirgefið Elysée-höll í hinsta skipti. Þessi öflugi stjórnmálaleiðtogi yfirgaf stjórnmálasviðið hljótt en þó með snörpum hætti. Er hann lést ári síðar var hans minnst sem eins öflugasta pólitíska leiðtoga landsins, en árinu áður var hann óvinsæll og hafði beðið sögulegt tap. Hann var vissulega forseti á umbrotatímum. Eftirmaður hans á forsetastóli varð pólitískur lærifaðir Chiracs, forsætisráðherrann Georges Pompidou. Chirac lék áberandi þátt í þessari einu kosningabaráttu hans.

Chirac varð landbúnaðarráðherra í frönsku stjórninni árið 1972, sérlega valinn af Pompidou og þótti standa sig vel í umfangsmiklum samningaviðræðum og vera mikill talsmaður fransks landbúnaðar á vettvangi Evrópusamvinnunnar og verja þann geira af krafti. Chirac varð innanríkisráðherra í ársbyrjun 1974. Pompidou forseti lést úr krabbameini í apríl 1974. Í forsetakosningunum sem fylgdu í kjölfarið studdi Chirac mjög eindregið Valery Giscard d'Estaing. Hann vann forsetakosningarnar í baráttu við Francois Mitterrand. Á móti skipaði Giscard svo Chirac sem forsætisráðherra eftir forsetakosningarnar og tók við þann 27. maí 1974, þá 41 árs, yngstur til þessa í embætti.

Pólitísk sambúð Giscard og Chirac varð stormasöm er á hólminn kom og var Chirac ósáttur við að fá ekki meiri völd og áhrif til að framfylgja sínum málum. Hann sagði af sér forsætisráðherraembættinu árið 1976 og hóf að byggja sinn arm upp til valda í frönskum stjórnmálum. Ári síðar varð Chirac borgarstjóri í París, er embættið var endurvakið, en það hafði verið lagt af árið 1871. Hann sigraði samherja Giscard forseta, Michel d'Ornano, og hlaut mikil völd við sigurinn. Hann gegndi embættinu í heil 18 ár. Chirac gaf kost á sér í forsetakosningunum 1981 gegn Giscard. Honum mistókst að komast í seinni umferðina en braut upp hægrafylgið. Giscard tapaði fyrir sósíalistanum Francois Mitterrand.

Giscard kenndi alltaf Chirac um ósigur sinn árið 1981 og vændi Chirac um að hafa lagt Mitterrand lið til að losa við sig úr forystu hægriarmsins. Milli þeirra hefur ríkt kalt stríð alla tíð síðan, en þeir eru báðir af sömu kynslóð en Giscard er sex árum eldri en Chirac. Við tap Giscard og valdamissinn úr Elysée-höll varð Chirac í raun leiðtogi hægriarmsins og stjórnarandstöðunnar í forsetatíð Mitterrands. Chirac varð forsætisráðherra að nýju eftir þingkosningarnar 1986 er Mitterrand neyddist til að velja hann í embættið eftir hægribylgju í kosningum. Sambúð þeirra var stormasöm, svo vægt sé til orða tekið. Chirac gaf kost á sér gegn Mitterrand í forsetakosningunum 1988 en tapaði naumlega.

Hann lét af forsætisráðherraembættinu eftir forsetakosningarnar. Deilt var mjög um forystu hans og hann stóð sennilega þá tæpast sem leiðtogi á áhrifamesta hluta stjórnmálaferilsins. Hann var borgarstjóri í París í gegnum þennan kafla ferilsins og eiginlega hélt sú tign honum á kortinu allan þennan tíma. Hann reis aftur til forystu í upphafi tíunda áratugarins. Hægrimenn unnu stórsigur í þingkosningunum 1993 og komust til valda. Sósíalistar guldu afhroð og Mitterrand neyddist til að deila völdum. Chirac ákvað að verða ekki forsætisráðherra þriðja sinni og Edouard Balladur var valinn til verkefnisins gegn því að fara ekki fram gegn Chirac í forsetakosningunum 1995.

Balladur sveik það loforð er kannanir sýndu sterka stöðu hans í aðdraganda kosninganna. Chirac hélt sínu striki og ákvað að fara fram gegn forsætisráðherranum. Margir þeirra sem fylgt höfðu Chirac ákváðu að fylgja Balladur, t.d. menn á borð við Charles Pasqua og Nicolas Sarkozy (nú frambjóðandi hægriblokkarinnar í kosningunum í vor). Svo fór að Chirac tókst að komast í gegnum fyrri umferðina og slá út Balladur. Mætti Chirac í seinni umferðinni sósíalistanum Lionel Jospin. Margir töldu framboð hans vonlaust en hann styrktist eftir því sem leið á baráttuna. Svo fór að sigur Chiracs í forsetakosningunum í maí 1995 varð naumur. Hann hlaut 52,6%.

Chirac tók við forsetaembættinu af Mitterrand 17. maí 1995. Hann fyrirgaf Balladur aldrei framboðið og hann sparkaði honum sem forsætisráðherra eftir kosningarnar og skipaði Alain Juppé, tryggan fylgismann sem fylgt hafði honum í gegnum þykkt og þunnt. Chirac þótti byrja af krafti í embættinu. Hann ákvað að rjúfa þing fyrr en ella í júní 1997 og boða til kosninga, viss um að hægriblokkin undir forystu Juppé tækist að vinna endurkjör. Svo fór ekki og áhættan varð dýrkeypt. Jospin leiddi sósíalista til óvænts kosningasigurs og neyddist Chirac til að útnefna andstæðing sinn í kosningunum tveim árum áður sem forsætisráðherra. Valdasambúð þeirra varð harðvítug og erfið.

Chirac tókst að ná endurkjöri á forsetastól með eftirminnilegum hætti árið 2002. Þá var forsetinn fyrst kjörinn til fimm ára, en áður hafði kjörtímabilið verið sjö ár. Í fyrri umferð kosninganna urðu þau athyglisverðu tíðindi að Jospin forsætisráðherra mistókst að tryggja sér sæti í seinni umferðina og öllum að óvörum varð þjóðernishægrimaðurinn Jean-Marie Le Pen mótherji Chiracs í seinni umferðinni. Jospin stóð eftir með sárt ennið og stjórnmálaferli hans lauk því með öðrum hætti en hann hafði óneitanlega stefnt að.

Í seinni umferðinni sameinuðust meira að segja svarnir andstæðingar Chiracs um að kjósa hann til að koma í veg fyrir að Le Pen yrði forseti. Það var skondið að sjá Sósíalistaflokkinn hvetja fólk til að kjósa Chirac og forða Frökkum frá stjórn Le Pen. Og Chirac hlaut 82% greiddra atkvæða. Í kjölfarið vann bandalag hægri- og miðflokka í Frakklandi afgerandi sigur í þingkosningum og Jean-Pierre Raffarin, bandamaður forsetans, tók við forsætisráðherraembættinu af Jospin í júní 2002. Hægrimenn voru aftur við völd eftir fimm ára valdasambúð með sósíalistum.

Í maí 2005 beið forsetinn sinn mesta pólitíska ósigur er honum mistókst að fá þjóðina til að samþykkja stjórnarskrá Evrópusambandsins. Eftir það varð ljóst að hann yrði lamaður á valdastóli það sem eftir tímabilsins væri. Neyddist hann til að sparka Raffarin af valdastóli og skipaði Dominique de Villepin sem forsætisráðherra. Sniðgekk hann þar Sarkozy, en hann fyrirgaf honum ekki svo glatt að hafa ekki stutt sig í baráttunni við Balladur á hægrivængnum árið 1995.

Chirac lagði allt sitt af mörkum til að stjórnarskrárin færi í gegn vorið 2005. Ávarpaði hann þjóðina þrisvar til að reyna að hafa áhrif á hana en hafði ekki erindi sem erfiði. Styrkur hans var að fjara út. Vinsældir forsetans hafa dalað mjög að undanförnu og hneykslismál hafa fylgt honum hin seinni ár. Þrátt fyrir mikinn sigur í forsetakosningunum fyrir fimm árum tókst honum ekki að nota umboðið af krafti og byggja upp sterka stöðu. Hann fjaraði út sem leiðtogi hægt og hljótt.

Og nú er hann að fara. Litríkum stjórnmálaferli er að ljúka. Chirac hefur í gegnum alla slagina og átökin þrátt fyrir allt verið með ímynd baráttumannsins og talinn hafa níu líf eins og kötturinn er kemur að pólitískri forystu. Eftir tvo mánuði flytur hann úr Elysée-höll og heldur á vit eftirlaunakyrrðarinnar út í sveit rétt eins og De Gaulle áður og mun hann ætla sér að flytjast til heimahaganna í Correze með konu sinni Bernadette, sem hann hefur verið giftur í hálfa öld. 

Chirac er langrækinn og sýndi það í verki í kvöld með því að segjast hvergi styðja Nicolas Sarkozy sem eftirmann sinn þó að hann sé langlíklegastur hægrimanna til að hreppa húsbóndatign í Elysée-höll og mælist best nú, sex vikum fyrir fyrri umferðina. En hann mun væntanlega er á hólminn kemur styðja hann.

En nú verða kynslóðaskipti. Það blasir við að nýr forseti Frakklands verði enda fæddur eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, fyrstur til þessa. Það eru kaflaskil í franskri pólitík hvorki meira né minna. Það verður fróðlegt að sjá hvaða hlutverk pólitíski klækjarefurinn frá Correze muni leika eftir lok valdaferilsins.


mbl.is Chirac segist ekki gefa kost á sér áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

jjjjibbæíiii

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 11.3.2007 kl. 22:54

2 identicon

Virkilega skemmtileg lesning, þessi pistill!!

Þorkell Gunnar (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 00:32

3 Smámynd: Pétur Björgvin

Takk fyrir gott yfirlit. Það urðu miklar breytingar þegar De Gaulle dró sig til baka af vettvangi stjórnmála og þá ekki síst á evrópuvettvanginum. Held að það verði sérstaklega spennandi fyrir okkur sem erum ekki í hringiðu innanlandsmála í Frakklandi að fylgjast með áhrifum forystumannaskipta í Frakklandi á Evrópumálin.

Pétur Björgvin, 12.3.2007 kl. 09:12

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mjög góð grein um mann sem þorði að standa á synu og vel það fyrir Land og þjóð/Þo allir væru ekki honum sammála/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 12.3.2007 kl. 11:41

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir góð komment. Gott að lesendur hér höfðu gaman af að lesa þennan pistil.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.3.2007 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband