Stjórnarskrárbreytingar ræddar á Alþingi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Geir H. Haarde, Jón Sigurðsson og Guðni Ágústsson

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, varð í dag fyrsti forsætisráðherra landsins í hálfan þriðja áratug, eða frá forsætisráðherratíð dr. Gunnars Thoroddsens, til að mæla fyrir ráðherrafrumvarpi í eigin nafni í þingsal. Fyrsta umræða um frumvarp um auðlindaákvæði stjórnarskrár Íslands fer nú fram í þingsalnum. Eru skiptar skoðanir þar svo sannarlega um breytingarnar og engin samstaða í sjónmáli. Stefnir væntanlega í að þingið verði lengt.

Þetta er merkilegt frumvarp vissulega. Það er lagt fram af forsætis- og iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Annar þeirra á ekki sæti á Alþingi eins og flestir vita, enda er formaður Framsóknarflokksins utanþingsráðherra. Það er mælt fyrir því í þingsal 60 dögum fyrir alþingiskosningar og gæti orðið hitamál næstu dagana. Ef marka má ræðu Steingríms J. Sigfússonar sem nú stendur yfir verður engin samstaða um afgreiðslu málsins og má telja öruggt að þinglok verði ekki á fimmtudag. Til dæmis eiga eldhúsdagsumræður að fara fram á Alþingi á miðvikudagskvöld. Efast má um að það verði að veruleika að óbreyttu.

Eflaust velta einhverjir því fyrir sér hvort að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, geti borið fram frumvarp til stjórnarskrárbreytinga. Það er að sjálfsögðu ekki óeðlilegt, enda er ráðherrum heimilt að leggja fram frumvörp í eigin nafni skv. 38 grein stjórnarskrár lýðveldisins. En þetta vekur vissulega athygli. Annars er mjög sjaldgæft að ráðherrar sitji þing án þess að vera þingmenn. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti ekki t.d. ekki sæti á Alþingi er hann var fjármálaráðherra 1988-1991 og Geir Hallgrímsson var utanríkisráðherra 1983-1986 án þess að vera kjörinn þingmaður. Báðir voru þeir þó varaþingmenn.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi umræða muni ganga fyrir sig. Það stefnir í átök um auðlindaákvæðið allavega. Tilboð stjórnarandstöðunnar um samstöðu um auðlindaákvæði var greinilega beint tilboð til Framsóknarflokksins en ekki ríkisstjórnarinnar enda breyttist hljóðið í stjórnarandstöðunni við samstöðu stjórnarflokksins. Það var bara hrein og klár leiktjaldasýning.

Að óbreyttu stefnir væntanlega í að þingið verði lengt og fróðlegt hvernig muni ganga í því tilfelli. Hversu lengi mun þinghald standa og hvenær munu þingmenn og frambjóðendur geta hafið kosningabaráttuna á fullu? Þetta eru stórar spurningar nú og ekki síður hvort að stjórnarskrárbreytingin verði afgreidd í hörkulegum átökum stjórnar og stjórnarandstöðu innan við tveim mánuðum fyrir alþingiskosningar.


mbl.is Mælt fyrir frumvarpi um breytingu á stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stjórnarandstaðan bauð stjórnarflokkunum samstarf við að semja þetta frumvarp um breytingu á stjórnarskránni en þeir hunsuðu það, enda þótt örstutt sé til þingloka. Hvers vegna ætti þá stjórnarandstaðan að vera sammála þessu frumvarpi í einu og öllu? Flokkarnir þurfa að sjálfsögðu allir að ræða þetta mál ítarlega og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Frumvarpið er ekki einu sinni borið fram af ríkisstjórninni, heldur formönnum stjórnarflokkanna, og það lá strax fyrir að lengja þyrfti starfstíma þingsins til að hægt væri að ræða þetta stjórnarskrármál og mörg önnur mál fyrir þinglok.

Steini Briem (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 17:45

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mynnir þetta mann ekki á eithvað sem þeir gerðu Davið og Halldór um árið,eða það fynnst mer!!!Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 12.3.2007 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband