Ólafur Ragnar ætlar brátt að kaupa eigið hús

Ólafur Ragnar Grímsson Eitt og hálft ár er nú eftir af þriðja kjörtímabili Ólafs Ragnars Grímssonar. Því lýkur 1. ágúst 2008. Hugleiðingar eru hafnar meðal landsmanna um hvað forsetinn ætli sér að gera að kjörtímabilinu loknu; læta gott heita eða sækjast eftir fjórða kjörtímabilinu á forsetastóli, eins og Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir. Ólafur Ragnar sagði í kosningabaráttunni 1996 að átta ár væru hæfilegur tími á forsetastóli en sóttist engu að síður eftir að sitja hið þriðja.

Í kvöldfréttum var sýnt er forsetahjónin heimsóttu Ártúnsskóla, en hann hlaut íslensku menntaverðlaunin síðastliðið sumar. Þar var forsetinn og svaraði spurningum nemenda skólans. Það mega börnin alltaf eiga að þau spyrja heiðarlega og án hiks. Þau spurðu forsetahjónin af mikilli einlægni. Meðal annars var spurt hvernig forsetanum líkaði að gert væri grín að honum í Spaugstofunni, hvað bílar hans og embættisins væru gamlir, hvar forsetahjónin hefðu hist fyrst og hversu mörg hús hann ætti.

Merkilegasta svarið hjá forsetanum var við síðastnefndu spurningunni. Eins og Ólafur Ragnar minntist á í svarinu á hann ekkert hús. Þegar að hann var kjörinn forseti árið 1996 áttu Ólafur Ragnar og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir heima í raðhúsi á Barðaströnd á Seltjarnarnesi. Þá íbúð eiga nú Guðrún Tinna, dóttir forsetans, og maður hennar, Karl Pétur Jónsson. Sagðist Ólafur Ragnar verða nú að fara að leita sér að nýju húsi. Það blasir auðvitað við að hann þarf að fá sér hús. En er þetta merki um að hann ætli ekki að fara fram aftur og þurfi því brátt á húsi að halda. Stór spurning það.

Forveri Ólafs Ragnars, Vigdís Finnbogadóttir, bjó á Aragötu í Reykjavík áður en hún varð forseti. Hún átti húsið áfram og átti þar eigið heimili í þau sextán ár sem hún sat á forsetastóli. Hluta þess tíma var Bessastaðastofa endurbyggð og því gat forseti ekki heldur hvort eð er búið þar. Undir lok forsetaferilsins var komin íbúð fyrir forsetann aftur í Bessastaðastofu. Er Vigdís lét af embætti var tekið formlega í notkun sérstakt íbúðarhús forseta skammt frá Bessastaðastofu. Ólafur Ragnar hefur einn forseta því búið þar.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Ólafur Ragnar hyggst fyrir. Hann ætlar allavega að fara að kaupa eigið hús. Það er vísbending um að forsetaferlinum ljúki brátt. Það eru skilaboð í sjálfu sér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

(Ákvað að ritskoða og eyða eigin athugasemd - stundum á maður að bara að halda sér saman!)

Haukur Nikulásson, 12.3.2007 kl. 21:14

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Það er valt að treysta ÓRG.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 12.3.2007 kl. 21:15

3 identicon

Dorrit verður klárlega næsti forseti Íslands, þannig að Óli þarf ekki að flytja langt. Og hvar ætti hann svo sem að fá pening til að kaupa hús? Dorrit verður því forseti til að bjarga málunum og lofar Óla að vera stundum í bæjarblokkinni sinni í London þegar honum leiðist að vera forsetamaður. Klikkar ekki. Tilbúinn að veðja hamstrinum upp á það.

Steini Briem (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 21:15

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ætli hann geti hagað sér eins og honum sýnist eftir að hann lætur af embætti?

Ég meina, hvað gæti honum svo sem ekki dottið í hug að gera? Skreyta sig með Fyrrv. Forseta tign og pota sér inn í alþjóðlegar nefndir og ráð. Án þess að hafa nokkurt umboð þjóðarinnar til að tala í sínu nafni. Kæmi mér ekki á óvart þó það verði styr um hann fram yfir gröf og dauða.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.3.2007 kl. 09:03

5 identicon

Ólafur Ragnar er sómi, sverð og skjöldur Íslands og yfirburða "stjórnmálamaður". Ætli hann sé ekki sá eini Íslenskra-stjórnmálamanna í dag sem eitthvað mark er tekið á erlendis. Hann er jafnframt eins og flís í iljum Sjálfstæðismanna sem þeir ná ekki út og pirrar þá sífellt. Ólafur Ragnar er sannur fulltrúi Íslensku þjóðarinnar og stendur ávallt vörð um hagsmuni sinna landsmanna hvort heldur er hinn smæsti bróði/systir eða útrásarjöfur klyfjum hlaðinn gulli. Hans mun í framtíðinni verða minnst sem eins mætasta forseta Íslands fyrr og síða og fyrir alla muni Sjálfstæðismenn veitið honum þá ánægju áfram að öfundast út í hann og allar hans athafnir hversu góðar og gagnlegar sem þær eru.

leibbi (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 10:32

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mmm að tala um að oflesa í eitthvað.. Ég held að það sé ekki til merkis um eitt eða neitt þó Ólafur svari börnunum að hann ætli að fara að kaupa sér hús.  Ég vona allavega að hann sitji sem lengst á forsetastól.  Töff karlinn og vel kynntur víða um heim

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.3.2007 kl. 14:26

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin. Það var gaman að spá aðeins í þetta.... og fínt að fá viðbrögð. Það verður spennandi að sjá hversu fljótt hann þurfi á eigin húsi að halda. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.3.2007 kl. 09:58

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ef ég fengi einhverju ráðið - aldeilis ekki á næstunni

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.3.2007 kl. 12:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband