Forstjórar olíufélaganna þriggja lausir allra mála

Olíufélög Hæstiréttur hefur nú staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. febrúar sl. um að vísa máli ákæruvaldsins gegn forstjórum olíufélaganna á tímum olíusamráðsins frá. Þetta er mjög athyglisverður dómur og hlýtur að skekja samfélagið, enda hefur olíusamráðið verið mjög umdeilt og skapað óvinsældir fyrir bæði olíufélögin og þessa menn á forstjórastóli í samfélaginu.

Fram kemur í dómsorði að fyrirkomulag samkeppnislaga hafi ekki verið nógu skýrt um meðferð máls ef grunur vaknaði um að brotið hefði verið gegn lögunum, og þar af leiðandi óskýrt hvernig með skyldi fara ef tilefni þætti til opinberrar rannsóknar jafnhliða meðferð samkeppnisyfirvalda og hvenær beita ætti refsiviðurlögum. Telur Hæstiréttur ekki nægjanlega fram komið, að í lögreglurannsókninni, sem fór fram í kjölfar meðferðar samkeppnisyfirvalda, hefðu þeir, eins og þeirri rannsókn var hagað, fengið notið þeirra réttinda sakborninga.

Því telur Hæstiréttur að ákæra yrði ekki reist á þeirri lögreglurannsókn og var niðurstaða héraðsdóms því staðfest. Var að lesa dóminn, þetta er mikil bomba en um leið áfall fyrir ákæruvaldið sem hefur runnið á rassinn með þetta mál gegn samráðsforstjórum olíufélaganna og Baugsmálið er orðið mikið fíaskó að mínu mati; stendur ekki steinn yfir steini. Ég sem neytandi í þessu landi lýsi yfir hneykslun minni og undrun á þessum dómi sem er með hreinum ólíkindum.

Það var þann 13. desember sl. sem að Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, gaf út ákæru á hendur Kristni Björnssyni, fyrrum forstjóra Skeljungs, Einari Benediktssyni, forstjóra OLÍS, og Geir Magnússyni, fyrrum forstjóra ESSO. Þeir voru forstjórar olíufélaganna á tímum samráðsins fræga og hafa verið umdeildir vegna þess í huga þjóðarinnar. Ákæra á hendur þeim persónulega, en ekki olíufélögunum sem slíkum, voru stórtíðindi í málinu.

Gögn í málinu virtust mjög ljós í þá átt að olíufélögin þrjú hafi haft með sér mikið samráð á tímabilinu 1993-2001, eða þar til Samkeppnisstofnun hóf formlega rannsókn sína með því að fara inn í fyrirtækin og afla sér gagna um málið. En nú er þetta mál úr sögunni sýnist manni og fróðlegt að sjá hvort, og þá hvað, taki nú við í því.

mbl.is Ákæru á hendur forstjóra olíufélaga vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Óli Bjarnason

Þessi dómur er stór sigur fyrir lögræðið. Það hlýtur að vera ákaflega erfitt að vera múgæsingarmaður á þessum degi.

Rúnar Óli Bjarnason, 16.3.2007 kl. 17:22

2 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Rúnar þú ert væntalega fylgjandi því að sönnunargögn séu útilokuð af því að lögreglumaðurinn sem fann þau var með svarta hanska en ekki hvíta eins og hann átti að vera í samkvæmt lögreglusamþykkt. Mér hefur annars alltaf þótt það sniðug aðferð sem notuð var í villta vestrinu að menn væru ataðir í tjöru og fiðri og sendir úr bænum. Held að sú aðferð ætti vel við í þessu tilfelli fyrst þeir lenda ekki í grjótinu. Vantar ekki líka alltaf íbúa í Kolbeinsey?

Guðmundur Ragnar Björnsson, 16.3.2007 kl. 17:39

3 identicon

Jamm, ljúga, svíkja og stela. Það er allt löglegt og til fyrirmyndar í þessu ríki. Fyrir utan sígarettupakka. Ef þú nappar slíku dýrmæti er það lás og slá. Lyklinum hent í olíupoll og þú verður að grafa þig út. Og Sjallar fitna eins og púkinn á fjósbitanum. Allt í gúddí sumsé.

Steini Briem (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 18:32

4 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Þetta segir kannski meira um ákæruvaldið sem hefur skitið svo feitt upp á bak í svona stórum málum, Þetta og Baugsmálið. Það er eins og reyni að klúðra málum þarna á bæ.

Ómar Örn Hauksson, 16.3.2007 kl. 18:44

5 Smámynd: Rúnar Óli Bjarnason

Niðurstaða hæstaréttar í hnotskurn endurspeglar að í lýðveldinu ráða lög en ekki menn. Ekki einungis fellidómur fyrir ákæruvaldið, heldur fyrir hálfbakaðar samkeppnisreglugerðir sem standast hvorki stjórnarskrá né almenn mannréttindi þegar á reynir. Það er ekkert nema gott um það að segja. 

Rúnar Óli Bjarnason, 16.3.2007 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband