Sjálfstæðisflokkurinn í sókn - aðrir flokkar síga

Könnun (mars 2007) Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst umtalsvert á milli vikna í könnunum Gallups. Í nýrri könnun sem kynnt var fyrir stundu missa allir aðrir flokkar fylgi. VG er enn næststærst, með 25,7%, og mælist með fimm prósentustigum meira fylgi en Samfylkingin. Framsóknarflokkurinn mælist aðeins með 6,9% fylgi og hefur aldrei í sögu kannana Gallups mælst lægri. Frjálslyndir missa flugið og mælast með innan við 5% fylgi, fá því ekki jöfnunarmenn.

Þessi könnun er nokkuð merkileg. Uppsveifla Sjálfstæðisflokksins er vissulega mikið gleðiefni, en hann mælist nú sjö prósentustigum yfir kjörfylginu árið 2003. VG er byrjað að síga eftir langa uppsveiflutíð, en er enn fimmtán prósentustigum yfir kjörfylginu 2003. Samfylkingin heldur sífellt áfram að minnka og er nú komin niður í 20,6%, sem þýðir yfir 10% fylgistap frá síðustu kosningum. Söguleg lægð Framsóknarflokksins eru mjög stór tíðindi, hann mælist 12 prósentustigum undir kjörfylginu 2003 og aðeins með fimm þingsæti. Frjálslyndir hafa misst þrjú prósentustig frá kosningunum 2003.

Ríkisstjórnin mælist fallin þrátt fyrir mikla uppsveiflu Sjálfstæðisflokksins. Þar er um að kenna kreppu Framsóknarflokksins. Það er hætt við að örvæntingin þar í þessari gríðarlegu krísu verði brátt æ meira áberandi. Sama má segja um Samfylkinguna, sem er í frjálsu falli eins og Framsóknarflokkurinn. Það dettur engum lifandi manni í hug að segja að Samfylkingunni hafi tekist að verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í þessari mælingu og pólitísk staða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur sjaldan eða aldrei verið veikari, eins og sást reyndar vel af öryggisleysi hennar í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í vikunni.

Þingstörfum mun væntanlega ljúka á morgun. Þá fer kosningabaráttan væntanlega á annað stig og verður æ meira áberandi. Þessi mæling innan við 60 dögum fyrir kosningar er vissulega mjög athyglisverð og miklar pælingar framundan við að greina hana. Fari staðan á einhvern viðlíka veg hlýtur að teljast eðlilegt að VG og Sjálfstæðisflokkurinn, flokkar í mikilli uppsveiflu, myndi nýja ríkisstjórn. Sitjandi stjórn er allavega heldur betur feig fari Eyjólfur ekki að hressast í Framsókn.

mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst mikið frá síðustu könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kreppa stjórnarflokkanna, varðhunda kvótakerfisins, í hnotskurn:


Um 70% landsmanna eru andvíg núverandi kvótakerfi og því er greinilega kominn tími til að taka upp nýtt og betra kerfi, sem meirihluti þjóðarinnar samþykkir. Ef hér er góð loðnuveiði er heildaraflinn um tvær milljónir tonna á ári og sæi íslenska ríkið í umboði þjóðarinnar um að úthluta veiðiheimildunum til einstakra byggðarlaga til eins árs í senn og tæki fyrir það tíu krónur að meðaltali fyrir kílóið í þorskígildum fengi þjóðin 20 milljarða króna í ríkiskassann. Hægt væri að útdeila þessari fjárhæð aftur til byggðarlaganna með margvíslegum hætti, til dæmis til samgöngubóta eða sem styrk vegna aflabrests. En að sjálfsögðu yrði verðið á aflaheimildunum mjög misjafnt eftir tegundum, til dæmis mun hærra verð fyrir kílóið af þorski en loðnu. Hægt væri að láta hvert byggðarlag fá ákveðnar veiðiheimildir árlega og veiðiheimildir yrðu að sjálfsögðu mismunandi frá ári til árs í samræmi við ástand fiskistofnanna. Veiðiheimildirnar yrðu einungis til eins árs í senn og ekki kvótaeign í nokkrum skilningi. Ríkið úthlutaði eingöngu réttinum til veiðanna og ákvæði hverju sinni hverjir fengju réttinn, til dæmis útgerðir, fiskvinnslufyrirtæki og fiskútflyjendur. Fiskvinnslufyrirtæki og fiskútflytjendur gætu greitt útgerðum fyrir að veiða fyrir sig upp í veiðiheimildir sem keyptar hefðu verið. Og þeir sem hefðu áhuga á að hefja veiðar í fyrsta sinn ættu kost á því, þannig að nýir aðilar væru ekki útilokaðir frá veiðunum, eins og nú er mikið kvartað yfir.


Tíu krónur fyrir kílóið í þorskígildum gæti að sjálfsögðu verið lægri eða hærri upphæð eftir atvikum. Sagt er að nú greiði lítil byggðarlög, til dæmis á Vestfjörðum, allt að einum milljarði króna á ári fyrir veiðiheimildir og þessar fjárhæðir muni fyrr en varir leggja allar minni sjávarbyggðir í auðn. Og þrátt fyrir að útgerðarmenn kaupi og selji aflakvóta fyrir gríðarlegar fjárhæðir á ári, jafnvel einn milljarð í litlu sjávarplássi, segjast þeir ekki hafa efni á að greiða hóflegt gjald fyrir veiðiheimildirnar ef núverandi kerfi yrði lagt af. Það er nú ekki mjög trúverðugt. Margir hafa velt fyrir sér hvernig hægt sé að leigja þorskkvóta fyrir 155 krónur kílóið til eins árs og haft eitthvað upp úr því. Og sumir halda því fram að greiða þurfi allt að 75% af aflaverðmætinu í leigu fyrir kvótann. Verð fyrir kílóið af "varanlegum" veiðiheimildum í þorski í aflamarkskerfinu var komið uppfyrir 2.200 krónur í nóvember síðastliðnum en krókahlutdeildin kostaði þá um 1.900 krónur. Og sagt er að nú sé þorskverðið á "varanlegum heimildum" sem útgerðarmenn kalla svo, komið yfir 2.500 krónur fyrir kílóið. Það er engum blöðum um það að fletta að útgerðarmenn telja sig eiga aflakvótana á allan hátt, bæði í orði og á borði, og munu með kjafti og klóm berjast fyrir því að "eiga" þá áfram.


Hugtökin "þjóðareign", "ríkiseign" eða "sameign þjóðarinnar" í stjórnarskrá hefur ekkert að segja í þessu sambandi, ef útgerðarmennirnir eiga í raun aflakvótana, fara með þá sem sína eign, veðsetja þá, þess vegna hjá "íslenskum" bönkum sem eru og verða í raun erlendir, að hluta til eða jafnvel öllu leyti. Eigandi kvótans getur þess vegna verið íslenskur ríkisborgari sem býr á Bahamaeyjum, kemur hingað aldrei og hefur engan áhuga á afkomu íslenskra sjávarplássa. Hann hefur eingöngu áhuga á arðinum, fiskvinnslan og fólkið sem býr í sjávarplássunum er réttlaust hvað varðar sína afkomu. En þessu má engan veginn breyta, þá fer allt landið á hliðina, segja útgerðarmenn og sporgöngumenn hennar á þingi. Þjóðin á að vera eignalaus, getur aldrei eignast neitt og útgerðarmenn eiga að sjá um að eiga hlutina fyrir hana, frekar en ríkið. Það er kommúnismi og getur aldrei gengið upp í lýðræðisríki. Kommúnismi hins eldrauða Mogga. Og margir þeirra sem eru algjörlega andvígir inngöngu Íslands í Evrópubandalagið verja þetta kvótakerfi okkar út í ystu æsar, enda þótt eigendur kvótans gætu fyrr eða síðar allir verið íslenskir ríkisborgarar búsettir í Evrópu, þess vegna kvæntir erlendum konum sem fengju þá helming hagnaðarins af veiðum "íslenskra" skipa. 


Aflakvótar eru nú fluttir og seldir á milli landshluta í stórum stíl og einn útgerðarmaður getur lagt heilt byggðarlag í rúst með því að landa aflanum annars staðar eða selja kvóta "sinn" til annarra landssvæða. Vilja menn hafa þetta kerfi áfram? Meirihluti þjóðarinnar segir nei takk og 70% hennar hlýtur að vera fólk í öllum flokkum. Hagsmuna útgerðarmanna var hins vegar gætt á Alþingi að þessu sinni, þó þeir geti þess vegna búið á eyju í Karabíska hafinu. Þjóðin vill hins vegar að nýtt frumvarp um breytingu á stjórnarskránni verði lagt fram á næsta þingi, frumvarp sem gæti fyrst og fremst hagsmuna þjóðarinnar og einstakra byggðarlaga. Veiðiskip eru nú verðlítil eða verðlaus hér án aflakvóta. En þegar þau yrðu ekki lengur með "varanlegan" veiðikvóta fengju þau eðlilegt og raunverulegt verðmæti og úthlutaðan kvóta í sínu byggðarlagi, og myndu landa afla sínum þar. Byggðastofnun sagði í október 2000 að veikleikar sjávarbyggða á Vestfjörðum væru meðal annars versnandi kvótastaða, afli fluttur óunninn í burtu, erfiðar vegasamgöngur og lágt fasteignaverð.


Þannig ganga kaupin fyrir sig á eyrinni, samkvæmt Þórólfi Matthíassyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, og Ólafi Klemenssyni, fiskihagfræðingi hjá Seðlabanka Íslands:

Markaðsvirði Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum var 6,3 milljarðar króna árið 2002, eigið fé  tveir milljarðar, kvótastaðan var 15 þúsund tonn og bókfært verðmæti kvótans 1,7 milljarðar króna. Verð á kvóta á hlutabréfamarkaðnum var 403 krónur fyrir kílóið en þorskígildistonnið var þá selt á 1.070 krónur.

Lögmálið um eitt verð sem sagt ekki í gildi. Hlutabréfamarkaðurinn verðleggur kvótaeign sjávarútvegsfyrirtækja en mikill munur er á verði á kvótamarkaði og óbeint á hlutabréfamarkaði. Mögulegar ástæður ólíkrar verðmælingar geta annars vegar verið mæliskekkja, þannig að þorskígildi séu "ranglega" skilgreind, uppsjávartegundirnar fái of hátt vægi, fleira sé ómetið en upprunalegur kvóti (gjafakvóti), eða stjórnendaauður, viðskiptavild, og hins vegar ólíkar væntingar, þannig að kaupendur og seljendur á kvótamarkaði séu ekki þeir sömu og kaupendur og seljendur á hlutabréfamarkaði.

Verð á hlutabréfamarkaði ræðst af verði á lönduðum afla, sóknarkostnaði, líkindum á tækniframförum og hversu miklar þær gætu orðið hvað sóknina snertir, heimiliðum heildarafla, ávöxtunarkröfu og veiðigjaldshlutfalli.


Magnús Thoroddsen hæstarréttarlögmaður segir meðal annars í tillögu sinni um nýtt ákvæði í stjórnarskránni um þjóðareign á auðlindum:

"Tilgangurinn með því að stjórnarskrárbinda nýtt ákvæði þess efnis, að "náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign" hlýtur að vera sá, og sá einn, að þjóðin öll skuli njóta arðsins af þeim. Því þarf að búa svo um hnútana í eitt skipti fyrir öll, að þessar auðlindir verði aldrei afhentar einhverjum sérréttindahópum á silfurfati. Ég leyfi mér því að leggja til, að þetta stjórnarskrárákvæði verði svohljóðandi:

"Náttúruauðlindir Íslands, hvort heldur er í lofti, legi eða á láði, skulu vera þjóðareign. Þær ber að nýta til hagsbóta þjóðinni, eftir því, sem nánar er ákveðið í lögum. Heimilt er að veita einkaaðiljum, afnota- eða hagnýtingarrétt á þessum auðlindum til ákveðins tíma gegn gjaldi, hvort tveggja ákveðið í lögum. Slík afnotaréttindi geta aldrei skapað eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðilja yfir náttúruauðlindinni."

Steini Briem (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 19:37

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Allt stefnir í samstarf Sjálfstæðisfl.og VG.Þá gæti hugsanlega Sjálfstæðisfl., fengi hann 24 - 25 þingm.haldið áfram í stjórn með Framsókn og bætt við Frjálslindum.Þetta verður allavega spennandi kosningar,svo gæti framboð Margrétar og Ómars slætt 3-4 þingmönnum,sem væntanlega tekur sér stöðu með íhaldinu.Eina vonin til að tryggja vinstri stjórn,er að Samfylkingin verði stærri en VG.Ingibjörg verður engin stýrimaður hjá Steingrími.

Kristján Pétursson, 16.3.2007 kl. 21:51

3 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Einu má ekki gleyma með Framsóknarfylgið, helstu fylgismenn framsóknarflokksins eru út að mjólka eða fóðar búfénað þegar þessar skoðanakannanir fara fram og því er alltaf "ósvarað" 5% fylgi sem kemur ekki fram fyrr en á kjördag.

Ef þú bætir 5% á framsóknarflokkinn, þá stendur ríkisstjórnin bara vel með 52,1%.

Júlíus Sigurþórsson, 16.3.2007 kl. 23:16

4 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Þetta er broslegur og einn besti punktur sem ég hef heyrt lengi, bændurnir eru ti að mjólka á meðan skoðanakannanir eru gerðar, það er nokkuð til í þessu. Góður punktur Júlíus.

Sigfús Sigurþórsson., 17.3.2007 kl. 00:36

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Hanna Birna: Takk! Skil vel að þú sért ekki sátt. Það virðist ekki blása byrlega fyrir frjálslyndum í síðustu könnunum og nú er FF kominn undir jöfnunarmannalágmarkið.

Steini: Merkileg skrif, þetta er veglegt komment, mikið að vöxtum. Renndi yfir þau.

Steingrímur: Sjálfstæðisflokkurinn hefur að mínu mati færst mjög á miðjuna, haldið í vinstriátt semsagt, á formannsferli Geirs Hilmars Haarde og breyst talsvert. Hann er ekki að herja á ósvipuð mið og David Cameron í Bretlandi. Breski Íhaldsflokkurinn hefur breyst verulega á því ári sem Cameron hefur leitt hann og frá því að Michael Howard hætti. Þetta sýna umhverfistillögur breskra íhaldsmanna vel. Sjálfstæðisflokkurinn er mjög fjölbreyttur flokkur, þar er fólk úr öllum stéttum og með ólík sjónarmið. Enda er landsfundur Sjálfstæðisflokksins mjög sterkur fundur og þar eru mjög ólík sjónarmið uppi í umræðum. Mjög einstakt andrúmsloft þar. Myndi veðja þó á svar númer tvö, ef mið er tekið af þeirri keyrslu sem forystan er á nú.

Kristján: Tek undir þetta. Góðar pælingar. Á eftir að velta mér meira fyrir þessu með morgni sennilega. Gott að fá þetta innlegg. Þessi könnun er merkileg. Það hlýtur að fara að verða örvæntingarblær yfir hjá Framsókn og Samfylkingu. Í kosningunum 2003 fengu þessir flokkar þingmeirihluta, 32 þingsæti. En mælast nú í þessari könnun með 19 þingsæti. Rosalegt fall það!

Júlíus: Þessi stjórn mun ekki halda saman upp á minna en tveggja til þriggja sæta meirihluta. Mjög einfalt mál. Fari Framsókn undir 10% eru það skilaboð um stjórnarandstöðuveru næstu fjögur árin fyrir þá, enda yrðu þeir aldrei sterkt afl innan stjórnar með minna og skipta þannig séð engu máli. Þolmörk þeirra eru 10%, en þeir eru mun verr staddir nú en á sama tímapunkti fyrir fjórum árum. Þetta stefnir frekar á verri veg. Svo virðist sem flokksþingið hafi í raun engu skilað fyrir þá, merkilegt nokk. En Framsókn rís eitthvað, en samt, það stefnir í sögulegt afhroð Framsóknar þó að þeir rísi um fjögur prósent frá þessu. Þeir verða að ná 12% hið minnsta til að verða eitthvað á næsta kjörtímabili.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.3.2007 kl. 00:53

6 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Ekki heldur gleyma því að 51% fylgi getur þýtt mun meira en 1 - 2 umfram þingsæti.

Ef við teljum flokkana sem hugsanlega verða í framboði, á landsvísu eða í fáum kjördæmum, Sjálfstæðisfl, Vinstri græn, Samfó, Framsókn, Frjálslyndir, Íslandsflokkur, öryrkjar/aldraðir og kristið framboð. Þá er HELLINGUR af atkvæðum sem falla dauð því þau duga ekki í þingsæti. hátt í 8% atkvæða geta fallið dauð. Tæknilega þarf 1,59% atkvæða til að ná einum manni (ef landið væri eitt kjördæmi), því geta 8 framboð haft 1,5% af dauðum atkvæðum hver, án þess að ná inn manni út á þau.

Þetta er vissulega rosanleg einföldun, en samt staðreynd sem þarf að reikna inní.

Júlíus Sigurþórsson, 17.3.2007 kl. 11:50

7 identicon

"Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að sjálfstæðisflokkurinn er ekki stjórnmálaflokkur heldur fyrst og fremst hagsmunafélag - ef ekki hreint og beint glæpamafía!"
svona málflutningur á ekki rétt á sér og geri ég ráð fyrir því að sá er ritaði þetta muni koma fram með afsökunarbeiðni til Sjálfstæðismanna.
Annars varðandi þessa könnun, tvennt Sjálfstæðisflokkurinn er að styrkja sig og er það gott og hitt er sá veruleiki að sf er orðinn 3 stærsti flokkur landsins. Ingibjörg er á leið út úr pólitík, það er alveg deginum ljósara.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 13:08

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Óðinn: Þakka þér fyrir gott komment.

Steingrímur: Ég hef verið í Sjálfstæðisflokknum í einn og hálfan áratug, ég þarf ekki að fá annan einstakling til að segja mér hvernig að ég lít á flokkinn minn núna. Það sjá allir menn að Geir er mun meira á miðjunni eða til vinstri við Davíð Oddsson. Það er mjög einfalt mál. Það verða alltaf breytingar með nýjum leiðtoga. Það gerðist með innkomu Geirs. Bæði hefur hann mildara yfirbragð og er ekki algjörlega á sama stað og DO pólitískt.

Þorgerður Katrín hefur talað gegn einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég hef alla tíð litið á hana sem vinstra megin við mig allavega. Ég hef margoft skrifað gegn ummælum Þorgerðar Katrínar um RÚV og hef ekki verið með neitt halelúja á hana í gegnum tíðina, þó að mörgu leyti líki mér vel við hana sem persónu. Ég kaus ekki Þorgerði Katrínu í varaformannskjörinu haustið 2005, eins og flestir sennilega vita.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið flokkur allra stétta. Þar liggur einmitt farsæld hans í pólitíska litrófinu hér. Hann hefur verið með stöðu norrænu jafnaðarmannaflokkanna. Sterk hægriflokks hér hefur alla tíð verið afgerandi og alltaf verið stærstur á lýðveldistímanum. Meira að segja hinn sári klofningur flokksins fyrir tveim áratugum og söguleg fylgislægð breyttu því ekki.

Finnst ummæli þín vera frekar ógeðfelld þarna í endann og beini því til þín að taka upp settlegra orðaval hérna ef þú vilt að kommentin þín standi hér framvegis Steingrímur!

Júlíus: Já, vissulega. Hinsvegar er ég handviss um að Framsókn mun ekki geta krafist neins í stjórnarmyndunarviðræðum með 10% mínus, ef hann fær minna en þetta mark er hann einfaldlega hliðarflokkur sem fer ekki í tveggja flokka stjórn. Það er mitt mat. Sjálfstæðisflokkurinn mun horfa annað ef stjórnin heldur með einum manni. Það þarf rýmri meirihluta, þetta fór svona er stjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks hélt með einum manni árið 1995. Davíð Oddsson horfði þá til Framsóknarflokks sem sterks flokks í tveggja flokka stjórn. Er samt viss um að Framsókn eflist eitthvað, þeir ættu að fara allavega upp í 12% en það virðist samt stefna þar í sögulegt afhroð, að óbreyttu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.3.2007 kl. 16:38

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Af hverju ertu að spyrja ef þú telur þig vita hvað ég hugsa? Varstu kannski að vona að ég myndi svara öðruvísi til að snapa upp einhver leiðindi. Mér finnst það alveg afgerandi að Sjálfstæðisflokkurinn hefur færst til vinstri og hika ekki við að segja það. Svar númer tvö finnst mér afgerandi svar hvað mig varðar.

Það má kannski segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi breyst frá því að ég gekk fyrst í hann. Það má vera. Ég er að mörgu leyti ósammála menntamálaráðherranum pólitískt og hika ekkert við að segja það. Það eru ýmis mál sem valda því. Ég hef aldrei verið neinn halelúja maður innan Sjálfstæðisflokksins. Ef ég er ósáttur við eitthvað læt ég það flakka.

Mér fannst ummæli þín ekki góð. Þessi vefur er mitt heimili á netinu. Það gildir það sama um hann og eiginlega heimili mitt. Það eru svosem allir velkomnir en það gilda reglur um vefinn. Ég er ekki að bjóða hér upp á nafnlaust spjall eða ómálefnalegar umræður. Það er einfalt mál.

Ég loka á þá hér sem fara yfir strikið og spyr enga aðra að því. Þetta er minn vefur og ég leyfi fólki hér að tjá sig en það verður að vera á siðlegum og málefnalegum nótum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.3.2007 kl. 18:15

10 identicon

Stefán, ég er að reyna að fá þig til að hugsa öðruvísi, örva þig.  Ég veit að þú ert góður maður, en ert bara  á villigötum.  Þú ert eins og ég lýsti hér að ofan - þú vilt trúa á flokkinn því þú vilt ekki hafa rangt fyrir þér, en þú veist dýpst niðri að stefna hans gengur ekki upp - enda er flokkurinn falskur.

Ég lagði fyrir þig tvær mjög óþægilegar spurningar - fór yfir strikið af ásettu ráði í þeirri seinni í leit af viðbrögðum og ég get alveg sagt þér að þau komu mér ekkert á óvart.

Fyrri viðbrögðin gengu hreint og beint ekki upp.  Þú talar um að flokkurinn hafi færst til vinstri eftir að Geir tók við af Davíð en:

  1. Þorgerður Katrín talaði um Sjálfstæðisflokkinn sem jafnaðarmannaflokk veturinn 1998-1999 en ef marka má orð þín þá telur þú hann hafa verið mun lengra til hægri.
  2. Allt stefnir í að fjöldi öfgahægrisinnaðra þingmanna sjálfstæðisflokksins muni aukast eftir kosningarnar í vor ef fólk eins og Sigríður Andersen og Illugi Gunnarsson kemst á þing - sá síðarnefndi segir sig reyndar tala um fyrir jöfnuði til tækifæra, en veit ekki hvað það er!

Hvað hitt atriðið varðar þá voru viðbrögð þín að afneita öllu slæmu sem Flokkurinn gæti hafa komið nálægt - en þó verður dæmunum sem ég nefndi ekki neitað.  Ég var hálft í hvoru að reyna að veiða þig í þá gildru að segja að þetta væru menn með vonda samvisku að verja sig vegna vondra mála í dómstólum - en þessi ummæli komu löngu áður en þau mál  komu upp. 

Í þessu sambandi langar mig til að spyrja þig einnar erfiðrar spurningar í viðbót:  Finnst þér, Stefán, eðlilegt í lýðræðisríki að ritstjóri dagblaðs - sem vill svo til að er framámaður í stjórnmálaflokki - eigi reglulega fundi með ráðherrum ríkisstjórnar?

Ef allt hefði verið eðlilegt þá hefðir þú ekki þurft að semja svar upp úr engu eða neita umræðu um erfið mál.  Þú hefðir átt að geta sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur sannað með verkum sínum að það að treysta á einstaklingsframtakið sé öllum til framdráttar og vísað í verk því til stuðnings. Einnig hefðir þú átt að geta sagt að allar sögur um eitthvað misjafnt í rekstri flokksins séu heilaspuni minn sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. 

Stebbi - hugsaðu um það - af hverju þarftu að skálda svar og af hverju hafnarðu öllu misjöfnu í kringum flokkinn?

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband