Bloggvefurinn horfni og umdeildu ummælin

Ég fékk þónokkur viðbrögð við skrifum mínum hér um bloggummæli Guðbjargar Hildar Kolbeins og það sem ég sagði um vefinn hennar eftir að hún lokaði honum í kjölfar umdeildra ummæla um auglýsingablað Smáralindar. Enn bar þó á þeim misskilningi að ég væri að tala gegn því að hún hefði skoðanafrelsi. Gagnrýnin snerist fyrst og fremst að orðavalinu. Það hvernig hún orðaði hlutina var langstærsti þáttur þess hversu gagnrýnin á hana varð rosalega mikil og afgerandi. Varð ég enn og aftur að taka þetta fram, mér til nokkurrar furðu, enda taldi ég mig hafa sagt þetta nógu oft og skýrt auðvitað.

Það að kona í hennar stöðu lét slíkt orðbragð frá sér fara var stór þáttur gagnrýninnar líka að mínu mati. Margir hafa verið á sama máli í þessu og ég, en sumir héldu umræðunni áfram frá sama grunni, eftir fyrri skrif mín. Það var frekar undarlegt. En það er bara eins og það er. Það að Guðbjörg Hildur hafi tekið vefinn niður var viðurkenning þess að hún gat ekki feisað vettvanginn lengur eftir þessa gagnrýni. Það má vel vera að það sé erfitt að biðjast afsökunar á vondu orðbragði, en ég er þess fullviss að margir hefðu metið þá afsökunarbeiðni mikils eins og komið var málum.

En það var ekki á dagskrá greinilega. Í dag voru ýmsar sögusagnir um að Guðbjörg væri hætt í Háskólanum og horfði til annarra verkefna. Þekki það ekki og skipti mér ekki af því. Mér fannst þessi ummæli lágkúruleg og fannst rétt að tjá þá afstöðu. Afsökunarbeiðni fannst mér eðlilegt ferli. Hún tók út umdeildu skrifin en baðst aldrei afsökunar á þeim. Með því að taka skrifin út og síðar loka vefsetrinu var tekið að mínu mati undir harða gagnrýni og hún hopaði án þess að taka aftur ummælin. Málinu lauk því snaggaralegum hætti.

Ég stend hiklaust við þá skoðun mína sem ég hef birt hér um þessi ummæli. Fannst rétt að benda á þau. Fannst þó heiðarlegt að tala rólega um málið í viðtalinu á Rás 2 nýlega, þó ég hafi vissulega svona sagt mitt um það. Viðbrögðin við þessu sýndu mjög vel hversu sterkt netið er. Auglýsingaherferðin sem sýnd var nýlega í sjónvarpi um ómálefnaleg netskrif kom ljóslifandi fram í þessu tilfelli. Það er ekki sama hvernig að þú talar og skrifar á netinu. Það er opinn vettvangur. Farirðu yfir strikið færðu að kenna á því. Einfalt mál!

Þetta mál sýnir okkur vel siðferðismæla netsins og að það er fylgst vel með því sem þar gerist. Hvassyrt orðalag getur enda vakið mikla bylgju andúðar og kallað á sterk viðbrögð. Þetta mál hefur sýnt okkur það mjög vel, enda eitt hið umdeildasta í netheimum í seinni tíð. En þar var talað gegn orðalagi, en ekki skoðunum. Það er allavega mitt mat.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

heyr heyr Stefán

Guðmundur H. Bragason, 17.3.2007 kl. 01:42

2 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Það hefur alla tíð þótt stórmannlegt að biðja afsökunar á mistökum sínum einfaldlega vegna þess að það er mjög erfitt.  Allir geta hlaupið á sig en þegar fólki er það ljóst að það hafi valdið öðrum tjóni með frumhlaupi sínu þá telst það ófyrirgefanlegt að reyna ekki að bæta fyrir það.

Ester Sveinbjarnardóttir, 17.3.2007 kl. 02:09

3 identicon

Frelsi til að segja skoðanir sínar er einn af hornsteinum lýðræðisins, svo framarlega sem þær eru innan marka laganna. Og það er lögfræðinganna með brjóstvitið að finna út hvar sú lína liggur nákvæmlega, en ekki amennra bloggmeistara, enda þótt sauðsvartur almúginn geti náttúrlega slumpað á það hvar hún er staðsett í veröldinni. Forstjórar olíufélaganna eru til dæmis saklausir sem nýfæddir hvítvoðungar, enda þótt fávís almúginn hafi talið þá seka sem mink í hænsnabúi og þeir hafi stolið milljörðum frá fólki og fyrirtækjum.

Hins vegar hefur þetta mál fengið mun meiri umfjöllun hér en olíumálið. Hvort er stærra? EF háskóladaman braut gegn einhverjum var það gegn einum einstaklingi en forstjórar olíufélaganna brutu vísvitandi gegn öllum í landinu á mörgum árum. Við höfum sem sagt leyfi til að haga okkur fáranlega EF það er löglegt. Við gætum hins vegar sagt að háskóladaman hafi verið siðlaus í þessu máli eins og forstjórar olíufélaganna í sínu máli en það er hvers og eins að meta það fyrir sig. Við getum sagt okkar skoðanir á því en þær eru hvorki réttar né rangar.

Steini Briem (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 10:09

4 Smámynd: Hallgrímur Egilsson

Steini Briem... Það hefur hvergi komið fram að olíuforstjórarnir séu saklausir! Sú ákvörðum dómstólanna að vísa málinugegn þeim frá á ekkert skylt við sekt eða sakleysi!!!

Hallgrímur Egilsson, 17.3.2007 kl. 10:48

5 identicon

Ég nenni nú ekki að hengja mig í einhvern orðhengilshátt í þessu máli, enda þótt það geti náttúrlega verið skemmtilegt að hengja sig á góðum degi. Menn eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð og sekt manna er ekki vísað frá. Annað hvort brýtur Jón Hreggviðsson lög eða hann brýtur ekki lög. Ef maður hendir gamalli konu fyrir lest og henni hefur aldrei liðið betur eftir þá óperasjón, fær jafnvel minnið aftur, er ekki þar með sagt að athæfið hafi verið löglegt og bara allt í keyinu á allan hátt. Það væri trúlega talið siðlaust líka að bestu manna yfirsýn og í grjótið með þig. En í tilfelli olíufurstanna hér var það talið löglegt að féfletta gamlar konur. Bara lögfræðilega allt í keyinu, enda þótt það hafi ekki talist vera til fyrirmyndar í þetta stórum skala og umfangi öllu á landsvísu. En hafa olíufurstarnir beðist afsökunar á þessu litla atriði og ætla þeir að gera það? Fjandinn fjarri þeim!

Ég er líka alveg viss um að þeir hefðu ekki beðist afsökunar, enda þótt þeir hefðu verið dæmdir sekir. En þeir voru dæmdir sýkn saka og þar með saklausir af því að hafa brotið lögin, þannig að þeir geta ekki verið sekir, samkvæmt lögum, enda þótt þeir hafi verið þjófar. Sem sagt, þjófarnir Kasper, Jesper og Jónatan eru í fullkomlega lögmætri starfsgrein og stéttarfélagi. Hins vegar tók Bastian bæjarfógeti pokann sinn vegna þess að hann hafði verið í vinnu hjá þeim félögum. Hér er afsökunar krafist trekk í trekk af Tóbíasi bæjarvitringi vestur á Melum fyrir að hafa tjáð sig um hugsanlega siðlegar eða ósiðlegar stellingar í auglýsingapésa, sem Smáralind hlýtur að greiða honum fyrir að auglýsa, en hversu margar kröfugerðir og innheimtubréf eru hér uppi um að olíufurstarnir leggist á hnén og grátbæni oss um fyrirgefningu syndanna? Hvar eru þeir stefnuvottar allir?

Við læðumst hægt um laut og gil
og löglega þræðum götur
á seðlasekki heldur einn
en hinir bera olíufötur.
Þó störfum við aldregi of eða van,
hvorki Kasper né Jesper né Jónatan.
         

Steini Briem (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 12:10

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Við vitum ekkert hvers vegna Guðbjörg lokaði síðunni sinni eða hvað hún er að hugsa. En við getum ekki stillt fólki upp þannig að ef það gerir ekki það sem VIÐ viljum sé það óalandi og óferjandi. Menn geta verið ósammála orðalagi og skoðunum Guðbjargar en fáir hafa mátt þola jafn miklar persónulegar svívirðingar og hún upp á síðkastið varðandi hugarheim hennar og innræti, siðferðisstig, menntun og hæfni  í starfi. Þessi aðför að henni sem einstaklingi er viðkomandi bloggurum til háborinna skammar.  Svo finnst mér það ekki koma málinu við hvaða starfi bloggarar gegna. Þeir blogga sem einstaklingar og eiga að hafa frelsi til að haga orðum sínum sem slíkir en ekki sem embættismenn þó þeir séu það í starfi. Tamið og nett orðalag í bloggi, ópersónulegt og steingelt, er vísasti vegurinn til að ganga að blogginu dauðu. Svo finnst mér það heimska að segja að gagnrýni, þó hörð sé og harkaleg (jafnvel óréttmæt), á þá hugmynd sem gagnrýnandinn sér að baki módelmyndar sé persónuleg árás á módelið sem einstakling. Það er Íslendingum líkt að persónugera alla hluti.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.3.2007 kl. 13:15

7 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Það voru milli 2 og 4000 mans sem byrjuðu að blogga um þessa umsögn Guðbjargar á SÖMU sékútninni, bæði hér á Mbl blogginu og svo öðrum bloggvefum, sumir létu mörg miður skemmtileg orð frá sér fara og ekki er það til fyrirmyndar, flestir sögðu sitt álit með skírum hætti og svo punktur basta, aðrir voru sárari og héldu áfram, en eru nú hættir, svo er einn og einn sem klifar á þessu máli og tel ég það okkur ekki til sóma (tek það fram að stutt er síðan ég bloggði um þetta) Nú er staðan að breytast hjá mér, úr því að fyrirlíta Guðbjörgu og í það að vorkenna henni, og það er einmitt það sem mig grunar að muni ské með áframhaldandi skrifum um þetta mál. Ég hef þá skoðun að hún sé búin að fá sína refsingu, þótt vænt hefði verið að fá afsökunarbeyðnina. sem hefði verið best að hún gerði beint við telpuna og hennar fólk.

Varðandi

Sigfús Sigurþórsson., 17.3.2007 kl. 13:28

8 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Það voru milli 2 og 4000 mans sem byrjuðu að blogga um þessa umsögn Guðbjargar á SÖMU sekútunni, bæði hér á Mbl blogginu og svo öðrum bloggvefum, sumir létu mörg miður skemmtileg orð frá sér fara og ekki er það til fyrirmyndar, flestir sögðu sitt álit með skírum hætti og svo punktur basta, aðrir voru sárari og héldu áfram, en eru nú hættir, svo er einn og einn sem klifar á þessu máli og tel ég það okkur ekki til sóma (tek það fram að stutt er síðan ég bloggði um þetta) Nú er staðan að breytast hjá mér, úr því að fyrirlíta Guðbjörgu og í það að vorkenna henni, og það er einmitt það sem mig grunar að muni ské með áframhaldandi skrifum um þetta mál. Ég hef þá skoðun að hún sé búin að fá sína refsingu, þótt vænt hefði verið að fá afsökunarbeiðnina. sem hefði verið best að hún gerði beint við telpuna og hennar fólk.

Varðandi færsluna þína hér á undan þessari er ég mjög sáttu, er þó ekki sammála þér með að VG muni hníga þótt mér sé alveg svosem sama um það.

Skemmtilegt og gott blogg hjá þér Stefán, þakka fyrir mig. SigfúsSig.

Sigfús Sigurþórsson., 17.3.2007 kl. 13:32

9 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Sorry, færslan virðist hafa farið inn áður en ég var búinn að klára og íta á Senda????????????

Sigfús Sigurþórsson., 17.3.2007 kl. 13:34

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er 100% sammála honum Sigurði Þór þegar hann skrifar að við getum ekki stillt fólki upp við vegg og krafist af því að gera þetta eða hitt.  Ég tel að Guðbjörg hefð mátt biðja afsökunar.  Mér finnst þessi gjörgæsla á málinu, þe að halda því gangandi endalaust orðin þreytandi og algjörlega óþörf.   Bloggsíðu konunnar hefur verið lokað.  Aðeins hún getur ákveðið hvernig hún ætlar að bregðast við.

Nú er mál að linni. Amen.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.3.2007 kl. 15:56

11 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Guðmundur: Takk fyrir góð orð.

Ester: Mjög gott innlegg. Þakkir fyrir það.

Keli: Mjög vel orðað innlegg og áhugavert. Margt svo sannarlega til í þessu. Menn eiga alltaf að vera rólegir í orðavali. Eitt er að hafa skoðun, annað að sökkva skoðuninni í fen lágkúru. Vont orðaval getur gert skoðunina óverjandi. Gleymum því ekki. Það er vont að missa skoðunina út í óverjandi lágkúruummæli en það var einmitt það sem gerðist í þessu máli. Svo fór sem fór.

Steini: Mér finnst alveg út í hött að líkja þessu vonda orðavali Guðbjargar við olíusamráðsmálið. Undarleg samlíking. Er ekki sammála henni.

Hallgrímur: Góð ábending.

Sófús Árni: Góðar ábendingar og ummæli. Við erum mjög sammála í þessu máli. Líst mjög vel á þá punkta sem þú hefur komið með hér. Þakka kærlega fyrir þá, enda eru þeir alveg eins og talaðir út úr huga mér.

Sigurður Þór: Þakka þér fyrir kommentið. Já, ég dreg það ekki í efa að þetta mál hefur verið þessari konu erfitt. En hún hóf það með afleitu orðavali og hefði átt að slútta þessu með stuttu kommenti og draga ummælin til baka eða reyna að milda höggið. Ekkert slíkt gerðist og því magnaðist þetta enn meira upp. Þetta var mjög illa höndlað af henni og boltinn varð sífellt stærri, hlóð utan á sig hratt og ákveðið. Það fór sem fór. Er ekkert illur út í þessa konu, en fannst henni verða mjög á og frekar leitt að hún skyldi ekki ljúka þessu með bravúr, sem stutt og snörp skrif til að milda þetta hefði orðið án vafa. Þetta er gott merki um það að netið er mjög lifandi og við sjáum það vel hvað getur gerst með röngu orðavali. Öll munum við eftir nýlegum sjónvarpsauglýsingum um netið og skrif ungs manns. Fannst þetta vera lifandi versíón af því.

Sigfús Sig: Takk fyrir gott komment. Er sammála því.

Jenný Anna: Þetta er mjög vont mál. Það er alveg ljóst. Afsökunarbeiðni hefði slegið þetta út af borðinu. En það kom ekkert slíkt. Frekar leitt bara, enda hefði það orðið endalok sem enginn hefði getað fundið að. En málið virðist vera búið. Ætlaði ekkert að skrifa meira um þetta, en þessi viðbrögð sumra um að ég væri að vega að skoðanafrelsi hennar þótti mér fyrir neðan allar hellur og svaraði því. Enda hef ég alltaf talað um orðavalið. Henni er að sjálfsögðu heimilt að telja blaðið og uppstillingu þessa alls afleitan hlut en uppsetning orða var það sem gerði allt vitlaust. Það hljóta allir að sjá það.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.3.2007 kl. 16:27

12 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þar erum við sammála Stefán.  Þetta er bara orðin svo mikil langloka, allt hefur í raun verið sagt og eftir stendur kona sem hreinlega hefur valið að þegja þunnu hljóði.  Ég hef á tilfinningunni að ekkert breyti því.  Ég dreg mig alla vega í hlé frá þessu máli.

Takk fyrir góða pistla Stefán.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.3.2007 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband