Mona Sahlin leiðir sænska krata í stað Persson

Mona Sahlin Mona Sahlin var í dag kjörin leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins í stað Göran Persson sem hefur leitt hann í ellefu ár og var forsætisráðherra Svíþjóðar í áratug, 1996-2006. Sahlin er fyrsta konan sem leiðir sænska krata og sem leiðtogi annarrar lykilblokkar sænskra stjórnmála. Sænskir kratar misstu völdin í október í fyrsta skipti í tólf ár, og eru nú að upplifa heim stjórnarandstöðunnar og eru greinilega að ganga í gegnum allsherjar uppstokkun. Það er ljóst að það verður verkefni Sahlin að endurreisa flokkinn til vegs og virðingar.

Mikil andstaða var lengi vel við að Sahlin yrði flokksleiðtogi og öflugur armur innan flokksins mátti ekki til þess hugsa að hún leiddi flokkinn eftir allt sem á undan var gengið. Hún var þó tilnefnd af valnefnd í ársbyrjun, sem vann að undirbúningi kjörsins, og enginn annar lýsti yfir áhuga sínum og samstaða myndaðist um hana eftir langar vangaveltur. Hennar bíður athyglisvert hlutskipti í forystunni. Mona var lengi vel talin líklegasti eftirmaður Ingvars Carlssons í baráttu við Persson fyrir áratug, en hann var eftirmaður Olof Palme sem leiðtogi kratanna, 1986-1996, og var forsætisráðherra tvisvar; 1986-1991 og 1994-1996.

Svo fór að vegna kreditkortahneykslis sem jafnan hefur verið kennt við Toblerone (er varð er Sahlin keypti m.a. Toblerone súkkulaði út á ráðherrakort sitt) varð Sahlin að segja af sér árið 1995 og hnossið féll fjármálaráðherranum Persson í skaut. Sahlin hefur lengi verið umdeild innan flokks og utan og skandalarnir hafa elt hana uppi lengi. Það verður nú hlutskipti hennar að reyna að endurreisa ímynd sína sem stjórnmálamanns og vinna flokki sínum fylgi og sigurmöguleika í kosningum eftir rúm þrjú ár. Það er mikið verkefni sem við henni blasir, enda ljóst að hneykslismál hennar eru ekki gleymd.

Dauði Önnu Lindh fyrir tæpum fjórum árum er enn stingandi fyrir Jafnaðamannaflokkinn. Eftir að hún var myrt með sorglegum hætti í september 2003 blasti enda enginn afgerandi eftirmaður Perssons við. Anna Lindh var krónprinsessa flokksins og augljós eftirmaður eftir valdadaga Perssons er hún dó. Skarð hennar er enn mjög áberandi meðal sænskra krata. Sænsku spekingarnir töldu lengi vel að Margot Wallström, kommissar hjá ESB og fyrrum ráðherra, væri vænlegust í verkefnið en hún lýsti því yfir nær um leið og Persson dró sig til baka eftir tap í þingkosningum að hún hefði engan áhuga á að leiða kratana í stjórnarandstöðu næstu þrjú árin.

Það mun mikið reyna á Sahlin nú sem leiðtoga sænsku stjórnarandstöðunnar. Maður hefði haldið að hún væri orðin frekar slitin sem stjórnmálamaður eftir sína skandala. En hún fær greinilega annan séns og krýningu innan flokksins til verka, þrátt fyrir margar afsagnir og vandræðaleg pólitísk mistök. Reyndar má segja að það að Sahlin verði flokksleiðtogi sé til marks um hversu mjög yfirgangur Perssons í flokknum hefur leitt til þess að leiðtogafátækt einkennir hann nú þegar að hann hrökklast sjálfur frá völdum.

Þrjár konur leiða nú norræna jafnaðarmannaflokka í fyrsta skipti í sögu þeirra; Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Helle Thorning-Schmidt og Mona Sahlin. Það var til marks um þetta kvennamóment að allar ávörpuðu þær flokksþing sænskra krata í dag og var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sérstakur heiðursgestur flokksþingsins.

Nú þegar að rúmir 50 dagar eru til þingkosninga hér á Íslandi blasir frjálst fylgisfall við Samfylkingunni og erfið pólitísk staða við leiðtoga flokksins sem virðist vera að missa einmitt kvennafylgið mjög hratt. Það stefnir í kuldaleg pólitísk örlög fyrir íslenska heiðursgestinn á sænska krataflokksþinginu að óbreyttu.

mbl.is Mona Sahlin kjörin leiðtogi sænskra sósíaldemókrata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Undirritaður fékk einu sinni fallegt bréf frá Persson og mér líkaði vel við hann en það er flott að fá konu sem formann sænskra jafnaðarmanna.

Steini Briem (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband