18.3.2007 | 20:56
Finnska stjórnin heldur - Vanhanen áfram við völd?
Það er nú ljóst að finnska ríkisstjórnin, mynduð af Miðflokknum, Þjóðarflokknum og Jafnaðarmannaflokknum, hélt velli í þingkosningum í dag. Miðflokkurinn virðist verða aðrar kosningarnar í röð stærsti stjórnmálaflokkur Finnlands, en leiðtogi þeirra, Matti Vanhanen, hefur verið forsætisráðherra frá sumrinu 2003. Það hefur verið hefð í Finnlandi að leiðtogi stærsta flokksins myndi stjórn og fái umboð þingsins til þess. Það var sögulegt að jafnaðarmönnum mistókst í fyrsta skipti um langt skeið að ná slíkri stöðu eftir kosningarnar 2003. Nú stefnir í að þeir verði með þriðja stærsta flokkinn, sögulegt fall það.
Svo virðist vera sem að jafnaðarmenn útiloki ekki að leiðtogi þeirra, Eero Heinaluoma, fjármálaráðherra, verði forsætisráðherra. Það er því talið líklegt að miðjumenn leiti til hægriflokksins um að mynda stjórn og ná samkomulagi við þá um að styðja Vanhanen. Ferlið við kjör forsætisráðherra er með þeim hætti að fyrst ber að tilnefna leiðtoga stærsta flokksins. Fái hann ekki kosningu í fyrstu umferð getur forsetinn, Tarja Halonen, tilnefnt sjálf forsætisráðherraefni og lagt fyrir þingið. Nái það ekki fram að ganga fer fram þriðja umferðin og þá geta fleiri en einn verið í kjöri. Einfaldur þingmeirihluti ræður því úrslitum.
Það er því ljóst að ef Vanhanen hefur ekki meirihluta í fyrstu umferð muni forsetinn væntanlega tilnefna Heinaluoma, enda er Halonen forseti jafnaðarmaður og gegndi þingmennsku og ráðherrastörfum í nafni Jafnaðarmannaflokksins um árabil; þingmaður 1979-2000 og var t.d. utanríkisráðherra Finnlands 1995-2000. Hún var kjörin forseti Finnlands í stað Martti Ahtisaari árið 2000. Það vakti athygli þá að Jafnaðarmannaflokkurinn tilnefndi frekar Halonen í forsetaembættið heldur en Ahtisaari, sitjandi forseta, en bæði voru þekkt fyrir áralöng störf í nafni flokksins. Halonen var endurkjörin forseti árið 2006, m.a. í kosningabaráttu gegn Vanhanen forsætisráðherra.
Það er því alls óvíst hvort að Vanhanen verði áfram forsætisráðherra þrátt fyrir að hafa tryggt flokknum stöðu sem stærsta flokksins aftur. Það veltur mjög á hvort að hann geti samið við Hægriflokkinn muni kratarnir ekki kjósa hann í fyrstu umferðinni í þinginu og samstaða næst gegn vali forsetans í annarri umferð, sem við blasir eins og fyrr segir að verði Heinaluoma, sem hefur leitt kratana frá árinu 2005 er Paavo Lipponen, þingforseti og fyrrum forsætisráðherra, hætti formennsku þar.
Vanhanen varð forsætisráðherra eins og fyrr segir sumarið 2003. Hann tók við embættinu af Anneli Jäätteenmäki, sem varð fyrsta konan á forsætisráðherrastóli eftir sögulegan kosningasigur þrem mánuðum áður. Hún varð að víkja eftir að upp komst að hún varð uppvís að lygum um hvernig trúnaðarskjöl úr utanríkisráðuneytinu komust í hendur hennar fyrir kosningarnar er hún var í stjórnarandstöðu. Almennt var litið á Jäätteenmäki sem brautryðjanda fyrir finnskar konur í stjórnmálum þegar hún tók við embætti sínu.
Jäätteenmäki hlaut vond eftirmæli og hrökklaðist frá embætti með skömm. Í kjölfar afsagnarinnar í júní 2003 fordæmdu t.d. öll finnsku dagblöðin hana, t.d. blöð sem fram til þess tíma studdu hana mjög í kosningabaráttunni og voru málsvarar Miðflokksins. Hún hélt því fram í kosningabaráttunni í mars 2003 að Paavo Lipponen, þáv. forsætisráðherra og leiðtogi jafnaðarmanna, hefði sagt ráðamönnum í Bandaríkjunum, meðal annars George W. Bush forseta, að Finnar vildu ganga í bandalagið gegn stjórn Saddams Husseins, þvert á yfirlýsta hlutleysisstefnu Finnlands.
Lipponen sagði að enginn fótur væri fyrir þessari ásökun og stjórnin hefði ekki horfið frá hlutleysisstefnunni í utanríkismálum. Ásökunin skipti sköpum í kosningunum og tryggði Miðflokknum fylgisaukningu og sigur í kosningunum. Niðurstaðan varð sú að Miðflokkurinn leiddi stjórnarsamstarf þriggja flokka, þ.á.m. með Jafnaðarmannaflokki Lipponens fv. forsætisráðherra, sem varð forseti finnska þingsins og tók ekki sæti í stjórninni. Lipponen er enn forseti þingsins en hverfur senn úr finnskum stjórnmálum.
Vanhanen var varnarmálaráðherra Finnlands er hann öllum að óvörum varð forsætisráðhera við fall Jäätteenmäki. Henni var ekki sætt eftir að upplýsingar komu fram um að hún hafði sagt þingi og þjóð ósatt. Hún sagðist að mig minnir á þessum tíma ekki hafa óskað eftir trúnaðarskjölum og verið mjög undrandi þegar hún hefði fengið úrdrætti úr þeim á faxi. Nokkrum klukkustundum eftir að hún sagði þetta skýrði aðstoðarmaður Halonen forseta frá því að hann hefði sent Jäätteenmäki skjölin á faxi eftir að hún hefði falast eftir þeim og gefið honum upp leynilegt faxnúmer sitt.
Þessi afhjúpun varð til þess að þingmenn Miðflokksins sneru baki við forsætisráðherranum. Leiðtogar stjórnarflokkanna þriggja, Miðflokksins, Jafnaðarmannaflokksins og Þjóðarflokksins, sameinuðust um Vanhanen, sem hefur setið við völd síðan þetta heita finnska pólitíska sumar. Hann sat síðustu sex mánuði ársins 2006 í forsæti ESB. Hann er vinsæll og græddi meira að segja á heitu einkalífi, en ástkona hans gaf út bók um samband þeirra og sagði hann hafa sagt sér upp með SMS-skilaboðum, en Vanhanen skildi í kastljósi fjölmiðla árið 2005.
Stóra spurningin nú er því; mun Vanhanen verða áfram forsætisráðherra. Verður mjög spennandi að sjá.
Miðflokkurinn með mest fylgi í finnsku kosningunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.