Ætlar Ingibjörg Sólrún að stöðva álversstækkun?

ISGÞað verður seint sagt að pólitísk staða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Samfylkingarinnar sé glæsileg. Hún reynir allt sem hún mögulega getur núna til að byggja sig aftur upp og að reyna að gera lítið úr innri ólgu innan flokksins. Nú er gamla góða plata þeirra vinstrimanna um að Morgunblaðið sé í baráttu gegn þeim sett á enn eina ferðina, en hún er nú orðin frekar rispuð í gegn. Virkar satt best að segja ekki sannfærandi lengur.

Það er gaman að fylgjast með örvæntingunni innan Samfylkingarinnar sem virðist vaxa dag frá degi. Össur er kominn í áberandi sólóspil og leikur sína eigin rullu innan flokksins, enda skiljanlegt með sína fylgismenn á flestum póstum í vörninni á framboðslistum um allt land á meðan að Ingibjörg Sólrún lítur orðið út eins og Ásgeir Sigurvinsson á hliðarlínunni kortéri áður en hann var rekinn sem landsliðsþjálfari. Það virðist vera að sliga Ingibjörgu Sólrúnu mjög að vera orðin prímadonnan sem getur ekki sungið er á hólminn kemur, rekur bara upp skaðræðisgól en ekki fagran óperettusöng eftir alla söngþjálfunina í gegnum árin.

Það er mjög sérstakt að fylgjast með Samfylkingunni. Ingibjörg Sólrún er farin að minna mig allverulega á ósynda konu sem hent er í djúpu laugina og reynir að svamla eitthvað án þess að geta í raun komist um laugina án hjálpar. Þar er gamla sundreglan að sannast dag frá degi; annaðhvort skal sökkva eða reyna eitthvað til að redda sér. Staða hennar hlýtur að vera þeim vonbrigði sem kusu hana til formennsku. Ekki hefur róðurinn verið eins sigursæll og stefnt var að. Væntingar þeirra sem studdu hana gegn Össuri var að hún gerði Samfylkinguna að mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Eftir standa brostnar vonir og væntingar.

Viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu á Stöð 2 í gær vakti mikla athygli mína. Þar var reynt að sýna gamla takta og láta eins og við værum enn á árinu 2003, kortéri eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli. En svo er ekki og við erum víst stödd á árinu 2007, með Samfylkinguna í frjálsu falli og fasta í mikilli fylgisdýfu, um eða rétt yfir 20%, fjarri öllum markmiðum um mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og farinn að líta upp til Steingríms Jóhanns og vinstri grænna, sem forðum daga voru smælingjar í augum þeirra. Svo er ekki nú. Nú lítur Ingibjörg Sólrún og félagar hennar upp fylgislega séð til vinstri grænna og Steingrímur J. er orðinn alvöru forsætisráðherraefni og spilar eigið sóló taktfast.

Ingibjörg Sólrún ýjaði að því fannst mér að það skipti engu máli hvað Hafnfirðingar ákveddu eftir ellefu daga, hún hefði sína skoðun á því og hikaði ekki frá henni. Til hvers er íbúakosning í Hafnarfirði ef ekkert verður að marka hana? Yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar virkuðu mjög afdráttarlausar og afgerandi. Þar hafa menn skoðun og hika ekkert frá henni, hvað sem öllu íbúalýðræði gildir. Er kannski kosningin í Hafnarfirði marklaus? Það verður allavega fróðlegt að sjá í hvaða átt Samfylkingin snýst samþykki Hafnfirðinga stækkun. Munu Össur og Ingibjörg Sólrún þá styðja stækkun? Það reynir á það brátt.

Ingibjörg Sólrún á mikið verk fyrir höndum. Þetta verður erfið barátta, flokkurinn og hún eru á vondum slóðum 50 dögum fyrir kosningar. Allt virðist að snúa á versta veg. Alþýðubandalagið er gufað upp úr Samfylkingunni og flóttinn heldur sífellt áfram. Samfylkingin er að verða eins og sökkvandi skip undir skipstjórn Ingibjargar Sólrúnar sem allir hoppa af, meira að segja konurnar samkvæmt skoðanakönnunum. Merkileg örlög það. Stóru tíðindi þessa tímapunkts er einmitt flóttinn úr Samfylkingunni yfir til Steingríms J.

Getur gömul vonarstjarna staðið slíkan skell af sér, verði hann endanlega að veruleika í maí? Við fáum brátt svarið við því. En við vitum þó að við hverja mælingu minnkar átórített Ingibjargar Sólrúnar til muna. Við erum öll það snjöll að við vitum það. Og við vitum líka að flokkur og leiðtogi í endalausri lægð virka sem lúserar. Enda er örvæntingin að taka öll völd - meira að segja hjá konunni sem allir töldu vera bjargvætt Samfylkingarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel ígrunduð...já finnst þér það Ari!  

Ég horfði á sama viðtal og vá hvað mér finnst Ingibjörg standa sig vel, fyrir utan hvað ég hef óbilandi trú á henni svo ekki fælir hún mig frá Samfylkingunni ha!   Elsku kallarnir Ari og Stebbi.. svona ...svona.

Ásthildur (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 13:49

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

góð grein, mér var svo mikið mál að tjá mig eftir viðtalið við hana í gærkvöldi, en hef ekki þessa færni til að skrifa svona vel um málið, fannst bara að allir sem sáu viðtalið mundu sjá hvað þetta er halló hjá henni og vil að sem flestir hlusti vel á þetta viðtal og átti sig, þ.e.a.s. þeir fáu sem enn halda að það sé gott að kjósa Samfylkinguna, ég er sammála Ara að það er áhyggjuefni hversu margir segjast ætla yfir á vinsti-græna, þeir geta ekki stjórnað landinu (mín skoðun) þó svo Steingrímur sé ágætis kall og hafi mikinn talanda

Ásdís Sigurðardóttir, 20.3.2007 kl. 14:01

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

var ekki búin að sjá skrif Ásthildar, en sínum augum lýtur hver á silfrið, þannig er nú lífið bara

Ásdís Sigurðardóttir, 20.3.2007 kl. 14:02

4 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Þetta er akkúrat sem þið Sjálfsstæðismenn gerið þegar ISG kemur fram, reynið að snúa út úr. ISG var í hörku formi í gær og stóð sig frábærlega. Ekkert annað. Það er rétt sem sagt er varðandi Moggann, fréttaskýringar hans eru ótrúlegar. Ég þekki mjög vel til innan Samfylkingarinnar og veit að það er bara ÓSATT sem fram hefur komið hjá Agnesi Bragadóttur.

ISG bendir á að Hafnfirðingar séu að kjósa um skipulagsmál í Hafnafirði. Ekki um virkjanaleyfi né losunarheimildir o.s.frv - eðlilega. Hún benti á að ef Hafnfiðirðingar samþykkja þetta þá er málið samt ekki í höfn. Það er margt óklárt þó svo að deiliskipulag Hafnarfjarðar leyfi þetta. Þetta er bara hárrétt hjá ISG og ekkert annað. Ekkert loðið við þetta og ekkert athyglisvert, þetta er bara rétt.

Eggert Hjelm Herbertsson, 20.3.2007 kl. 14:20

5 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Ég held það sé rangt metið hjá þér að vaxandi örvæntingar gæti innan flokksins, en ég veit að þetta er margra óskhyggja. Mér finnst bæði hópur og stefna þéttari og heilsteiptari en áður og hef þessvegna trú á að gömul rispuð plata verði spiluð í öðrum herbúðum þegar nær dregur kosningum.

Jón Þór Bjarnason, 20.3.2007 kl. 14:27

6 identicon

Þetta er skelfileg mynd sem þú dregur upp af Samfylkingunni Stefán, en ég hygg að hún sé ekki svo fjarri lagi. Eins og þú veist þá er Samfylkingin "bræðingur". Hann hefur ekki tekist að hrista saman, og var það alltaf fyrirsjáanlegt. Það fyrirkomulag sem ríkti á vinstri væng stjórnmálanna á tíunda áratug síðustu aldar og margir töldu að væri að ganga sér til húðar, færist nú í endurnýjun lífdaga. Sameining vinstriaflanna mistókst, og hvað var það sem átti svo sem að sameina þá? Kannski andúðin og skömmin á Davíð Oddssyni? Það eitt og sér dugar ekki. Eða var það kannski einhver óljós framtíðarsýn fyrir Íslendinga í efnahags- og atvinnumálum, umhverfis- og orkumálum eða velferðar- og jafnréttismálum. Sannleikurinn er auðvitað sá að samfélagssýn Sf er mjög óljós og afstaða flokksmanna ólík eftir því hvoru megin miðjunnar þeir liggja í flokknum. Þennan vanda glímir Vg ekki við. Þar á bæ eru allir sammála um það að færa Ísland nokkra áratugi til baka hvað lífskjör og stjórnarhætti varðar. Þótt þeir mælist nú um stundir hátt í skoðanakönnunum mun í kosningabaráttunni kvarnast mjög úr meintu fylgi þeirra og niðurstaðan líkast til verða á bilinu 15-20%. Og Sf spái ég fylgi á bilinu 20-25%. Ég býst við því að innstæða þessara flokka í kosningum sé ekki mikið yfir 40% samtals. Hinn stóri íslenski sósíaldemókratíski flokkur, að skandinavískri fyrirmynd, var alltaf tálsýn vegna þess að Sjálfstæðisflokknum hefur tekist bærilega um áratuga skeið að "dekka" þetta svið stjórnmálanna. Hins vegar er ágætt pláss fyrir gamaldags vinstriflokk og það rými belgja Vg út nú um stundir. Þú mátt alveg bóka það Stefán að formaður Sf mun segja, ef Hafnfirðingar samþykkja stækkun álversins:"Dómur fólksins er fallinn og við því er ekkert að segja. Ég fyrir mitt leyti mun ekki leggjast gegn vilja kjósenda."

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 14:34

7 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Með flottari setingum sem ég hef lengi séð "minna mig allverulega á ósynda konu sem hent er í djúpu laugina og reynir að svamla eitthvað án þess að geta í raun komist um laugina án hjálpar."

Eins og ég sagði við Össur Skarp fyrir nokkru, ef Samfylking kemst ekki í ríkisstjórn, þá á hún eftir að leysast upp í frumeindir sínar.... hef engan séð mótmæla því en og ekki hann sjálfann.

Júlíus Sigurþórsson, 20.3.2007 kl. 14:34

8 Smámynd: Kristján Pétursson

Þú hlýtur að vita það Stefán,að Hafnfirðingar eru að kjósa um deiliskipulag varðandi álverið.Næsta ríkisstjórn tekur ákvörðun um virkjunarleyfið og losunarheimildir.Það liggur ekki fyrir nein bindandi ákvörðun um forgangsröð núverandi ríkisstjórnar  hvaða álver ver'ði byggð á næstu árum.Þú ættir Stefán að spyrja Forsætisráðhr.um hvort ríkisstjórnin sé búin að staðfesta stækkunina á álverinu í Straumsvík.Ingibjörg Sólrún var aðeins að segja staðreyndir í þessu máli um virkjunarleyfið.Það ert þú Stefán,sem ert með endalausu rugli að reyna eins og flokksbræður þínir að gera Ingibjörgu ótrúverðuga,en klappa Steingrími bak og fyrir.Það er augljóslega verið að undirbúa af hendi Sjálfstæðismanna samstarf við VG,þeir fagna í sífelldu fylkisaukningu þeirra í skoðanakönnunum.Ég held að þú ættir Stefán að fjalla um þessi faðmlög,þau eiga  víðar snertifleti en í EB máum. 

Kristján Pétursson, 20.3.2007 kl. 16:25

9 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Það er sama hvað ISG gerir úr þessu. Það eru "samherjar" hennar í Hafnarfirði sem eru að reyta fylgið af flokknum og þeir eru staðráðnir í að koma stækkuninni í Straumsvík í gegn. Það er ljóst að græna/vinstra er farið til VG og þegar framboð Ómars og Magrétar kemur fram þá fara hægri græna fylgið þangað. Hvað verður þá eftir hjá SF? 10%? 

Lárus Vilhjálmsson, 20.3.2007 kl. 16:53

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

"Það verður seint sagt að pólitísk staða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Samfylkingarinnar sé glæsileg.

Það er gaman að fylgjast með örvæntingunni innan Samfylkingarinnar sem virðist vaxa dag frá degi.

Ingibjörg Sólrún lítur orðið út eins og Ásgeir Sigurvinsson á hliðarlínunni kortéri áður en hann var rekinn sem landsliðsþjálfari.

 rekur bara upp skaðræðisgól en ekki fagran óperettusöng eftir alla söngþjálfunina í gegnum árin.

 Það er mjög sérstakt að fylgjast með Samfylkingunni. Ingibjörg Sólrún er farin að minna mig allverulega á ósynda konu sem hent er í djúpu laugina og reynir að svamla eitthvað án þess að geta í raun komist um laugina án hjálpar.

 Viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu á Stöð 2 í gær vakti mikla athygli mína. Þar var reynt að sýna gamla takta og láta eins og við værum enn á árinu 2003, kortéri eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli.

Samfylkingin er að verða eins og sökkvandi skip undir skipstjórn Ingibjargar Sólrúnar sem allir hoppa af, meira að segja konurnar samkvæmt skoðanakönnunum.

En við vitum þó að við hverja mælingu minnkar átórített Ingibjargar Sólrúnar til muna.

Við erum öll það snjöll að við vitum það. Og við vitum líka að flokkur og leiðtogi í endalausri lægð virka sem lúserar."

Þessa romsu er ekki hægt að kalla málefnalega. Fyrir utan málsgrein 5, þar sem að þú segir skoðun þína og túlkun á viðtali við ISG, þá er ekkert málefnalegt í þessari grein.

Sjálfur er ég óákveðin kjósandi, en mér finnst oft að umræðan lenda í málefnaleysu. Og ber þessi grein þess augljóslega vitni.

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.3.2007 kl. 16:54

11 identicon

Hér er ég í fæstu sammála þér bloggbróðir. Sérstaklega er ég ósammála myndinni sem þú teiknar upp af Ingibjörgu Sólrúnu. Og ég tek fram að það hefur ekkert með stjórnmálaskoðanir mínar að gera enda á ég ekki heima í einhverjum sérstökum flokki, svo gott sem munaðarlaus í þeim efnum. Ég verð að segja það að svona almennt finnst mér orðræðan um Ingibjörgu Sólrúnu vera orðin þess eðlis að tímabært sé að þeir sem fyrir henni standa fari að hugsa sinn gang. Mér finnst gagnrýnin á hana vera að verða minna og minna málefnanleg og meira og meira persónuleg. Ég veit að ég er ekki ein um þessa skoðun og mér finnst það útúrsnúningur þegar verið er að tala um það sé ekki við fjölmiðla að sakast, þeir séu bara sendiboðinn, hún kalli þetta yfir sig sjálf. Fjölmiðlar eru að túlka þegar þeir setja fram fréttaskýringar og þar skiptir máli hvernig orðin eru valin og sett fram. Og þar greinir á milli umfjöllunar um Ingibjörgu Sólrúnu og forystumenn annarra flokka. Mér finnst ISG endalaust töluð niður í þessum umfjöllunum og þannig finnst mér fjölmiðlar ekki eiga að vinna. Ég lít þannig að að hin pólitíska staða í Hafnarfirði sé afar flókin, sérstaklega í ljósi stefnumörkunar Samfylkingar undir merkinu "Fagra Ísland". Það er ekki öfundsvert fyrir neinn stjórnmálaforingja að stíga þann línudans. Ætli við verðum ekki að spyrja að leikslokum í því eins og svo mörgu öðru. Vika er langur tími í pólitík

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 17:00

12 identicon

"Ákvæðu", snúllinn minn, en ekki "ákveddu". Af hverju eru svona æstur í dag? Kom eitthvað fyrir? Kannski bara komið sólskin á Akureyri loksins, Sól á Akureyri?! Það er bara sjóslys og drukknanir hjá þér í dag en þú gleymir Kirkjuveðrinu mikla í Svarfaðardal árið 1900, þegar Urðakirkja fauk af sínum grunni með hundi og öllu. Samfó lítil eða stór er ekkert atriði í sjálfu sér, kallinn minn, það er stærð Vinstri flokkanna til samans sem gildir. Og sameining þeirra er bara bónus en hún fæst til dæmis með því að Samfó hafi ekkert fylgi. So, don't worry, be happy, Stebbi minn. Og passaðu þig að ofkælast ekki í sólinni. Hún getur verið ansi köld á Akureyri.

Imba til Steina:

Ó, hve létt er þitt skóhljóð,
ó, hve lengi ég beið þín.
Það er vorhret á glugga,
Sjallavindur sem hvín.
En ég veit eina stjörnu,
eina stjörnu sem skín
og nú loks ertu kominn, 
Steini minn, loks til mín.

Það eru erfiðir tímar, 
of mikið atvinnuþref.
Þarf því ekkert að bjóða,
ekki stærra álver ég hef, 
bara von mína og líf mitt,
hvort sem ég vaki eða sef. 
Atkvæðið sem þú gafst mér,
það er allt og sumt sem ég hef.

En í vor lýkur Sjallavetri
sérhvers hugsandi manns
og þá verður maísól um land allt. 
Það verður maísólin okkar,
okkar sæta hjónabands.
Fagra Ísland mun fæðast

og saman við höldum á fána 
hins rauðgræna Framtíðarlands.

Steini Briem (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 17:09

13 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Kvitt,það er gaman að lesa allar þessar skoðanir/Þu kemur við marga Stefan það er næsta vist!!!!!Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 20.3.2007 kl. 17:38

14 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Ég held persónulega að þú sért ekki rétti maðurinn til að álykta um innri anda Samfylkingarinnar 

Ég hlakka til þegar Sjálfstæðismenn hætta að reyna að níðast á ISG og pæla í því hvernig sé á kaffistofunni hjá Samfylkingunni og fara að tala um pólitík, 

Sjálfstæðismenn reyna nú að beita einhverjum óskiljanlegum hræðsluáróðri og reyna ekki einu sinni að tala um pólitík... hví skyldi svo vera????

Sveinn Arnarsson, 20.3.2007 kl. 22:15

15 Smámynd: Stefán Þórsson

Ég minnist Áramótaskaupsins árið 2001.  Fínasta skaup.  Ég minnist skaupsins fyrir þá staðreynd að þar komu fram tveir litlir dvergar.  Annar þeirra var í líki Össurs Skarphéðinssonar en hinn í líki Steingríms Jóhanns Sigfússonar.  Tveimur árum seinna var Steingrímur J. ennþá dvergur, svoldið seinþroska kallinn en Össur, hann var orðinn næstum jafnstór og Dabbi, munaði ekki nema tveimur ogguponsulitlum prósentustigum.  En síðan urðu stakkaskipti.  Dabbi hætti en jafnoki hans tók við.  Steingrímur tók vaxtakipp en Össur steig úr hásætinu og Ingibjörg tók við búinu, næstum jafnstóru.  En svo gerðist eitthvað.  Ingibjörg minnkaði og minnkaði og minnkaði.  Hvað gerðist?

Stefán Þórsson, 20.3.2007 kl. 22:45

16 Smámynd: Dofri Hermannsson

ÞAÐ ER EINKENNI Á SJÁLFSTÆÐISMÖNNUM AÐ TALA ALDREI UM MÁLEFNIN, ÞEIR VITA AÐ ÞAÐ ER EKKI ÞEIRRA STERKA HLIÐ.

ÞEIRRA STERKA HLIÐ ER AÐ VERJA (FYRRUM) GÓÐA STÖÐU MEÐ ÞVÍ AÐ FORÐAST ALLT TAL UM MÁLEFNIN EN BEINA Í SÍFELLU ATHYGLI AÐ PERSÓNUM OG ÞÁ ÆVINLEGA MEÐ ÓMÁLEFNALEGUM HÆTTI A´LA STYRMIR GUNNARSSON.

ÉG HELD SJÁLFSTÆÐISMÖNNUM VÆRI HOLLARA AÐ HUGLEIÐA AF HVERJU STÓR HLUTI ÞEIRRA ÆTLAR BAKDYRAMEGIN INN Í EB, AF HVERJU STÓR HLUTI ÞEIRRA ER ANDVÍGUR STÓRIÐJUSTEFNU SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS, AF HVERJU TILGANGSLAUSAR HVALVEIÐAR ERU KEYRÐAR Í GEGN Á MÓTI HAGSMUNUM FERÐAÞJÓNUSTU OG ÚTFLUTNINGSGREINA.

HUGLEIÐA KANNSKI Í LEIÐINNI HEIFTINA Á MILLI GUÐLAUGS ÞÓRS OG BJÖRNS BJARNASONAR, ÓSÆTTINA Á MILLI SJÁLFSTÆÐISMANNA Í AUÐLINDAMÁLINU, ÓSÆTTINA Á MILLI SJÁLFSTÆÐISMANNA Í BORGINNI OG MENNTAMÁLARÁÐHERRA SEM ER ANDVÍG HUGMYNDUM SINNA MANNA UM AÐ RVK TAKI YFIR FRAMHALDSSKÓLA SEM TILRAUNAVERKEFNI

HUGLEIÐI HVERNIG STENDUR Á ÞVÍ AÐ ÞEIR ÞURFA AÐ LEITA AFTUR TIL BIRGIS KJARAN TIL AÐ FINNA GRÆNAN KARL - AÐ VÍSU HAFA ÞEIR GRÆNAR KONUR EINS OG KATRÍNU FJELSTED OG SIGRÍÐI ÖNNU EN KATRÍNU LÉTU ÞEIR RÓA FYRIR UNGGÆÐINGANA OG SIGRÍÐI ÖNNU FÓRNUÐU ÞEIR Í HRÓKERINGUM, ENDA HÖFÐU ÞEIR ENGAN ÁHUGA Á ÞVÍ SEM ÞEIR VORU AÐ GERA.

Dofri Hermannsson, 21.3.2007 kl. 00:56

17 identicon

Ef hver erlendur ferðamaður eyðir hér að meðaltali um 100 þúsund krónum, samkvæmt Ferðamálastofu, og ekki verða lagðar raflínur þvers og kruss um landið og byggðar hér stórvirkjanir og stóriðjur út um allar koppagrundir, sem ferðamenn vilja ekki sjá, er búist við um einni milljón erlendra ferðamanna hingað árlega. Þeir myndu þá eyða hér samtals um EITT HUNDRAРMILLJÖRÐUM KRÓNA Á ÁRI UM ALLT LAND, eða samtals eitt þúsund milljörðum króna, einni billjón króna, á tíu ára tímabili þaðan í frá, EF fjölgunin yrði ekki meiri. Um 400 þúsund erlendir ferðamenn komu hingað í fyrra og þeim fjölgaði um 20,5% fyrstu tvo mánuði ársins, miðað við sama tímabil í fyrra. MEÐ SAMA ÁFRAMHALDI VERÐA FERÐAMENNIRNIR ÞVÍ ORÐNIR EIN MILLJÓN Á ÁRI EFITR EINUNGIS FIMM ÁR, árið 2012, og heildartekjurnar af þeim hefðu þá aukist um 55 milljarða króna Á ÁRI á þessu fimm ára tímabili, úr 45 milljörðum nú í 100 milljarða króna á ári.

Steini Briem (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 02:28

18 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Ari: Takk fyrir góð orð, góðar pælingar hjá þér.

Ásthildur: Átti ekki beinlínis von á að Samfylkingarfólk væri sammála mér, enda eru 50 dagar til kosninga og þeir myndu aldrei fara að tala um vandræði Ingibjargar Sólrúnar og vonda mælingu flokksins.

Ásdís: Takk fyrir góð orð og fín skrif, var gaman að lesa þau.

Eggert: Það er varla útúrsnúningur að benda á að staða Samfylkingarinnar er ekki góð og það eru vandamál uppi. Flokkurinn hefur snúist í allt aðra átt undir forystu ISG en að var stefnt. Það er augljóslega blikur á lofti fyrir hana og flokkinn í þessari stöðu, hún er vond fyrir þau. Það er ekkert flókið og allir alvöru stjórnmálaskýrendur eru að greina hvað er að hjá Samfylkingunni. Skárra væri það nú. Auðvitað mun flokkurinn ekki skipta um forystu fyrir kosningar eða opinbera vandræðin. Það verður að keyra á því sem nú stendur. Þetta er ekki öfundsverð staða fyrir ykkur. Þið virðist vera í sama down-inu og Framsókn. Það eru stórtíðindi, enda er SF stjórnarandstöðuflokkur. Hvað varðar Hafnarfjörð ræðst staðan þar eftir kosninguna, það verður fróðlegt að sjá viðbrögð við henni. Það vekur mikla athygli að bæjarstjórinn í Hafnarfirði steinþegir og þorir ekki að segjast styðja stækkun, en flestir vita að það er afstaða hans.

Jón Þór: Já, það ræðst bara. Það þarf þó enginn að segja mér að það sé ekki að grípa um sig örvænting innan flokksins í svona stöðu. En það er auðvitað ekki búið að kjósa og niðurstaða er ekki fengin. En svona er landslagið 50 dögum fyrir kosningar. Aðalþungi baráttunnar er vissulega eftir, en staða Samfylkingarinnar er mjög ólík því sem var á sama tíma árið 2003. Það eru stór tíðindi, burtséð frá öllu öðru.

Gústaf: Takk fyrir gott komment.

Júlíus. Takk fyrir góð orð - fínt komment.

Jón Kristófer: Já, þetta mun ráðast. Örlagadagur í Hafnarfirði er innan seilingar. Það verður vel fylgst með hvað gerist þar. Ég spái því að þeir samþykki, hefði ekki trúað því fyrir nokkrum mánuðum en það gæti þó orðið naumt á því.

Kristján: Ég hef ekkert tekið afstöðu með hverjum sjálfstæðismenn eigi að vinna fari þeir í stjórnarmyndunarviðræður. Enn er of mikið eftir af kosningabaráttunni til að hægt sé að meta það. Eina sem ég hef útilokað í þeim efnum eru frjálslyndir. Hvað varðar ISG sjá allir að staða hennar er vond. Kannanir eru henni erfiðar og það er erfitt að feisa svona mótbyr lengi. Skil þó vel að almennir flokksmenn sem hafa stutt flokkinn í gegnum þykkt og þunnt, þeir sem enn eru allavega eftir, sýni henni tryggð í þessum vandræðum.

Lárus: Þakka þér fyrir góða greiningu.

Sveinn Atli: Já, ég segi vissulega mínar skoðanir. Það er ekki við því búist að allir séu sammála um allt kortéri fyrir kosningar. Það þarf samt mjög hugaðan stjórnmálaskýranda til að fullyrða að allt sé í lagi í Samfylkingunni þegar að fylgið hrynur af flokknum. En enn hefur ekki verið kosið. En það er auðvitað stórmerkilegt að bæði Framsókn og Samfylking séu í svona miklum mótbyr.

Anna: Takk fyrir heiðarlega umsögn. Ef ég skrifaði hér svo allir væru sammála væri þessi vefur að ég tel hundleiðinlegur. Enda er vonlaust að vera einstaklingur með skoðanir og gera öllum til hæfis. En það er gott að fá bara komment, málefnaleg og heilsteypt. Þú ert ein af þeim og það er allt í lagi að vera ósammála stundum, sé það allt í góðu og tekist málefnalega á.

Steini: Gott að þú hefur enn góðan húmor. Það væri litlaust hér hefðirðu ekki skoðanir á skrifunum.

Halli: Takk fyrir gott komment. Já, ég hef aldrei verið skoðanalaus maður og segi mitt. Það er heiðarlegt og gott að tala hreint út.

Steingrímur: Ég hef sagt að ég vilji hægja á í stóriðju hér á þessum vef. Vil þó kanna hvort að menn geti beislað orku á Þeistareykjum fyrir álver. Ef það gengur ekki tel ég það ekki muni ganga. Það er sjálfsagt að kanna alla hluti. Ég hef aldrei verið á móti því að beisla fallvötnin, en það er alveg ljóst að nóg er að verða komið af stóriðju. Ég tel í mesta lagi pláss fyrir eina stóriðju. Samfylkingin hefur sagt það reyndar líka.

Svenni: Ég veit ekki betur en að fólk hafi allar mögulegar skoðanir á því hvað sé að gerast. Hér skrifa ég um pólitík flesta daga, held að flestir viti hvar ég standi og ég efast um að ég sé þekktur fyrir að vera skoðanalaus maður. Enda vil ég frekar vera þekktur fyrir að tala hreint út, en vera maður sem þorir ekki að segja það sem honum finnst. Við þurfum að hittast bráðum Svenni og fá okkur kaffisopa. Það er alltaf gaman að hittast og ræða málin. Þó að við séum ekki í sama flokki er mikilvægt að eiga góða vináttu. Röbbum fljótlega.

Stefán Þ: Takk fyrir gott komment nafni. Þetta var alveg magnað skaup. Á það ásamt öllum frá 1985 á spólu og nýt þeirra reglulega. Þetta var sérlega gott skaup. Óskar Jónasson stýrði því af snilld. Við erum alveg sammála :)

Dofri: Þakka þér fyrir kommentið. Man ekki eftir að þú hafir kommentað hér fyrr og því gaman að sjá þig. Verðum sennilega seint sammála, en þú hefur þínar skoðanir og ég mínar. Hér á Akureyri erum við sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn í samstarfi. Það er í eina skiptið til þessa þar sem þessi öfl vinna saman. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það gengur. En ég hef aldrei verið flokkshestur, hef verið ófeiminn að segja mitt ef mér mislíkar eitthvað í flokknum. Það er öllum hollt að þora og geta gagnrýnt sitt nánasta umhverfi.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.3.2007 kl. 02:52

19 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Ég get sagt þér það Stebbi að það eru engin vandræði innan Samfylkingarinnar. Það er mjög góður andi innan flokksins og baráttuhugur í fólki fyrir komandi kosningar. Þó svo að skoðanakannanir séu ekki að mæla okkur í hæstu hæðum, þá erum við þó með á milli 1/4 og 1/5 af atkvæðum þjóðarinnar - það er nú talsvert og enn er tími til stefnu.

Málefnastaðan er mjög sterk, þó við mættum klára að útfæra stefnuna í sjávarútvegsmálum betur.

Eggert Hjelm Herbertsson, 21.3.2007 kl. 09:15

20 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gott er að heyra að það séu engin vandamál INNAN Samfylkingarinnar, þetta eru þá bara opinber vandi sem þið tæklið örugglega, og Dofri, verð bara að segja að málefni eru einmitt það sem við Sjálfs.menn höfum nóg af og munum ekki liggja á liði okkar að birta þau fyrir alþjóð, frekar en við höfum ekki farið í felur með þau undanfarna áratugi.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.3.2007 kl. 13:19

21 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Stefán, þú mátt gjarnan hafa þínar skoðanir, ekkert að því. En það var í raun restinn af greininni sem mér finnst ábótavant. Þú notar mest allt plássið í að skrifa um persónu ISG og Samfylkinguna á þann hátt, að ekki er sæmandi. Það finnst mér miður og ekki mjög málefnalegt.

Ég er ekki að taka afstöðu til þess sem Ingibjörg sagði í þættinum, enda sá ég hann ekki. Það virðast vera skiptar skoðanir meðal þeirra sem sáu hann, sem algengt er.

Það sem ég er að taka afstöðu til, er að umræðan er oft á persónulegu plani í stað málefnalegs og þykir mér það miður.   

Kveðja,

Sveinn Atli

Sveinn Atli Gunnarsson, 21.3.2007 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband