VG í mikilli uppsveiflu - áfall Samfylkingarinnar

Forysta VG Það er mjög fróðlegt að rýna í nýjustu könnun Gallups. Uppsveifla VG heldur þar og áfall Samfylkingarinnar verður sífellt meira áberandi. Fimm sitjandi þingmenn flokksins mælast fallnir í könnuninni og aðeins myndu þrjár konur ná á þing í nafni flokksins. Á meðan blómstrar VG enn og mælist með sautján þingmenn, tólf fleirum en í kosningunum 2003. Samfylkingin tapar sjö þingmönnum, sem er mikið af stjórnarandstöðuafli að vera.

Samfylkingin er í könnuninni að missa Einar Má Sigurðarson, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Mörð Árnason og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur af þingi. Aðeins Róbert Marshall í Suðurkjördæmi er að mælast inni af fólki í baráttusætum flokksins. Það virðist þurfa pólitískt kraftaverk til að Samfylkingin sjái fram á að ná inn t.d. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Önnu Kristínu, Árna Páli Árnasyni, Guðmundi Steingrímssyni, Láru Stefánsdóttur og Guðnýju Karlsdóttur. Aðeins í Suðurkjördæmi virðist Samfylkingin geta brosað í dag. Í Norðausturkjördæmi er Samfylkingin orðin minnst fjórflokkanna hvorki meira né minna og er þar aðeins með Kristján Möller inni.

Þessi könnun Gallups staðfestir endanlega mikla fylgissveiflu til vinstri grænna. Hún er orðin mjög föst yfir 20% fylgi og því sífellt meir að festast í sessi. Það er mikil kvennasveifla sem fer í áttina til þeirra fyrst og fremst. Vinstrimenn virðast hafa gefist upp á Samfylkingunni, sem sífellt minnkar og er núkomin undir 20% markið og fer að nálgast fylgislægðina sem hún varð fyrir á fyrstu árum sínum. Segja má að Samfylkingin sé að verða örflokkur, festast í sessi sem þriðja stærsta aflið. Það dettur engum í hug að tala um flokkinn lengur sem mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta eru vissulega mikil tíðindi.

Það virðast vera stóru tíðindin að konur horfa í áttina til vinstri grænna í æ meira mæli. Konur segja skilið við Samfylkinguna með áberandi hætti, þrátt fyrir það að kona sé þar í forystu, kona sem metin var vonarstjarna vinstrimanna fyrir fimm til sex árum. Hennar staða er orðin mjög slæm og vandséð hvernig að hún geti verið trúverðugur leiðtogi hafandi leitt flokkinn til verstu útkomu sinnar og órafjarri öllum lykilmarkmiðum sínum í formannskjörinu 2005. Miðað við þessa stöðu alla er VG að festa sig í sessi sem forystuafl til vinstri. Því verður vart neitað. VG er að leiða vinstrið og á mikilli sigurbraut meðan að Samfylkingin veslast hreinlega upp.

Það er alveg ljóst á þessari stöðu að ríkisstjórnin er á fallanda fæti. Framsóknarflokkurinn sígur sífellt neðar og virðist ekki vera að ná sér upp. Staða þeirra hlýtur að vera þeim áfall. Í þingkosningunum 2003 fengu Framsóknarflokkur og Samfylking þingmeirihluta, 32 þingmenn. Nú mælast flokkarnir tveir með 18 þingsæti. Þeir hafa því tapað fjórtán þingsætum, sjö hvor, frá kosningum til þessarar könnunarmælingar. Þetta eru stórpólitísk tíðindi. Það er djúpstæð kreppa innan beggja flokka og vandséð hvernig að formenn flokkanna geta staðið af sér pólitískt áfall á borð við þetta sem stefnir í. Bæði þurfa nú pólitískt kraftaverk.

Staða Sjálfstæðisflokksins er þolanleg. Flokkurinn hefur verið að mælast sterkur á landsbyggðinni en veikri á höfuðborgarsvæðinu. Nú hefur þetta snúist við algjörlega. Til dæmis virðist Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi vera að tapa nokkru fylgi og VG er orðið forystuafl í Norðausturkjördæmi. Það eru stórtíðindi. Það sem breytist nú er að fólk í baráttusætum Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu eru inni en út falla Þorvaldur Ingvarsson og Björk Guðjónsdóttir, sem eru í baráttusætum í Norðaustri og Suðri.

Sterk staða vinstri grænna er til merkis um breytingar. Þetta er orðin svo ákveðin sveifla til vinstri grænna að hún verður ekki hunsuð. Þetta er afgerandi bylgja sem þeir eru á núna. Tal um stutta sveiflu á ekki lengur við. Það þarf ansi mikið að breytast til að þeir fái ekki um 20% í kosningunum, eiginlega þyrfti hrun til. Um leið er Samfylkingin að veslast upp. Staða hennar er athyglisverð. Fátt nema pólitískt kraftaverk getur bjargað þeim frá því að tapa stórt frá kosningunum 2003. Varaformaður frjálslyndra mælist svo fallinn og með honum allir þingmenn flokksins nema formaðurinn. Staðan er á fallanda fæti þar.

Spurningin er hvernig stjórn gæti verið mynduð úr svona stöðu. Held að þar séu þrír kostir helstir; stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, VG og Sjálfstæðisflokks eða VG, Framsóknar og Samfylkingar. Það er enginn vafi að fái VG um eða yfir 25% muni þeir selja sig dýrt, allavega krefjast forsætis í vinstristjórn eigi að mynda hana. Þessi könnun er að því leyti svakalegt högg fyrir SF og Ingibjörgu Sólrúnu að Steingrímur J. er orðinn risi á vinstrivængnum - hann er orðinn alvöru forsætisráðherraefni til vinstri. ISG er ekki drottnandi persóna til vinstri. Þeir dagar eru liðnir. Það eru stór tíðindi.

En ein könnun segir aldrei alla söguna. En samt. Þetta eru mjög sterk tíðindi og bylgjan til VG verður ekki hunsuð. Til þess er hún orðin of langvinn og afgerandi. En þetta verða spennandi kosningar. Spái mest spennandi og vægðarlausustu kosningabaráttu með gylliboðum og auglýsingakeyrslu í sögu lýðveldisins. Einfalt mál. En það er aldrei gaman af spennulausri kosningabaráttu, ekki satt?


mbl.is Þorgerður: Þátttaka okkar forsenda umburðarlyndrar miðjustjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Þessi fylgisaukning Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs minnir mig um margt á kvikmyndina Stella í Framboði, en eins og þeir sem sáu myndina muna, þá sigraði Stella kosningarnar vegna þess að hún fann olíu og gaf öllum, en öllum yfirsást að hún myndi ganga á fund Dana og "skila" lýðveldinu aftur til fortíðar.

Fólk að kjósa eitt mál, en gleymir að skoða allan pakkann.

Júlíus Sigurþórsson, 23.3.2007 kl. 18:58

2 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Er sammála þér með VG að þeir hafi fest sig í sessi. Eina sem gæti sett strik í reikninginn hjá þeim er að það ótrúlega gerðist að Íslandshreyfingin næði einhverju fylgi (10-12%), þá myndu þau taka það mest af VG og svo eitthvað af samfylkingu.

Þó það gerðist yrði VG samt stærsta stjórnmálaaflið á vinstri vængnum þó það yrði ekki eins stórt og það virðist vera í dag.

Ágúst Dalkvist, 23.3.2007 kl. 19:59

3 identicon

1. kostur: Stjórn Samfó og Vinstri grænna. 2. kostur: Stjórn Samfó, Vinstri grænna og Frjálsblindra með Adda Kitta Gau sem sjávarútvegsráðherra.

Eggjaleiðari dagsins:

Þar sem tveir menn koma saman, þar er er Framsóknarflokkur.

Steini Briem (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 20:10

4 identicon

Einn vinstri flokkur í landinu er besti kosturinn fyrir vinstri menn og því er það engan veginn áfall ef Samfó hverfur af sjónarsviðinu. Imba og Steini ganga í heilagt hjónaband og málið er dautt. En skelfileg tilhugsun fyrir Sjalla náttúrlega.

Steini Briem (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 20:17

5 identicon

Sæll, Stefán Friðrik og aðrir skrifarar !

''Þátttaka okkar forsenda umburðarlyndrar miðjustjórnar'' Hvers lags orðhengilsháttur er þetta ? Það er með ólíkindum, hversu komið er í okkar þjóðfélagi. Siðferðileg upplausn og hrörnun margvísleg blasir við.

Síðan hvenær, geta Sjálfstæðismenn; með hinn hugmyndafræðilega hryðjuverkamann, Hannes Hólmstein Gissurarson innanborðs, búist við einhverri alþjóðar hrifningu verka sinna, undanfarinn rífan áratug ?

Ég hefi, og ei að ósekju, víða minnst á niðurrif Framsóknarflokksins, ljóst má þó vera, að hann er alls ekki einn í sök. Talandi um VG og Samfylkingu, jú jú....  þar eru öfl innanborðs, hver vilja magna upp, og styrkja hina heimskulegu;; svo kölluðu fjölmenningarstefnu, alveg burtséð frá því, hvað íslenzkum þjóðernissinnum, og þar með andstæðingum kapítalisma; þeim, sem Hannes Hólmsteinn stendur fyrir, vilja í móti leggjast, vel að merkja;; á þjóðlegum íslenzkum forsendum.

Jafn skaðvænlega má telja, áðurnefndan HHG og fylgendur hans, s.s. Illuga Gunnarsson, þar fer hættulegur úlfur í sauðargæru, Stefán Friðrik; sem og alþjóða hyggju VG og Sf, eða hversu sýnist ykkur þar um ?

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 21:04

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ekki alveg að skilja þetta gífurlega vinstri-grænir fylgi sem við erum að sjá í skoðanakönnunum. Held reyndar að þetta séu draumar einir saman og á endanum verði sama stjórn við völd eins og er í dag, samfylkingin týnist alveg og vinstri/hægri grænir verða okkur góðir fylgisveinar, það er mín trú og von

Ásdís Sigurðardóttir, 24.3.2007 kl. 01:23

7 identicon

Það hlýtur að vera í meira lagi stórfurðulegt að 25% kjósenda ætli að kjósa forræðishyggjuflokk sem hefur helst á stefnusrká sinni, boð og bönn og stopp á allar framkvæmdir næstu 5 - 7. árin.
Ingibjörg verður að axla mikla ábyrgð á þessari miklu fylgisaukningu við vg þar sem henni hefur algjörlega mistekist sem formaður sf og gera flokkinn trúverðugan.
Ingibjörgu hefur tekist að gera sf að 3 stærsta flokki landsins.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að fá góða kosningu til þess að koma í veg fyrir vinstristjórn.
Óskaríksstjórn, kippa FF með og halda áfram því góða starfi sem menn hafa verið að gera.
Vg í stjórn er óhugsandi og það verður allt í háalofti innan sf þegar kosningaúrslitin liggja fyrir og þeir varla líklegir til eins eða neins annað en panta hús, fara yfir stöðuna og finna nýjan formann.



Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 09:44

8 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Sæll Stebbi,

Þetta er svo sem ágæt greining hjá þér en eitt er einfaldlega rangt hjá þér. Konur eru alls ekki að flýja Samfylkinguna í stórum stíl yfir til VG, konur eru að yfirgefa ríkisstjórnarflokkana yfir til vinstriflokkanna V og S í stórum stíl. Yfir 55% kvenna gefa sig upp á þessa tvo flokka og flestar konur gefa sig upp á VG af öllum stjórnmálaflokkum;  32,5%. Síðan gefa 23,0% kvenna sig upp á Samfylkinguna. Stóra áhyggjuefni Sf ætti frekar að vera hvers vegna svona fáir karlar styðja flokkinn, einungis 17,6% karla gefa sig upp á flokkinn 

Guðmundur Auðunsson, 24.3.2007 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband