Spaugstofan brýtur lög - deilur um þjóðsönginn

Spaugstofan Það er ljóst að Spaugstofan braut lög um þjóðsöng lýðveldisins Íslands með grínatriði sínu í afmælisþætti sínum á laugardagskvöldið. Skiptar skoðanir hafa verið á þessu atriði. Skrifaði ég um þetta hér í gær og fékk fjölda kommenta og voru það lífleg skrif, bæði þeirra sem voru innilega sammála mér og þeirra sem fannst grínið allt í lagi.

3. gr. laga nr. 7/1983 um þjóðsöng Íslendinga hlýtur að teljast mjög skýr, en þar segir: "Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð". Þá segir ennfremur í 6. gr. sömu laga: ,,Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum eða [fangelsi allt að 2 árum]. Með mál út af slíkum brotum skal farið að hætti opinberra mála". Það er erfitt að líta öðruvísi á en að þetta atriði hafi brotið þessa þriðju grein.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist í þessu máli. Þar skiptir í raun litlu máli hvað mér eða Jóni og Gunnu úti í bæ finnist um þetta atriði, heldur það að um er að ræða brot á þessum löum sem skuli fara yfir með þeim hætti sem bær er. Fjallað var um þetta mál í hádegisfréttum Rásar 1 og þar kom fram að rísi ágreiningur um notkun þjóðsöngsins skeri forsætisráðherra úr um hann. Svo var auðvitað bent á það sem flestir ættu að vita að ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni.

Þetta hlýtur að teljast prinsipp-mál í meðferð þjóðsöngsins. Ef engin meining er að baki refsiákvæðunum í þessari fyrrnefndu sjöttu grein í lögum um þjóðsönginn ætti að afnema þau. Það er alveg ljóst að eitt tilvik þar sem þjóðsöngurinn er notaður með öðrum hætti en tekið er fram í lögum um hann markar það hvernig tekið er á þeim. Að því leyti telst þetta visst prinsipp-mál auðvitað og fróðlegt að sjá hvað gerist í þeim efnum.

Kommentin hér í gær voru úr öllum áttum. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá góð komment félaga míns og bloggvinar, Eyþórs Inga Jónssonar, organista hér við Akureyrarkirkju. Hann fór þar yfir sitt mat á þessu. Erum við mjög sammála í þeim efnum. Það má vel vera að mörgum hafi þótt húmorinn góður. Það er í mínum huga aukaatriði. Þetta snýst um virðingu við þjóðsönginn og það að um hann gilda lög.

Það má vel vera að einhverjum hafi þótt fyndið að snúa lofsöng séra Matthíasar upp á Alcan og áliðnaðinn, en lög eru lög þrátt fyrir það. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli. En ég þakka enn og aftur kommentin hér í gær og þær skoðanir sem þar komu fram.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vísa aftur í athugasemd mína við hina færsluna, þar sem ég færi rök fyrir því að þrátt fyrir að lög séu lög þá geta þau vel stangast á við hugsunarhátt almennings í landinu. Það er einmitt ástæðan fyrir því að lagabókstafurinn er lifandi og breytilegur. Það á ekki endalaust að beygja sig í duftið fyrir lögunum án þess að spyrja frekari spurninga eða kafa dýpra í málið. 

Kristján Hrannar Pálsson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 15:14

2 identicon

Ææææ...þetta mál er svo mikill tittlingaskítur.  Hverjum dettur í hug að einhver verði lögsóttur fyrir þetta mál?

Jón (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 15:14

3 Smámynd: Karl Ólafsson

Atriði Spaugstofumanna var auðvitað frábært og nýi textinn hnyttinn.

Það dylst hins vegar engum að auðvitað brutu þeir blessuð lögin nr. 7 frá 1983. Á því þarf að taka, en lögin sjálf bjóða upp á nokkurn sveigjanleika hvað þetta varðar. T.d. segir í 4.gr. laganna:

"Nú rís ágreiningur um rétta notkun þjóðsöngsins og sker þá forsætisráðherra úr."

Geir fer ekkert að erfa við þá að þeir skyldu gera dálítið grín að honum líka í þessum þætti, er það nokkuð? Hann getur sem sagt fyrirgefið þeim þetta frumhlaup, skv. lögunum, slegið á puttana á þeim (opinberlega í spaugstofuþætti, að sjálfsögðu) og látið þá lofa því að gera þetta aldrei aftur. Að öðrum kosti verður að draga þá fyrir dómstóla og dæma þá til sektar eða varðhalds, allt að 2 árum (hvern meðlim kórsins væntanlega, en þeir voru all margir  ) Þá fáum við kannski að sjá jafn stórkostlegan þátt frá þeim og þann sem þeir gerðu eftir að þeir fengu á sig klámdóminn um árið.

Karl Ólafsson, 26.3.2007 kl. 15:30

4 Smámynd: Karl Ólafsson

Eða var það guðlastdómur, sem þeir fengu á sig. Minnið að gefa sig, biðst afsökunar á mistökunum í færslu minni hér á undan 

Karl Ólafsson, 26.3.2007 kl. 15:32

5 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já páskaþátturinn um árið...

Málið er að ég er þess fullviss að þeim Spaugstofumönnum voru lögin um þjóðsönginn alveg kunn og því var greinilega verið að spenna bogann í afmælisþættinum. Nú er að vita hvað gerist í framhaldinu ... 

Herdís Sigurjónsdóttir, 26.3.2007 kl. 16:34

6 identicon

LÖG ERU LÖG og það er nú varla hægt annað en að fara eftir þeim, ekki bara stundum. Auk þess var þetta jú opinber og vel undirbúinn flutningur.  Rússarnir í sendiráðinu hér urðu nú ekki par hrifnir þegar einhverjir guttar í bríaríi og strákskap sínum um miðja nótt, væntanlega á kenderíi, tóku þar niður rússneska fánann. Og guttarnir voru ákærðir fyrir uppátækið. En menn sleppa náttúrlega með sekt fyrir svona nokkuð, alla vega í fyrsta skiptið. Hins vegar náði hinn langi armur íslenskra laga ekki til Þýskalands í vetur þegar íslenski þjóðsöngurinn var spilaður þar ansi hratt og örugglega, hvað eftir annað. En mér fannst hann nú bara betri þannig.

Steini Briem (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 17:30

7 identicon

Ja, ef að Þjóðverjarnir sem vísað var í hér að ofan sleppa, þá finnst mér að sömuleiðis ætti að sleppa þeim Spaugstofumönnum. Það fór um mann hrollur að heyra meðferðina á sálminum góða og ekki var manni hlátur í hug við það tækifæri.

Steinar K (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 18:03

8 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Mér finnst þetta ekkert stórmál.  Það er nú svo með ýmis íslensk lög að þau eru ekki í takt við tímann og það mætti nú fara aðeins í gegn um íslenska lagasafnið í heild m.t.t. þess. 

Þorsteinn Sverrisson, 26.3.2007 kl. 18:25

9 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Mér finnst í lagi að lofa þjóðsöngnum að halda virðingu sinni, það er ekki eins og virðingin í samfélaginu sé mikil almennt, má orðið gera grín af öllu og gefa skít í allt ? En mér finnst samt ekki eigi að lögsækja þá, þeir vita að fólk hefur haft umdeildar skoðanir um þetta mál og vonandi gera þeir þetta ekki aftur.

Er samt hress bara

Inga Lára Helgadóttir, 26.3.2007 kl. 18:38

10 identicon

Steini Briem: Að sjálfsögðu eru lög lög. En ég býst við því að mörgum finnast hin og þessi lög vera andstæð sínum persónulega vilja. Þetta mál gæti einmitt reynst prófsteinn á gildi laganna; dómskerfið hefur oft gefið fordæmi um það að hin og þessi lög geti verið annað hvort úrelt, andstætt(eða umdeilt) meðal almennings og svo framvegis.

Margir vilja meina að lögbrot sé ekki lögbrot nema það brjóti á hagsmunum einhvers annars. Í þessu tilviki er algerlega um að ræða glæp án fórnarlambs og líklegasta þróunin í þessu máli er að Lögreglan myndi kæra Spaugstofumenn þar eð fáir ef nokkrir þjóðfélagsþegnar sæu hag sinn í að standa í málarekstri sem þessum þótt umfjöllunin um þjóðsönginn okkar sé slík að hann gæti verið refsiverður.

Kristján Hrannar Pálsson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 18:44

11 identicon

Virðing á að vera áunnin en ekki að vera þvinguð í gegnum lög. Þó að sumum finnist ósmekklegt að gera grín að forsetanum, múslimum eða þjóðsöngvum að þá er það ekki réttlæting fyrir því að skerða tjáningarfrelsi annarra. Er ekki bara nóg að þeim sem að finnist það ósmekklegt láti skoðun sína í ljós og mótmæli verknaðnum án þess að blanda dómsvöldum í málið?

Þetta er jafn fáránlegt og að í sumum löndum sé ólöglegt að afneita helförinni. Svona fasismi á heima í Íran, ekki á Íslandi.

Geiri (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 19:24

12 identicon

KRISTJÁN, já, refsigleðin hefur minnkað gagnvart fána- og skjaldarmerkislögunum, sem sett voru hér 17. júní 1944, þegar lýðveldið var stofnað og nánast allir voru að drepast hér úr þjóðrembu. Og hún hefur reyndar ekki minnkað mikið hjá fjölmörgum.  Ég held að refsigleðin hafi einnig minnkað gagnvart þjóðsöngslögunum en þau eru frá árinu 1983, bara 24 ára gömul, þannig að það er spurning hvort ekki eigi að taka tillit til vilja löggjafans í ekki eldri lögum. Þar er refsiramminn tvö ár en "einungis" eitt ár í fánalögunum.

Þessi tvenn lög eru gríðarlega ströng og reglurnar um meðferð íslenska fánans beinlínis hlægilegar að mati margra útlendinga, til dæmis þýsku kærustunnar minnar fyrrverandi, sem bjó hér um tíma. Eftir Síðari heimsstyrjöldina hefur nánast verið bannað að vera með þjóðrembu í Þýskalandi. Íslenski fáninn má til dæmis ekki vera trosinn eða skítugur. Hann má ekki snerta jörð og ekki má flagga lengur en til sólarlags. Ef það gerist skerst lögreglan í leikinn og til ársins 1998 mátti fáninn ekki vera á íslenskum umbúðum. En ég skil sjónarmið beggja aðila og ekki er ég nú beinlínis refsiglaður maður, lítil gleði fólgin í refsigleði. En hvernig á hið háa Alþingi að breyta úreltum lögum þegar það gefur sér ekki einu sinni tíma til að setja ný og löngu nauðsynleg lög fyrir kjaftavaðli út og suður og allt of skamms starfstíma?

Steini Briem (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 20:29

13 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka fyrir kommentin. Ágætt að heyra í öðrum og finna skoðanir annarra líka. Það er mjög gott mál bara.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.3.2007 kl. 23:22

14 identicon

Lög eru auðvitað lög, en hvernig væri ástandið í þjóðfélaginu ef þeim væri framfylgt út í yztu æsar?

Það er t.d. löglegt að kaupa áfengi í ÁTVR, en ólöglegt að vera með það á almannafæri. Hvernig á þá að koma því heim t.d.

Þjóðfáninn dinglar víða, út um hvippinn og hvappinn heilu næturnar og ekkert er gert í málinu, einfaldlega vegna þess að þá gerði löggan lítið annað. Svo mætti lengi telja.

Það er ekki hægt að framfylgja lögum almennt, með svona smásmugulegum hætti eins og sumir vilja í sambandi við þjóðsönginn. Það er úrelt að vera með svona kredduhugarfar og ég hélt að það tilheyrði fyst og fremst VG.

Það er við hæfi að áminna þessa gleðigjafa svona formsins vegna og láta þar við sitja.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 23:34

15 identicon

 

Ég skil ekki þessa viðkvæmni og fanatík í sambandi við þjóðsönginn og endurtek því það sem ég hef áður sagt hér á blogginu: 

Lög eru auðvitað lög, en hvernig væri ástandið í þjóðfélaginu ef þeim væri framfylgt út í yztu æsar?

Það er t.d. löglegt að kaupa áfengi í ÁTVR, en ólöglegt að vera með það á almannafæri. Hvernig á þá að koma því heim t.d.

Þjóðfáninn dinglar víða, út um hvippinn og hvappinn heilu næturnar og ekkert er gert í málinu, einfaldlega vegna þess að þá gerði löggan lítið annað. Svo mætti lengi telja.

Það er ekki hægt að framfylgja lögum almennt, með svona smásmugulegum hætti eins og sumir vilja í sambandi við þjóðsönginn. Það er úrelt að vera með svona kredduhugarfar og ég hélt að það tilheyrði fyst og fremst VG.

Það er við hæfi að áminna þessa gleðigjafa svona formsins vegna og láta þar við sitja.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband