Hugsað til Ástjarnar

Ástjörn Það er oft gaman að hugsa til liðinna daga. Ég fór t.d. að hugsa aðeins áðan þegar að ég sá gamla ferðamynd frá Ásbyrgi frá sumrinu 1988. Um leið áttaði ég mig á að tveir áratugir eru í sumar síðan að ég fór fyrst í sumarbúðirnar Ástjörn. Það er orðinn nokkur tími. Ég fór þangað tvö sumur í röð, var heilan mánuð hvort sumar. Það var lærdómsríkur og gefandi tími.

Það voru auðvitað viss viðbrigði að halda í burt að heiman, upplifa eitthvað nýtt og njóta góða veðursins á þessum slóðum. Þetta er góður tími í minningunni. Ég var ekki lengi að detta í þann gír að njóta þessa staðar, enda var svo margt við að vera og þetta var notalegur tími. Eins og gefur að skilja var fyrra sumarið lærdómur og það var gaman, tíminn leið hratt enda var svo gott veður og þetta var góð lífsreynsla í minningarbankann.

Síðara sumarið var vissulega öðruvísi. Maður vissi að hverju gengið var. Það var í minningunni skemmtilegra sumar, enda var þá svo virkilega skemmtilegur hópur saman þar. Ég kynntist fjölda góðs fólks þarna, suma hef ég haldið sambandi við og suma ekki hitt síðan. Það er eins og gengur. Það væri gaman að vita hvað varð af sumum. Skemmtilegt að hugsa aftur til þessa tíma allavega. Þetta var mjög lærdómsríkur tími, enda er ég viss um að allir sem fara á Ástjörn koma glaðari í hjartanu heim til sín. Þetta er nauðsynlegt fyrir krakka að upplifa.

Annars þekki ég auðvitað betur til annarra sumarbúða, en amma mín Hanna Stefánsdóttir var lengi aðaldriffjöðurin í rekstri sumarbúðanna við Hólavatn, en þar hefur frábært starf verið unnið. Þau sem unnið hafa þar á sviði trúarinnar hafa fært mörgum góðar minningar og eitt er víst að sumarbúðirnar eru mikils virði. Það er nauðsynlegt fyrir krakka að upplifa slíkt ævintýri. Mér fannst það allavega ævintýri að halda t.d. í Ástjörn. Þetta voru skemmtileg sumur í minningunni.

Bogi Pétursson var forstöðumaður á Ástjörn þegar að ég var þar. Hann var allt í öllu þar áratugum saman. Allir þeir sem fóru til Ástjarnar í hans tíð hugsa til hans með hlýju. Einstakur maður. Ég kynntist allavega vel minn tíma þar hvað Bogi er yndislegur og gefandi persónuleiki. Það var heilsteypt og góð mótandi reynsla að dvelja þar. Alla tíð hefur Bogi verið gulls ígildi í mínum huga eftir þennan tíma.

Það gæti meira en vel verið að maður líti bara í Ástjörn í sumar. Það er orðið langt síðan að ég hef farið þar heim í hlað. Það er eflaust margt breytt þar frá mínum tíma, en undirstaðan þar er þó sú sama og hún er mikils virði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

BRÓÐIR MINN, nafni þinn og Akureyringur, var líka hjá Boga á Ástjörn en á undan þér. Honum líkaði vistin bara vel. Ég var aftur á móti eitt sumar á Silungapolli við Elliðavatn og sagði börnunum þar sögur á kvöldin eftir að ljósin höfðu verið slökkt en þá komu þau öll inn til mín. Þá hafði Ómar ennþá hár. 

Steini Briem (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 19:36

2 Smámynd: Pétur Björgvin

Takk fyrir falleg orð í garð Ástjarnar.

Pétur Björgvin, 1.4.2007 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband