Pólitískur lífróður Valgerðar Sverrisdóttur

Valgerður Sverrisdóttir Ef marka má nýjustu könnun á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi stefnir í að kosningabaráttan hér næstu vikurnar verði að mörgu leyti pólitískur lífróður Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Framsókn mælist aðeins með einn þingmann inni og hefur misst rúmlega 20% fylgi og þrjú þingsæti. Það sáu allr sem fylgdust með kjördæmaþætti Stöðvar 2 að könnunin var áfall fyrir Valgerði, enda hafði hún talið að fylgið væri nær 20% mörkunum en 10%.

Það stefnir í miklar breytingar fyrir Framsóknarflokkinn í vor, enda eru tveir þingmenn flokksins; Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir að draga sig í hlé. Jón er nú aldursforseti þingflokks Framsóknarflokksins eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar og hefur verið á þingi frá árinu 1984 en Dagný hefur aðeins setið eitt kjörtímabil á þingi og hljóta að teljast stórtíðindi að hún hafi ákveðið að draga sig í hlé eftir svo skamma þingsetu, en hún var presenteruð sem framtíðarefni flokksins hér í síðustu kosningum, eins og kunnugt er.

Í síðustu kosningum vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur; hlaut fjóra þingmenn og yfir 30% fylgi. Nú stefnir í afhroð, sé þessi könnun að segja alla söguna nú, sem ég efa ekki að hún geri. Það hlýtur að valda Valgerði vonbrigðum. Hún mun veikjast mjög í sessi fái flokkurinn skell af þessu tagi. Það má reyndar spyrja sig að því að hvort að þau sögulegu tímamót að enginn framsóknarmaður að austan eigi möguleika á þingsæti valdi þeim skráveifu þar. Austfirðingar í stjórnmálum misstu strax tvö þingsæti með vali þessa framboðslista í janúar. Síðast fengu Akureyringar í flokksstarfinu nokkurn skell við val á lista en nú varð sá kaleikurinn Austfirðinga. Það voru stór tíðindi.

Alla tíð frá stofnun Framsóknarflokksins hefur flokkurinn haft afgerandi og sterka leiðtoga fyrir austan. Allir þekkja Halldór Ásgrímsson eldri, Eystein, Vilhjálm frá Brekku, Tómas Árnason, Halldór Ásgrímsson yngri og Jón Kristjánsson. Dagný Jónsdóttir varð svo síðasta vonarstjarna þeirra og hún var mest allra kynnt í kosningunum 2003. Jafnskjótt og hún kom hvarf hún. Þessir menn mörkuðu sögu Framsóknarflokksins að fornu og nýju. Gleymum því ekki. Þeirra hlutur í sögu flokksins er og hefur alla tíð verið talinn afgerandi. Það voru merkilegustu tíðindi aðdraganda þessara kosninga að þeir fyrir austan áttu engan til að fylla skarðið.

Eysteinn Jónsson var pólitískur lærifaðir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann mótaði hann manna mest. Sömu áhrif hafði hann á Tómas og Halldór Ásgrímsson hinn yngri. Eysteinn mótaði heila kynslóð framsóknarmanna fyrir austan. Hann hafði mikil áhrif. Það var enda bjargföst trú mín að þessi gamli baráttumaður og forni forystumaður austfirskra framsóknarmanna hafi snúið sér við í gröfinni vitandi að enginn framsóknarmaður yrði á þingi að austan kjörtímabilið 2007-2011. En framsóknarmenn nyrðra gátu glaðst. Framsóknarmenn á Akureyri eygja nú von á sínum fyrsta þingmanni síðan að Ingvar Gíslason sat á þingi í Höskuldi Þórhallssyni.

En það er ljóst að heilladísirna eru ekki í pólitísku ferðalaginu nú með Framsókn. En þar á greinilega að snúa vörn í sókn. Valgerður beit, eins og ávallt, vel frá sér í umræðunum í gærkvöldi. En mun henni takast að bæta stöðu flokksins. Flestir virðast hér ganga að því sem gefnu að þetta sé síðasta kosningabarátta Valgerðar og hún leggi nú allt í sölurnar fyrir gott gengi. Miklar breytingar blasa við með brotthvarfi beggja austfjarðaþingmanna Framsóknarflokksins og nokkuð önnur staða uppi nú en var fyrir fjórum árum með lista sem hafði skírskotun í allt kjördæmið.

Eins og staðan er nú eru framsóknarmenn varla að berjast upp á fleiri en tvö sæti nú, en væntanlega mun Birkir Jón, eini sitjandi þingmaður flokksins hér utan Valgerðar sem fer fram, ná kjöri. Það er mjög óvarlegt annað en telja að hann nái inn. Framsókn mun berjast fyrir því að ná inn þriðja manninum. Það yrði talið varnarsigur og myndi flokkast undir sigur í vondri stöðu að ná að komast yfir 20% og ná inn þrem. En ef marka má þessa könnun þarf margt að breytast til að það takist.

En væntanlega telst þetta pólitískur lífróður. Valgerður hefur áður tekið slaginn og átt bæði góða og slæma daga pólitískt. Innan við ár er liðið síðan að Valgerður náði þeim sögulegum áfanga að verða utanríkisráðherra fyrst kvenna. Nú er spurning hvort að sú vegtylla verði henni sigursæl eða pólitísk bölvun sökum mikillar fjarveru erlendis. Halldór Ásgrímsson háði sem utanríkisráðherra mikinn lífróður í síðustu kosningabaráttu sinni fyrir austan árið 1999. Valgerður ætlar ekki að láta það sama endurtaka sig nú.

En það er greinilega við ramman reip að draga fyrir hana og flokkinn. Þessi staða, ef af yrði, myndi verða túlkuð sem mikill persónulegur ósigur Valgerðar Sverrisdóttur og myndi verða upphafið að pólitískum endalokum hennar og í raun má segja að Framsóknarflokkurinn allur sé að fara í endurhæfingu verði skellur flokksins um allt land að veruleika. Þar verður barist þó til hinstu stundar. En það verður mikil þrautaganga.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Framsókn þarf alla vega að ritskoða málshættina í páskaeggjunum sem þeir dreifa með kosningabæklingunum sínum.

Einn úr minni fjölskyldu kom í verslunarmiðstöð í Kópavoginum í gær, þar sem að honum var rétt páskaegg og bæklingur frá útsendara framsóknarflokksins.  Þar sem ég er ekki mikið fyrir sælgætisát  en hef áhuga á málsháttum var mér gefinn málshátturinn.  Og viti menn, hann hljóðaði svo: "Ekki verður bókvitið í askana látið"

kolbrún (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 19:05

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Nú er hún Snorrabúð stekkur. Græni liturinn sem umlukið hefur norð-austur kjördæmi er nú farinn að fölna all verulega. Sveitirnar þar sem vagga kaupfélaganna stóð farnar að halla sér að öðrum gildum og nútímalegri. Ég er samt sammála þér um það að það væri óvarlegt að ætla að Birkir Jón færi ekki inn, ég er viss um að það leynast enn nokkrir af framsóknar frændum mínum, sem ekki hafa tekið þátt í skoðanakönnunum, en þeir munu mæta á kjördag og velja sitt X-B

Ásdís Sigurðardóttir, 5.4.2007 kl. 19:39

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ef ég þekki Akureyringa rétt eru þeir að styðja hann Kristján Þór sinn núna en þegar nær líður kosningum og hann öruggur inni munu einhverjir þeirra snúa sér að því að ná næsta Akureyringi inn, Höskuldi Þórhallssyni.

Gestur Guðjónsson, 5.4.2007 kl. 20:48

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Kolbrún: Þakka þér fyrir þessa mergjuðu sögu.

Ásdís: Já, allt er í heiminum hverfult. Framsókn fölnar hér, en þeir hafa áður verið down en tekist að byggja sig upp, tókst það vorið 2003. En ég finn það vel að margt er breytt. Þau munu tapa þónokkru fylgi, spurningin bara hversu miklu. Fjórði maðurinn er á bak og burt, þetta verður varnarbarátta við að reyna að ná inn þriðja manni. Efast um að það takist séð frá stöðunni nú. En 37 dagar getur verið langur tími.

Gestur: Kristján Þór er auðvitað gulltryggur, hann er leiðtogi flokks sem hefur aldrei farið neðar en í tvo menn. Enda munu sjálfstæðismenn keyra á Akureyringnum Þorvaldi Ingvarssyni sem baráttumanni. Framsókn mun kynna vel Höskuld og eitthvað græða á honum. En Framsókn tapar stórt fyrir austan, þar sem enginn er í neinu alvörusæti. En þetta verður spennandi kosningabarátta vissulega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.4.2007 kl. 23:11

5 identicon

GERÐARLEG ER VALGERÐUR en hún mun tapa þessari róðrarkeppni og litli drengurinn í Norðaustrinu kemst ekki aftur á þing.

Steini Briem (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 23:54

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það hafa margir farið flatt hér á að vanmeta Framsókn. Miðað við kynningarblað þeirra og roknaauglýsingar þeirra hér á miðvikudag er mjög óvarlegt að vanmeta þá. Birkir kemst inn, enginn vafi á því þegar að allt fer á fullt. Þau græða á að vera með tvo menn innan við 35 ára í baráttusætum. Þeir eru einu ungliðarnir sem eiga raunhæfa möguleika á þingsæti. Það trekkir sannaðu til. En ég er ekki svo blindur að ég telji að Birkir falli, það mun ekki verða. Það gæti orðið barátta fyrir þá að vera yfir 20% en ég er viss um að Höskuldur mun trekkja hérna á Akureyri. Það skiptir máli í svona stórum kjördæmum að keyra á baráttufólki frá stóru svæðunum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.4.2007 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband