9.4.2007 | 00:51
Ingibjörg Sólrún í vanda - hvað hefur klikkað?
Um fátt hefur verið meira rætt um páskahelgina en slæma útkomu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í könnun Gallups á stöðu stjórnmálaleiðtoganna. Þar mældist hún mjög illa meðal kvenna og varð fjórða í röð þeirra sem landsmenn treysta best. Ingibjörg Sólrún er sá flokksleiðtogi sem flestir voru neikvæðir gagnvart, eða meira en helmingur aðspurðra.
Ég skrifaði hér í gærkvöldi grein um þessa útkomu, sem er auðvitað rosalega vond fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, sem í aðdraganda þingkosninganna 2003 var vinsælasti stjórnmálamaður landsins, jafnan á pari við Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og stundum vinsælli. Hún er nú heillum horfin með arfaslaka stöðu, sem virðist umfram allt kristalla vont gengi Samfylkingarinnar. Það eru enda gömul sannindi að óvinsæll flokksleiðtogi eins og Ingibjörg Sólrún er nú orðin skv. skoðanakönnunum dregur niður flokk sinn er á heildina er litið. Það þarf enga snillinga til að sjá það.
Það er vægt til orða tekið að Samfylkingarmenn sem lesa vefinn hafi verið ósáttir við skrif mín og komið með allskonar undarleg skrif, misjafnlega kostuleg þó. Það er auðvitað alveg ljóst að það sjá allir stjórnmálaskýrendur hvernig landið liggur. Vond mæling Ingibjargar Sólrúnar kemur ofan á allar fyrri kannanir sem sýna vel vonda stöðu Samfylkingarinnar, sem berst í bökkum um allt land og virðist hafa misst um eða yfir 10% af kjörfylginu 2003, sem eru auðvitað mikil tíðindi miðað við að um er að ræða stærsta stjórnarandstöðuaflið. Ingibjörg Sólrún hefur enda aldrei verið ráðherra og ekki gegnt valdamiklu pólitísku embætti í yfir fjögur ár, en hún var borgarstjóri í Reykjavík 1994-2003.
Samfylkingin hefur aldrei setið í ríkisstjórn, svo að ekki er hægt að tala um að þetta fylgistap sé vegna þess að flokkurinn sé óvinsæll vegna einhverra verka sinna á þeim vettvangi. Það að Samfylkingin sé að mælast með svipað fylgistap eða jafnvel meira en Framsóknarflokkurinn, sem hefur verið í ríkisstjórn í tólf ár og leitt ýmis erfið mál, eru stórtíðindi. Það væri hægt að skilja kostuleg ummæli stuðningsmanna Samfylkingarinnar og Ingibjargar Sólrúnar og útúrsnúninga þeirra ef aðeins karlmenn væru að snúa við henni bakinu og kvennafylgið væri sterkt á móti, en það er ekki heldur. Það er enda mesta áfall Ingibjargar Sólrúnar.
Ég skil vel að þessi könnun sé áfall fyrir Samfylkinguna, það er það vissulega. Vonbrigði þeirra eru mikil og það er erfitt að horfast í augu við þessa stöðu. Því verður þó ekkert neitað að staðan er svört, það væri metið sem algjör afneitun ef einhver stjórnmálaskýrandi liti framhjá myndinni sem kannanir nú draga upp. Ingibjörgu Sólrúnu hefur alla tíð verið lýst sem helstu vonarstjörnu vinstrimanna og hún varð formaður Samfylkingarinnar út á stöðu sína sem farsæll leiðtogi í Reykjavík í tæpan áratug og myndin var dregin upp að hún gæti lyft Samfylkingunni upp til hæstu hæða, gert hann að einhverju stóru og miklu. Þær vonir hafa brugðist.
Það varð hér athyglisverð umræða um skrif mín um stöðu Ingibjargar Sólrúnar. Margir höfðu skoðun á því sem ég setti fram. Ég stend við þau skrif, enda tel ég þau vera að lýsa myndinni eins og hún er. Það er öllum ljóst að konurnar eru að fara yfir til vinstri grænna og það hafa orðið umskipti að því leyti að margir hafa ekki trú á stjórnmálaforystu Ingibjargar Sólrúnar. Það þýðir allavega ekki fyrir stuðningsmenn Samfylkingarinnar að lýsa könnun Gallups sem einhverju rugli og reyna að lita heiminn eftir hugsjónum Pollýönnu. Staðan er mjög einföld og þeir væru ekki veglegir stjórnmálaskýrendurnir sem myndu ekki meta stöðuna svona.
Það stefnir í spennandi kosningar. Þegar að rétt rúmir 30 dagar eru til kosninga er Ingibjörg Sólrún í miklum vanda. Það að hún hafi misst fótfestuna meðal kvenna eru dökk tíðindi fyrir hana, það eru líka dökk tíðindi fyrir flokkinn sem hún leiðir. Þessir 30 dagar ráða pólitískri framtíð hennar, það blasir við öllum. Hún á erfitt verkefni framundan, enda er erfitt að vera leiðtogi stjórnarandstöðuflokks sem fer fram gegn tólf ára gamalli ríkisstjórn og vera að mælast pikkfastir tíu prósentustigum undir kjörfylginu æ ofan í æ og með leiðtoga sem mælist ekki með tiltrú landsmanna. Það er mikill örvæntingartúr sem er framundan hjá flokki í slíkri stöðu.
Þannig er staða Samfylkingarinnar skv. könnunum. Það er fjarstæða að ætla að reyna að segja að allar kannanir séu rangar og að þetta sé bara fjarstæða. Það virkar ótrúverðugt þegar að stuðningsmenn flokks í vanda og með leiðtoga í vanda við stýrið reyna að segja að allt sé þar í lagi. En það eru enn 30 dagar eftir vissulega, en það er alltaf sálfræðilega erfiðara að halda inn í lokasprettinn undir en verandi yfir. Það er mjög einfalt mál. Það þarf ekki snjalla stjórnmálaskýrendur til að sjá það. Enda er oft erfitt að rísa úr langri botnstöðu þegar að svo margt gengur illa.
En það verður vissulega fylgst vel með Samfylkingunni og leiðtoganum. En vandræði þeirra verða enn vandræðalegri þegar að fólk horfist ekki í augu við vandann heldur reynir að skjóta sendiboðana sem greina stöðuna með heiðarlegum hætti. Enda er hlegið að þeim stjórnmálaskýrendum sem reyna að greina stöðuna í dag sem góða fyrir Samfylkinguna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:04 | Facebook
Athugasemdir
Fyrirgefðu mér, ég næ bara ekki boðskapnum þínum í kvöld er búin að kíkja á dagatalið og árið líka ég les það fyrst og fremst út úr Gallup að 81% þeirra sem styðja íhaldið eru neikvæðir í garð Ingibjargar þið eruð öll skíthrædd og lái ég ykkur ekki , hvar er Geir og hvað stendur hann fyrir????????????
Helga E. Jónsdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 01:20
Áttirðu von á að sjálfstæðismenn væru jákvæðir í garð hennar? Það væru nú aldeilis tíðindi. Ég sé að þú nefnir ekki kvennafylgið. Meira að segja Ómar Ragnarsson naut meira fylgis en Ingibjörg Sólrún meðal kvenna. Hvaða dóm fellirðu yfir mælinguna meðal kvenna? Finnst þér það góð mæling fyrir fyrrum lykilforystukonu Kvennalistans? Ekki hægt annað en að spyrja.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst á fimmtudag. Þar hefst kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins af fullum krafti. Búast má eflaust við miklum tíðindum í yfirlitsræðu Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins, síðdegis á fimmtudag og ég hef enga trú á öðru en að flokkurinn komi með sterka stefnu út úr landsfundinum og marki þar allar þær línur sem máli skiptir. Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins hefst af fullum krafti með landsfundinum.
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 9.4.2007 kl. 01:25
Ég held að vandi ISG sé skortur á Davíð nokkurum Oddssyni. Hún var nokkurs konar tákngervingur andstöðunnar við völd Davíðs í borginni og síðan í landsmálunum. Hún sigraði borgina og svo átti að sigra landsmálin. Í millitíðinni hverfur Davíð af vettvangi sjórnmálanna og þá er ekki lengur hægt að spyrna þeim tveim saman a la borg og landsmál. Geir er góður en hans valdatími er stuttur sem forsætisráðherra svo andstaða við hann er mjög lítil. ISG og Geir verður seint spyrnt saman á sama hátt og ISG og Davíð forðum. Vandi ISG felst lum leið í því að ráðast alltaf að Sjálfstæðisflokknum sem uppsprettu alls ills. Þar er hún í bullandi samkeppni við Joðið og um leið tekur hún ekki á VG hættunni. Þetta er furðuleg afstaða hjá ISG og Samfylkingunni i heild sinni því Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eiga svo margt sameiginlegt. VG eiga næstum ekkert sameiginlegt með nokkrum lýðræðisflokkanna enda einstrengingslegur forræðis- og bannhyggjuflokkur. Daður Samfylkingar við VG er með ólíkindum og nú uppskera þeir í samræmi við daðrið. ISG hagar sér alltaf eins og sé að keppa fyrir einhvern R-lista í landsmálum og höfuðandstæðinguriin sé Sjálfstæðisflokkurinn. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur eiga að vinna saman og hvorugur flokkanna á að daðra nokkuð við VG.
kveðja
Sveinn
Sveinn Valdimar Ólafsson, 9.4.2007 kl. 01:33
IMBA ER EKKI SAMFÓ OG ÖFUGT, það er beggja vandi. Ómar er hins vegar Íslandshreyfingin, Steini er Vinstri grænir, Geir er Sjallar, Jón er Framsókn og Addi Kitta Gau er Frjálsblindir. Í Samfó er engan veginn einn fyrir alla og allir fyrir einn. Og Imba getur að sjálfsögðu ekki staðið fyrir því að vera bæði með og á móti stóriðju, sem þessar kosningar snúast um, fyrst og fremst. Þessi vandi Samfó og Imbu kristallaðist í Hafnarfirði, þar sem bæjarstjóri Samfó tók ekki opinbera afstöðu með eða á móti álverinu.
Og nú er Jón Gunnarsson, þingmaður, fallisti hjá Samfó og ekki einu sinni á lista hjá þeim lengur, að blaðra um að hann sé hugsanlega ekki á móti álveri á Keilisnesi að hundrað skilyrðum uppfylltum, efnahagslegum og ég veit ekki hvað. Hvað er þessi maður að vilja upp á dekk núna?! Ég held hann ætti að drífa sig aftur niður í lúkar og kákla þar áfram með sitt eiturbras við kabyssuna, enda er hann löngu búinn með kvótann. Vona bara að hann drepi ekki alla áhöfnina!
Framsókn var eitt sinn grænn flokkur en nú er hann eiturgrænn flokkur og hrekur frá sér bændur, konur og vinstrisinna yfir til Vinstri grænna, enda er formaður þeirra bóndi úr Þistilfirði. Bændur við Þjórsá sendu Hafnfirðingum ákall um að hafna stækkun álversins, því bændur unna náttúrunni og eru almennt á móti stóriðju, heljarinnar raflínumöstrum og raflínum út um allar koppagrundir í þeirra heimabyggðum.
Fylgi þeirra Sjalla sem eru á móti stóriðjunni fer í töluverðum mæli yfir til Ómars, því hann er frekar til hægri en vinstri, en hann dregur einnig til sín eitthvert fylgi frá Vinstri grænum. Og fylgi Samfó hefur að talsverðum hluta farið yfir til Vinstri grænna, því þeir eru með skýra stefnu gegn stóriðjunni. Ef Samfó hefði tekið sama pól í hæðina hefðu trúlega einhverjir í hennar röðum farið yfir til Sjalla en engan veginn til Framsóknar. Slíkt myndu kratar aldrei gera, þó lífið lægi við, og öfugt.
Að þessu sinni fær Framsókn ekki meira fylgi í kosningum en skoðanakönnunum, því fólk sem er á móti stóriðjunni fer ekki aftur yfir til Framsóknar. Sjallar fá hins vegar minna fylgi í þessum kosningum en skoðanakönnunum, eins og vanalega, ekki síst þar sem þeir missa fylgi yfir til Ómars vegna stóriðjunnar.
Addi Kitta Gau kemst klárlega á þing, því hann þarf ekki nema 10% fylgi í Norðvesturkjördæmi til að vera kosinn á þing. Hins vegar fá Frjálsblindir sáralítið fylgi á landsvísu og geta því ekki myndað stjórn með Samfó og Vinstri grænum.
Sjallar fá í mesta lagi 35% fylgi í kosningunum en Framsókn í mesta lagi 8% og ríkisstjórn þessara flokka er löngu fallin. Líklegustu stjórnarmynstrin eru Vinstri grænir, Samfó og Ómar, eða þá Vinstri grænir og Sjallar, því Framsókn fær ekki nógu mikið fylgi til að geta myndað stjórn með Sjöllum og Ómari. Hér verður því mynduð í vor annað hvort "vinstri græn stjórn" eða "vinstri-hægri græn stjórn", þannig að stóriðjan er klárlega úr sögunni og "vinstri græn stjórn" er líklegasti kosturinn.
Steini Briem (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 02:51
Babú babú Stefán.
Það má alls ekki tala um slæma stöðu Samfylkingarinnar, þá fara allir að skæla. Enginn vill ræða það af hverju margar konur hafa ákveðið að kjósa SJS frekar en ISG. Það má bara ekki minnast á hve fáar konur komast á þing fyrir Samfylkinguna í vor. Það vill enginn ræða það af hverju Samfylking er búin að gefa Vg nærri helming af sínu fylgi með því að færa sig í átt að miðjunni.
Sá sem veltir þessu fyrir sér er annað hvort vondur sjalli eða með ISG á heilanum.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 02:52
Ja það er nú svo sem engin launung en minn maður er Össur ég vonaði á sínum tíma að hann væri áfram Formaður,en svona er lýðræðið og mér varð ekki að ósk minni,fremur en að Siv yrði formaður Framsóknar,mér er skítsama um Sjálfstæðisflokkinn þar má Djöfullinn sjálfur Rúla mín vegna en við sjáum hvernig fer í mai og það eitt skiptir máli ekki kannanir.
Virðingafyllst:Úlfar B Aspar.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 9.4.2007 kl. 07:22
Stebbi, þetta er að verða þráhyggja hjá Sjálfsstæðismönnum að skrifa um stöðu Samfylkingarinnar og sérstaklega Ingibjargar Sólrúnar.
Ég hef haldið því fram að níð Sjálfsstæðismanna í garð Ingibjargar Sólrúnar þegar hún kom í landsmálinn séu undirrót hennar persónulegu stöðu. Sjálfsstæðismenn höfðu líka mikið að óttast enda tapað 3 fyrir henni í borginni - sem hefur ekki gerst fyrr né síðar.
ISG hefur nú verið leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins á þessu tímabili - sem hefur ekki verið auðvelt. Það er ekkert gaman fyrir ferskan stjórnmálamann að sitja á bekknum.
Varðandi fylgistap Samfylkingarinnar tel ég helstu skýringuna vera þessi öfgafulla umræða um virkjanir og umhverfisvernd, þar sem VG hafa verið að ná til fólk með svart-hvítum málflutningi. Við sjáum hvort það heldur fram að kosningum.
Eggert Hjelm Herbertsson, 9.4.2007 kl. 08:57
Tek undir með Helgu Jónsdóttir. Er það einhver frétt þó að ISG sé óvinsæl meðal Sjálfstæðismanna? Þurfti Gallup til að segja mönnum það? Þetta endalausa ISG tal í þér Stefán, jaðrar við geðveiki.
Dísa (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 10:39
Já, mikill er máttur okkar sjálfstæðismanna ;) Og ekki kemur á óvart að allt sé öðrum að kenna að mati Samfylkingarfólks, ekkert er við Samfylkinguna sjálfa að athuga né formann hennar. Onei. Afneitunin er alger. Er von að ekkert breytist við slíkar aðstæður? Þetta minnir á andlega þjakaða manneskju sem þvertekur fyrir að eitthvað sé að sér,
Hjörtur J. Guðmundsson, 9.4.2007 kl. 10:42
Geðveiki Dísa? Róleg. Annars held ég frekar að ófáir í Samfylkingunni séu að verða geðveikir á þessu ástandi flokksins.
Hjörtur J. Guðmundsson, 9.4.2007 kl. 10:44
Ingibjörg saknar erkióvinarins, Davíðs. Hún hefur ekki verið farsæll leiðtogi manna eða málefna. Vont ef stuðningsmenn telja mátt og getu foringjans fölna við gagnrýni andstæðinga. Hvorki sterkt né trúverðugt. Bendir til sárinda sem ætti að meðhöndla. Vandinn er að "sjúklingurinn" hlustar ekki og því mun lítið breytast til batnaðar. Samfylkingarfólk mun því áfram sjá flísar í augum annarra - og forsjárpúkinn horfir á og fitnar sem aldrei fyrr.
Ólafur Als, 9.4.2007 kl. 11:04
Hmmm, þetta eru þá einhverjar ómeðvitaðar áhyggjur. Ég hef a.m.k. ekki orðið var við þær.
Hjörtur J. Guðmundsson, 9.4.2007 kl. 11:36
GEIR HAARDE verður náttúrlega að segja skoðanir sínar á öllum málum, enda þótt hann sé forsætisráðherra allra Íslendinga, ekki bara Sjalla. Lúðvík Geirsson, bakari og bæjarstjóri í Hafnarfirði, var einnig kosinn í almennum pólitískum kosningum. Þeir eru því engan veginn embættismenn sem eiga að þegja eða leyna skoðunum sínum fyrir almenningi, hvað þá þeim almenningi sem kaus þá til valda. Þeir hafa engan rétt til þess.
Steini Briem (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 12:16
Arnþór segir að ef kosið yrði í dag þá hafi Ingibjörg það í hendi sér hvernig ríkisstjórn yrði mynduð. Er Samfylkingin að stefna í að taka "Framsókn 2003" á þetta og verða lítill flokkur með alltof mikil áhrif eins og þeir hafa gagnrýnt Framsóknarflokkinn fyrir allt frá síðustu kosningum?
Mér skilst að flokksformennirnir verði í Kastljósinu í kvöld - það verður fróðlegt að sjá það.
Björg K. Sigurðardóttir, 9.4.2007 kl. 12:22
Sæll Stefán og takk fyrir málefnalegan pistil.
Spurning er hvaða erindi á sf við íslensku þjóðina, ja ef marka má síðustu skoðanakönnun Capacent ætlar 81% þjóðarinnar ekki að kjósa sf.
Það sem isg hefur gert fyrir sf og hefur margoft komið fram er að hún hefur eingöngu tapað fylgi fyrir þá.
Helsta vandamál sf er stefnu&skoðanaleysi flokksins ásamt getuleysi til að taka ákvaðanir..
Auðvitað var það lélegt hjá sf að ákveða að hafa landsfund sinn á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn en ef þeir vilja endilega skjóta sjálfan sig í löppina í samanburði um landsfundi þá verði þeim að góðu. Þetta er örvæntingafull tilraun sem allir hlutlausir aðilar eru eðlilega sammála um að mun mistakast.
Ingibjörg Sólrún var eitthvað sem skipti máli i pólitík en er það ekki í dag.
Ég skil enganvegin þingmenn sf að reyna ekki að fá hana til að segja af sér á landsfundinum, hún hefur sagt það sjálf að fólkið treysti ekki þingflokknum en samkvæmt nýrri skoðanakönnun virðist almenningur hafa minnsta trú á henni og er það skyljanlegt. Að þingmenn sf ætli að sitja hjá með hendur í skauti og gera ekkert meðan hún tapar frá þeim 5 - 7 þingsætum er ótrúlegt.
En aðalmálið eftir kosningar er að enginn flokkur leyði afturhaldskommaflokkinn inn í ríkisstjórn þá verður stórt stopp á Íslandi og velferð okkar mun hraka.
Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 14:16
Tek það fram að ég er ekki Samfylkingarkona, en langar að benda þér á að þú ert ekki að gera þínum flokki neina greiða með þessum skrifum. Að vera endalaust að juðast á þessari rosalega vondu útkomu fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og að könnunin sé áfall fyrir Samfylkinguna ... allt í lagi að minnast á það, en þetta fer nú bara að jaðra við þráhyggju og kemur afskaplega kjánalega út.
Hugarfluga, 9.4.2007 kl. 14:45
Sæll Stefán.
Það sem stendur upp úr eftir lestur hugleiðinga þinna - já, og eftir nánari athugun á niðurstöðu könnunarinnar - er einfaldlega það að Ingibjörg Sólrún er STJÓRNARANDSTÆÐINGURINN. Hún er sú sem að kveður, hún er sú sem hinir stjórnmálaforingjarnir óttast, sú sem mest er lagt í að níða niður.
Sama gerðist með Davíð Oddsson á sínum tíma - hann var hvað eftir annað kosinn óvinsælasti stjórnmálamaður landsins, um leið og hann mældist stundum sá vinsælasti.
Ingibjörg Sólrún er umdeildur stjórnmálamaður - það segir mér að það er í hana spunnið. Afrek hennar sem borgarstjóri í velferðar- og jafnréttismálum segja heilmikið um mannkosti hennar. Ummæli sem eftir henni hafa verið höfð á undanförnum mánuðum segja mér líka heilmikið um heilindi hennar og hreinskiptni.
Samfylkingarmenn eru stoltir af henni sem foringja sínum - hún er kona með hugmyndir, kjark og heiðarleika. Þjóðin þarf á slíkum stjórnmálamönnum að halda.
Bestu kveðjur.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.4.2007 kl. 14:48
Takk fyrir kommentin.
Sveinn: Margt til í þessu. Fín greining. Ég held einmitt að ISG hafi ekki borið barr sitt eftir að DO hætti, það var henni mikið áfall, enda var öll hennar pólitík ansi föst við baráttuna gegn honum sem persónu. Við sáum vel taktana í síðustu kosningum.
Steini: Ágætar pælingar, er ekki sammála öllu, en ég býð svosem ekki upp á komment hér bara til að fólk geti verið sammála. Það var vissulega mjög fróðlegt að heyra í Jóni Gunnarssyni, alþingismanni. Stuðningsmenn Fagra Íslands hafa sennilega varla brosað breitt yfir boðskap hans.
Hákon Hrafn: Þakka þér fyrir góðar pælingar og fínt innlegg.
Eggert: Ég kannast ekkert við að vera með neitt níð garð eins né neins. Það sem birtist í könnunum er mjög skýrt. Það er vissulega mjög dökk staða fyrir Samfylkinguna. Hvað er rangt við þessar tölur og framsetninguna? Ætlarðu að reyna að halda því fram að staða ISG sé bara einn stór misskilningur og staða hennar sé í raun alveg frábær. Tölurnar og staðan tala alveg sínu máli og ég held að ég afbaki ekki neitt. Það væru allir flokkar og forystumenn þeirra metnir í stórvanda miðað við söguna, fyrri mælingar og stöðuna nú sem er auðvitað mjög vond.
Dísa: Það er greinilegt að stuðningsmenn ISG vilja ekki bera saman sambærilega könnun nú og í aðdraganda kosninganna 2003 þegar að Ingibjörg Sólrún var vinsælasti stjórnmálamaður landsins. Enn á þá eftir að greina kvennafylgið. Konur eru frekar neikvæðar en jákvæðar í garð hennar. Er það ekki áfall? Annars skil ég vel að stuðningsmenn hennar reyni að snúa staðreyndum mælingarinnar á haus, enda boðar hún mjög vond tíðindi fyrir ISG. Þetta er vont högg á viðkvæmum tíma.
Hjörtur: Þakka góð innlegg. Samfylkingarmenn láta eins og þetta sé bara einhver martröð sem þeir vakni brátt af og þá verði aðeins sól og gullnir dagar sem taka við. Þetta er auðvitað afneitun þess sem neitar að horfast í augu við stöðuna. Enda tel ég stöðuna liggja ljósa fyrir, hún ætti að gera það fyrir alla. Þetta helst allt saman, vond mæling Samfylkingarinnar og leiðtogans. Þetta er auðvitað áfall fyrir þá sem töldu innan Samfylkingarinnar að ISG myndi tryggja þeim sigur og farsæld. Skil vissulega vonbrigðin en afneitunin er barnaleg.
Björg: Já, svo virðist vera sem að Samfylkingin ætli sér að taka Framsókn á þetta. Ef að þeir myndu leiða stjórn eftir kosningar verandi með Framsóknarfylgi og fylgistap á borð við Framsóknar yrði strax farið að bera ISG saman við Halldór. Annars er þetta auðvitað opið, enda hafa kosningar ekki enn farið fram. En kannanir lofa ekki góðu. Það lofar aldrei góðu að hafa ekki tiltrú almennings í leiðtogastöðu. Aðeins Jón og Guðjón eru neðar í skori en ISG og það verður seint sagt að miklar líkur séu á að þeir leiði ríkisstjórn í vor.
Arnþór: Það er ósköp eðlilegt að staðan sé greind. Hún ætti að blasa við öllum sem líta á könnun á stöðu stjórnmálaleiðtoganna. ISG kemur mjög illa út, það ætti að blasa við öllum. Það hljóta bráðum að fara að teljast mistök að hafa skipt Össuri út. Svo virðist vera sem að öll varnaðarorð Össurarmanna vorið 2005 séu að ganga eftir stig af stigi, jafnvel að staðan sé enn dökkari.
Björgvin Þór: Ég skrifa um pólitík, greini það sem er að gerast og hvað er efst á baugi. Auðvitað er þessi könnun athyglisverð og hvað átti ég ekki að skrifa um hana? Auðvitað fer ég yfir hana. Vandræðaleg viðbrögð Samfylkingarmanna eru athyglisverð, enda eru þeir í pjúra afneitun yfir stöðunni. Þetta er eiginlega með ólíkindum að lesa sum kommentin sem hér hafa komið. Þetta er vissulega áfall fyrir ykkur en ég ætla rétt að vona að þið kippið ykkur ekki við að ég skrifi um kannanir á stöðu leiðtoganna og flokkanna mánuði fyrir kosningar.
Steingrímur: Ég er ekki í framboði í þessum kosningum. Ég hef verið að greina kannanir og stöðu mála í aðdraganda kosninga og tjá mínar skoðanir með. Það er mitt hlutskipti í þessari baráttu. Ég tók þá ákvörðun að taka ekki þátt í kosningabaráttu flokksins míns að þessu sinni. Ég virkja vel bloggið mitt og fer yfir stöðu mála, en sit ekki á kosningaskrifstofu og vinn þar grunnvinnuna. Þetta blogg er ekki kosningabarátta fyrir neinn flokk, ég segi vissulega mínar skoðanir og tjái mig um stöðu mála. En ég er ekki frambjóðandi og er að mörgu leyti mjög ánægður með það, enda tel ég mig vera mjög óbundinn af öllu og geti greint stöðuna vítt og án þess að vera að tala í nafni einhvers flokks eða predika stefnu hans daginn út og inn. Það sjá aðrir um það.
Óðinn: Þakka þér fyrir greininguna og pælingarnar.
Ólína: Þakka þér fyrir kommentið. Gott að fá pælingar frá þér um stöðuna. Ég er vissulega ekki mesti stuðningsmaður Ingibjargar Sólrúnar, en hef vissulega virt hana fyrir að vera kraftmikill stjórnmálamaður og þorað að keyra áfram af krafti. Kannski hefur hún verið of lík Davíð Oddssyni, veit það ekki. Held að Geir sé að græða mikið á að boða eitthvað nýtt, þessir tveir menn eru ekki líkir, enda held ég að það færi Geir ekki vel að leika einhverja týpu sem hann er ekki. Það ber minna á honum en Davíð, hann er allt annar karakter og hann kemur með aðra nálgun á leiðtogahlutverkið. En staða ISG er vond, enda hlýtur kvennafylgið að vera vonbrigði fyrir hana, miðað við að hún er eina konan sem leiðir flokk í alvörubaráttunni. En enn er mánuður eftir vissulega, en kannanir sýna dökka stöðu nú. En helsta könnunin fer fram 12. maí. Hún skiptir mestu máli er á hólminn kemur.
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 9.4.2007 kl. 15:30
Held að maggabloggið svari þessu best. Þetta var lítið rætt í mínum hóp, enda fólk þar almennt mjög jákvætt út í Inibjörgu Sólrúnu, og líður mjög vel með hana sem formann Samfylkingarinnar. Mér finnst mjög áhugavert hvað andstæðingar hennar í pólitík eyða miklum tíma í að tala ílla um hana, og í raun er pínu skrýtið hvað við stuðningsmenn hennar eyðum mun minni tíma á móti að tala illa um Geir H. Haarde -- því þar er af nægu að taka; bara ummælin hans gagnvart konum finnst mér sýna að maðurinn er ekki hæfur stjórnandi.
Þegar það er nær 8% verðbólga og Seðlabankinn farinn að spá 5% atvinnuleysi innan 2 ára ásamt gengisfalli um 20% nú fyrir áramót (sem byrjar mögulega strax eftir helgi þegar lánshæfismat bankana lækkar) -- þá ætti fólk aðeins að skoða hvort það vilji kjósa þessa ríkistjórn yfir sig áfram. Afglöp Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum og þröngsýni í atvinnuuppbyggingu ætti að vera áhyggjuefni fyrir alla þjóðina, sama í hvaða flokki þeir standa. Þessvegna vona ég að fólk sjái að sér og kjósi frjálslyndan jafnaðarmannaflokk frekar en áframhaldandi íhald.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 9.4.2007 kl. 15:36
Hugarfluga: Ég segi bara mínar skoðanir, það er heiðarlegast og best. Ég hef gaman af stjórnmálapælingunum og sinni því vel. Ég er hér ekki sem málsvari neins flokks, þó vissulega sé ég flokksbundinn. En ég væri óttalegur vingull hefði ég ekki skoðanir og léti þær flakka. Ég hef aldrei verið skoðanalaus maður og læt mínar skoðanir flakka, alveg sama hvað Jóni og séra Jóni finnst um það.
Annars vil ég benda á að nafnlausum kommentum hér er eytt. Það eru sumir sem kommenta hér án þess að gefa upp hverjir skrifa. Hef ekki brugðist við viti ég hverjir skrifa, en nafnlausum kommentum utan kerfisins er hent, enda er þetta ekki nafnlaus kommentavettvangur. Það er mjög einfalt mál!
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 9.4.2007 kl. 15:40
Takk kærlega fyrir kommentið Jónas. Gaman að lesa það, þó ekki sé ég sammála öllu. Við eigum vonandi eftir að hittast við tækifæri og rabba um pólitík.
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 9.4.2007 kl. 15:47
Hmm hvar hefur þetta verið rætt? þeir einu sem hafa áhyggjur af þessu eru sjálfstæðisflokksmenn, og það telst varla með.
kv.
Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 15:50
Ertu að segja að þessi mæling sé góð fyrir formann Samfylkingarinnar. Eru það ekki tíðindi að fleiri konur séu neikvæðar en jákvæðar í garð eina kvenkyns leiðtoga kosningabaráttunnar?
Stefán Friðrik Stefánsson, 9.4.2007 kl. 15:53
Það sjá aðrir um að tala fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem stofnun og málefnaáherslur hans. Það er ekki mitt hlutverk, enda tek ég ekki þátt í kosningabaráttu hans, tók þá ákvörðun sjálfur, enda hef ég unnið fyrir hann margar kosningar og fannst vera kominn tími til þess að breyta til. Ég hef skrifað hér um kannanir og greint stöðuna og spáð í hana. Þú verður að leita til frambjóðanda flokksins um að greina áherslur hans og þeirra í baráttunni.
Stefán Friðrik Stefánsson, 9.4.2007 kl. 16:21
Ég nenni ekki að eiga í svona samskiptum. Geti fólk ekki unað við vefinn eins og ég vil hafa hann þá þeir um það. Ég móta vefinn eftir því sem ég vil. Ég er ekki í kosningabaráttu fyrir neinn flokk hér, enda ekki frambjóðandi og bundinn af frasatali neins. Ég fer yfir kannanir, greini þær og stöðu mála og kem með hugleiðingum. Ég hef markað þann kúrs sem ég vil sinna næstu 30 dagana, enda tel ég mig ekki þurfa að fara í vörn fyrir einn né neinn. Ég segi mínar skoðanir alveg óhikað og fer yfir kosningabaráttuna með mínum hætti, ekki annarra.
Stefán Friðrik Stefánsson, 9.4.2007 kl. 17:01
Arnþór
"Ef fer sem horfir að Ingibjörg Sólrún myndi ríkisstjórn eftir kosningarnar, núverandi ríkisstjórnin er jú að öllum líkindum fallin"
Afturhaldsstoppflokkurinn hefur nú í langan tíma mælst stærri en sf og eru því allar líkur á því í dag að sf verði 3.stærsti flokkur landsins eftir næstu kosningar.
Þú mannst eins og ég að isg taldi sínu fólki trú um það að hún gæti gert sf jafnstóran stjónmálaflokk og Sjálfstæðisflokkurinn ef ekki stærri.
Harla ólíklegt er að svo verði miðað við skoðanakannanir.
Í kryddsíld stöðvar 2 tókust isg og sjs á um hver ætti að fá forsætisráðherrastólinn, isg sagði að það yrði stærri flokkurinn, semsagt ef úrsit kosninganna verða eins og skoðanakannanir benda til þá verður afturhaldsstoppflokkurinn stærri en sf og því ljóst að Ingibjörg mun ekki leiða eitt eða neitt.
Samkvæmt síðustu skoðanakönnun heldur ríkisstjórnin.
En Arnþór ég vona að hvorki sf né Sjálfstæðisflokkur leiði afturhaldsstoppflokkinn inn í ríkisstjórn
Við höfum aldrei haft það svona gott. xd.
Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 17:18
Stebbi, ég er ekki að saka þig persónulega um níð í garð Ingibjargar Sólrúnar, alls ekki. Ég hef nú lesið pistla þín lengi, frá því við byrjuðum á spjallinu á gamla visi.is, ég veit að þú ert ekki að níða fólk í þínum skrifum. Ég veit ekki hvort þú munir það, þá varði ég þig þegar sem harðast var að þér vegið.
Hins vegar eru margir af þínum flokksbræðrum að gera það - nefni ekki nöfn - og sumir gera það nafnlaust.
Hins vegar finnst mér þú gera alltof mikið úr Ingibjörgu Sólrúnu á vef þínum, og það svona jaðrar við þráhyggju á köflum (sennilega ertu svo ánægður með þessa könnun að þú ræður ekki við þig).
Eggert Hjelm Herbertsson, 9.4.2007 kl. 18:12
Niðurstaða þessarar könnunar er mjög afgerandi Eggert minn. ISG hefur ekki lengur sterka stöðu meðal kvenna og hún er orðin fjórða í vinsældum. Þetta eru auðvitað stórtíðindi sé miðað við aðdraganda síðustu kosninga. Auðvitað skil ég vel að Samfylkingarmenn séu í afneitun vegna þessarar stöðu, enda er hún rosaleg fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Tíðindin hvað varðar ISG eru stærstu tíðindin er litið er á könnunina, það sjá það allir sem muna aðdraganda síðustu kosninga og það sem hefur gerst síðan. Staðan með kvennafylgið eru reyndar ekki bara tíðindi, heldur stórpólitísk tíðindi. Það blasir við öllum, enda er stærsti grunnur þess að konur fylki sér á bakvið ISG fokið út í veður og vind.
Stefán Friðrik Stefánsson, 9.4.2007 kl. 18:42
Alltaf mjög góðir pistlar hjá þér Stebbi og málefnalegir og snúa ekki eingöngu gegn ISG eða stjórnarandstöðunni. Þú gagnrýnir einnig það sem þér þykir miður fara hjá Sjálfstæðisflokknum og eykur það trúverðugleika pistla þinna. Nefnum sem dæmi skoðun þína á Árna Johnsen málinu. Samfylkingarfólk, einhverra hluta vegna, hefur hinsvegar engan áhuga að nefna það þér til tekna. Enda, eins og þú segir sjálfur, í afneitun fyrir slæmri stöðu síns flokks, sem átti að vera annar turninn í íslenskri pólitík.
Guðmundur H. Bragason, 9.4.2007 kl. 19:46
Takk kærlega fyrir góð orð Gummi, met þau mjög mikils. Við hittumst vonandi á landsfundinum og ræðum saman.
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 10.4.2007 kl. 00:50
Því miður kemst ég ekki á Landsfundinn Stebbi. Er að ferma frumburðinn þann 15 apríl og get ekki lagt allan undirbúninginn á konuna eina en verð með þér og ykkur í anda
Guðmundur H. Bragason, 10.4.2007 kl. 01:10
Já, gangi ykkur vel með það. Óska ykkur góðs með það allt og sendi ykkur auðvitað hamingjuóskir. En við verðum endilega í bandi, ef þú vilt ræða skrifin sendu mér þá endilega póst og við röbbum. Það er mikilvægt að vera í bandi, allavega eru góðir lesendur mikilvægir. :)
bestu kveðjur
Stefán Friðrik Stefánsson, 10.4.2007 kl. 01:13
Þakka þér Stebbi
Guðmundur H. Bragason, 10.4.2007 kl. 01:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.