Flokksleiðtogar mætast - lykilbaráttan hefst

Leiðtogar Lykilátök kosningabaráttunnar vegna alþingiskosninganna eftir 33 daga hófust í kvöld með umræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna í Ríkissjónvarpinu. Það er að myndast hefð fyrir því að lykilátök í íslenskri kosningabaráttu sé miðuð við rétt rúmlega mánuð, tímann eftir páskahátíðina fram að kjördegi. Það má búast við hressilegum pólitískum mánuði og drjúgum átökum milli flokka og frambjóðenda.

Umræðurnar í kvöld voru fyrstu alvöru umræðurnar milli leiðtoga flokkanna fyrir þessar kosningar. Frá síðustu þingkosningum árið 2003 hafa forsætisráðherrarnir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hætt þátttöku í stjórnmálum, en báðir voru lykilmenn í íslenskum stjórnmálum og forystumenn flokka sinna í rúman áratug. Össur Skarphéðinsson var felldur af formannsstóli Samfylkingarinnar á kjörtímabilinu en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var talsmaður Samfylkingarinnar í kosningunum 2003, sett framfyrir Össur sem formann. Í síðustu kosningum bauð Nýtt afl fram á landsvísu en fékk aðeins 1% atkvæða með Guðmund G. Þórarinsson í brúnni. Sá flokkur er horfinn af sjónarsviðinu nú.

Samkvæmt öllum skoðanakönnunum síðustu mánaða er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur. Undanfarnar vikur hafa VG styrkst í sessi sem annar stærsti flokkur landsins og hefur haft vistaskipti í mælingum á við Samfylkinguna. Samkvæmt öllum skoðanakönnunum eru Samfylkingin og Framsóknarflokkur að mælast mun lægri en í kjörfylginu 2003. Báðir flokkar mælast t.d. í nýjustu könnun Gallups yfir 10% undir kjörfylginu þá. Þá hlutu þessir tveir flokkar þingmeirihluta, 32 þingsæti, en mælast með 18 samtals í fyrrnefndri könnun. Það stefnir því í miklar breytingar. Nýr flokkur, Íslandshreyfingin, er kominn til sögunnar og óvíst hvaðan hann sækir afl sitt, þó kannanir sýni að hann taki af VG.

Í þætti kvöldsins ræddu formenn flokkanna; Geir H. Haarde, Steingrímur J. Sigfússon, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Sigurðsson, Guðjón Arnar Kristjánsson og Ómar Ragnarsson, lykilmál baráttunnar á þessum tímapunkti. Umræðan var mjög fjölbreytt og formennirnir tókust mismikið á í þessum efnum. Það er margt breytt í stjórnmálunum frá síðustu kosningum. Davíð Oddsson var mjög áberandi stjórnmálamaður og gnæfði mikið yfir umræðunni, jafnvel í sínum síðustu kosningum er mjög var að honum sótt. Fyrir fólk minnar kynslóðar og hina yngri er athyglisvert að fylgjast með kosningabaráttu án hans og ennfremur Halldórs Ásgrímssonar vissulega.

Geir H. Haarde var greinilega í hlutverki landshöfðingjans í þessum umræðum. Hann hefur setið á þingi í tvo áratugi og er sá frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í efstu sætum sem lengsta þingreynslu hefur að baki. Hann ætlar sér greinilega að vera trausti forystumaðurinn, maður reynslu og stöðugleika. Geir varð eftirmaður Davíðs Oddssonar með sterkri kosningu á landsfundi haustið 2005 og ekki urðu nein átök innan flokksins um kjör hans. Geir virðist njóta stuðnings almennings skv. könnunum og mun keyra á þeirri stöðu sinni að vera vinsælasti stjórnmálamaður landsins. Hann er líka nokkuð ólíkur Davíð og kemur með nýjar hliðar í pólitíkina.

Steingrímur J. Sigfússon hefur styrkst mjög frá þingkosningunum 2003. Þá veiktist VG og missti eitt þingsæti frá kosningunum 1999, þeim fyrstu í sögu flokksins. Í könnunum undanfarinna vikna hefur VG mælst með allt upp í 17 þingsæti og stefnir í að hann verði að óbreyttu hástökkvari kosninganna. Steingrímur J. hefur mesta þingreynslu flokksleiðtoganna og hefur setið á þingi frá árinu 1983. Aðeins Jóhanna Sigurðardóttir mun eiga meiri þingreynslu að baki eftir kosningar. Hann er mjög sjóaður stjórnmálamaður og virkar öryggið uppmálað og hefur greinilega styrkst mjög frá síðustu kosningum. Hann kom fram af miklu öryggi altént í umræðum kvöldsins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stendur illa samkvæmt könnunum. Óvinsældir hennar hafa aukist mjög frá síðustu kosningum, er hún var með vinsældir á pari við Davíð Oddsson. Auk þess virðist Samfylkingin vera föst í 20% fylgismörkum, um eða 10% undir kjörfylginu 2003. Slíkt yrði mikið áfall fyrir flokk sem hefur verið í forystu stjórnarandstöðunnar. Ingibjörg Sólrún felldi sitjandi formann árið 2005 með loforðum um að Samfylkingin yrði mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn undir hennar stjórn. Það hefur ekki enn tekist. Ingibjörg Sólrún átti misjafna spretti í þættinum, var þó betri í seinni hlutanum en þeim fyrri. Henni gekk mjög illa að svara fyrir vont gengi í könnunum.

Jón Sigurðsson varð formaður Framsóknarflokksins í ágúst 2006 og hafði orðið ráðherra, verandi utanþings, við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar. Hann hafði enga stjórnmálareynslu að baki fyrir það og varð flokksleiðtogi mörgum að óvörum og er enn að vinna sig upp. Eins og fram kom í skrifum mínum hér fyrr í kvöld verður eitt stærsta spurningamerki kosningabaráttunnar hvort að honum tekst að snúa vörn í sókn fyrir flokkinn, en kjörtímabilið hefur verið ein sorgarsaga fyrir hann og hápunktur þess var vandræðaleg afögn Halldórs. Jón hefur styrkst að mörgu leyti undanfarnar vikur en á enn mjög langt í land, eins og sást af gloppóttri frammistöðu hans í þættinum.

Guðjón Arnar Kristjánsson leiðir flokk sem klofnaði með áberandi hætti í aðdraganda þessara kosninga er stofnandi hans og stuðningsmannahópur hans hélt í aðrar áttir. Innflytjendaumræðan hefur virkað helsta kosningamál þessa flokks undanfarnar vikur og virðist örvæntingarkosningamál flokks í miklum vanda. Eins og vel sást í þessum þætti getur enginn flokkur skrifað upp á tal þeirra og stefnuáherslur í innflytjendamálum. Það virðist því vera sem að hann sé innilokaður þrátt fyrir að enginn vilji gefa út dánarvottorðið í raun nú og heldur í vonina. Guðjón Arnar, sem setið hefur á þingi frá 1999, virkar sem maður á línunni í málinu en virðist vera orðinn gísl annarra afla.

Ómar Ragnarsson er þekktur í hugum landsmanna sem skemmtikraftur, fréttamaður og þúsundþjalasmiður. Hann varð stjórnmálamaður í haust mörgum að óvörum og er nú á 67. aldursári orðinn flokksleiðtogi í fremstu víglínu átakanna. Hann hefur enga stjórnmálareynslu að baki og virðist því hafa frírra spil en ella að tala hreint út og þarf ekki um leið að verja fyrri stefnu eða tal. Það blasir við öllum að umhverfismálin verða leiðarstef hinnar nýju Íslandshreyfingar og um leið ljóst að markmið og stefna úr þeirri áttinni er skýrt. Ómar nýtur þess að vera vanur fjölmiðlamaður sem á auðvelt með að svara fyrir sig. Það ræðst brátt hvort hann hafi sterkan grunn í pólitík.

Þessi þáttur var í heildina mjög áhugaverður og vandaður. Allir leiðtogarnir virðast mjög fókuseraðir í baráttunni og koma vel undirbúnir til leiks. Allir vilja þeir bæta við sig fylgi frá nýjustu könnunum og sumir þeirra munu verða fyrir vonbrigðum, ef marka má kannanir munu tveir þeirra verða fyrir miklu fylgistapi og spurt þá hvað verði um leiðtoga þeirra flokka. Það er barist því bæði fyrir pólitískri framtíð jafnt sem og atkvæðum. Stjórnendur þáttarins héldu mjög vel utan um debattinn.

En kosningabaráttan er nú hafin af fullum þunga. Það verður mikið um auglýsingar, framboðsfundi, frambjóðendur á ferð og flugi um samfélagið, skoðanakannanir og litríkar stjórnmálapælingar. Ég hyggst fjalla um kosningabaráttuna af krafti á lokaspretti hennar, rétt eins og í allan vetur. Það verður um margt að skrifa og pæla á þessum tíma.

Ég held að þetta verði mjög öflug og beitt kosningabarátta. Það stefnir í jafnar kosningar og spennandi úrslit, jafnvel mikla tvísýnu. Það verður áhugavert að fylgjast með þessum kosningum - enginn vafi á því.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Skemmtileg greining hjá þér Stefán. Horfði einnig á þáttinn og get kannski bætt einu við en það er að mér fannst Guðjón Arnar í vondu skapi. Mig grunar að hann sé ekki sáttur við að undirmenn hans, Jón og Magnús, séu búnir að koma honum í þessa ömurlegu stöðu að reyna að verja innflytjendamálflutning þeirra.

Guðmundur H. Bragason, 9.4.2007 kl. 23:49

2 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Fín fréttaskýring Stefán, en hvernig svarar þú kröfu Ómars Ragnarssonar um að það séu fyrst og fremst Sjálfstæðismenn sem eigi að kjósa hann?

Lára Stefánsdóttir, 9.4.2007 kl. 23:50

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin og góð orð um skrifin.

Gummi: Já, Guðjóni Arnari leið ekki vel. Þetta er mjög vont mál fyrir hann. Sjálfur er hann giftur pólskri konu og virðist vera að verja eitthvað sem hann fylgir að hluta, en þó að mörgu leyti ekki. Sjálfur finnst mér eðlilegt að erlent fólk læri íslensku og aðlagist okkur. En þegar farið er að tala um "þetta fólk", sjúkdóma og dæma heilan hóp fyrirfram finnst mér of langt gengið. Það er til marks um ótrúlega stöðu að flokkarnir straffi ekki með afgerandi hætti á svona flokk, enda er umræðan mjög gruggug á þessum forsendum og menn eru að fiska í mjög viðsjárverðu vatni með þessum hætti.

Lára: Auðvitað vill Ómar safna fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Honum mun þó ganga illa við það verkefni sitt verandi með Jakob Frímann, Margréti Sverris, Ósk Vilhjálms og Ástu Þorleifs. Tvær síðastnefndu voru nú nefndar í sömu andrá og VG hér í denn. Það hvernig honum gengur með hægrið fer eftir því hvort hann fái einhverja sjálfstæðismenn í lið með sér að mínu mati. Annars er það mitt mat að þetta verði erfið barátta fyrir Íslandshreyfinguna mælist hún ekki 2-4% hærri í næstu könnun en þeirri síðustu. Annars er einhver vandræðagangur með uppröðun þeirra. Komi þau ekki með lista fyrir föstudaginn verður þetta einhver vandræðaför hin mesta fyrir þau, eru að missa af lestinni sýnist mér.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.4.2007 kl. 00:11

4 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Finnst Jón Sigurðsson vaxa með hverjum deginum. Er í kjördæmi hans og
vill núverandi ríkisstjórn áfram. Jón stendur þar mjög tæft. Því  miður!
Stefán Friðrik. Verð ég þá ekki bara  að kjósa Jón til að legga mína lóð á þá
vogaskál að ríkisstjórnin haldi velli? Sjálfstæðisflokkurinn virðist halda öllu
sínu!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 10.4.2007 kl. 00:37

5 identicon

Rakst á athyglisverða grein á bloggi Eiríks Bergmanns þar sem rakið er hvernig nýjar áherslur gömlu kommúnistaflokkanna í Evrópu á umhverfismál og femínisma á árunum fyrir 1999 var niðurstaða ákafrar leitar þeirra að nýrri fótfestu meðal kjósenda í kjölfar falls Berlínarmúrsins og Austurblokkarinnar.

Þessi uppruni meginstefnumála VG ku vera ein meginástæða þess að sífellt fleiri náttúrverndarsinnar sem telja sig á miðju eða til hægri í stjórnmálum geta ekki treyst flokknum.

Í lok greinarinnar er líka birt mynd af nokkrum merkjum flokkanna sem segir meira en þúsund orð. Einhver helmingur þeirra skipti út hamri og sigð fyrir rautt og grænt.

http://eirikurbergmann.blog.is/blog/kremlarlogia_ei/entry/167357/

Arn (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 00:39

6 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Já ég er sammála þér Stefán þeir eru greinilega í vandræðum með að birta lista og ef þeir eru ekki með kröftuga Sjálfstæðismenn í hópnum þá er ekki líklegt að þeir nái árangri þar. Enda hafa þeir ekki svosem birt neina hægristefnu sem ætti að höfða til Sjálfstæðismanna.

Lára Stefánsdóttir, 10.4.2007 kl. 00:47

7 identicon

STÓRIÐJUFYLGIÐ er í mesta lagi 42%, því lágmark 58% þjóðarinnar eru nú á móti stóriðjunni, en samanlagt fylgi Sjalla og Framsóknar í kosningunum verður í mesta lagi 43%, svipað stóriðjufylginu. Fylgi Sjalla í kosningunum verður í mesta lagi 35% og Framsóknar 8%. Sjallar missa fylgi yfir til Ómars og Framsókn hefur nú þegar misst andstæðinga stóriðjunnar yfir til Vinstri grænna.

Jón Sigurðsson segir af sér sem formaður Framsóknarflokksins eftir kosningarnar, þar sem hann hefur ekki nógu mikið fylgi til að vera kosinn á þing. Addi Kitta Gau kemst hins vegar á þing, þar sem honum nægir að fá10% atkvæða í Norvesturkjördæmi. Hins vegar fá Frjálsblindir ekki 5% atkvæða á landsvísu og því engan jöfnunarþingmann.  

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 00:48

8 Smámynd: Sveinn Valdimar Ólafsson

Joðið var eins Svart-Hvítt og hægt er að vera - örlar ekki á neinum öðrum litatónum.  Joðið ætlar að efla almannaþjónustu eins og hann kallar það  en ekki hækka skatta.  Svo má ekki virkja og framleiða ál lengur.  Aðrar þjóðir öfunda okkur stórkostlega sbr. viðtal við Ásgeir Margeirsson forstjóra Geysir Green Energy á Stöð 2 í dag. Við getum veitt þessum þjóðum ráðgjöf og jafnvel fjárfest erlendis í grænni orku en hann varaði við stoppi á virkjunarframkvæmdum því þá drögumst við strax aftur úr tæknilega og höfum aðeins gamlar úreltar lausnir að bjóða.  VG hefur nákvæmlega enga innsýn í hvernig atvinnulíf þróast. Þeir eru tilbúnir að stöðva atvinnustarfsemi í þessu landi allt vegna popúlisma sem þeir hafa búið sér til með skotgrafarhernaði í nafni svokallaðar náttúruverndar.  Tækniþekking í áliðnaði, vatnsaflsvirkjununum, jarðvarma og annað sem hangir á þessari mikilvægu spýtur skal lagt og fók lesa um það í sögubókum.  Hugsið ykkur VG hefur tekist það ómögulega að láta þjóðina deila um hvort vatnsorka eða jarðvarmi sé nú verri kostur þegar aðrar þjóðir eiga ekki þessa frábæru kosti.  Um hvað erum menn að deila umbúðir eða innihald?

Hvað er að hjá ykkur í VG?  Hafið þið engan metnað í atvinnu, orku og loftlagsmálum?  Leyfið fólki að starfa við fyrrnefndar atvinnugreinar og hættið þessu endalausa puðri um ekki neitt. Ykkar stefna er gjörsamlega út úr kortinu og verður aldrei endurnýtt, hún stenst ekki neina skynsemi í anda Sjálfbærrar þróunar og nýtingu á hreinum orkugjöfum. Og þið leyfið ykkur að kalla ykkur umhverfissinna - hver leyfði ykkur það.  Ef að þið eruð umhverfissinnar þá er ég ofsaumhverfisinni.  Ykkar græna skikkja er svart-hvít!

kær kveðja

Sveinn

Sveinn Valdimar Ólafsson, 10.4.2007 kl. 00:57

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Guðmundur: Jón Sigurðsson er að styrkjast. Er svona eitt og annað sem vekur athygli sem dregur niður, en hann hefur bætt sig mikið og spurning hvort hann nái að keyra þessa daga vel fyrir flokkinn og byggja sig stig af stigi. Síðustu 10 dagarnir hafa oft verið bestir fyrir Framsókn og vel fylgst með því nú hvernig honum gengur. Ætla ekki að skipta mér af því hvað þú kýst eða aðrir sem lesa bloggið, það verður hver og einn að taka afstöðu fyrir sig og veðja á það sem hver og einn telur vænlegast.

Arn: Þakka kommentið, en bendi á að nafnlausum kommentum er eytt hér. Ætla að leyfa þessu að standa en bendi þér á að merkja kommentin eða ella hafa samband við mig svo að ég viti hver þú ert, viljirðu ekki gefa það upp hér. Það eru áberandi ábendingar um komment hér efst.

Lára: Já, þetta er hiklaust svona. Vandræði í gangi og ég hef heyrt að hinum og þessum hafi verið boðið hitt og þetta. Greinilega svona fléttuvinna í kapp við tímann. Það eru innan við tvær vikur eftir af framboðsfresti og menn að renna út á tíma. Það að ekki séu enn komnir listar segir manni að þetta sé að ganga svona upp og niður. Það verður vandræðalegt fyrir þau bíði listar fram í síðustu viku framboðsfrests. Það er bara þannig, en þau hljóta að koma með þetta eftir helgina sé allt í lagi hjá þeim.

Steini: Það hafa margir farið flatt á að afskrifa Framsókn. Í kosningunum 2003 afskrifuðu margir, þar á meðal ég og fleiri hér í Norðaustri, þá skömmu fyrir kosningar og allir töldu pólana vera D og S. Öllum að óvörum skutust þeir hátt yfir alla síðustu tíu dagana og fengu 10% meira fylgi en þessir flokkar sem allir töldu að myndu vinna. Er ekki að segja að viðlíka sveifla verði en það er erfitt að afskrifa Framsókn. Allir töldu að Björn Ingi næði ekki inn í rvk í fyrra og sama var með Halldór Ásgríms árið 2003, en báðir náðu inn, Halldór reyndar við annan mann er á hólminn kom. Þó illa horfi við Jóni nú er ekki gott að segja neitt um þetta nú. Framsókn hefur tekið allar kosningar á lokasprettinum. Þó staðan sé svört nú er betra að spyrja að leikslokum. Lára bloggvinkona mín Stefáns, veit það eflaust vel af reynslunni af baráttunni 2003.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.4.2007 kl. 01:07

10 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Sammála Stefán, Framsóknarmenn sækja atkvæðin sín á lokasprettinum og mælast aldrei hærri en á kjördag. Þeir virðast ævinlega vanmetnir í könnunum fyrir kosningar og full ástæða að bæta nokkrum prósentum við þá. Það kæmi verulega á óvart ef svo verður ekki raunin núna.

Lára Stefánsdóttir, 10.4.2007 kl. 01:10

11 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég gleymi aldrei Lára hvað ég var argandi hissa þegar að tölurnar komu með Birki inni og allir höfðu talið hann víðsfjarri þingsæti alla baráttuna. Það voru ótrúlegar tölur. Það mátti heyra saumnál detta á þeirri kosningavöku sem ég var á niðfrá á Hótel KEA þegar að þetta gerðist og svo var ótrúlegt móment þegar að Reykjavík norður snerist undir morgun. Það var rosaleg rússíbanakosninganótt og það hlýtur sérstaklega að vera ömurlegt að vera þingmaður klukkutímum saman og sjá svo sætið fara. En þessi kosningabarátta er spennandi, þetta er mjög opið og allt mun að lokum velta á þeim óákveðnu. Það eru sífellt færri sem ganga í flokk 16 og verða fastir í trúnni til hinsta dags. Fólk flakkar mjög orðið á milli, mikil breyting á trendinu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.4.2007 kl. 01:23

12 identicon

 

Rakst á frábær skrif e. Sigurð J. um virkjanamálin  í athugasemdum hér

Bjarni M. (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 03:46

13 identicon

Lélegar skýringar isg á stöðu flokksins og hennar sjáfrar miðað við skoðanakannanir stóðu upp úr í umræðunum.
Geir var mjög sterkur&traustur í umræðunum og steig ekki feilspor. Skoðanakannanir sýna að fólk treystir honum mest.
Frammistaða Ómars var að mínu mati ekki nógu góð og eykur ekki líkur á að flokkurinn nái inn manni.
Því miður var Sjs mjög góður.
Guðjón Arnar er á leiðinni í strand með sitt skip.
Jón Sigurðsson var mjög málefnalegur og með áframhaldandi svona frammistöðu ætti framsókn að ná inn 3 þingmönnum i Reykjavík.

Við höfum aldrei haft það svona gott. xd.



Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 10:30

14 identicon

Skemmtileg greining, þú fylgist vel með Stebbi. Er um flest sammála þér. Þó held ég að þú ofmetir hugsanlega endurkomu exbé. Þeim tókst að ná stemningu í kringum sig fyrir 4 árum, en það er ekki hægt endalaust að kaupa sig stanslaust inn á þing. Held að það sé nokkuð ljóst að það verður engin "stemning" í kringum Framsóknarflokkinn í þessum kosningum, þó vissulega geti hann skriðið í tveggja stafa tölu á lokasprettinum. Það stefnir þó í það að flokkurinn muni festast á sömu slóðum og systurflokkarnir í Noregi og Svíþjóð, svona á 5-10% róli. Ég tel að við séum að fara frá fjórflokknum yfir í 3+3 flokkakerfi, þar sem við höfum 3 flokka með einstafstölufylgi og 3 stóra flokka.

Gudmundur Audunsson (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 16:12

15 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góðar pælingar Óðinn.

Guðmundur: Framsókn hefur oft verið vanmetin, erfitt um að spá núna. Það er ágætt að fara yfir söguna. Það er mjög erfitt að spá um núna hvernig kosningarnar fara. Þetta virðist vera alveg galopið allavega. Hvað Framsókn varðar er erfitt að spá um hvar hún liggur skv. sögunni þó alltaf megi bæta eitthvað ofan á hana miðað við kannanir.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.4.2007 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband