Sarko-Sego áfram í seinni umferð í Frakklandi

sarko-sego Það er nú ljóst að Nicolas Sarkozy og Segolene Royal munu berjast um franska forsetaembættið í seinni umferð forsetakosninganna þann 6. maí er eftirmaður Jacques Chirac verður kjörinn. Sarkozy vann sigur í fyrri umferðinni með 30% atkvæða en Royal hlaut rúm 25%. Næst þeim er miðjumaðurinn Francois Bayrou með tæp 20%. Þjóðernisöfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen sem komst óvænt í seinni umferð forsetakosninganna 2002 fékk rúm 11% nú.

Kjörsókn í þessari fyrri umferð forsetakosninganna var hin mesta frá forsetakosningunum 1981. Þá vann Valery Giscard d´Estaing, sitjandi forseti, fyrri umferðina en tapaði forsetakosningunum er á hólminn kom fyrir Francois Mitterrand, sem sat á forsetastóli í fjórtán ár. Mikill andi óvissu hvíldi yfir þessari fyrri umferð forsetakosninganna nú. Í síðustu könnunum sem birtust á föstudag var þriðjungur kjósenda óákveðinn og því erfitt að lesa í stöðuna. Um var að ræða mestu óvissu fyrir franskar forsetakosningar í áratugi og nær ómögulegt var að spá með vissu þó flestir hefðu hugmyndir um stöðuna.

Flestir hafa þó í gegnum þessa kosningabaráttu talið að þetta yrði að lokum einvígi Sarkozy og Royal. Fjölmiðlar í Frakklandi hafa allt frá vorinu 2006 talað um forsetakosningarnar 2007 sem Sarko-Sego kosningar. Það mun fara svo að lokum. Þau eru hefðbundnar andstæður vinstri og hægri og því eru valkostirnir eins afgerandi og þeir geta í raun orðið. Þungu fargi er væntanlega létt af sósíalistum við úrslit fyrri umferðarinnar, þó að Sarkozy hafi unnið hana. Margir þeirra óttuðust að eins færi fyrir Royal og Lionel Jospin vorið 2002 er hann var sleginn harkalega út af taflborði franskra stjórnmála í einu höggi.

Þessar kosningar marka endalok litríks stjórnmálaferils Jacques Chirac, forseta Frakklands, sem hefur verið lykilspilari í frönskum stjórnmálum í áratugi og verið áberandi þar allt frá valdadögum stríðskempunnar Charles De Gaulle. Það verður fróðlegt hver mun taka við af honum er á hólminn kemur. Barátta næstu vikna verður eflaust æsispennandi. Munurinn á milli Sarkozy og Royal er ekki afgerandi mikill. Kannanir síðustu vikna hafa sýnt Sarkozy sterkari en Royal sé spurt um afstöðu til þeirra beggja. Það verður fróðlegt að sjá þróun kannana næstu dagana.

Forseti Frakklands er einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims. Það verður fylgst vel með því hvort að hægri- eða vinstribylgja verður í Frakklandi eftir hálfan mánuð er nýr húsbóndi í Elysée-höll verður kjörinn. Fyrri umferðin gefur ekkert afgerandi til kynna, nema það að staða Sarkozy sé vænlegri.

En það er í raun erfitt að fastsetja neitt og því spennandi lokasprettur framundan í Frakklandi milli þessara afgerandi fulltrúa klassískra meginpóla í stjórnmálum.

mbl.is Sarkozy og Royal áfram samkvæmt útgönguspám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband