12 ára afmæli ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 199512 ár eru í dag liðin frá því að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst. Það var sunnudaginn 23. apríl 1995 sem ráðherraefni flokkanna komu saman á Bessastöðum á ríkisráðsfundi og tóku við embættum sínum. Stjórnin hafði verið mynduð eftir að upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem setið hafði að völdum í 4 ár, hafði slitnað með miklum hvelli.

Í alþingiskosningunum sem fram höfðu farið þann 8. apríl 1995 hafði Sjálfstæðisflokkur misst eitt þingsæti frá þingkosningunum 1991, hlotið 25 í stað 26 en Alþýðuflokkurinn misst þrjá þingmenn, farið úr 10 í 7. Meirihluti flokkanna var því naumur, aðeins 1 þingsæti. Flokkarnir höfðu 32 þingmenn en þáverandi stjórnarandstaða 31 þingsæti. Munaði Alþýðuflokknum mjög um tilkomu Þjóðvaka, sérframboðs Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hafði farið úr ríkisstjórn og klofið sig frá flokknum eftir að hafa tapað fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni í harðvítugu formannskjöri. Segja má að klofningurinn hafi verið afdrifaríkur, enda misstu þau bæði öll pólitísk völd með honum.

Í kjölfar kosninganna 1995 tóku við stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Fljótt varð ljóst að grunnurinn var brostinn og meirihlutinn of naumur til að leggja í ferðalag til fjögurra ára með aðeins eins sætis meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn sleit því viðræðunum um páskahelgina 1995 og Davíð Oddsson sagði af sér fyrir hönd stjórnarinnar þriðjudaginn 18. apríl 1995. Við tóku stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hittust sömu helgi og handsöluðu samkomulag um stjórnarmyndunarviðræður eftir umleitanir annarra um að koma þeim saman.

Eftir nokkurra daga viðræður var samkomulag flokkanna um samstarf staðfest af æðstu stofnunum þeirra. Að því loknu voru ráðherrar flokkanna valdir og tóku þeir við embættum sínum á fyrrnefndum fundi að Bessastöðum á þessum apríldegi í vorsólinni á Álftanesi. Allir þekkja söguna sem fylgir í kjölfarið. Samstarfið stendur enn, sem er til marks um hversu farsællega það hefur starfað og leitt farsæl mál til lykta með mikla samstöðu og kraft að leiðarljósi. Í Íslandssögunni hefur ekkert stjórnarsamstarf staðið lengur, en nærri stendur þó viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem sat í tólf ár ennfremur, 1959-1971.

Upphaflega var fjöldi ráðherra í stjórninni 10. Að loknum þingkosningunum 1999 var ákveðið að fjölga ráðherrunum í 12 og hefur svo verið síðan. Á þessum áratug hafa 26 setið í stjórninni, 13 frá hvorum flokki. Enginn hefur setið í stjórninni allan tímann. Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum haustið 2005 og Halldór Ásgrímsson sumarið 2006. Björn Bjarnason hefur lengst verið í stjórninni, en hann var menntamálaráðherra 1995-2002 en varð dómsmálaráðherra vorið 2003 og verið í stjórninni síðan. Aðeins Björn Bjarnason og Geir H. Haarde hafa setið í stjórninni frá fyrsta kjörtímabili hennar, 1995-1999.

Stjórnin hefur gengið í gegnum tvennar kosningar, árin 1999 og 2003, og hefur þingmeirihluti stjórnarinnar veikst í báðum kosningunum. Við stofnun hafði stjórnin 40 þingsæti af 63. Sjálfstæðisflokkur hafði 25 þingsæti en Framsóknarflokkurinn 15. Eftir þingkosningarnar 1999 tapaði stjórnin tveim þingsætum í heildina. Framsóknarflokkur missti þrjú þingsæti, hlaut 12 en Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig einum þingmanni og hlaut 26 í stað 25 áður. Í þingkosningunum 2003 veiktist þingmeirihlutinn nokkuð. Þá missti Sjálfstæðisflokkurinn 4 þingsæti, hlaut 22 í stað 26, en Framsóknarflokkurinn hélt sínum 12.

Davíð Oddsson hafði verið forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og var það áfram við upphaf samstarfs flokkanna vorið 1995. Hann sat á forsætisráðherrastóli allt til 15. september 2004. Sömdu flokkarnir um það við upphaf núverandi kjörtímabils að forsætisráðuneytið færðist þá formlega yfir til Halldórs en þess í stað myndi Sjálfstæðisflokkurinn hljóta 7 ráðherra af 12. Davíð varð utanríkisráðherra er Halldór varð forsætisráðherra. Er Halldór sagði af sér forsætinu í júní 2006 varð Geir H. Haarde, eftirmaður Davíðs sem formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra í hans stað.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessum áratug eru eftirtaldir:

Sjálfstæðisflokkur
Davíð Oddsson (1991-2005)
Friðrik Sophusson (1991-1998)
Þorsteinn Pálsson (1991-1999)
Halldór Blöndal (1991-1999)
Björn Bjarnason (1995-2002 og frá 2003)
Geir H. Haarde (frá 1998)
Árni M. Mathiesen (frá 1999)
Sturla Böðvarsson (frá 1999)
Sólveig Pétursdóttir (1999-2003)
Tómas Ingi Olrich (2002-2003)
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (frá 2003)
Sigríður Anna Þórðardóttir (2004-2006)
Einar Kristinn Guðfinnsson (frá 2005)

Framsóknarflokkur
Halldór Ásgrímsson (1995-2006)
Páll Pétursson (1995-2003)
Ingibjörg Pálmadóttir (1995-2001)
Finnur Ingólfsson (1995-1999)
Guðmundur Bjarnason (1995-1999)
Guðni Ágústsson (frá 1999)
Valgerður Sverrisdóttir (frá 1999)
Siv Friðleifsdóttir (1999-2004 og frá 2006)
Jón Kristjánsson (2001-2006)
Árni Magnússon (2003-2006)
Jón Sigurðsson (frá 2006)
Jónína Bjartmarz (frá 2006)
Magnús Stefánsson (frá 2006)

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde 2006Áratugur er ekki langur tími í sögu íslensku þjóðarinnar: segja má að sá tími sé eins og örskotsstund á langri vegferð. Hinsvegar leikur enginn vafi á því að það er sögulegt og mikil tíðindi að tveir flokkar hafi setið í forystu ríkisstjórnar landsins svo lengi sem raun ber vitni og unnið saman að forystu stjórnmála landsins.

Þegar saga ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs, Halldórs og Geirs verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun hennar eflaust verða minnst fyrir góðan árangur og nokkuð farsæla forystu. Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma.

Þingkosningar verða eftir 19 daga. Eitt stærsta spurningamerkið tengt þeim er hvort að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki tekst fjórðu kosningarnar í röð að ná þingmeirihluta og því hvort að stjórnin heldur velli. Ef marka má nýjustu skoðanakannanir mun svo fara, en það er þó alveg ljóst að þetta eru mjög tvísýnar kosningar og fróðlegt að sjá hver staðan verður að morgni 13. maí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband