Pólitísk vonbrigði Ingibjargar Sólrúnar

ISG og Össur Það fer ekki á milli mála að stjórnmálaferill Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur verið hin mesta sorgarsaga allt frá því að hún sagði af sér embætti borgarstjóra er R-listinn logaði stafnanna á milli í desember 2002. Pólitísk vonbrigði Ingibjargar Sólrúnar einkennast nú af vondu gengi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum og slakri útkomu hennar í vinsældarmælingum meðal kvenna.

Í ítarlegri leiðtogaumfjöllun á Stöð 2 í kvöld fóru Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson yfir stjórnmálaferil og ævi Ingibjargar Sólrúnar. Helst var þar sjónum beint auðvitað að þessu kjörtímabili og einkum þeim umskiptum á ferli Ingibjargar Sólrúnar hvernig hún breyttist úr sigursælri vonarstjörnu vinstrimanna úr þrennum borgarstjórnarkosningum í flokksformann sem á ekki sjö dagana sæla og reynir í tímahraki að bjarga sér frá grimmum pólitískum endalokum sem eru fyrirsjáanleg nái hún ekki að byggja flokkinn upp til vegs og virðingar.

Mesta athygli í þættinum vöktu ummæli Össurar Skarphéðinssonar. Aldrei fyrr hefur það verið staðfest með hve dramatískum hætti formannsslagurinn milli svilanna lék samskipti þeirra. Það blasti við öllum að hann hjó mjög nærri rótum vináttu þeirra og fjölskyldutengsla. Baráttan varð hörð og óvægin. Það munum við öll. Össur ber harm sinn greinilega í hljóði yfir að hafa ekki fengið að leiða flokk sinn lengur og hafa fengið sparkið svo fast á viðkvæman stað. Hann brosir enn í gegnum tárin eins og fegurðardrottningarnar en biturðin leynir sér svo sannarlega ekki.

Það verður gríðarlegt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu nái hún ekki markmiðum sínum, efla Samfylkinguna, bæta fylgi hennar og gera flokkinn að mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Allar skoðanakannanir í óratíma sýna mikið fylgistap frá kjörfylginu 2003 fyrir flokkinn í kosningunum eftir 19 daga. Mismikið er fylgistapið þó. Sumar kannanir sýna um eða jafnvel yfir 10% fall frá kosningunum 2003. Slík staða myndi veikja verulega stöðu Ingibjargar Sólrúnar. Það blasir við. Veikari staða flokks og fylgishrap veikir jú um leið stöðu leiðtogans. 

Þegar skipperinn er hættur að fiska þarf að skipta um í brúnni sagði Jón Baldvin um árið. Verður sú spurning ekki ofarlega á baugi innan Samfylkingarinnar eftir kosningar fiski skipperinn ekki? Fari Samfylkingin eins illa út úr kosningum og mælingar segja eru örlög formannsins giska ráðin.

Þá verður spurt; hver verður næsti formaður Samfylkingarinnar? Hver getur leitt þennan flokk til öndvegis? Það er óumflýjanlegt í pólitískum veruleika þess flokks sem tapar stórt með fornan vonarneista í brúnni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Geisp.

Þú hefur séð það að Ingibjörg Sólrún er að ná vopnum sínum, hefur leitt flokkin sterk og mun uppskera að lokum. Skoðanakannanir benda til að flokkurinn sé að ná vopnum sínum og ég hef fulla trú á að það gerist.

Þátturinn var nú jákvæðari en sá tónn sem þú gefur hér, Stebbi minn. En svona er þetta, hverjum finnst sinn fugl fagur......o.s.frv, þetta virkar líka öfugt eins og við á hér.

Eggert Hjelm Herbertsson, 23.4.2007 kl. 22:23

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Því verður ekkert neitað að þetta kjörtímabil hefur verið sorgarsaga hjá Ingibjörgu Sólrúnu. Staðreyndir tala sínu máli. En það verður vissulega fróðlegt að sjá hvað gerist næstu 19 dagana. Samfylkingin lækkaði aftur í Fréttablaðskönnun um helgina en við erum að stefna í fleiri kannanir vissulega, þær verður fróðlegt að sjá. Það styttist í örlagastundina. Þetta fer eins og það fer. Hinsvegar er merkilegt að sjá hversu mikið örlagaafl Íslandshreyfingin verður. Hún er að mér sýnist að tryggja ríkisstjórninni meirihluta að nýju. Hver verða nú örlög Ómars og Margrétar fari svo.

mbk.

PS: Ég á marga vini innan Samfylkingarinnar Eggert minn. Ég hef aldrei lifað hvítu og svörtu pólitísku lífi. En það er sjaldan hægt að vera sammála öllum. Hinsvegar er margt Samfylkingarfólk hið mætasta fólk og hér eru meðal annars margt fólk úr Samfylkingunni sem bloggvinir mínir. Það fólk met ég mikils.

Stefán Friðrik Stefánsson, 23.4.2007 kl. 22:29

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég get nú ekki verið sammála þér Stefán um,að kjörtímabilið hafi verið sorgarsaga fyrir Ingibjörgu Sólrúnu.Hún var kosinn form.flokksins með miklum mun.Það er hins vegar ljóst að VG hafa náð nokkru fylgi af SF,en það kemur endanlega í ljós þegar talið verður upp úr kjörkössunum.Ingibjörg á enga sorgarsögu í stjórnmálum,hún hefur ávallt sigrað hingað til.Við bíðum og sjáum til,en látum ekki kannanir villa okkur sýn.

Kristján Pétursson, 23.4.2007 kl. 23:43

4 identicon

Ég hef ekki fylgst mikið með stjórnmálaumræðunni á Stöð 2. Ég horfði á þennan þátt af því að þú gafst okkur linkinn á hann (eins og ég sagði í fyrra bloggi, þú ert alltaf að færa okkur bloggvinunum þínum fullt af fóðri :) En ég verð að segja að framsetning stöðvarinnar á þessum nærmyndarþáttum toppar allt í hallærisgangi. Ég roðnaði bara. Hver ætli sjái um samsetninguna á þessum þáttum???? Það sem bjargaði þættinum voru viðmælendurnir, viðtalsbrotin við Ingibjörgu sýndu hversu mikið erindi hún á í pólitík, sem karakter, burtséð frá hennar pólitísku skoðunum, Össur komst vel frá sínu og stjórnmálafræðingarnir, Birgir, vinur minn, Guðmundsson og Einar Mar komu með góða vinkla inn í umræðuna. En að þurfa að horfa á einhverjar dramatískar slow motion myndir, þulaðar af Sigmundi og Þóru Kristínu (eins og þau eru nú annars ágæt, en í einhverju öðru takk) hlusta á einhverja tónlist sem hefur svo langsótta tengingu að það hálfa væri nóg - hjálpi mér hvað þetta var vondur þáttur! En takk samt fyrir að deila

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 00:56

5 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ingibjörg Sólrún er afburðastjórnmálamaður um það held ég að enginn efist, allra síst mótherjar hennar. Það þarf býsna sterk bein til að þola pólitíska hælbíta sem hafa svo gott sem lagst á Ingibjörgu frá því hún tók við formennsku í Samfylkingunni.  Án efa hefur Ingibjörg gert mistök á leiðinni en þar trúi ég að styrkur hennar liggi að hluta til. Sterkur stjórnmálamaður viðurkennir mistök og lærir af þeim í stað þess að afneita þeim og gera ekkert í málinu. Ingibjörg fékk bágt fyrir að ræða opinskátt um veikleika hjá eigin flokki, það er heiðarlegt og er ávísun á jákvæðar breytingar.

Pálmi Gunnarsson, 24.4.2007 kl. 01:04

6 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Heldurðu ekki Stebbi minn að hún eigi séns... Þið eruð nú með Árnana í 1 og 2 á Suðurlandi... annar hálfdæmdur og hinn al... og meðan þeir eiga séns innan ykkar vébanda hlýtur Ingibjörg Sólrún að eiga séns hvort tveggja meðal samfylkingarmanna og þjóðarinnar allrar. Þið sjálfstæðismenn hafið nú nánast lagt hana í einelti í vetur og samt er hún að plumma sig.  Mér segir svo hugur að hefðuð þið dæmt yklkar eigin félaga, sem þó sannarlega höfðu unnið til þess, af sambærilegri hörku væri nú ekki hátt á þeim risið í dag.

En svona er þetta bara með bjálkann og flísina. Kær kveðja í heiðardalinn, Steini.

Þorsteinn Gunnarsson, 24.4.2007 kl. 01:31

7 Smámynd: Óðinn Þórisson

Síðastliðin ár hafa vissulega verið erfið fyrir Ingibjörgu, hún er baráttukona en ég held að það verði mjög erfitt fyrir hana að halda áfram sem formaður efir 12.mai fái flokkurinn ekki a.m.k jafn mikið fylgi og í síðustu kosningum - það er ekkert sem bendir til þess eins og staðan er í dag.

Óðinn Þórisson, 24.4.2007 kl. 07:26

8 Smámynd: Rúnar Þórarinsson

Góðan dag.

Get ekki annað en tjáð mig aðeins um þetta mál.  Eftir lestur á mörgum þeirra athugasemda, á annars mjög góðri útekt Stebba á stöðu IGS, er e.t.v. best að lýsa ástandinu þannig; "þau eru súr"(þetta sagði refurinn forðum í ævintýrinu).  Um getu IGS sem stjórnmálamanns þarf enginn að efast, það hefur hún sýnt í gegnum tíðina.  Þetta segi ég þó að ég sé nánast aldrei sammála henni.  Það er hinns vegar ekki hægt að lýta framhjá því að eftir að hún komst í formannsstól þá hefur þetta vægast sagt gengið á afturfótunum, hverju sem það er svo um að kenna, þar er sjálfsagt hægt að tína til ýmsar skýringar.  En fyrir alla muni ekki detta í þá gryfju að fara að ræða um eitthvað einelti sem hún hafi orðið fyrir, þá sérstaklega frá okkur sjálfstæðismönnum.  Ég man ekki betur en að þega framsóknarmenn voru uppfullir af því að Halldór Ásgrímsson sætti einelti af hálfu andstæðinganna þá hafi samfylkingarmenn og fl. hlegið af þeim og talað um hvað það væri kjánalegt að halda þessu fram, svo ég bið ykkur um að fara ekki í sama far og koma með haldbetri skýringar á stöðu IGS en það.

Rúnar Þórarinsson, 24.4.2007 kl. 09:21

9 Smámynd: Rúnar Þórarinsson

Fyrirgefið þarna á skammstöfunin auðvitað að vera ISG(Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) biðst innilega afsökunar á þessu.

Rúnar Þórarinsson, 24.4.2007 kl. 09:24

10 Smámynd: Rúnar Þórarinsson

Fyrirgefið þarna á skammstöfunin auðvitað að vera ISG(Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) biðst innilega afsökunar á þessu.

Rúnar Þórarinsson, 24.4.2007 kl. 09:25

11 Smámynd: Guðfinnur Sveinsson

Við skulum spyrja að leikslokum! 

Síðustu 4 ár hafa alls ekki verið slæmur tími fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Kjörinn formaður, vann stórsigur í kosningum 2003 þar sem hún lagði Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík Norður.

Þó að skoðanakannanir uppá síðkastið hafi sýnt slæmt fylgi Samfylkingarinnar þá er greinilegt að Sf. er á uppleið og hef ég fulla trú á því að við förum yfir 27%, jafnvel alla leið uppí 30%.

Kv,

Guffi 

Guðfinnur Sveinsson, 25.4.2007 kl. 01:14

12 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin og góðar pælingar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 25.4.2007 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband