Vænleg staða Sjálfstæðisflokks - VG missir flugið

Þorgerður Katrín og Geir H. HaardeSkv. nýrri könnun Gallups, þegar að átta dagar eru til þingkosninga, er fylgi Sjálfstæðisflokksins rúm 40% og Samfylkingin hefur fest sig aftur í sessi sem næststærsti flokkurinn, með 23,5%. VG missir flugið og mælist nú með 17,6%. Framsóknarflokkurinn hækkar ekki milli vikna og mælist enn með 10%. Frjálslyndir eru með 5,5% og Íslandshreyfingin hækkar í 3,2%.

Fall vinstri grænna milli vikna eru stærstu tíðindi þessarar könnunar. Ef marka má þessa stöðu er VG að síga hressilega á lokasprettinum, eins og svo margir spáðu. Þeir náðu hæst upp í tæp 28% og eru greinilega að missa fylgi til Íslandshreyfingar og Samfylkingar. Í síðustu viku voru vinstriflokkarnir jafnstórir með 21,2% en það hefur semsagt breyst með þeim hætti að sex prósentustig skilja flokkana að. Þessi staða er eitthvað sem margir hafa bent á að myndi gerast, enda hefði það orðið stórtíðindi hefði VG náð yfir 20% markið í þessum kosningum.

Þessi staða er mjög vænleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann má vel við þetta una. Allar kannanir hafa sýnt flokkinn í hressilegri uppsveiflu alla kosningabaráttuna. Staða flokksins er þó mjög misjöfn eftir kjördæmum. Hér í Norðausturkjördæmi er flokkurinn greinilega að missa fylgi og virðist þriðji maður vera kominn í hættu skv. þeim veruleika sem könnunin sýnir þar. Á móti kemur að flokkurinn hefur fylgi helmings kjósenda í Reykjavík norður, kjördæmi Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, á meðan að flokkurinn mælist mun minni í Reykjavík norður. Staðan er misjöfn en heilt yfir getur flokkurinn vel við þessar mælingar unað.

Samfylkingin virðist vera að rétta úr kútnum einkum á höfuðborgarsvæðinu. Víða úti á landi er staða þeirra frekar slöpp en það sem vekur mesta athygli er hversu mun betri flokkurinn mælist í kjördæmi Össurar Skarphéðinssonar en Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það er mjög mikilvægt fyrir Samfylkinguna að sækja fram og ná góðri kosningu. Þrátt fyrir uppsveiflu er Samfylkingin enn átta prósentustigum undir kjörfylginu 2003 og virðist eiga talsvert langt í land. En sveiflur milli vikna eru greinilegar og fróðlegt að sjá hvort að þar verði sótt fram, en það er orðið langt síðan að flokkurinn hefur farið yfir 25% markið.

Staða frjálslyndra virðist mjög ótrygg. Þeir mælast sem fyrr með þrjú þingsæti en rétt lafa yfir 5% markinu í könnunum, því marki er færir þeim jöfnunarsæti. Íslandshreyfingin hefur ekki átt sjö dagana sæla og hefur ekki átt gott start. Það verður fróðlegt að sjá hvort henni duga sjö dagar í viðbót til að redda sér. Það hefur stefnt í háðulega útreið fyrir Íslandshreyfinguna um nokkuð langt skeið en hún þokast nú upp. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer fyrir forystumönnum flokksins í Reykjavík, en það verður auðvitað metið mikið áfall fyrir Margréti og Ómar nái þau ekki kjöri á þing eftir allt sem gengið hefur á.

Stóru tíðindi könnunarinnar eru væntanlega þau að ríkisstjórnin hefur þriggja manna meirihluta og styrkist hann milli vikna. Staða ríkisstjórnarinnar virðist traustari í aðdraganda þessara kosninga en þeirra sem voru fyrir fjórum árum, er stjórnin mældist fallin meira og minna alla kosningabaráttuna. Stór tíðindi önnur eru auðvitað fylgishrap VG og sú staðreynd kristallast sífellt betur að tveggja flokka stjórn verður ekki mynduð án Sjálfstæðisflokksins, en í það hefur vissulega stefnt um nokkuð skeið.

Harold Wilson, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sagði forðum að vika væri langur tími í pólitík. Það hafa svo sannarlega æ ofan í æ reynst orð að sönnu. Það verður fróðlegt að sjá hversu örlagarík þessi vika til þingkosninganna verður og hversu mjög fylgissveiflur verða á þeim tíma.


mbl.is Samfylkingin aftur fram úr VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband