Siv enn úti í Kraganum - varnarbarátta Framsóknar

Könnun í Suðvesturkjördæmi Skv. kjördæmakönnun Gallups í Suðvesturkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 5 kjördæmakjörna þingmenn og tæplega 42% fylgi. Enn mælist Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, utan þings og er fylgi Framsóknarflokksins aðeins 7% í kjördæminu. Hún rær því pólitískan lífróður í kjördæmi sínu.

Samfylkingin stendur nærri kjörfylginu vorið 2003 en lækkar örlítið frá nýlegri kjördæmakönnun. VG hækkar verulega frá kjörfylginu og tekur mikið fylgi af Framsókn. Frjálslyndir eru nokkuð frá því að ná inn manni og Íslandshreyfingin nær ekki flugi.

Sjálfstæðisflokkur: 41,9% (38,4%)
Samfylkingin: 28,5% (32,8%)
VG: 14,5% (6,2%)
Framsóknarflokkur: 7% (14,8%)
Frjálslyndi flokkurinn: 5,5% (6,7%)
Íslandshreyfingin: 2,6%

Þingmenn skv. könnun

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Sjálfstæðisflokki)
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir

Gunnar Svavarsson (Samfylkingu)
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir

Ögmundur Jónasson (VG)
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Fallin skv. könnun

Siv Friðleifsdóttir
Valdimar Leó Friðriksson

Það er athyglisvert að sjá enn og aftur vonda stöðu Framsóknarflokksins í Kraganum. Siv er enn úti og hefur bætt mjög lítið við sig frá nýlegri kjördæmakönnun. Það eru mikil tíðindi að Siv, sem hefu langan stjórnmálaferil að baki, standi jafn illa í þessari kosningabaráttu og raun ber vitni. Það er mikil varnarbarátta sem Framsókn er komin í á höfuðborgarsvæðinu og þar er staða þriggja ráðherra mjög veik; Sivjar, Jóns og Jónínu. Það verður vel fylgst með því hvernig fer fyrir Framsókn á þessu svæði.

Samfylkingin missir mann frá nýlegri kjördæmakönnun til VG en stendur tiltölulega nærri vissulega kjörfylginu 2003. Það virðist þó vera stutt í Árna Pál ef marka má stöðuna og væri hann væntanlega inni sem jöfnunarmaður í þessari mælingu. Það er spurning hvort að það komi flokknum til góða að hafa kjördæmaleiðtoga úr Hafnarfirði. Það hafði klárlega áhrif í kosningunum 2003 er Guðmundur Árni Stefánsson leiddi kjördæmalistann, reyndar í eina skiptið á sínum stjórnmálaferli.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir eins og í fyrri könnunum við sig kjördæmakjörnum þingmanni og er yfir 40%, örlitlu yfir kjörfylginu. Eins og vel hefur komið fram er staða Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, mjög ótrygg skv. þessum mælingum og óvíst um hvort henni tækist að ná jöfnunarþingsæti á þessu. Reyndar er mikið fylgi að falla dautt niður skv. þessu svo að staðan er óljós. En staða sjálfstæðismanna til að fá jöfnunarsæti í þessari stöðu virðist vænleg.

VG bætir við sig mjög miklu fylgi frá þingkosningunum 2003, en hefur lækkað skv. nýlegum kjördæmakönnunum eins og víða um land. Þarna mælist Guðfríður Lilja Grétarsdóttir inni sem kjördæmakjörin, en er mjög tæp í þeirri stöðu. Það er líka mjög afgerandi ljóst að VG er að taka af Framsókn. Vinstrafylgið sem hefur verið hjá Framsókn þarna er greinilega að fara yfir til Ögmundar. Það gæti farið svo að þetta yrði slagur milli Sivjar og Guðfríðar Lilju um þingsæti.

Frjálslyndir missa fylgi frá síðustu kosningum. Þeir náðu Gunnari Örlygssyni á þing í þessu kjördæmi fyrir fjórum árum. Hann sagði skilið við flokkinn á miðju kjörtímabili. Nú leiðir Kolbrún Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, listann og vantar talsvert upp á þingsæti og Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, er kolfallinn könnun eftir könnun. Íslandshreyfingunni gengur ekkert í stöðunni og fátt sem bendir til að Stuðmaðurinn Jakob Frímann nái inn á þing.

Þetta er athyglisverð staða í Kraganum. Þarna virðist allt geta hvað varðar tæpustu sætin en vond staða Framsóknar vekur mesta athygli. Það verða stórtíðindi fari úrslit á þennan veg og Siv falli jafnvel, en hún virðist tæpari en nokkru sinni þarna. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer.

mbl.is VG eykur við fylgi sitt í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Pétursson

Það sem vakti mesta athygli mína varðandi kosningamál í Suðvesturkjördæmi,að rúmlega þriðjungur  af fylgi framsóknar frá kosningunum 2003 ætlar að kjósa Sjálfstæðisfl.Sú aðferðarfræði Sjálfstæðisfl.að hæla framsóknarmönnum fyrir heiðarlegt og gott samstarf í ríkisstjórn undanfarinna 12.ára ætlar að reynast þeim árangurrík aðferð til að krækja í fylgið þeirra.Að framsókn skuli ekki sjá við þessu,er ótrúleg flónska,þeir áttu náttúrlega að koma fram með sjálfstæða stefnuskrá fyrir þessar kosningar,en ekki rígnegla sig við Sjálfstæðisfl.

Kristján Pétursson, 5.5.2007 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband