Nicolas Sarkozy kjörinn forseti Frakklands

Nicolas SarkozyNicolas Sarkozy, fyrrum innanríkisráðherra Frakklands, hefur verið kjörinn forseti Frakklands. Hann tekur við embættinu og lyklavöldum í Elysée-höll af Jacques Chirac í næstu viku, fimmtudaginn 17. maí nk. Sigur Sarkozys var nokkuð afgerandi, hann hlaut rúmlega 53% atkvæða en Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista, hlaut tæp 47% atkvæða.

Sigur Sarkozy hefur verið í kortunum mánuðum saman. Hann hlaut rúmlega 30% í fyrri umferð forsetakosninganna 22. apríl sl. og leiddi í öllum könnunum á þeim tveim vikum sem síðan hafa birst. Hann hefur verið með forskot á Segolene Royal er spurt hefur verið um afstöðu til þeirra beggja allt frá því í janúar.

Nicolas Sarkozy verður fyrsti forseti Frakklands sem fæddur er eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann fæddist í París þann 28. janúar 1955. Nicolas Sarkozy hefur tekið þátt í stjórnmálum allt frá unglingsárum. Hann hefur unnið sig hægt og rólega upp í pólitísku starfi á hægrivængnum frá ungliðastarfinu. Sarkozy var innanríkisráðherra Frakklands 2002-2004 og 2005-2007 og fjármálaráðherra Frakklands 2004-2005. Hann hefur leitt UMP-blokk hægrimanna frá árinu 2004.

Sarkozy fær sterkt umboð til valda. Kjörsókn í þessum forsetakosningum var hin mesta frá árinu 1965 er Charles De Gaulle var kjörinn í síðasta skiptið á litríkum stjórnmálaferli. Nicolas Sarkozy tekur við völdum í Elysée-höll á bylgju mikils stuðnings. Hann er þó mjög umdeildur stjórnmálamaður og hefur ekki hikað við að stuða á löngum ferli. Þingkosningar fara fram í næsta mánuði í Frakklandi - þar verður fyrsta prófraun Sarkozy á forsetastóli.


mbl.is Samkvæmt útgönguspám í Frakklandi fær Sarkozy 52-55% atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband