Kristján Þór vill stjórnarsamstarf með Samfylkingu

Kristján Þór Júlíusson Mikil umræða hefur verið í dag um þau ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar, leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrum bæjarstjóra á Akureyri, á fundi á Dalvík nýlega þess efnis að hann vilji að Sjálfstæðisflokkurinn horfi til stjórnarsamstarfs með Samfylkingunni og vilji ekki líta til áframhaldandi stjórnarsamstarfs með Framsóknarflokknum, eftir tólf ára sögulegt samstarf.

Þessar skoðanir eru í takt við ummæli Kristjáns Þórs á borgarafundi Stöðvar 2, 4. apríl sl, um að þjóðin sé að kalla eftir breytingum í stjórnarsamstarfi vegna vondrar stöðu Framsóknarflokksins. Í raun þurfa þessi ummæli varla að koma að óvörum enda er Sjálfstæðisflokkurinn hér á Akureyri í meirihlutasamstarfi með Samfylkingunni. Kristján Þór var bæjarstjóri á Akureyri í sjö mánuði með stuðningi bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar eins og flestum er kunnugt.

Þessi afstaða vekur athygli vissulega á lokaspretti kosningabaráttunnar. Þetta ómar í takt við skoðanir Halldórs Blöndals, fráfarandi kjördæmaleiðtoga okkar, sem sagði á súpufundi á Dalvík rétt fyrir kosningarnar 2003 að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að horfa til samstarfs með VG félli stjórnin í þeim kosningum. Þessi ummæli á Dalvík að þessu sinni eru greinilega sterkari í umræðunni. Það er skiljanlegt svosem að Dalvíkingurinn Kristján Þór vilji tala skýrt til síns fólks.

Stóri dómurinn á það hvað gerist þó verður á laugardaginn. Fyrst og fremst verður fylgst með því hvort að ríkisstjórnin haldi velli. Kannanir benda mun sterkar til þess nú en á lokasprettinum vorið 2003 að hún haldi velli. Staða hennar virðist vera traustari nú en þá. Falli stjórnin koma aðrir kostir upp á borðið. Á það ber þó að minnast að það þarf ekki að þýða áframhaldandi samstarf þó stjórnin haldi. Árin 1991 og 1995 héldu ríkisstjórnir velli en þeim var ekki haldið áfram, enda studdust þær við naumasta mögulega meirihluta, 32 þingsæti.

En örlögin ráðast á laugardaginn með dómi þjóðarinnar. Það gerist ekki á fundi á Dalvík, þó að allar pólitískar pælingar skipti jú alltaf máli.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu Kristjáns sem alþingismanns, minnir um margt á Kristinn sleggju. Virðist ætla að fara fram sem einyrkji innan flokksins. Gaman væri að heyra viðbrögð flokksforustunnar á þessum ummælum Kristjáns. Virðist ekki alltaf vera í takt við áherslur flokksins sbr. ummæli um þjóðlendur og fleira. Sammála síðustu orðum þínum Stefán.

Jóhann Rúnar Pálsson, 6.5.2007 kl. 20:58

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Já, þetta er allt orðið mjög spennandi, gott verður að fá lokatolur og sofa svo allan næsta sunnudag.

Ásdís Sigurðardóttir, 6.5.2007 kl. 22:39

3 Smámynd: Gústaf Níelsson

Þetta er rétt hugsað hjá Kristjáni, að Sjálfstæðisflokkurinn líti til samstarfs við Sf bresti Framsókn fylgi svo um munar. Samstarf Sjálfstæðisflokks og Vg er einhver mesta stjórnmálafjarstæða síðari ára, og það er hreint dómgreindarleysi að gæla við þá hugmynd. Eiginlega oflátungsháttur um eigin stöðu.

Gústaf Níelsson, 6.5.2007 kl. 22:59

4 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Honum verður sennilega að ósk sinni. Við erum tveir að verða búnir að semja stjórnarsáttmálan á milli þessara tveggja flokka á síðunni minni

Ágúst Dalkvist, 6.5.2007 kl. 23:25

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Jóhann Rúnar: Kristján Þór hefur aldrei hikað við að fara eigin leiðir. Finnst það bara heiðarlegt og gott hjá honum að þora að segja sínar skoðanir með afgerandi hætti.

Ásdís: Já, þetta verður spennandi helgi, verður vonandi gaman á laugardagskvöldið :)

Gústaf: Tek undir þessar pælingar.

Ágúst: Já, gott að menn séu lagstir í þann þankagang :)

Ágúst Þór: Staða stjórnarinnar er betri í könnunum viku fyrir kosningar nú en viku fyrir kosningarnar 2003. Staða Sjálfstæðisflokksins er mun betri nú en hún var þá en Framsókn er lægri. Annars hafa þeir tekið kosningar á örfáum lokadögum. Það á eftir að ráðast hvort það gerist. Það verða daglegar Gallup-kannanir virku dagana fimm og fróðlegt að sjá það. Stóra spurningamerkið um næstu helgi verður hvort stjórnin fellur eður ei. Það ræður úrslitum um hvað tekur við. En meira um það síðar, allavega eru allir að hugsa um það hvað taki við.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.5.2007 kl. 02:49

6 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ef marka má orð t.d Guðmundur Steingrímssonar allt nema íhaldið, Björgvin G. , Kristrún, Árni Páll, Þórunn, Róbert M. o.s.frv. - ja það verður bara að viðurkennast að það er ekki efst í þeirra huga samstarf við Sjálfstæðisflokkinn - Dagur B. í Reykjavík sagði að það yrði búið að reyna allt áður en kæmi til samstarfs d og s þannig að ég held að samstarf milli þessara flokka sé harla ólíklegt. 
Ingibjörg og Össur munu á endanum ákveða það ef til þess kemur í hvaða átt sf fer.
Aðalspurningin í mínum huga er þessi - er hún tilbúin að sitja í ríkisstjórn undir forsæti Geirs ?

Óðinn Þórisson, 7.5.2007 kl. 07:37

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Mig væmir nú við, að fara í samstarf að hvaða tagi sem er, við menn á borð við hann   Gangna-Möller ykkar þarna fyrir norðan.  Maðurinner svo gersamlega úti á túni í flestum málum og heimtufrekjan er óendanleg hjá honum.

Mér er nær, að vilja áfram vera í Framsóknarflórnum með Jón í brúnni.  Þá er hugsanlegur möguleiki, að hann hafi hemil á Finni Ingólfs og Ólafi í Samskipum.

Miðbæjaríhaldið.

Bjarni Kjartansson, 7.5.2007 kl. 08:46

8 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

Eftir að hafa heyrt hádegisviðtalið á Stöð 2 í dag finnst mér nú að talsvert hik hafi nú komið á Kristján Þór vegna ummæla sinna á Dalvík og fannst hann langt frá því að vera mjög sannfærandi í flótta sínum frá meintum ummælum. Spurningin er náttúrulega sú hvort að menn eigi að tala öðruvísi á opnum fundi og/eða úti í bæ. Hvoru skal trúa? Finnst það nú hvorki traustvekjandi né ábyrgt af verðandi alþingismanni að geta ekki hreinlega staðið við það sem hann er að meina.

Jóhann Rúnar Pálsson, 7.5.2007 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband