6 dagar: pælingar um stöðuna í Norðaustri

Það eru aðeins sex dagar til kosninga. Rólegur dagur í pólitíkinni fyrir alla aðra en þá sem eru að sækja sér atkvæði. Horfði þó á Halldór Blöndal tala um kjördæmaskipan í Silfri Egils í dag og leist vel á skoðanir hans. Finnst reyndar mjög sérstök tilhugsun að þetta sé síðasta vika Halldórs sem stjórnmálamanns. Löngum og farsælum ferli að ljúka þar. Hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Halldóri. Hann er hiklaust mesti karakterinn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og að honum er eftirsjá að mínu mati. En það kemur alltaf að pólitískum leiðarlokum hjá öllum.

Er alveg innilega sammála Halldóri um að þessi kjördæmaskipan er algjört rugl. Þessi landsbyggðarkjördæmi eru alltof stór og erfið. Margir hafa spurt sig hvort þessi kjördæmaskipan hafi gengið upp. Að sumu leyti hefur hún vissulega tekist vel - að öðru leyti ekkert sérstaklega eða hreinlega illa. Heilt yfir hefur þetta þó tekist furðanlega vel miðað við allar aðstæður. Hinsvegar er ekki öfundsvert að vera stjórnmálamaður í svona stórum kjördæmum. Það er enda mikil vinna að sinna vel svo stóru svæði.

Margir hafa spurt sig hvort önnur mynd á kjördæmi á svæðinu hefði verið betri. Ég var þeirrar skoðunar er kjördæmabreytingin var gerð fyrir sjö til átta árum að illskárra hefði nú verið ef Norðurland hefði orðið eitt, sameina hefði átt Norðurland eystra og vestra. Þá hefði myndast sterkt norðlenskt kjördæmi með Akureyri sem grunnmiðpunkt. Það gerðist illu heilli ekki. Þess í stað enduðum við t.d. með dreifðari kjördæmi og ólíkari svæðisheildar. Það er hiklaust mitt mat að þessar kjördæmaheildar verði ekki langlífar.

Það var gaman að fylgjast með Silfrinu og heyra í stjórnmálamönnum sem annaðhvort eru hættir eða að hætta. Mat þeirra á landsbyggðarkjördæmin var hið sama. Þarna sameinuðust Halldór, Magga Frímanns og Hjörleifur um það mat. Það var gaman að hlusta á þetta spjall. Og ég held að flestir landsbyggðarmenn séu á þessari skoðun. Að mörgu leyti var þessum bastarði sem kjördæmaskipunin er þröngvað illu heilli upp á okkur á landsbyggðinni. Við getum huggað okkur við það að þessi skipan er dæmd til að breytast fljótlega.

Sex dagar í pólitík eru skammur tími. Hér inn um póstlúguna mína streyma glansbæklingar og kynningarefni. Seint verð ég þó talinn óákveðinn kjósandi. Það er samt gaman að lesa bæklingana. Akureyringarnir í framboði eru vel kynntir. Það mun ekki líða vikan áður en jafnvel áhugalausasta fólk um stjórnmál veit að Akureyringar eru í baráttusætunum. Það er mikilvægt að eitthvað af þeim komist inn. Það er alveg ljóst að baráttan skiptir máli frá þeim forsendum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeirri rimmu lýkur.

Mesti þunginn verður virku dagana fimm sem framundan eru. Á morgun verður framboðsfundur í Sjallanum. Það verður áhugavert að sjá kynningu á málum hér og alvöru pólitíska umræðu í Sjallanum. Ég ætla að skella mér þangað og blogga um þá upplifun annað kvöld alveg hiklaust.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Ég velti því fyrir mér þegar ég var að lesa pistilinn þinn hvort Halldór Blöndal hefði ekki verið á þingi allt þitt líf?

Lára Stefánsdóttir, 7.5.2007 kl. 10:28

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Lára.

Ég er fæddur í desember 1977, ég er að verða þrítugur. Halldór hefur setið á þingi frá desemberkosningunum 1979, rétt áður en ég var tveggja ára. En hann var varaþingmaður 1971-1979. Þetta er langur ferill sem er að enda, það er víst óhætt að segja það. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.5.2007 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband