Er Framsókn að stefna í sögulegt pólitískt afhroð?

Jón Sigurðsson Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum fimm dögum fyrir þingkosningar. Hann stefnir í sögulegt pólitískt afhroð skv. skoðanakönnunum. Þrír ráðherrar flokksins mælast úti æ ofan í æ. Það er stórpólitísk tíðindi þegar svo skammt er í kosningar. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttir og Jónína Bjartmarz berjast klárlega fyrir pólitísku lífi sínu á höfuðborgarsvæðinu. Örlög þessarar ríkisstjórnar eru að mínu mati ráðin fái Framsóknarflokkurinn slíkt afhroð, burtséð frá því hvort hún haldi velli.

Kannanir eru Framsóknarflokknum mjög erfiðar nú um stundir og hafa gert nær allt kjörtímabilið. Það að formaður flokksins sé að mælast svo veikur og utan þings marga mánuði í röð og sjái ekki til sólar hlýtur að sliga mjög flokkinn. Sérstaklega miðað við að þetta er maður sem ekki hefur verið lengi í stjórnmálum og ætti því varla að bera þungar byrðar fortíðar með sér. Kannski er það þó eftir allt veikleiki hans, að vera ekki sterkur stjórnmálamaður með fortíð, hafa ekki suma þungann pólitískt og Halldór Ásgrímsson hafði í þingkosningunum 2003, sem leiðtogi sem leiddi vagninn rétta leið að lokum.

Í dag birtist landskönnun sem sýnir Framsókn með innan við 8%. Það er vandséð hvernig að Sjálfstæðisflokkurinn geti horft til þessa samstarfs áfram fái Framsóknarflokkinn þennan þunga dóm sem stefnir í, þó stjórnin héldi. Það virðist vera sviðin jörð um allt land skv. könnunum fyrir flokkinn. Meira að segja gömlu lykilvígin hafa bognað til. Staða Framsóknarflokksins hér í Norðaustri mælist ekki góð. Það er orðið óralangt síðan að Framsókn mældist með fleiri en tvo þingmenn hér. Í síðustu kosningum fengu framsóknarmenn hér fjóra menn en hafa hrapað mjög síðan. Í Suðurkjördæmi á Guðni Ágústsson í vök að verjast og Siv Friðleifsdóttir heyr þunga baráttu í Kraganum.

Það er vörn yfir merkjum Framsóknarflokksins í þessari kosningabaráttu. Það blæs ekki byrlega fyrir flokknum. Þar er lifað í voninni um að það sama endurtaki sig og gerðist á lokasprettinum 2003. Þar var tapaðri skák snúið við og Framsókn náði að spila síðustu leiki skákarinnar sér í vil. Sama lukkustjarnan er ekki komin til sögunnar fimm dögum fyrir kosningar. Framsóknarmenn bíða og vona. Á meðan berst formaður Framsóknarflokksins fyrir pólitísku lífi sínu í Reykjavík og lykilfólk standa veikt í erfiðri baráttu. Þetta er ekki glæsileg staða fyrir flokk sem hefur haft völd áratugum saman.

Nú er komið að örlagastundu fyrir Framsóknarflokkinn. Hvernig mun lífróðrinum ljúka? Þetta er stór spurning, sem brátt fæst svar við. Það verða þung örlög fyrir elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins falli taflið ekki þeim í vil á lokasprettinum. Þar verður þungur skellur á sunnudag fari allt á versta veg. Getur Framsókn unnið sigur á könnunum? Svarið; jú það er handan við hornið.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Mig langar að spyrja þig, skeleggasta stjórnmálarýnirinn á Moggablogginu. Telur þú að það sé nóg fyrir x-b og x-d að hafa eins mans meirihluta?

Ingi Björn Sigurðsson, 7.5.2007 kl. 19:19

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Framsókn er ekki einungis að gjalda þessa mikla afhroðs vegna verka sinna  í ríkisstjórn,því þá hefði Sjálfstæðisfl.gert það líka.Þeir eru að gjalda þess,að hafa ekki verið með sjálfstæða stefnu í mörgum málum og alltaf látið  Sjáfstæðisfl.ráða ferðinni.Þetta hefur verið mest áberandi í efnahags -  utanríkis - og félagsmálum , einnig löggæslu - og dómsmálum.Þá hefur m.a.mikil velvild Sjálfstæðismanna í ríkisstjórnarsamstarfinu við framsókn leitt til þess,að þeir hafa gengið til liðs við Sjálfstæðisfl.og talið hagsmunum sínum betur borgið þar.Sjálfstæðism. hafa stöðugt hælt Framsóknarm.í 12.ár  eins og kunnugt er fyrir traust heiðarlegt samstarf.Þeir hafa markvist með þessum hætti laðað til sín Framsóknarfylgið eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum.Framsóknarfl.sofnaði í fangi íhaldsins og er rétt að ranka við sér  nú fimm dögum fyrir kosningar.Þeir hafa  ítrekað  staðfest,að þeir munu kúra áfram í koti  íhaldsins og funndið stjórnarandstöðunni allt foráttu.Leifar flokksins innan fjármálageirans og kvótans munu reyna að tryggja framtíð sína innan Sjálfstæðisfl.Þetta er ekki óskhyggja mín heldur blákaldar staðreyndir,sem blasa við í öllum skoðanakönnunum. 

Kristján Pétursson, 7.5.2007 kl. 22:36

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Ingi Björn: Þakka þér kærlega fyrir góð orð, met þau mikils. Svarið er mjög einfalt. Ég tel eins manns þingmeirihluta ekki duga og ég tel að það sé afgerandi mat flestra sem líta raunsætt á málið.

Kristján: Að mörgu leyti er þetta líka forystuvandi. Ég held að þjóðin finni ekki samhljóm með formanni Framsóknarflokksins, þó vandaður maður sé. Held að mörgum finnist hann orðinn þreyttur. Þetta er klárlega ekki vegna stöðu eða verka ríkisstjórnarinnar. Þetta er mat þjóðarinnar horfandi á Framsókn sem valkost. Innanbúðarvandamál Framsóknar eru enn að sliga hann. Væntanlega fer þetta svo að hann verður að byggja sig upp aftur, það gerist klárlega fari þeir undir 10%.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.5.2007 kl. 22:55

4 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Ekki má gleyma því að Framsóknarflokkurinn er með stærsta hluta fylgisins sem hann hefur á landsbyggðinni og kannanir endurspegla kjördæmin oft illa. Innan við 100 atkvæði eru að mæla landsbyggðarkjördæmin og vikmörkin á tölunni oft á annan tug prósenta. Því held ég að það sé of snemmt að afskrifa Framsókn, hún hefur fleiri líf en kötturinn.

Lára Stefánsdóttir, 7.5.2007 kl. 23:07

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Lára mín.

Gaman á fundinum áðan. Leitt að geta ekkert spjallað, en það var gaman að hittast. Við hittumst eftir kosningahasarinn og spjöllum endilega saman yfir kaffibolla.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.5.2007 kl. 23:17

6 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Einhver sagði "hvers vegna að hýrast á hjáleigunni þegar þú getur fengið inni á óðalinu", finnst þessi setning eiga við eftir að hafa lesið athugasemd Kristjáns hér að ofan. Ég er að stærstum hluta sammála honum.

Forystuvandi er þó líka að herja á framsókn eins og Stefán nefnir. Ljóst er að Jón er ekki að ná nokkrum árangri og hlýtur hann að hverfa úr formannsstólnum ef niðurstöður kosninganna verða í takt við nýjustu kannanir, en hvað svo. Þó ég vilji ekki tala illa um það góða fólk sem fer fyrir framsóknarflokknum, þá sé ég ekki að nokkur þeirra eigi frekar en Jón möguleika á að keppa við formenn annara flokka um kjósendur.

Líka má þó nefna sem ástæðu fyrir litlu fylgi að framsókn hefur verið að hrista af sér þá ímynd að hann sé flokkur landsbyggarinnar. Með því hefur hann tapað sérstöðu sinni og fólk sér að það á alveg eins heima í sjálfsstæðisflokknum eða samfylkingunni. Er því ekki sammála Láru að framsókn eigi mikið fylgi lengur á landsbyggðinni. Flokkurinn sá hefur verið að koma mjög illa út í kjördæmabundnum könnunum líka.

Þegar þessi þrjú atriði, og vafalaust eru fleiri ástæður fyrir dræmu gengi B, þá er ljóst að ekki er von á miklum árangri.

Ágúst Dalkvist, 7.5.2007 kl. 23:23

7 Smámynd: Kristján Pétursson

Þú kemst vel að orði Ágúst:"Hvers vegna að hýrast á hjáleigunni þegar þú getur fengið inni á óðalinu."Þér hefur funndist samlíkingin hjá mér að kúra í koti íhaldsins ekki sæmandi Valhallarliðinu.Þú setur fyrir allan leka eins og venjulega.Þú ert ágætur.

Kristján Pétursson, 7.5.2007 kl. 23:49

8 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Ég er nú svo einfaldur þegar kemur að pólítík að hjá mér kemur bara til greina B eða D. Hvað stefnuskrá þessara flokka varðar þá er ég meira sammála Framsókn í einkavæðingarmálum, atvinnumálum og landsbyggðarmálum. Hins vegar er það svo að manni virðist sem Sjálfstæðismenn séu líklegri til áhrifa enda mun stærri flokkur. Ég er því líklega einn af þessum „aumingjans“ B-mönnum sem kjósa þann flokk vegna þess að ég get ekki hugsað mér neinn hinna í samstarfi með Sjálfstæðismönnum og vona að Framsókn fái nægt fylgi til þess að ríkisstjórnin haldi velli enda finnst mér þessir tveir flokkar eiga það skilið að fá tækifæri til að viðhalda stöðugleikanum og ná niður verðbólgunni því ef þeir fá ekki til þess umboð munum við aldrei komast að raun um hvort stefna þeirra til síðustu 12 ára gengur upp. Ef t.d. Samfylkingin kæmist að í ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum þá get ég alveg sagt ykkur nú þegar hvað forysta hennar segir fyrir kosningarnar 2011. Ef stöðugleiki í efnahagslífinu verður góður og atvinnumál í lagi munu þeir þakka sér þann árangur en ef ekki þá munu þeir skella skuldinni á stefnu B og D kjörtímabilin á undan.

Jóhann Þorsteinsson, 8.5.2007 kl. 00:03

9 Smámynd: Guðfinnur Sveinsson

Megi framsóknarflokkurinn lognast útaf og lifi minning hans. Jú hann hefur gert margt fínt (þótt það slæma vegi þungt á móti), en ég held að það sé komið nóg. Að mínu mati eru aðeins örfáir almennilegir menn innan flokksbandanna nú í dag, og lítið um nýjar og ferskar hugmyndir.

Flokkurinn selur sig til hægri og vinstri einsog við vitum öll, afhverju finna þeir sér ekki bara samastað innan þeirra flokka sem þeir hafa hvorteðer selt sálu sína til? Það væri miklu betra, valkostirnir yrðu færri og skýrari! 

Kv,

Guffi 

Guðfinnur Sveinsson, 8.5.2007 kl. 01:19

10 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Það er nú að mínu mati heldur mikil einföldun að halda því fram að það sé bara annað hvort hægri eða vinstri og þar á milli sé ekki neitt. Tilfellið er nefnilega að pólítík snýst að miklu leyti um málamiðlanir milli frjálshyggjunar og sósíalismans og á þeirri línu hafa framsóknarmenn löngum dansað með misgóðum árangri þó. En í mínum huga er ljóst að hvort sem farið er lengst til hægri eða til vinstri þá eru þar á ferðinni vafasamar leiðir ef þær eru farnar eingöngu. Miðjumennirnir tengja saman vörn og sókn. Ef eingöngu er spiluð vörn vinstrimanna verða fáir sigrar en ef eingöngu er spilað í sókn hægrimanna er hætt við að enginn sé til að verjast sóknum andstæðinganna. Miðjan er því mikilvæg rétt eins og sóknin og vörnin.

Jóhann Þorsteinsson, 8.5.2007 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband