5 dagar: pælingar um stöðuna í Norðaustri

Það eru aðeins fimm dagar til þingkosninga. Ég fór í kvöld á framboðsfund bæjarsjónvarpsins N4 hér á Akureyri í Sjallanum þar sem fulltrúar framboðanna sex sem eru í kjöri í Norðausturkjördæmi kynntu sig og áherslur sínar. Þetta var áhugaverður fundur og gaman að hlusta á pólitískar pælingar leiðtoga framboðanna. Það kom svosem fátt nýtt þar. Þessa dagana eru kjósendur að taka af skarið, ákveða innra með sér hvað skuli gera. Skv. könnunum er gríðarlegur fjöldi enn óákveðinn og þar ráðast örlögin á laugardaginn. Sumir ákveða sig jafnvel í kjörklefanum.

Vonandi fækkaði óákveðnum hér við að horfa á þennan þátt. Persónulega fannst mér þetta allavega áhugaverð skoðanaskipti. Þetta var auðvitað hefðbundið karp milli leiðtoganna um málefnin. Steingrímur J. og Valgerður tókust á með hefðbundnum hætti um lykilmálin, sérstaklega álversmálin við Bakka. Sigurjón hjólaði í Valgerði fyrir ýmsa hluti og var eins og hann á að sér að vera. Stjórnarandstæðingar réðust meira á Valgerði. Það er svosem skiljanlegt í sjálfu sér, enda er hún bæði fyrsti þingmaður kjördæmisins og andlit ríkisstjórnarinnar.

Kristján Þór er mun óbundnari því sem ríkisstjórnin hefur í sjálfu sér gert. Hann er enda nýliði í landsmálunum. Hann þorir að tala af krafti og hikar ekkert við að gagnrýna það sem hann telur afleitt, meira að segja hjá ríkisstjórninni. Þekki vel þessa flokksleiðtoga alla, nema Hörð hjá Íslandshreyfingunni. Þekki reyndar engan af þeim sem eru þar í toppsætunum. En heilt yfir var þetta spjall um kosningamálin frá þeim grunni sem við höfum áður séð.

Það komu góðar spurningar úr sal. Sjálfur stóð ég í biðröð eftir að koma að spurningu en röðin var löng og ég komst því miður ekki að með spurningu. Það var mjög gaman að spjalla við frambjóðendur og fara yfir stöðuna, fyrir og eftir fundinn. Það var fjölmenni í Sjallanum og allar raddir um að pólitískir fundir heyri sögunni til voru kveðnar í kútinn. Þetta var líflegt og skemmtilegt pólitískt kvöld allavega í Sjallanum. Megi N4 hafa þökk fyrir fundinn.

Það eru fáir sem vita með vissu hvað er að fara að gerast á laugardaginn. Ég tala við marga spámenn. Þeir sem ég tel áreiðanlega spá því að slagurinn sé á milli þriðja manns Samfylkingar, þriðja manns Framsóknarflokks og fjórða manns Sjálfstæðisflokks, jafnvel að frjálslyndir nái inn jöfnunarmanni. Erfitt um að segja. Ég vona þó svo sannarlega að fleiri Akureyringar en Kristján Þór Júlíusson komist á Alþingi á laugardaginn hér í nafni þessa kjördæmis.

Spennan heldur áfram altént.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

Sæll Stefán og þakka þér fyrir ágætar pælingar.

Finnst athyglisvert það sem þú skrifar um Valgerði að hún sé andlit ríkisstjórnarinnar. Þá væntanlega fyrir það sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir og þar með sagt báðir flokkar?  Segja má að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið ansi óvirkur upp á síðkastið, beitt þagnartaktíkinni og látið Framsókn um að vera í frontinum í erfiðum málum! En óhætt er að segja að kosningavél Sjálfstæðismanna sé kominn af stað núna á síðustu metrunum með úthringisveina sína. Svo tek ég undir með þér þarna í lokinn þar sem þú minnist á það að fá fleiri Akureyringa inn og þar tel ég fremstan í flokki Höskuld Þórhallsson Framsóknarmann. Yrði mikill fengur fyrir kjördæmið að fá hann á Þing.

Með kveðju

Jóhann Rúnar Pálsson, 8.5.2007 kl. 00:23

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Kristján Þór Júlíusson er ekki þingmaður og hefur enga sögu í landsmálunum. Að því leiðir að hann er ekki hluti ríkisstjórnar fyrir kosningar við að tala fyrir því sem gerst hefur fyrir þessar kosningar, hann er allavega mun óbundnari því. Það blasir við.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.5.2007 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband